Alveg nýjar aðstæður.

Stórvaxandi myndatökunotkun síma hefur skapað nýjar aðstæður varðandi gögn um ýmsa atburði. Sama er að segja um öryggismyndavélar.

Á YouTube má sjá svakalegar myndaraðir, sem teknar hafa verið erlendis af óhöppum, slysum og hvers kyns uppákomum.

Myndskeiðið af árekstri fyrir rúmri viku sýnir, að bílstjórinn í bílnum, sem myndavélin var í, fylgir auðum förum á sínum kanti og hefur fulla stjórn á sínum bíl, en bílstjórinn á Benzinum, sem kemur á móti, gerir þetta ekki sín megin á veginum, heldur lætur hjólin vera á flughálku utan við auðu hjólförin.  

Ef myndavél er alltaf höfð við höndina, geta myndskeiðin orðið að fréttum, samanber 7. nóvember 2007, þegar ég átti fyrir algera tilviljun leið akandi fram hjá brautarenda Egilsstaðaflugvallar og sá Fokker flugvél koma á sama augnabliki í aðflugi að brautinni með aðeins annan hreyfilinn virkan, en slökkt á hinum.

Þetta fór að sjálfsögðu í 10 fréttir sjónvarpsins og samstarfsfólk mitt kallaði mig í gríni Forrest Gump Íslands um sinn eftir þetta.

Atvikið dró dilk á eftir sér varðandi mig og hefur kostað mig drjúgan skilding, því að ég komst að því við að kynna mér málsatvik, að í upphafi þessa flugatviks hafði drepist á báðum hreyflunum yfir Brúaröræfum og farþegunum tilkynnt að vera við því búnir að nauðlenda einhvers staðar utan flugvalla á hálendinu. 

En síðan hrökk annar hreyfillinn í gang, en farþegar fengu skiljanlega áfallahjálp eftir lendingu á Egilsstöðum.  Fjórum árum síðar fékk flugvöllur á Brúaröræfum alþjóðlega viðurkenningu og skráningu sem brúklegur lendingarstaður fyrir allar flugvélar, sem notaðar eru í innanlandsflugi hér á landi.

Ef ég hefði ekki verið staddur með myndavél við brautarendann hefði ég aldrei kafað ofan í þetta atvik sem varð slík hvatning til aðgerða.

Myndskeiðið af hörðum árekstri í Ljósavatnsskarði fyrir rúmri viku er hrollvekjandi, því að það sýnir hve berskjaldaðir ökumenn geta verið gagnvart ökumönnum, sem koma á móti þeim og missa skyndilega stjórn á bílum sínum.

Stundum gerist þetta vegna syfju ökumanna en stundum af öðrum ástæðum, sem hinn grandalausi ökumaður getur engan veginn séð fyrir.

Að þessu leyti er spiluð endalaus rússnesk´rúlletta í umferðinni, nema að samlíkingin er dálítið fjarstæðukennd vegna þess hve líkurnar eru margfalt minni í bíl í umfeðinni en þegar byssu er beint að höfði með einu virku skothylki en öðrum óvirkum.


mbl.is Birti myndband af árekstrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband