"Útreiknuð áhætta."

Heil fræðigrein, "útreiknuð áhætta" fjallar um allt sem getur gerst frá fæðingu til dauða. 

Sumar niðurstöðurnar geta verið skondnar en um leið grimmar. 

Þannig er það til dæmis einföld útreiknuð áhætta. að það eru 100% líkur á því að hver sá, sem fæðist, muni deyja.

 

Sem sagt: Ekkert smá áhætta að fæðast. 

Þetta er nánast eina atriðið í áhættureikningi sem er svona afgerandi.

Eina leiðin til komast hjá því að deyja ekki er að fæðast ekki. En enginn fær nokkru ráðið um fæðingu sína. 

Fallhlífarstökk er byggt á útreiknaðri áhættu sem sýnir að á mörgum öðrum hliðstæðum sviðum er hættan á meiðslum eða dauða meiri. 

Ótti við að stökkva í fallhlíf og ýmislegt fleira byggist meira á tilfinningalegu mati en rökréttu. 

Útreiknuð áhætta gildir um þær þúsundir stökkva fram af háum klettum, björgum eða tindum sem heppnast vel ef allar forsendur standast. Stökkin byggjast á því þegar fallið er mjög hátt, að láta sig falla á svo miklum hraða án notkunar fallhlífar að hægt sé að skekkja fallið þannig að það verði ekki alveg lóðrétt heldur aðeins á ská, og í lokin þegar nothæfur lendingarstaður birtist, er fallhlífin opnuð og lent farsællega. 

Eitthvað hefur farið úrskeiðis í útreikningi eða að forsendurnar breyst í Yosemite, svo sem ástand loftsins og vindafar, sem hafa breyst eða verið rangar. 

Sama gildir um mat á stöðu hvers manns í lífshlaupi hans. 

Þegar bók Þorsteins Jónssonar, "Dansað í háloftunum" kom út var líka á markaði ævisaga með titlinum "Lífsháskinn". 

Í síðarnefndu bókinni var þó minni lífsháski á ferð í allri bókinni en á einni blaðsíðu hjá Steina. 

Lífsháski Steina var mismunandi mikill og langmestur meðan Þjóðverjar voru öflugir og bardagarnir um Bretland harðastir. En Steini upplifði það ekki þannig meðan á þjónustu hans stóð í breska flughernum. 

Þvert á móti kvaðst hann hafa verið langhræddastur á flugi yfir Frakklandi eftir innrás Bandamanna í Normandy þegar þýski flugherinn var ekki nema svipur hjá sjón og Bandamenn höfðu algera yfirburði í lofti. 

Ástæðan var svipað hugarástand og hjá manni sem hefur verið svo heppinn við að draga úr spilastokki, að hann hefur ekki enn dregið verstu spilin. 

Eftir allt sem á undan var gengið var Steini orðin lafhræddur við að hafa sloppið á ævintýralegan hátt úr margföldum lífsháska, að hann væri búinn með heppniskvótann, líkt og maður sem finnst hlotið að vera komið að því að draga versta spilið úr spilastokknum eftir að hafa dregið öll þau bestu. 

Steini óttaðist að í lokin myndi eina þýska flugvélin á svæðinu laumast að sér aftan frá undan blindandi sól og skjóta sig niður. 

Hann átti eftir að lenda í miklum lífsháska hvað eftir annað seinna í flugi sínu um allan heim en dó samt á sóttarsæng. 

Sjálfur hef ég verið svo heppinn svo oft um dagana og þakklátur forsjóninni fyrir það, að tilfinning Steina er farin að sækja að. 

Í eitt skipti fékk ég þau skilaboð í gegnum millilið frá djöfladýrkendum, sem gerðu tilraun til að koma mér fyrir kattarnef með særingum, að þeir hefðu gefist upp, - það væri sterkara sem fylgdi mér. 

Sé svo dregur það samt ekki úr "Steina-heilkenninu" hjá mér, því að mikið óskaplega hljóta þessir verndarar mínir að vera orðnir þreyttir. 

 


mbl.is Einn helsti ofurhugi heims látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Langar til að lýsa þeirri von minni að verndarenglar þínir eða góðu andar sem hafa haldið yfir þér verndarhöndum til þessa, geri það áfram um ókomna tíð og þegar þar að kemur - eftir langan tíma hér frá - endir þú ævi þína með svipuðum hætti og Capt. Tony, þ.e. í rúminu!

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 18.5.2015 kl. 12:57

2 identicon

 Ef þú telur verndarenglana orðna svona þreytta, er það þá vegna þess að að þú hafir svo oft gengið freklega gegn hinni útreiknuðu áhættu?

Annars var gaman að sjá þáttin ykkar Láru í gær. Þar gengu Lára og fylgdarmaður um stórgrýttar urðir með göngustaf en síðuhafi "studdist" við ólina á mynavélinni sinni, þó ónýtur í hnjám væri.;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.5.2015 kl. 14:51

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eins og gerist hjá ungu fólki skorti stundum hér um árið á útreiknaða áhættu. En oftar hafa þetta verið atvik þar sem lífsháskinn var utanaðkomandi og kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. 

Ómar Ragnarsson, 18.5.2015 kl. 16:01

4 identicon

Sendi slóð á myndband sem Heinz Zak gerði um Dean Potter. Heinz Zak og ég vorum í 14 daga tjaldferð um Ísland árið 2002 Ég skrifaði grein árið 2004 sem hét Á ferð um fagra Ísland en þar kom ég aðeins inn á hvað Heinz Zak og félagar hans höfðu um Ísland að segja. Ég man í þessari ferð þá fékk ég oft svimaköst þegar ég horfði á Zak horfa fram fyrir sig við bjargbrúnirnar til að skoða lunda sem dæmi

https://www.youtube.com/watch?v=iEWagdGiSEoak

http://www.vf.is/adsent/a-ferd-um-fagra-island/15039

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 18.5.2015 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband