Léttir að hluta til, - en líka mikil vonbrigði.

Drög að lokaáfanga þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar verkefnanefndar rammaáætlunar, sem kynnt voru í dag, eru að hluta til léttir vegna þeirra virkjanakosta, sem nú er búið að færa í verndarflokk.

Þessir kostir eru einkum á miðhálendinu, þar sem munar um hvern áfanaga í þá átt að stofnsetja stóran þjóðgarð.

Sá kostur að sökkva Krókdal með virkjun í Skjálfandafljóti, sem lýst var hér á síðunni um daginn, ætti nú að vera úr sögunni og sömuleiðis stórfelldar hugmyndir um virkjun jökulsánna suður af Skagafirði, sem áttu að að fóðra komandi álver við Skagaströnd á orku.

Þjórsárfossavirkjun, virkjun stórfossanna þriggja í Efri-Þjórsá, sem gengið hefur undir dulnefninu Kjalölduveita og þar áður Norðlingaölduveita, er samkvæmt þessum drögum komin í verndarflokk, og Búlandsvirkjun, sem ætti auðvitað að heita Skaftárvirkjun, sömuleiðis.

En Skrokkölduvirkjun með sinni 65 kílómetra löngu háspennulínu langt inn á hálendið er enn á borðinu, - virkjun sem veldur slæmum umhverfisáhrifum fyrir sáralitla orku, 35 megavött.

Aðförin að Mývatni er í sama fari og fyrr með Bjarnarflagsvirkjun og aðgerðarleysi gagnvart afleiðingum af fjölgun ferðamanna við vatnið.

Og við Kröflu virðist sami feluleikurinn vera í gangi og hingað til varðandi virkjanaframkvæmdir þar sem að hluta til er sótt inn á Leirhnjúks-Gjástykkis svæðið.

Og ásóknin í virkjanir í "ruslakistu rammaáætlunar" á Reykjanesskaga, svo sem við Eldvörp og Krýsuvík, er í fullum gangi.

Fleira mætti nefna sem veldur miklum vonbrigðum.

Þótt með þessum drögum verkefnisstjórnar rammáætlunar felist von um ákveðna áfangasigra í baráttunni við hernaðinum gegn landinu má búast við að Jón Gunnarsson og þingmeirihlutinn, sem hann er í, muni leggja sig fram síðasta ár kjörtímabilsins til að reyna að koma einhverjum af þeim kostum, sem settir voru í verndarflokk, yfir í orkunýtingarflokk.

Boðað er að 28 virkjanakostir í viðbót verði næst á dagskrá verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Allt þetta stingur í stúf við hin Norðurlöndin, þar sem tími stórra virkjana leið undir lok fyrir fjórtán árum.   


mbl.is Mikilvægur áfangi fyrir náttúruvernd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Mikið flóð af fréttum um Rammaáætlun í dag. Falleg mynd af fuglafriðlandi Héraðsvatna fylgdi einni frétt Morgunbælaðsins í dag. Ótrúlega fjarstæðukenndar hugmyndir um virkjanir hafa verið á borði verkefnastjórnunnar. Skaftá og Þjórsá "vestur" með mörgu nöfnunum komnar í verndarflokk.

"Sölumenn" á Alþingi hafa verið ótrúlega iðnir við að skapa alla þessa vinnu og hártog um perlur sem engin þörf er á að virkja. Hágöngur og og Stóra-Laxá í biðflokk? Allt verkefni frá Alþingi sem er meðvitað eða ómeðvitað að óþörfu lagt fram á mesta þenslutímum.

Guðmundur Páll Ólafsson var vakningamaður, sannkallaður prédikari um djásn hálendisins og fegurstu ár, sem við með ferðamönnum erum að uppgötva. Köllun hans til góðra verka er að skila sér. Gaman að sjá athugasemdir þínar. 

Sigurður Antonsson, 31.3.2016 kl. 22:11

2 identicon

Þetta með Norðurlöndin - Svíar kaupa rafmagn frá Póllandi, að vísu frá sínum eigin  brúnkolsdrifnu orkuverum þar-sem er ódýrt að framleiða og jafnframt rafmagn frá Danmörku frá olíu og koladrifnum verum. Þeir eru að leggja niður kjarnorkuverin,því að  þau eru óheilnæm?? Norðmenn kaupa líka rafmagn frá dönum.

Eru Norðurlöndin komin eitthvað lengra en við í raforkumálum?

Rafmagn á Íslandi er margfalt ódýrara en í öllum öðrum löndum Evrópu. 

Nú fjölgar íslendingum og væntanleg fyrirtækjum líka. Hvernig á að sinna rafmagnsþörfinni? Með sjón- og hávaðamengandi vindmillum, kanski í þúsundum, bara spyr?

Valdimar Jóhannsson (IP-tala skráð) 1.4.2016 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband