Martröð hjólreiðarmannsins.

Þegar skipt er úr því að nota bíl yfir í að nota rafreiðhjól eða létt vélhjól í nær öllum ferðum innanbæjar öðlast maður nýja sýn á umferðina. 

Ástæðan er sú, að þegar setið er í bíl, varinn af belti og loftpúðum ef eitthvað ber útaf, myndast ákveðin firring í undirmeðvitundinni gagnvart því sem er utan bílsins. 

Á hjóli gerbreytist þetta, því að maður á hjóli er gersamlega berskjaldaður gagnvart öðrum farartækjum. 

Hjólreiðamaður verður að temja sér þá hugsun, að fyrir bílstjórum og öðrum í umferðinni sé hann ósýnilegur, enginn taki eftir honum eða gefi honum forgang þegar hann á að hafa forgang samkvæmt umferðarlögum. 

Martröð manns á vélhjóli er skortur á stefnuljósnotkun, sem þýðir til dæmis það að sé maður samsíða bíl sem er á akrein við hliðina, til dæmis aðeins aftar, verði maður að vera viðbúinn því að bílstjórinn svipti þeim bíl fyrirvaralaust inn á akreinina, sem maður er á, án þess að gefa stefnuljós eða nokkurt annað merki um þessa skyndilegu geðþóttaákvörðun. 

Um daginn var ég á eftir bíl á Kringlumýrarbraut og var umferðin aðeins hægari á akreininni við hliðina. 

Skyndilega, án minnsta fyrirvara, snarhægði bíllinn svo mjög á sér fyrir framan mig, að minnstu munaði að ég æki aftan á hann. Ökumaður bílsins svipti honum til hægri til þess að geta smellt bílnum inn í autt, en stutt bil á milli bíla á hinni akreininni, sem hann hafði séð að opnaðist.  

Ekkert stefnuljós gefið frekar en svo oft í íslenskri umferð.

En hjólreiða- og vélhjólamenn verða líka að sýna ábyrgð, tillitssemi og varúð og líta í eiginn barm.  

Á hjólreiðastígum er eitt áhyggjuefnið að fá á móti sér hjólreiðamann á "racer"hjóli í beygju, jafnvel blindbeygju, sem beygir sig fram og niður á stýrið til þess að geta farið sem allra hraðast og horfir takmarkað eða ekki fram fyrir sig. 

Þegar ekið er í umferð í erlendum borgum sést vel að þar ríkir gróin hjóla- og umferðarmenning. 

Þar er víða sérstakt autt rými fyrir framan bíla, sem bíða á ljósum, ætlað fyrir vélhjólamenn. 

Umferðin í mörgum borgum myndi teppast, ef umferðarmenningin væri ekki góð og jafn almenn notkun vélhjóla og þar er, því að eitt vélhjól tekur fimm sinnum minna rými en bíll. 


mbl.is Ökumaðurinn nánast áfengisdauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þar sem ég er hjólreiðamaður í þremur löndum (Ísland, Sviss og Grikkland), les ég svona pistla með athygli. Miðað við Sviss, þar sem hjólreiðar eiga sér gamla og gróna hefð og ökumenn taka mikið tillit til hjólandi (verða að gera það), er hjólreiðamenningin í Grikklandi afar frumstæð, fáar sem engar sérbrautir fyrir hjólreiðamenn og bifreiðarmenningin dólgsleg, ekki ósvipað Íslandi, þar sem skrjóðurinn er enn status symbol. Lenti fyrir bíl í Grikklandi fyrir 6 mánuðum, algjörlega bílstjóranum að kenna. Hentast af hjólinu nokkra metra og fékk vont sár á sköflung. Var ekki gróið fyrr en eftir tvo mánuði. Önnur meiðsli engin, var ekki með hjálm. Í Sviss eru reiðhjólahjálmar ekki lögleiddir, ekki einu sinni hjá börnum. Engu að síður nota 60% 15 ára og yngri hjálm, og talan er 40% ef miðað er við alla sem hjóla. Sem sagt, það er meiri ástæða til að nota hjálm á Íslandi og Grikklandi en í Sviss. Það gerir vanþroska umferðarmenning.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.9.2016 kl. 12:21

2 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

Það er jafn vont að detta á hausinn á Íslandi, Grikklandi og Sviss.

Jóhannes Birgir Jensson, 3.9.2016 kl. 13:39

3 identicon

Aukning nær hljóðlausra rafmagnsbíla hlýtur að valda hjólreiðamönnum áhyggjum.

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 3.9.2016 kl. 14:41

4 Smámynd: Sævar Helgason

Ég hef verið reiðhjólamaður af og til og nú í sumar hefur aukningin hjá mér verið mikil á hjólinu.
Þegar ég fór af stað nú í sumar - þá var það þrennt sem ég gerði að fastri venju frá því sem áður var.
1. Appelsínugulur hjólajakki með svörtum hlutum og sker sig þannig vel úr umhverfinu,
2.rautt blikkandi LED ljós að aftan, alltaf og hvítt samskonar að framan,
3 litlir baksýnisspeglar á hvorum stýrisenda ,til að hafa alltaf auga með því sem fyrir aftan er- með augnabliksskjáskoti.

Reynslan af þessu ,frá því sem áður var, er frábær. Bílar víkja lengra frá við framúrakstur þar sem ég er svona vel sýnilegur og ég sjálfur er mjög meðvitaður um það sem fyrir aftan er.
Og á göngustígum er einstóna bjalla alveg sérlega góð forvörn fyrir þá sem farið er framhjá á göngu.
Sl 2 mán hef ég hjólað svona  > 800 km við allskonar aðstæður

Sævar Helgason, 3.9.2016 kl. 21:39

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér á Íslandi verður nær hljóðlaus og mengunarlaus umferð.

Þorsteinn Briem, 3.9.2016 kl. 22:22

6 identicon

Reiðhjól eru hættuleg farartæki á holóttum götum og í mikilli umferð, sérstaklega fyrir gamalt fólk.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 3.9.2016 kl. 23:14

7 identicon

Ómar, við viljum hafa þig lengur!

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 3.9.2016 kl. 23:22

8 Smámynd: Sævar Helgason

Ekki veit ég það , sjálfur er ég á 79. aldursári . Gengur bara mjög vel fyrir sig hvort sem er á Reykjanesbraut eða hjóla og göngustígum :-)
Á holóttum malarvegum er farið hægar um-en meiri hraði á hraðbrautum.

Sævar Helgason, 3.9.2016 kl. 23:25

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Að sjálfsögðu er best að vera í gulum, eða skærlistum vestum, sem kosta lítið og eru létt og meðfærileg. Ég er meira að segja alltaf með vestið á jakkanum / úlpunni minn, jafnvel þótt ég sé ekki að hjóla. 

En reyni samt að fylgja heilræðinu að gera ráð fyrir að enginn sjái mig. 

Ómar Ragnarsson, 4.9.2016 kl. 04:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband