Aftur til 1955?

Þegar ég dvaldi sem 14 ára unglingur í sex vikur í Kaupmannahöfn sumarið 1955 þurfti ekki að spyrja að því hvert var vinsælasta farartækið í borginni. 

Ég sendi foreldrum mínum póstkort þar sem hafsjó reiðhjóla mátti sjá við Ráðhústorgið, austast á Vesturbrúgötu og harmaði það síðar að hafa ekki varðveitt þetta póstkort.

Nú má sjá af fréttum, að reiðhjólin eru á ný að sigla fram úr bílunum í Kaupmannahöfn. 

Á þessum árum fyrir hálfri öld eða meira fóru margir íslenskir unglingar í þremur þrepum upp samgöngustigann; voru á reiðhjólum til 15 ára aldurs, síðan á næsta þrepi á vélhjólum (skellinöðrum) þangað til þeir gátu keypt fyrsta bílinn og farið upp á þriðja þrepið.

Ég hljóp yfir mótorhjólaþrepið og fór af reiðhjóli 19 ára beint yfir á bílaþrepið þegar ég keypti mér minnsta, ódýrasta, einfaldasta, sparneytnasta bílinn sem völ var á, NSU-Prinz 30.

Síðan í fyrra hef ég hins vegar farið til baka niður á hjólaþrepið og eftir að hjólin urðu tvö, rafreiðhjól og létt bensínknúið vespuhjól, ferðast ég nær eingöngu innanbæjar og á þjóðvegum á hjólunum Náttfara (Dyun-rafreiðhjól) og Létti (Honda PCX vespuhjól, "scooter").

Á síðustu þremur mánuðum hef ég ekið vespuhjólinu hátt á þriðja þúsund kílómetra út um allt land, þar með talið allan hringveginn, nema að ég hef ekki farið vestur á firði þótt ég hafi í einni ferðinni farið vestur í Gilsfjörð. 

 Þetta hefur haft mikinn sparnað í för með sér því að það er jafn fljótlegt að aka vespuhjóli af þessari stærð (125cc) og að aka á ódýrasta bíl, - innanbæjar er hjólið fljótara, - en kostnaðurinn við rekstur hjólsins er aðeins þriðjungur eða jafnvel aðeins fjórðungur af rekstrarkostnaður ódýrasta bíls, - eldsneytiskostnaðurinn aðeins þriðjungur innanbæjar og hjólið kostar aðeins fjórðung af verði ódýrasta bíls.

Auk þess stefni ég að því að minnka samanlagðan útblástur af farartækjum mínum um 70%.

Við þetta bætist, að þessi ferðamáti er alveg einstaklega skemmtilegur og gefandi og með tilliti til þróunar persónulegra samgöngutækja hjá mörgum hér um árið má segja að ég sé að vinna upp glötuð unglingsár.

Þegar þessi hjólatími hófst hafði ég í 55 ár byggt upp múr af ýmsum fordómum gegn notkun hjóla, sem hrundi þegar á reyndi.

Enda uppgötvaði ég að á reiðhjólatímabilinu frá 10-19 ára hafði ég verið á ferð á reiðhjóli í nær öllum veðrum allt árið og nú er það aftur orðið þannig.

 


mbl.is Hjólin taka fram úr bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þrefalt ´dýrara skil ég en ekki þrefalt ódýrara. Viltu skýra hvernig það er hugsað?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 9.11.2016 kl. 08:28

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir, Þorvaldur, og ég hef breytt orðalaginu til þess að það sé ekki hægt að misskilja það. 

Ómar Ragnarsson, 9.11.2016 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband