Mesta fylgishrun Pírata í langan tíma. Minnir á krata 1979.

Það hefur ekki gerst í háa herrans tíð að fylgi Pírata hafi minnkað jafn mikið og núna, eða um næstum því helming, í kringum 40%. 

Á sama eykst fylgi Vinstri grænna um fjórðung. 

Erfitt er að finna aðra ástæðu en þá að fyrirsjáanlegir erfiðleikar við stjórnarmyndun séu helsti áhrifavaldurinn. 

Þegar fylgi Pírata fór upp í 30% eða jafnvel meira, og var löngum í kringum 25% hefur það hugsanlega endurspeglað ósk stórs hluta kjósenda um eitthvað svipað og gerst hefur í Bandaríkjunum í kringum Trump og Bernie Sanders, - róttæk uppstokkun á stjórnmálakerfi, sem hefur misst traust kjósenda og valdið þeim vonbrigðum.

Þetta minnir dálítið á haustið 1979. 

1978 vann Alþýðuflokkurinn sinn stærsta sigur og komst upp í 22% fylgi í kosningunum um sumarið.

Flokkurinn sigldi á bylgju hugmynda Vilmundar Gylfasonar um róttæka uppstokkun stjórnmálanna.

Alþýðuflokkurinn varð síðan einn þriggja vinstri flokka til að mynda ríkisstjórn undir forsæti formanns þess flokks, sem mestu tapaði í kosningunum.

Í þeirri ríkisstjórn var hver höndin var upp á móti annarri frá byrjun og í september rufu kratar stjórnarsamstarfið með hvelli og settust í minnihlutastjórn með stuðningi Sjálfstæðisflokksins.

Uppskeran varð slæmt fylgistap í desemberkosningum 1979, enda hafði flokkurinn afrekað það að verða upp á náð tveggja höfuð andstæðinga sinna kominn í stjórnarsetu á aðeins rúmu ári.

Erfið stjórnarkreppa fylgdi þá, og nú virðist, eins og 1978 og 1979, vera lítil líkindi á stjórn án þess að annar hvor stjórnarflokkanna fyrrverandi sé þar með í gerðum, eða þá Viðreisn, sem er að stórum hluta afsprengi Sjálfstæðisflokksins.  

Píratar hafa með öllu hafnað því fyrirfram að mynda stjórn með Sjálfstæðísflokknum, en geta þar með ekki átt aðild að stjórn án þess að leitað sé á náðir annað hvort Framsóknar eða Viðreisnar. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur og VG stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Píratar hafa með öllu hafnað því fyrirfram að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum, en geta þar með ekki átt aðild að stjórn án þess að leitað sé á náðir annað hvort Framsóknar eða Viðreisnar."

Píratar buðu Viðreisn aðild að viðræðum þeirra, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar sem svo voru haldnar á Lækjarbrekku fyrir alþingiskosningarnar í síðastliðnum mánuði.

Björt framtíð var í fyrstu efins um að skynsamlegt væri fyrir flokkinn að eiga aðild að viðræðum þessara flokka fyrir alþingiskosningarnar.

Og fyrst er að sjálfsögðu reynt að mynda ríkisstjórn með þingmeirihluta.

Hvorki Viðreisn né Björt framtíð eru vinstri flokkar og Píratar segjast ekki vera vinstri flokkur.

Þorsteinn Briem, 15.11.2016 kl. 23:32

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fylgi Viðreisnar kom ekki frá Sjálfstæðisflokknum, enda var Viðreisn ekki til fyrir síðustu alþingiskosningar.

Þorsteinn Briem, 15.11.2016 kl. 23:38

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurvegarar alþingiskosninganna í síðastliðnum mánuði voru Píratar og Viðreisn.

Fylgi Pírata þrefaldaðist í kosningunum og þeir fengu tíu þingmenn eins og Vinstri grænir, þannig að báðir flokkarnir eru næst stærstir á Alþingi.

Og Viðreisn fékk sjö þingmenn.

En þeir sem töpuðu mestu fylgi voru erkifjendurnir Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin.

Og fylgi Framsóknarflokksins hefur ekki verið minna í hundrað ára sögu flokksins.

Þorsteinn Briem, 15.11.2016 kl. 23:55

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Í mars 2015 lagði Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata til að stjórnarandstöðuflokkarnir Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Píratar myndu mynda með sér kosningabandalag fyrir Alþingiskosningarnar 2017."

Þorsteinn Briem, 15.11.2016 kl. 23:58

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Tæpum tveim vikum fyrir alþingiskosningarnar [í síðastliðnum mánuði] buðu Píratar Vinstri grænum, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Viðreisn að hefja formlegar viðræður um ríkisstjórnarsamstarf. [21]

Samfylking og VG tóku betur í hugmyndina en Björt framtíð og Viðreisn. [22]"

Þorsteinn Briem, 16.11.2016 kl. 00:01

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar segir líta út fyrir að flokkurinn sé í lykilstöðu fyrir stjórnarmyndun.

Áður en hann hélt inn á fund forseta sagðist hann aðspurður ekki útiloka neitt stjórnarsamstarf nema eitt og átti þá við að ganga inn í meirihlutasamstarf með fráfarandi ríkisstjórnarflokkum.

"Þetta var áhugavert útspil," sagði Benedikt aðspurður um þær hugmyndir Pírata að styðja minnihlutastjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna.

Þetta væri ekki eitthvað sem flokkurinn útilokaði."

Þorsteinn Briem, 16.11.2016 kl. 00:09

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu á að miða við síðustu alþingiskosningar en ekki einhverjar skoðanakannanir þegar úrslit alþingiskosninganna í næstu viku liggja fyrir.

Píratar hafa aldrei reiknað með að fá 30% atkvæða í kosningunum og vinna þar að öllum líkindum stórsigur með margfalt meira fylgi en í síðustu alþingiskosningum.

Skoðanakannanir eru langt frá því að vera kosningar, fylgi í skoðanakönnunum getur sveiflast gríðarlega í sömu vikunni, eins og fjölmörg dæmi sanna, og fjöldinn allur er óákveðinn eða vill ekki svara í skoðanakönnunum.

Ungt fólk hefur miklu meiri áhuga á að kjósa Pírata en Samfylkinguna og lítur á flesta frambjóðendur hennar í efstu sætunum sem gamalmenni.

Þér finnst hins vegar allir yngri en fimmtugir vera ungir og miðar þar við sjálfan þig, Ómar Ragnarsson.

Flestir frambjóðendur Vinstri grænna í efstu sætunum eru einnig langt frá því að vera ungir og enda þótt foringi þeirra, Katrín Jakobsdóttir, sé fertug lítur hún út fyrir að vera að minnsta kosti tíu árum yngri.

Þar að auki þekkja flestir kjósendur Katrínu, enda hefur hún verið þingmaður síðastliðin níu ár, ráðherra í fjögur ár og er nú formaður flokksins.

Ungt fólk myndi á hinn bóginn yfirleitt ekki líta á Steingrím J. Sigfússon sem fulltrúa sinn á Alþingi, enda lítur hann út fyrir að vera gamall framsóknarmaður, sem snúa þarf í gang eins og gömlum Willys jeppa.

Og fjölmargir framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi kjósa Vinstri græna í kosningunum í næstu viku eftir öll axarsköft síðasta formanns Framsóknarflokksins og útlit fyrir að flokkurinn fái einungis einn þingmann í því kjördæmi.

En það er engan veginn víst, enda eru skoðanakannanir ekki kosningar.

Steini Briem, 19.10.2016

Þorsteinn Briem, 16.11.2016 kl. 00:12

9 identicon

Þau vilja ekki Sjálfstæðisflokkinn en þau vilja herinn.  Þau gleðjast yfir atvinnuleysi og rífast um það innbyrðis hvernig þau hafi misnotað hælisleitendur með því að hirða af þeim atkvæði í prófkjörum.  Alla aðra kalla þau rasista.  Mesta furða að þau hafi ekki algerlega þurrkast út. 

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.11.2016 kl. 08:34

10 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þjóðin hefir tapað. Það vita allir að það voru samantekin ráð að semja ekki við Sjálfstæðisflokkinn. Þessir flokkar koma sér saman með þegjandi samkomulagi að standa saman að nýrri ríkisstjórn. Þetta eru hatursfullir aðilar og á meðal þeirra tölvuhakkarar sem nota sína kunnáttu í illum tilgangi.

Valdimar Samúelsson, 16.11.2016 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband