Varasamasti staðurinn í umferðarhring. Afrek að komast út.

Þegar flugvél er flogið í svokölluðum umferðarhring við flugvelli og æft er að hefja sig til flugs, fljúga hring og lenda aftur, verður til varasamasti staðurinn þegar flogið er undan vindi. Áður en lengra er lesið er rétt að skoða á myndinni hvernig glæra hurð TF-REX verður að opna upp, ef flugmaður á að komast út úr vélinni. 

Eða þá niður þegar hún er á hvolfi, sem er augljóslega útilokað. 

 BISA. TF-REXÍ aðfluginu að Tungubakkaflugvelli á TF-REX í gær var vélinni beygt á svonefndum þverlegg undan vindi, sem stóð á ská þvert á flugbrautina og var uppgefin 60 gráðu vindstefna í 5000 feta hæð. 

Slíkur vindur stendur á ská yfir Esjuna, sem er skammt frá flugvellinum og getur vindurinn því verið aðeins breytilegur. 

Á þverleggnum, næst á undan því að beygja inn á brautina sjálfa, sýnist flugmanninum flugvélin fljúga hraðar en hún raunverulega gerir, af því að vindurinn sést ekki, aðeins hreyfing vélarinnar miðað við jörð. 

Þessvegna verður hann að fylgjast eftir föngum með hraðamælinum, en hefur um leið um margt þýðingarmikið að hugsa og því knappan tíma. 

Ýmislegt gerir það vandasamt að fljúga vél af þessari gerð. Hraðinn er sýndur í kílómetrum en ekki mílum eins og lang algengast er, og tölurnar því hærri en á mílumælum. Hraðamælisnálin sjálf hreyfist á öðrum stað og öðruvísi í sjónsviðinu en á amerísku flugvélunum sem flestir fljúga mest hér á landi og eru því vanir. 

TF-REX er ekki með flapa heldur lofthemla neðan á vængjunum til þess að stytta lendingarbrun og gefa möguleika á að koma brattara inn til lendingar á stuttri braut. 

Á móti kemur að vélin missir talsvert af svifeiginleikum sínum og getu til þess að halda hæð eða klifra ef lofthemlarnir eru niðri. 

Í beygjunni í gær hrekur vindurinn vélina það mikið áfram þvert á lendingarstefnuna, að það þarf að taka krappari beygju en ella til að komast inn á brautarstefnuna. 

Þessi staða flugvélar í aðflugi er almennt talin ein sú vandasamasta og lúmskasta í flugi og því nokkur konar "svartur blettur" í umferðarhringnum. 

Þetta er mjög vandasöm aðstaða. Mestöll athygli flugmanns verður, eðli málsins samkvæmt, að beinast að því að horfa út úr vélinni til að stýra henni, en jafnframt má hraðinn ekki fara niður fyrir ákveðin mörk, því að þá missir vélin flugið hratt og ef hún ofrís, fellur innri vængurinn oftast fyrst niður og vélin kemur niður á hann upp á rönd. 

Þegar allt fyrrgreint er lagt saman er útkoma huglei8ðinga minna sú, að hér var um slys að ræða en ekki glannaskap. 

Þetta byggi ég á fyrirliggjandi upplýsingum og birti eingöngu til fróðleiks almennt. 

Það er sjónarsviptir að flugvélinni TF-REX sem ég flaug allmikið fyrir nokkrum árum og reyndist mér ómetanleg þegar FRÚin var ekki fleyg. 

Jodel vélarnar eru snilldarhönnun Frakka þegar eldsneyti var af skornum skammti og þar að auki dýrt eftir stríð. 

Sumir kalla þessar vélar "fljúgandi vindlakassa" því að þær eru smíðaðar úr krossviði og strekktum dúki og eru um 100 kílóum léttari en bandarískrar vélar úr áli af svipaðri stærð. 

Léttleikinn og lögun Jodelanna skapa þeim meiri hraða, burðargetu, sparneytni og nýtingu á takmörkuðu vélarafli. 

Af því að TF-REX var lágþekja og dyrnar opnuðust upp, eins og sést vel á myndinni hér að ofan, var það martröð flugmanns að hugsa til þess hvernig hægt væri að komast út úr henni ef hún lenti á hvolfi, hvað þá ef það væri á kafi í vatni.

Engin leið er að komast út nema brjóta sér leið. 

Það, að Magnús Hlini Víkingur skyldi komast út úr vélinni er því ekkert minna en afrek.  

 


mbl.is Braut sér leið út úr flakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt segirðu Ómar.  Þetta var sannkölluð þrekraun.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 08:14

2 identicon

Ég lærði að fljúga "downwind" og "base" í 1000 feta hæð. Hvað var maðurinn að gera í 10m hæð yfir sjávarborði?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 08:53

3 identicon

Góðar hugleiðingar.

Tek þó undir með Hauki. 

Slys er teygjanlegt hugtak.

Þetta er þekkt "slysagildra" eins og þú bendir á og þjálfaður flugmaður sem fer eftir viðurkendum aðferðum á ekki að lenda í þessu.

Að því sögðu þá var strákur stálheppinn mitt í öllum klaufaskapnum.  T.d. að ekki var fjara en þá líka heppinn að drukna ekki, seigur að koma sér út!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 11:13

4 identicon

Er ekki kominn tími á eina góða lýsingu á flugferð t.d. á téðri REX, yfir landið Ómar?  Með samofnum hugleiðingum um fjöll, vinda,landið, söguna,persónulega reynslu, myndum og fl.

Vissulega til mikils mælst en ætli kappinn standi ekki undir því ;-) 

(Myndi kaupa bók með slíkum frásögnum Ómars.  "Flugstiklur?" )

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 11:21

5 identicon

einhver staðar stóð að drengurinn væri með um 140-150 tíma á bakinu svo ekki er hann með mikla reynslu, svo þetta slys r líklega hægt að skrifa á reynsluleysi, 10 metrar eða 1000 fet veit ekki allveg hvort ég taki trúanlegar hæðatölur hafðar eftir golfurum sem sáu eitthvað og eitthvað og jafnvel verið að pirrast yfir flugvélum í mörg ár þarna. þannig að ég tel að lítið sé hægt að segja eð fullyrða um hæð vélarinnar.

nafnlaus (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 13:58

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Flugvél sem ofrís í krappri beygju með lofthemlana niðri (eða uppi eftir atvikum) fellur mörg hundruð fet niður án þess að flugmaðurinn fái nokkuð við því gert.

Ef flugmaðurinn hefur ekki verið með hliðarstýrið alveg í réttu fari (kúlan í "turn and bank" ekki í miðjunn), verður ofrisið byrjun á spuna þegar hann gefur vélinni fullt afl og þá getur fallið og spuninn orðið enn svakalegri.  

Ómar Ragnarsson, 12.5.2015 kl. 15:52

7 identicon

Vitni minntust ekki á spuna, svo líklega var vélin frekar lágt þegar hún ofreis. (Hafi atburðarásin verið sú sem hér er verið að spá í) 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 17:19

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í beygju inn á lokastefnu til lendingar á litlum flugvélum eru flugvélar yfirleitt ekki yfir 500 fetum. Fyrsti fasi ofrissins er oft hinn sami og í spuna, því að ofris er upphaf spuna.

Í fárra hundraða feta hæð klárast spuninn ekki og jafnvel sést ekki vegna þess hve stutt er til jarðar og hæðin er of lítil til að spuninn frá að þróast. 

Ómar Ragnarsson, 12.5.2015 kl. 21:55

9 identicon

Áður hefur ungur maður lent í ofrisi á lokastefnu í Mosfellsbæ og sloppið með skrekkinn. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=121876&pageId=1683274&lang=is&q=til%20jar%F0ar%20%E1

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband