Malbikaðar hraðbrautir um allt hálendið, líka að Sönghofsdal ?

Tilvist staðar, sem nefnist Sönghofsdalur, en finnst ekki á neinum kortum, varð mér kunn fyrir tæpum 20 árum, og þegar ég fór þangað til þess að skoða hann á jörðu niðri varð ég dolfallinn. Sönghofs-dalur

Mig blóðlangaði til að kynna hann fyrir landsmönnum, enda hafði fram að því verið mitt helsta keppikefli varðandi kynningu á landi og þjóð, náttúruverðmætum og merku fólki, að fjalla um áður ókunna staði og fólk á starfsvettvangi mínum.

En eftir ferðir um þjóðgarða og víðerni í Ameríku og Norður-Evrópu, sá ég, að við Íslendingar vorum 30 til 40 árum á eftir erlendum þjóðum í því hvernig umgangast skyldi land með einstæða náttúru eins og Ísland, og að með því að sýna Sönghofsdal, kynni það að verða til þess að umferð um hann, bæði lögleg og ólögleg, ylli skemmdum og eyðileggingu á honum. 

Síðustu sumur hafa heldur betur sýnt, í hvert ófremdarástand hefur verið stefnt að þessu leyti hér á landi. 

Tuttugu árum síðar erum við að vísu enn á eftir öðrum þjóðum í reynslu og þekkingu á því hvernig umgangast skuli náttúruna á friðuðum svæðum, samanber umræðuna um náttúrupassann og aðrar ráðstafanir til verndunar og skipulags á svæðum og stöðum sem teljast til náttúruverðmæta.

En við þokumst þó áfram, allt of hægt að vísu, í átt til þess að læra af reynslu annarra þjóða í stað þess að gera öll mistök þeirra sjálf.

Lára er í næstu kynslóð á eftir mér, kynslóðinni, sem verður að leiðrétta mistök okkar kynslóðar og innleiða nútímalega og raunsæja sýn á það dýrmætasta sem þetta land býr yfir.

Því ákvað ég að greina henni frá Sönghofsdal, enda fyrirsjáanlegt, að fyrr eða síðar myndi einhver gera það, enda væri það stórfurðulegt ef ekki er óhætt að kynna náttúruverðmæti vegna þess að maður þyrfti að gera ráð fyrir að þau verði eyðilögð.

Þar að auki er staðurinn núna kominn inn í lögsögu Vatnajökulsþjóðgarðs og því meiri von en áður til þess að hægt verði að varðveita þessa gersemi.

En það stóð ekki á viðbrögðum á netinu í gær. Þess var meðal annars krafist að létt yrði leyndarhulunni af því hvar Sönghofsdalur væri svo að hægt yrði að leggja þangað malbikaðan veg svo allir kæmust þangað auðveldlega.

Þarna birtist enn ein tillagan um malbikaða upphleypta heilsársvegi þvers og kruss yfir hálendið til þess að "auðvelda aðgengi."

En aðgengi að hverju? Það er aldrei nefnt, en felst í því verðmæti íslenskra öræfa, að vera eina svæðið í Evrópu þar sem enn er friður fyrir mannvirkjagerð byggðra svæða úr steinsteypu, malbiki og stáli með upphleyptar hraðbrautir og sem flest af því sem ferðafólk frá öðrum löndum er að reyna að komast í burtu frá til að upplifa algera andstæðu þess á íslenska hálendinu.  

Og klykkt var út með því í þessum skrifum að með því að leggjast gegn slíkum vegum væri ég í frekju að koma í veg fyrir að nokkur gæti upplifað hálendið nema ég og moldríkir menn, sem hefðu efni á að aka um á jöklajeppum upp á annan tug milljóna stykkið.

Ég svaraði einni af þessari athugasemd með því að benda á, að hver sem væri, gæti leigt sér lítinn Jimny jeppa og komist um allar helstu hálendisleiðirnar.Súkka á Bárðarbungu

Ég hefði keypt gamlan Suzuki Fox jeppa fyrir tólf árum á 300 þúsund krónur og notaði hann eingöngu til að fara á fjöll.

Og þess vegna væri honum sáralítið ekið, og af því að hann væri fornbíll, væru vegna eðlis málsins engin opinber gjöld af honum og mjög ódýrar tryggingar.

Á meðfylgjandi mynd er Súkkan á Bárðarbungu en í baksýn útsýn yfir Vonarskarð, Tungnafellsjökul og Hofsjökul. 

Erlendis er þjóðgörðum skipt upp í misjafnlega vernduð og ósnortin svæði.

Sums staðar eru það aðeins örfáir sem komast á viðkvæmustu staðina, annað hvort vegna þess hve "aðgengið er erfitt" eða með því að nota ítölu á þá.

En í staðinn eru veittar góðar upplýsingar um gildi þeirra, því að það eitt, að hafa vitneskju um þá, er mikils virði.

Öll hin vestræna heimsbyggð fór til dæmis á hliðina fyrir um 15 árum þegar Talibanar sprengdu Búddastyttur upp í fjöllunum í Afganistan, og höfðu þó nánast engir vestrænir menn komið að þeim.

En vitneskjan, myndir og frásagnir af þeim, nægðu til þess að þessi skemmdarverk á einstæðum menningarminjum voru fordæmd um allan heimm.

Að lokum er hér textinn við lagið sem sungið var í Ferðastiklum gærkvöldsins:

 

Í SÖNGHOFSDAL.  

 

Í Sönghofsdal bergmálar söngurinn vel. 

Sönghofsdal einstæða perlu ég tel: 

Stuðlabergshallir og heiðloftið bjart, 

hjalandi lækir og blómanna skart, 

:,: hnausþykka grasið og hraungrjótið svart :,: 

 

Ef þú í söng þínum yrkir mjög dýrt

álfar og huldufólk svara þér skýrt,

magna upp tónana´í margradda óð, 

máttuga hljómkviðu´og gjallandi flóð, 

:,: lofsöng um öræfin, land mitt og þjóð :,: 

 

Fjársjóður óbyggða falinn er hér. 

Fjarri´allri streitu og áreiti er. 

Herðubreið, fegurst í fjallanna sal,

fangar og hrífur hér meyju og hal. 

Og þögnin er guðdómleg í Sönghofsdal, 

               -

               - 

 þögnin er guðdómleg í Sönghofsdal. 


mbl.is Á vespum um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómars mörg nú þung er þraut,
þykir Framsókn lýti,
hennar verður bikuð braut,
beina leið í Víti.

Þorsteinn Briem, 22.6.2015 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband