Svo grátlega tímafrek bylting, ef hún er möguleg.

Bráðum verða liðnir tveir áratugir síðan það kom fram, að við með því að bora tvisvar til þrisvar sinnum dýpra niður i jörðu á háhitasvæðum, en gert hefur verið fram að þessu, yrði hægt að margfalda þá orku, sem hægt yrði að ná út úr hverri borholu. 

Var talað um fimmfalt eða jafnvel allt að tífalt meiri orku en hingað til hefur verið hægt að fá. en það myndi þýða algera umbyltingu og risastökk í nýtingu háhitasvæða. 

Ef svona tækni hefði verið komin þegar Kárahnjúkavirkjun var á döfinni, hefði þetta þýtt að í stað þess að valda hinum óheyrilega miklu óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem hún olli, hefði verið hægt að fara fyrst í það að virkja á þennan hátt til að útvega stóriðju rafmagn. 

En því miður virðist sýnin á svona byltingu jafn fjarri nú og fyrir 20 árum. 

Ofuráherslan á Kárahnjúkavirkjun dró greinilega úr áhuga manna á því að fara af fullum þunga út í þær miklu og kostnaðarsömu tilraunaboranir sem þurfti til þess að sannreyna hina nýju tækni, sem gat umbylt möguleikum til beislunar íslenskrar jarðvarmaorku. 

Á þetta var bent í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" og í áttblöðungi, sem borinn var niður Laugaveg í Jöklugöngunni fyrir tíu árum. 

Fyrir sjö árum var loksins drattast til að bora fyrstu djúpborunarholuna, og þá völdu menn nokkurn veginn glataðasta stað til þess, sem hugsast gat, við hliðina á gersamlega misheppnaðri borholu hjá gígnum Víti við Kröflu frá 1975, sem réttilega hlaut þá heitið Sjálfskaparvíti!

Þessi hola, sem kalla mætti Sjálfskaparvíti 2, kostaði milljarða á núverandi verðlagi, og með því að bora svona nálægt gosstöðvunum frá Kröflueldunum, var komið ofan á glóandi hraunkviku löngu áður en komist var neðar en áður hafði verið borað.

Nú verður, seint og um síðir, borað á skárri stað, og enn verður að bíða eftir því að loksins komi í ljós, hvort árangur náist, sem getur forðað okkur frá því að vaða út um víðan völl með virkjanir, en í staðinn verði hvert virkjanasvæði nýtt á margfalt betri hátt en nú er hægt.  

 

 

 

 


mbl.is Hefja djúpborun á Reykjanesi síðar í þessum mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mannanafnaskrá

Þorsteinn Briem, 17.8.2016 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband