Fordómar sem sköpuðust og hurfu.

Þegar ég var strákur og unglingur var áhuginn mikill á alls kyns útivist, gangandi, hlaupandi, hjólandi eða við útivinnu sumar sem vetur. 

Síðan var hlaupið beint árið 1959 af reiðhjólinu yfir á minnsta bíl landsins og við tóku 56 ár, þar sem bílar og síðar flugvélar að hluta urðu fararmátinn. 

Í desember 2013 fór ég í ferð til Akureyrar á gömlum Nissan Terrano jeppa, sem ég hafði krækt mér í fyrir lítið til þess að nota sumarið áður á Sauðárflugvelli en fann síðan aðra lausn og sat uppi með garminn.

Ætlaði að selja hann en það snjóaði og snjóaði og ég ákvað því í tengslum við áritunarferð til Norðurlands vegna mynddiskasölu að nýta tækifærið og þurrviðrið sem hafði verið fyrir norðan og skilja hann þar eftir á bílasölu. 

En þá brá svo við að það byrjaði að snjóa fyrir norðan og stytti nánast ekkert upp fram á vor!Náttfari við Engimýri 

Bílasalinn fékk tilboð í bílinn þegar komið var fram á sumar sem fól í sér bein skipti á honum og spánnýju rafreiðhjóli, sem ég gæti selt fyrir sunnan.

Leið nú sumarið að það dróst að selja hjólið, einkum vegna þess að ég vildi prófa það fyrst, en það fór ekki í gang og ekki var hægt að selja það í því ásigkomulagi.

Haust og vetur skullu á og loks í apríl 2015 fékk ég hjólið til að virka eftir að hafa hlaðið það, en það komst aðeins 30 metra.Sörli. Bakkasel.

Hjólið hafði greinilega staðið of lengi kyrrt, bæði hjá mér og hugsanleg líka hjá fyrri eiganda, og rafhlaðan var biluð.

Ég prófaði að hlaða aftur nokkru seinna, og nú komst það 80 metra. Hlóð enn og það komst 300 metra og síðan dálítið lengra, koll af kolli, 800 metra, 1500 metra og loks 8 kílómetra sem var samt langt frá því sem gefið var upp, þannig að ég "gafst upp" og ákvað að eiga hjólið úr því sem komið var, þótt ég væri fullur fordóma þess efnis að sá samgöngumáti væri ómögulegur á Íslandi vegna "séríslensks veðurs og aðstæðna." Honda PCX. Léttir, við Mývatn

En ég var hvort eð er búinn að hrekjast frá opinberlega gefnu loforði um orkuskipti í formi Renault Twisy 2ja manna örbíls og fór því að sinna hjólinu í stað þess að gefast alveg upp.

Snillingurinn Gísli Sigurgeirsson gerði við rafhlöðuna og bætti rafhlöðum við fyrir hjólaferð frá Akureyri til Reykjavíkur, sem byggðist á því að fara upp Bakkaselsbrekkuna zik-zak um nótt þegar umferð væri sem minnst. Hjólið fékk nafnið Náttfari fyrir bragðið. 

Tilraunin mistókst í brekkunni en tókst í annarri tilraun á hjólinu Sörla, léttara og algíruðu hjóli. 

Fyrsti dagurinn í minnisbókinni, sem ég hjólaði á Náttfara, er 22. apríl 2015. Þá hófst kafli nýs lífsstíls í samgöngumálum mínum, sem ég hef lýst fyrr hér á síðunni og fært mér minnst 60 prósenta minna kolefnisspor.  

Mjög fljótlega komst ég að því að ég hafði á 56 árum fyllst upp af fordómum gagnvart þessum ferðamáta, því að nú eru bráðum liðin tvö ár þar sem ég hef getað notað Náttfara og síðar líka vespuhjólið Létti allan ársins hring, svo að ekki hefur fallið vika úr.  

Það er aðeins í stormspá, yfir 20m/sek eða þegar hjólin bera ekki nógu mikið (sem er ótrúlega sjaldgæft) sem ég nota bíl. 

Nú rifjaðist upp fyrir mér að á unglingsárunum hafði ég hjólað allt árið, þannig að nú má segja að ég hafi, vegna þess að hafa hlaupið yfir vélhjólastigið 1959, unnið upp glötuð unglingsár þeirrar hressingar og ánægju sem hvers kyns ferðalög á hjólum geta veitt. 

Það er sameiginlegt öllum formum útiveru að með réttum búnaði og klæðnaði er hægt að yfirvinna flestar þær tegundir veðurs, sem eru hér á landi, og eru þær þó býsna fjölbreytilegar. 


mbl.is „Hugmyndin varð til á hlaupum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég viss um einn mætan mann,

er málum var í fínum,

löngum sá ég labba hann,

létt í hægðum sínum!

http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2017/01/12/allt_of_mikid_feimnismal_ad_raeda_haegdir/ surprised

Þjóðólfur á Sitjanda (IP-tala skráð) 12.1.2017 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband