Spurning um skilaboð.

Porsche 911 frá árinu 1979 er ekki hvaða bíll sem er. Árið 1978 ætluðu verksmiðjurnar að hætta að framleiða þennan einstæða bíl og settu á markaðinn Porsche 928 sem arftaka. 

Porsche 911 var með stóra loftkælda boxer-sexu fyrir aftan afturhjól og afturdrif, og þyngdarhlutföllin í bílnum voru þannig, að það átti að vera ómögulegt að hægt væri að ráða við hann í sviptingum á miklum hraða. 

Hann var líka erfiður við að eiga við vissar aðstæður en hins vegar með alveg sérstaklega góða spyrnugetu og í höndum á snillingum eins og sænska rallökumanninum Per Eklund náði hann að vera í fremstu röð á erfiðustu rallmótum heims. 

Arftakinn var hins vegar með átta strokka vatnskælda vél frammi í og hefðbundna driflínu þaðan aftur í afturhjólin eins og hundruð annarra bílgerða. Eini munurinn á honum og öðrum bílum af "Panhard-fyrirkomulagi, algengasta fyrirkomulaginu langt fram eftir síðustu öld, var sá að gírkassinn var hafður við afturhjólin til þess að ná fram 50-50 þyngdarhlutföllum milli fram- og afturhjóla.  

Porsche 928 var valinn bíll ársins í Evrópu 1978 og er eini sportbíllinn sem hefur hlotnast sá heiður. 

En allt kom fyrir ekki. Bíllinn seldist illa, enda dýr og höfðaði ekki til þeirra sem sóttust eftir hreinræktuðum sportbíl, þar sem ekki væri verið að eltast við málamiðlanir. 

Verksmiðjurnar urðu að selja Porsche 911 áfram og tókst ekki að drepa hann. 

Að þessu leyti var hann í svipaðri stöðu og Lada Niva og Landrover Defender, sem stóðu af sér banatilræði framleiðenda sinna. 

Þegar þetta er skoðað sést, að skilaboðin sem send eru með því að eyðileggja í auglýsingu Porsche 911 af nákvæmlega þeirri árgerð sem lifði af banatilræði framleiðenda sinna og gerðist með því einstæður bíll, eru afleit og sýna annað hvort vanþekkingu á eðli málsins og lítilsvirðingu gagnvart verðmætum eða afleitan smekk, nema hvort tveggja sé. 

Þetta er spurning um þau skilaboð sem myndskeiðið sendir, ekki um það hvort  viðkomandi eintak var óökuhæfur bíll eða ekki eins og reynt er að halda fram til að klómar í bakkann.

Og þau skilaboð hafa sannarlega reynst afleit.

Porsche 911 lifir enn í meginatriðum, stuttur, með vélina fyrir aftan afturhjólin, en raunar búið að vera að endurbæta hann það lengi, að einhvern tíma á ferlinum varð hann kannski ekki "ekta" 911.

Erfitt er að benda nákvæmlega á það hvenær búið var að eiga of mikið við hann, kannski 1998 þegar vatnskæld vél tók við af loftkældri, kannski þegar nýr undirvagn var gerður í fyrra skiptið af tveimur.

En ósvikinn Porsche 911 á engan sinn líka í bílaflota heimsins.  


mbl.is Bílaáhugafólk er brjálað yfir þessari auglýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband