Orðið "ofmenntun" er byggt á einstrengingslegri alhæfingu.

Ég verð að játa að hugtakið "ofmenntun" er mér framandi. Kannski finnst einhverjum það gamaldags af því að ég kynntist svo mörgum "ofmenntuðum" mönnum hérna í "gamla daga" þegar ég var ungur.

Þá var til fullt af "ofmenntuðum" mönnum, ekki hvað síst í frændgarði mínum, fólki sem hafði unun af því að víkka sjóndeildarhring sinn eða bara að leggja stund á afmarkaðan fróðleik út í hörgul, þótt það fengi ekki borgað fyrir það. 

Margir hinna "ofmenntuðu" voru bændur eða sveitafólk, þessi merkilega gerð íslensks alþýðufólks, sem var sjálfmenntað á ýmsum sviðum og hafði aflað sér þekkingar á ýmis konar þekkingu og kunnáttu þótt það gæti alls ekki nýtt sér það á beinan hátt í hversdagsstörfum sínum á þann hátt að það fengi borgað fyrir það.

Hinn mikli fjöldi "ofmenntaðra" bænda vakti athygli erlendra manna fyrir það að að þeir voru til dæmis ótrúlega vel að sér um það sem var að gerast úti í hinum stóra heimi án þess að þessi fullnæging fróðleiksfýsninnar virtist gagnast þeim vitund.

Neikvæð umræða um "ofmenntun" ber vitni um þá einstrengingslegu og takmarkalitlu auðhyggju sem nú ræður svo miklu bæði hér á landi og erlendis og leiðir fólk til þess að fara að harma það að það skyldi afla sér ákveðinnar þekkingar fyrr á tíð, af því að það hafi ekki fengið borgað fyrir hana og þar með tapað stórfé og glatað stórum hluta lífs síns. 

Þetta er skaðlegt hugarfar ef það nær að heltaka þá sem hafa menntað sig eða safnað þekkingu og fjölbreytilegri upplifun í reynslubanka sinn án þess að fá borgað fyrir það beint í vasann. 

Nýjar rannsóknir hafa leitt í ljós gagnsemi þess allt fram á grafarbakkann að "brjóta heilann" daglega um erfið málefni og halda honum í æfingu, andlegu lífi og hæfni til góðs.

Slík "ofmenntun" verður aldrei ofmetin því að sé rétt á haldið, getur hún á jákvæðan hátt stuðlað að reisn og lífsfyllingu þess sem aflar sér hennar.

Þótt auðvitað sé æskilegt að bein not verði að sem mestri af þeirri menntun, sem er í þjóðfélaginu, verður aldrei fundið upp þjóðskipulag þar sem öll menntun eða þekking nýtist öllum alltaf peningalega og skilyrðislaus krafa um slíkt veldur einungis óánægju og lífsleiða. Því hvað sagði ekki skáldið: 

Hvað er langlífi? 

Lífsnautnin frjóa, 

alefling andans 

og athöfn þörf. 

Margoft tvítugur 

meira´hafði lifað 

svefnugum segg 

er sjötugur hjarði. 

 

 

  

  

 


mbl.is Ofmenntun á vinnumarkaði er 19,3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

NewSpeak. Kjánalegt!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 18:17

2 identicon

Ofmenntun væri öll af hinu góða ef fólk myndi borga fyrir þá menntun sjálft, væntanlega eins og sveitungarnir þínir gerðu í gamla daga. Því miður er það ekki raunin í dag.

Atli Bjarnason (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 18:39

3 identicon

Hmmm.... ofmenntun?
Nei, ég held að það sé varla vandamálið. Vandamálið er kannski það, að fólk eyðir of miklum tíma innan veggja skóla, og of litlum úti á akrinum, þar sem maður lærir mest.

Þessir ofmenntuðu er því vanmenntaðir, þar sem lífið hefur kennt þeim lítið.
Lífið eftir skóla er bara framhald af akademíunni. Of lítið af vinnuskúramenningu, fiskvinnslu, sauðburði, handmokstri, kulda og vosbúð, kaldranalegum húmor, en því mun meira af tónleikum, kaffihúsum og fésbókarkjaftæði, milli þess að fólk bætir við sig nægilega mörgum einingum svo ekki verði hægt að ganga framhjá þeim við ráðningar.

Lítil almenn skynsemi og sérfræðiheimska þeirra sem ekkert annað kunna.
Dálítið dapurlegt, þegar maður hugsar um það.

Þetta er fólkið sem ber fyrir sig "the computer say's no"

Hilmar (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 19:08

4 identicon

Rétt hjá Hilmari. Að menntun lokinni heldur námið áfram starfi og endar aldrei.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 19:28

5 identicon

Hafðu þökk fyrir þennan ágæta pistil, Ómar.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 19:55

6 identicon

Þetta er nú allt saman aðeins í kross.

Ómar talar um ofmenntun og á þar við fólk sem aflar sér þekkingar utan skóla, þekkingar sem sjaldnast er viðurkend og sem gefur lítið í aðra hönd.

Önnur sýn á ofmenntun er þegar skólarnir unga út sprenglærðu fólki sem fer svo í störf sem krefjast ekki allrar þessarar menntunar.

Þetta eru tvær gjörólíkar gerðir og meira að segja getur farið svo og hefur gerst að sjálfmentaðir viskubrunnar (fyrri hópurinn) og hæfileikasprengjur verða að víkja fyrir manni með prófgráðu hugsanlega í einhverju allt öðru (og þar með ofmenntaður, seinni hópurinn).

Allt er þetta svo ágætt dæmi um hvernig umræðar getur flækst um sjálfa sig vegna ónákvæmra skilgreininga.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 19:56

7 identicon

Ekki hefur það nú háð mér neitt sérstaklega í starfi sem rútustjóri að ég er með cand. mag. próf í bókmenntum og flugskírteini. Og mér gekk bara bærilega í brúarvinnu með þá sömu menntun.  Hins vegar gerist það einstaka sinnum að þurfi að lesa á leiðbeiningar á útlensku að ég get lagt orð í belg af skynsamlegu viti. Svo virðist framgangur minn sem framhaldsskólakennari ekki hafa dregist verulega niður fyrir þá sök að ég er með jarðýtupróf og skipstjórnarréttindi auk fjögurra háskólagráðna. 

Stundum spyrja börnin: Til hvers þurfum við að læra þetta. Og ég svara: Því meira sem þú veist, þeim mun minna veistu ekki.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 20:35

8 identicon

Sæll Ómar

Auðvita er ekkert til sem heitir ofmenntun. Maður lærir svo lengi sem maður lifir. Hef lengi verið í MJÖG góðum tekjum sem sjómaður og verið stoltur af því að borga háa skatta. Ég vil hafa menta- og skjúkakerfin í lagi á Íslandi

Björn Jóhann Guðjohnsen (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 22:11

9 identicon

Sæll aftur Ómar

Veit hvað þér er annt um málið, sem mér líka. Þá fynnst mér leiðilegt að skrifa vitlaust og reyni eins vel og ég get

Björn Jóhann Guðjohnsen (IP-tala skráð) 15.5.2015 kl. 00:48

10 identicon

Neikvæð umræða um ofmenntun hefur ekkert með hvaða laun fólk fær fyrir það starf sem það er í. Neikvæð umræða um ofmenntun er til komin vegna þess að ofmenntaðir eru ekki í störfum sem þeir stefndu á og eru því ekki ánægðir í starfi og endast skemur en ella. En ofmenntun á oftast ekki við um þekkingu sem fólk aflar sér sem tómstundargaman, ofmenntun er notað yfir sérhæfða þekkingu sem aflað var til atvinnuþátttöku.

Vagn (IP-tala skráð) 15.5.2015 kl. 12:58

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er erfitt að flokka "ofmenntun" eftir því hvernig menn ávinna sér hana.´Í öllum tilfelllum felst hún í því að viðkomandi eyðir tíma og þar með peningum í hana, hvort sem það er í skóla eða í eigin frítíma.

Og ævinlega hægt að benda á að hann hefði átt að læra eitthvað annað sem skilaði sér pottþétt í peningalegum tekjum og afrakstri.  

Ómar Ragnarsson, 15.5.2015 kl. 13:07

12 identicon

Menntun í dag er í raun mötun og hefur í raun ekkert með menntun að gera.

Menntakerfið er í raun orðið að uppeldisstofnun, gagnrýni er bannorð.

Að vera langskólaskemmd/ur er kannski orðið sem þú leitar að ...

Leibbi Leibbs (IP-tala skráð) 17.5.2015 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband