Íslenskir vísindamenn í fremstu röð.

Eldgosin í Eyjafjallajökli 2010 og í Grímvötnum 2011 vörpuðu skýru ljósi á það hve óviðbúið alþjóðlega vísindasamfélagið var slíkum atburðum hvað varðaði flug. TF-FRÚ og ÁST, Hvolsvelli

Strax í fyrra gosinu fórum við Sverrir Þóroddson að ræða um vanmátt flugyfirvalda á þessu sviði og möguleika á því að afla upplýsinga um gosmettað loft og gosmekki, því það blasti strax við að þegar teknar voru ákvarðanir um lokanir svæða vegna hættu á skemmdum af völdum eldfjallaösku, voru þær allt of oft rangar vegna ófullnægjandi upplýsinga og vafa, sem óþarfi var að láta skapast.

En ekkert hefði auðvitað komið út úr þessu ef hinn aldni og sífrjói eldhugi Jónas Elíasson hefði ekki einnig frá upphafi verið logandi af áhuga á málinu.TF-TAL mælitæki

Og þegar þeir tóku tal saman, gömlu vinirnir, hann og Sverrir, var ekkert verið að tvínóna við hlutina, heldur látnar standa hendur fram úr ermum við að hanna og smíða mælitæki sem hægt væri að nota til að mæla þéttleika eldfjallaösku í lofti.TF-TAL mælingar

Sverrir hafði fyrr á árum ljáð flugvél sína í vísindaleg verkefni og verið í sambandi við vísindamenn og nú var það sama gert hvað Jónas varðaði. 

Strax varð vart við tregðu og efasemdir um þetta framtak hjá alþjóðlegum flugmálayfirvöldum,sem voru að taka ákvarðanir í gegnum tölvu í London um stórfelldar lokanir víða um Evrópu. TF-TAL mælt inni

Það var skiljanlegt að því leyti, að svona ódýr lausn á stórum hluta vandamálsins virtist vera of gott til að vera satt.

Ekki gafst tími til að fara nema tvö flug í byrjun, því að gosið stóð það stutt. Annars vegar var flugvélinni TF-TAL flogið í fyrsta reynsluflug og einnig flaug ég mælitækjalaus inn í öskumettað og blautt loft í hálfa mínútu í reynsluskyni á TF-FRÚ yfir Markarfljótsaurum, nota bene í skilyrðum þar sem ekkert flugbann var í gildi. 

Af öskunni sem féll á framrúðu vélarinnar mátti álykta að enda þótt vél með bulluhreyfli þyldi þetta skamma stund, myndi þota alls ekki þola það og raunar engin flugvél til lengdar. 

Jónas hélt áfram að þróa mælitækin þar til gosið í Grímsvötnum hófst og á því ári sem hafði liðið, voru íslensk flugmálayfirvöld búin að taka við sér og því hægt að byrja að nota tækni Jónasar. 

22. maí hófst mælingaflugið á TF-TAL frá Selfossflugvelli og stóð linnulítið í tvo sólarhringa. 

Búið var að fá uppgefið hve mikið magn af ösku mætti vera í lofti svo að óhætt væri að fljúga þotu í því og kom í ljós að það samsvaraði um 5 kílómetra skyggni í öskuloftinu. 

Tímamótaárangur náðist mánudaginn 23. maí þegar átti að loka bæði Reykavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli á grundvelli gagna frá tölvunni stóru í London. 

Þennan dag var heiðskírt veður við Faxaflóa og Snæfellsjökull blasti við úr flugturnunum. 

En með því að fljúga TF-TAL stanslaust í aðflugssvæðum vallanna og senda niðurstöður mælinganna, ritaðar á strimil, beint til London, var hægt að halda völlunum opnum og fluginu óskertu. 

Jónas fór síðan til Japans til að þróa og bæta mælitæki sín í flugi nálægt gjósandi eldstöð og nú hafa öflugir íslenskir vísindamenn komið til skjalanna til þess að rannsaka betur eðli öskunnar og er það vel. 

Íslendingar eiga allt sitt undir greiðu flugi til og frá landinu og því er það gleðiefni að okkar vísindamenn starfi ótrauðir og geri gagn á þessu sviði eins og greint er frá í tengdri frétt á mbl.is 


mbl.is Getur stuðlað að auknu flugöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jónas Elíasson, bekkjabróðir í MA, er eldklár.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.5.2015 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband