Bæði Frankie Laine og Mario Lanza gátu sungið.

Það er gamalkunnugt, að söngvarar verði að þola alls kyns getsakir varðandi það að þeir séu "magnaðir upp" og raddir þeirra lagaðar til af nútíma tækni. Þess vegna þykir mér alltaf vænt um það þegar söngvarar leiða hið sanna í ljós, eins og María Ólafsdóttir hefur gert. 

Tveir af helstu söngvurum sjötta áratugs síðustu aldar höfðu miklar og góðar raddir en því miður breiddu öfundarmenn það út, að þeir væru "hæpaðir upp", eða magnaðir upp af tækni Hollywood. 

Þetta voru þeir Marío Lanza og Frankie Laine, einkum hinn fyrrnefndi. Þegar Lanza fékk, alveg óþekktur á óperusviðinu,  hlutverk Caruso í samnefndri kvikmynd og varð heimsfrægur fyrir tilþrif sín þar og söng í myndinni og söng á nokkrum öðrum lögum inn á hljómplötur varð elítan öfundssjúk og hófu nokkrir öfundarmenn róg á hendur honumm.

Þessum mönnum þótt hneyksli að söngvari, sem aðeins hefði sungið í tveimur óperusýningum, skyldi vera tekinn og settur saman úr honum "tilbúinn" söngvari, þar sem allri tækni hljóðveranna í Hollywood væri misbeitt til að skapa gervi-hetjutenór.

Lanza var drykkfelldur og varð fljótt feitur, féll fyrir freistingum Hollywood, tapaði röddinni í lokin og lést langt um aldur fram.

Ekki varð það til að bæta hlut hans, þótt annar óumdeildur hetjutenór þessa tímabils, Jussi Björling, lenti í vandræðum með Bakkus og hóglífið, því að einstæðir hæfileikar Björlings voru óumdeildir á meðan hann hélt heilsu eða gekk ekki timbraður inn á sviðið.

Síðar meir játuðu stórtenórar á borð við Domingo og Pavarotti að Mario Lanza hefði haft mikil áhrif á þá og þeir verið aðdáendur hans.

Pavarotti sagðist einnig hafa tekið sér til fyrirmyndar einstæða raddtækni og sönggetu Jussi Björling, enda hafa vart tveir söngvarar getað sungið að því er virðist alveg fyrirhafnarlaust af þvílíkum krafti og Pavarotti og Björling. 

Og hinn heimsfrægi hljómsveitarstjóri Toscanini kvað síðar upp úr með það að Mario Lanza hefði að hans mati verið í allra fremstu röð þeirra tenórsöngvara sem hann hefði kynnst á ferli sínum.

Ekki þarf að hafa mörg orð um Frankie Laine, sem var ekki kallaður "maðurinn með stálbarkann" að ástæðulausu, en þurfti stundum að búa við sleggjudóma.

Ég minnist þess að einstaka sinnum, þegar Guðmundur Jónsson notaði hljóðnema á fjölmennum hátíðum utan húss, gerði hann það að gamni sínu í lokin, þegar hann tók langa, langa, langa endtóninn í laginu "Hraustir menn", að hann setti hljónemann aftur fyrir bak í lokin við mikla hrifningu áhorfenda. 

Ef fólk vill heyra í Mario Lanza getur það farið inn á Youtube og hlustað á lög eins "The loveliest night of the year."

Stundum eru til fleiri en ein útgáfa af lögum og þá er ágætt að hlusta fyrst á þá útgáfu, sem fyrst varð fræg, í þessu tilfelli væntanlega sú sem er með ljósmynd af plötuumslagi og merkt 50 plús.  

Segið síðan að þetta hafi verið lélegur söngvari. Ég hef ekki heyrt annan syngja "The loveliest night of the year" eins og hann.     


mbl.is María syngur Unbroken „unplugged“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband