HVAR LIGGJA ÞRÁHYGGJAN OG ÓHÓFIÐ?

Í gær var liðið rétt ár frá því að Jökulsárgangan var farin um Reykjavík. Síðan þá hafa sumir talað um þráhyggju mína varðandi Kárahnjúkavirkjun og önnur virkjanamál. Þessir menn ættu frekar að huga að stanslausum fréttum daglega um þessi mál sem ég stjórna ekki. Í kvöld var til dæmis rakið í Sjónvarpsfréttum að tólf stóriðju og hátæknifyrirtæki stæðu í viðræðum um kaup á orku.

Fyrr í dag var fjallað í fréttum um vatnalögin og eignarhald orkulindanna, - í gærkvöldi kom í ljós í viðurkenningu sérfræðings hjá Veðurstofunni það sem menn áttu erfitt með að trúa úr bloggi mínu á dögunum um það að Hálslón kæmi af stað skjálftum og kvikuhreyfingum við Upptyppinga, - daglega hafa verið fréttir um vandræði vegna lögleysu sem erlendir starfsmenn við Kárahjúka hafa verið beittir, - daglegar fréttir hafa verið af því hvernig kostnaður við Kárahnjúkavirkjun fer sífellt meira fram úr áætlun og verkið tefst meira og meira.

Þeir sem kvarta yfir "þráhyggjunni" sem birtist í þessu gera það vegna þess að þeim er illa við að upplýst sé um gang þessara mála, - þessi veruleiki er óþægilegur fyrir þá, sá veruleiki að stefnt er að því að fórna ómælanlegum náttúruverðmætum landsins fyrir þessi tólf fyrirtæki sem bíða eftir því að nær allri virkjanlegri orku landsins verði sóað á tiltölulega stuttum tíma. 

Það er sá veruleiki sem smám saman birtist varðandi það að Kárahnjúkavirkjun verður byrði á kynslóðum framtíðarinnar og að 130 milljörðum króna hefði verið betur varið í annað.

Ég vitna í svar mitt hér að neðan við athugasemdum um það hvort við sem andæfum gætum ekki hófs. 

Það sem hefur áunnist á því ári sem liðið er frá Jökulsárgöngunni er það að smám saman er að varpast á það ljós hvernig í pottinn er búið í virkjana- og orkumálum.

Í stað þess að þeir sem hafa yfirburðastöðu í þjóðfélaginu hvað varðar völd, áhrif og fjármagn til þess að keyra virkjanafíknina í botni geti ráðið því hvað fólk veit eða talar um hefur verið haldið á lofti eins mikilli upplýsingagjöf og umræðu um þessi mál og vanburða samtök náttúruverndar- og umhverfisverndarfólks hafa getað staðið að.

Tilviljanir ráða oft um hlutina. Í veðri eins og var í gærkvöldi hefði að öllum líkindum færra fólk farið í gönguna miklu en var í blíðunni fyrir réttu ári.

Á hinn bóginn hefði gangan fengið meiri athygli og umfjöllun á sínum tíma ef ekki hefði viljað svo til að sama dag var það endanlega tilkynnt að varnarliðið færi af landi brott og í dag var a. m. k. einn fjölmiðill með frétt í tilefni af þessu ársafmæli brottfararinnar.

Framundan er hörð barátta og erfið því að liðsmunurinn er mikill. Framtíðarlandið ætlar einmitt að fjalla um eina hlið þess máls á fundi á morgun, þá staðreynd að Íslendingar hafa einir þjóða í þessum heimshluta ekki staðfest Árósasamkomulagið um stuðning við þá sem þurfa að heyja kostnaðarsama baráttu til að verjast ofurefli valda og fjármagns þeirra sem keyra áfram stóriðjustefnuna.

Það er af nógu að taka í þessum málum og umhverfismálin verða ekki þögguð niður þótt margir eigi þá ósk heitasta að það verði gert.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég sá nú ekki í frétt dóttur þinnar um skjálftana við Upptyppinga að það væri staðfest og sannað að þeir væru af völdum fyllingar Hálslóns. En gott og vel, segjum að þeir séu vegna Hálslóns, hvað sannar það? Að framkvæmdin hafi verið mistök?

Og með kostnaðinn sem þú segir að rjúki upp og þú nefnir 130 miljarða. Er það uppreiknuð fjárhæð hjá þér, eða er það krónutalan í dag? Mér finnst vera stutt síðan að talsmenn LV segðu að allt væri innan áætlaðra marka. Eru þeir að ljúga?

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.9.2007 kl. 02:21

2 Smámynd: Jóhannes Einarsson

Þráhyggjan liggur í hausnum á þeim sem geta ekki um annað hugsað en hvar megi koma græðgis krumlum okkar mannanna að með tól og tæki til að sjúga orku og auð úr móðir jörð með sóðaskap og stórskemmdum á nátturu og lífríki. Næst er það Hatton Rockall. Hvað getum við græðgisvætt okkur mikið á því að fá yfirráð yfir hafsbotninum þar og öllu sem á honum og undir þrífst?

Haltu áfram Ómar. Þú ert frábær. 

Jóhannes Einarsson, 27.9.2007 kl. 10:46

3 Smámynd: Sævar Helgason

Til hamingju með einsárs afmæli Jökulsárgöngunnar miklu. Það er enginn vafi á að á þeim púnkti urðu straumhvörf. Óheftur æðibunugangur í virkjanamálum var í raun stöðvaður.

Forystuöflin eru orðin þess mjög meðvituð að vanda þarf betur til verka . Núverandi stjórnvöld hafa nú sett í gang greinigarferli á því sem æskilegt er að vernda og hinu sem sátt myndi verða um nýtingu..því auðvitað verðum við að nýa orkulindinar okkar.

Það er svona byrjunin. 

Er þetta ekki allnokkur árangur svona í fyrstu lotu . Menn hafa komist á spjöld sögunnar fyrir minna en þú hefur afrekað með baráttu þinni í þágu náttúru 'Islands

Sævar Helgason, 27.9.2007 kl. 11:09

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Græðgisvæðing" er einnota nýyrði sem dettur út þegar harðnar á dalnum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.9.2007 kl. 11:28

5 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Fundurinn um Árósasamninginn er í dag, fimmtudag.  Þáverandi umhverfisráðherra undirritaði hann í júní árið 1998.  Það hefur síðan verið hummað fram af sér að fullgilda hann.

Pétur Þorleifsson , 27.9.2007 kl. 11:52

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eg þakka hlý orð. Við sem andæfum erum alltaf sökuð um óhóflegar kröfur. Það er sama aðferðin sem notuð er við okkur og notuð var í ævintýrinu um ostbitann þar sem sífellt var byrjað upp á nýtt við að skipta bitanum þar til ekkert var eftir og annar aðilinn fékk ekki neitt. Við sjáum fram á að þannig fari að lokum fyrir okkur.

Að mínum dómi er útilokað að virkja í Gjástykki og við Leirhnjúk án einhverra mestu náttúruspjalla sem hægt er að framkvæma á Íslandi. Ein jarðýta sem ryður sér braut í gegnum hraun veldur óafturkræfum spjöllum.

Ég hef reynt að lýsa gildi þessa svæðis lítillega í blaðagreinum. Af hverju þurfti að flýta rannsóknarborunum á þessu svæði í þrjú ár frá því sem áður var ætlunin?

Af hverju er ekki nóg í bili að taka fyrir Bjarnarflag og Kröflu og bíða eftir árangri djúpborana þar? Við, sem sökuð erum um að vera með öfgar og óhóf vitum að þjóðin á eftir að vakna upp við vondan draum þegar allt svæðið austan Mývatns verður reyrt í kerfi af borholum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum og köngullóarvef háspennulína.

Ég óttast frekar að við munum verða sökuð um lindkind að hafa ekki lyft litla fingri gegn því hvernig menn ætla að ganga þarna um.

Landsnet fær öllum kröfum sínum fullnægt þessa dagana. Þeir fá að leggja háspennulínu-köngurlóarvef sinn þvert yfir sérstætt sprungusvæði og hraun vestan við Þeystareyki í stað þess að fara aðeins 1,3 km lengri leið.

Þeir fengu að leggja háspennulínu beint yfir fallegt hverasvæði á Ölkelduhálsi og munu væntanlega fá að ganga í það sjálft í framhaldinu án þess að menn hafi hreyft við hönd eða fót.

Á sínum tíma lá umhverfisverndarfólk sem lamað  og útkeyrt eftir Eyjabakkabaráttuna og af því að Neðri-Þjórsá var ekki ofarlega í forgangsröðinni gengu þær fyrirætlanir fram nokkurn veginn mótspyrnulaust. 

Með sama áframhaldi verður allur ostbitinn að lokum étinn og við öfgafólkið sitjum þá eftir með öfgastimpilinn en þeir sem stefna að því að leggja alla virkjanlega orku Íslands til erlendra stóriðjuvera munu áfram kalla sig hófsemdarfólk.

Ég segi þetta ekki vegna þess að það sé keppikefli mitt að fara fram með offorsi eða óhófi heldur vegna þess að andæfa þarf hinu raunverulega offorsi og óhófi hjá virkjanafíklunum.  

Ómar Ragnarsson, 27.9.2007 kl. 15:00

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar núverandi vegur var lagður yfir Hellisheiði laust eftir 1970, þá heyrðust háværar raddir frá umhverfisverndarfólki um að það væri verið að eyðileggja hið einstæða Svínahraun. Þegar útitaflið var byggt og umhverfið fyrir neðan Bernhöftstorfuna var lagfært, heyrðust háværar raddir um hvílík eyðilegging það væri að raska gömlu Bakarabrekkunni. Þegar Höfðabakkabrúin var byggð heyrðust háværar raddir um eyðileggingu á lífríki Elliðaárdalsins. Þegar hús Hæstaréttar var byggt þá átti nærvera þess við Safnahúsið að skemma það. Þegar Ráðhúsið var byggt við Tjörnina þá átti það að eyðileggja Tjörnina og endurnar áttu að hverfa að mestu.

Ef Seltjarnarnesið sem Reykjavík stendur á væri óbyggt, þá mætti örugglega engu raska þar vegna ómetanlegrar strandlengju og fuglalífs. Fólk verður þreytt á svona gargi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.9.2007 kl. 16:41

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef voðalega gaman að því að vera úti í ósnortinni náttúrunni innan um fugla og dýralíf. Ég er ekkert hræddur um að við séum að verða uppiskroppa með það.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.9.2007 kl. 16:44

9 Smámynd: Sævar Helgason

Ágæti Gunnar Th.

Það verður alltaf til fólk sem í engu vill breyta í ríkjandi ástandi.  Ef þeirra sjónarmið hefðu ávallt náð fram að ganga ..værum við enn nakin þ.e þau  okkar sem sem lifað hefðu það af.

En hugmyndir um hvað má betur fara mannfólkinu til heilla ...það er nauðsynlegt að ræða þær og komast að skynsamlegri niðurstöðu.

Sjálfur tók ég ríkan þátt í síldarævintýrinu á Austfjörðum á árunum 1961-1967 , fyrst og fremst við byggingingu og rekstur síldarverksmiðja á fjörðunum frá Breiðdalsvík til og með Seyðisfjarðar. Þetta voru miklir uppgangstímar og fiskifræðin á þeim tima fullyrti að svo gæti orðið allt fram á árin 1977-78 . Allt þetta ævintýri hrundi nánast á nokkrum vikum árið 1967.

Reynslan sýndi að fræðimennskan var til lítils ...atvinnulíf Austfirðinga og raunar landsins alls hrundi. Það sem verst var að Austfirðingar höfðu í reynd afar lítið upp úr þessu síldarævintýri...aðrir áttu gróðamaskínurnar. 

Þó stóðu nokkrir aðila upp út;  hann Alli ríki á Eskifirði og svo "kommarnir" á Norðfirði 

Hvað má læra af þessu ?

Ég er í raun alveg sammála því sem ráðist var í á Austfjörðum með því að setja stóriðju sem fastan og stöðugan punkt til auknigar á stöðugleika á Austfjörðum .

Það sem ég hef miklar efasemdir um er að allur sá flumbrugangur og óðagot sem Kárahnjúkaverkefnið virðist vera , hafi verið í raun heilla spor... frekar en síldveiðidæmið sem ég tiundaði hér  að framan  . Ég er þeirrar skoðunnar , í ljósi minnar reynslu, að alltof geist hafi verið farið og fyrirhygggja lítil sem minnir mig mjög á gullgrafarastemmningu síldaráranna.

En Gunnar Th., mér þykir vænt um Austfirði og fólkið þar og vænti þess að þrátt fyrir allt séu heillaríkir tímar framundan hjá ykkur

Sævar Helgason, 27.9.2007 kl. 18:22

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir vinsamleg orð Sævar.

Ef það kemur á daginn að allt sem Ómar hefur látið hafa eftir sér í sambandi við Kárahnjúka, er satt og rétt, þá náttúrulega var þetta tóm vitleysa en því miður þá hefur Ómar andskotast í þessu með fullyrðingum sem eru í besta falli getgátur og jafnvel óskhyggja. Ég er sannfærður um að framkvæmdin sé í raun stórkostlegt afrek og að þetta verði Austfirðingum og þjóðinni allri til góðs en andstæðingar framkvæmdarinnar hafa ekki gefist upp á að gera hana tortryggilega í augum almennings, í pólitískum tilgangi.

Og varðandi Alla ríka, þá held ég að hans stönduga fyrirtæki eigi loðnuvertíðum undanfarna tvo áratugi velgengninni að þakka en ekki síldarárunum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.9.2007 kl. 18:33

11 Smámynd: Baldvin Jónsson

Gunnar, þú sakar Ómar ítrekað um rökleysu en á sama tíma ertu að nota þau rök ítrekað sjálfur.  Hérna að ofan nefnirðu "umhverfisfólk" eins og einhvern samnefnara fyrir ákveðna tegund fólks.  Það er mikill misskilningur.  Það er hins vegar það sem yfirvöld hverju sinni vilja að þú trúir.

Mótmælendur við Hellisheiðar framkvæmdum, Taflgerð, Höfðabakkabrúar eiga vísast lítið sameiginlegt annað en að vera að berjast gegn einhverri framkvæmd og vera umhugað um umhverfi sitt.  Oft eru einu rökin umhverfisleg eða sjónræn eins og t.d. í tilfelli taflsins við Bernhöftstorfuna.

Rökin sem búið er að tefla fram varðandi Kárahnjúka geta seint talist "aðeins" umhverfisleg eða sjónræn, þó að hvort tveggja spili stórt hlutverk.

Rökin hafa líka verið á framlegðarforsendum. Þ.e. er verkið arðbært og væri orkunni betur varið á annan máta til betri nýtingar fyrir samfélagið.

Rökin hafa verið jarðfræðileg. Þ.e. að verið sé að byggja á verulega vafasömum stað út frá jarðfræði forsendum, að byggingin skapi líklega mjög aukna skjálftavirkni (sem síðan hefur komið á daginn að virðist).

Rökin hafa verið náttúruleg. Þ.e. að verið sé að valda gríðarlegum óafturkræfum spjöllum fyrir ekki lengri nýtingu virkjunar en til 43-67 ára (skv. ummælum bæði fyrrum háskóla rektors sem starfar sem ráðgjafi fyrir LV, og nýlegum ummælum í fjölmiðlum).  Að gríðarlegar sveiflur á lónhæð muni valda mjög auknu efnisfoki á hálendinu sem síðan vald enn frekari skaða á lífríki en aðeins staðsetning lónsins.

Rökin hafa komið úr mörgum áttum, frá mörgum hópum.

Ég er orðinn þreyttur á því að vera sífellt flokkaður af yfirlýsingaglöðum vanvitum sem "einn af þessum -sinnum".  Ég byggi óánægju mína með framkvæmd lýðræðisins á Íslandi á m.a. rökum og samanbi-urði við framkvæmd lýðræðisins í nágrannalöndunum.

Eru ALLIR "bara -sinnar" sem samþykkja ekki alla delluna í t.d. Birni Bjarnasyni?

Baldvin Jónsson, 27.9.2007 kl. 20:37

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Baldvin, hvað átti ég að kalla fólkið sem mótmælti á umhverfislegum forsendum útfærslunni á veginum yfir Hellisheiði? Mótmælendur? Eða er það orðið að skammaryrði? Þú mátt velja þessu fólki nafn sjálfur. Annars kallaði ég hina "mótmælendurnar" "háværar raddir", af tillitssemi við þá.

Annars eru öll þau rök margrædd sem þú telur upp nema rökin um yfirlýsingaglöðu vanvitana. Man ekki eftir að það hafi verið rætt af neinu viti og ég læt þér það eftir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.9.2007 kl. 22:31

13 Smámynd: Baldvin Jónsson

Satt er það að rökin eru margrædd, öll sú umræða hefur hins vegar ekki rakið neitt af þeim ennþá, í besta falli bara náð að breyða aðeins yfir.

Nefndi engin rök "yfirlýsingaglöðu vanvitana". Nefndi hins vegar yfirlýsingaglöðu vanvitana á nafn og ætlaði það engum sérstökum, þeir/þær taka það til sín sem eiga.  Meiningin var sem sagt sú að ekki væri rétt að sí og æ draga fólk í dilka.  Fólk sem er ósammála hinu og þessu á líðandi stundu koma úr ýmsum áttum og það er gott til þess að vita.

Gott að sjá og finna að enn er til fólk sem er tilbúið að standa upp og láta til sín taka á vettvangi sem það trúir á, þurfa ekki endilega allir að vera sammála.  Umræðan snýst ekki um t.d. atvinnutækifæri á landinu öllu.  Umræðan hefur eingöngu snúist um álatvinnutækifæri á landinu.  Eru ekki til tugir eða hundruðir annarra hugmynda til nýtingar á orkunni til atvinnusköpunar. Margar hverjar hafa verið nefndar og flestar virðast þær skapa meiri tekjur en álið.

Var ein snilldar lína einmitt sem kom frá ungum meðlimum Íslandshreyfingarinnar fyrir kosningarnar í vor - "Meira fyrir Kál en ál" eða eitthvað svoleiðis.  Voru þar að vitna til gamalla upplýsinga þar sem sýnt var fram á að það sköpuðust mun meiri tekjur fyrir samfélagið allt og mun fleiri störf við það að selja grænmetisbændum orkuna á sama verði og verið væri að bjóða orkuna til stóriðjunnar.

"Við" erum ekki á móti öllu bara til að vera á móti.  "Þið" megið trúa því að þessi umræða af okkar hálfu er að vel ígrunduðu máli.

Baldvin Jónsson, 27.9.2007 kl. 22:58

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar segir að flest af því sem ég hef frá upphafi fundið Kárahnjúkavirkjun til foráttu hafi verið rökleysa eða byggt á óskhyggju.

Ég átti tal við háttsettan bankamann fyrir þremur árum um það hvort ekki hefði verið hyggilegra að reikna með einu ári lengri framkvæmdatíma og svar hans var einfalt: Það hefði ekki verið hægt því að þá hefði umframkostnaðurinn orðið svo miklu meiri að ekki hefði verið hægt að fara út í virkjunina.

Halldór Ásgrímsson sagði í upphafi að tilboð norrænu verktakafyrirtækjanna hefðu verið svo há að ekki hefði verið farið út í virkjunina ef þau ein hefðu boðið í.

Það er dálítið langt seilst að kenna óskhyggju minni um það að virkjunin stefnir nú í hátt í árs seinkun þrátt fyrir sífellda viðleitni í meira en tvö ár til að breiða yfir það - heldur ekki óskhyggja mín sem hefur nú leitt í ljós að það var rangt sem haldið var ákaft fram í sumar að skjálftarnir við Upptyppinga tengust Kárahnjúkasvæðinu á engan hátt.

Blaðið hafði svo mikið við til að sýna þetta að á kort færði blaðið Kárahnjúka og Snæfell 40 kílómetra í austurátt svo að Kárahnjúkar lentu ekki inni á skjálftasvæðinu! Er ekki nær að kalla slíkt óskhyggju?

Það var ekki óskhyggja mín að 80 prósent vinnuafls við virkjunina yrði útlendingar í stað þess sem haldið var fram í fyrstu að 80 prósent vinnuaflsins yrði Íslendingar.

Þannig mætti halda áfram og fleira mun koma í ljós sem ekki verður hægt að kenna óskhyggju minni um.

Ómar Ragnarsson, 27.9.2007 kl. 23:53

15 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég óska Ómari og öllum göngufélögum hans til hamingju með daginn. Á þessu ári hefur mikið áunnist í baráttunni gegn eyðileggingaröflunum. En betur má ef duga skal. Haltu ótrauður áfram Ómar því að mikill fjöldi fólks gengur með þér nú sem fyrr.

Sigurður Hrellir, 27.9.2007 kl. 23:57

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ómar, þegar útboðið á framkvæmdum við Kárahnjúka var kynnt þá var það miðað við ákveðinn tímaramma sem verktakinn gekk að. Verkinu hefur nú seinkað um 5 mánuði og áætlað í dag að seinkunin verði 7 mánuðir en ekki ár (óskhyggja?)

Ég játa það að ég veit ekki nákvæmlega hver ábyrgð verktakans er á því að standa við tímaáætlunina, hvort viðauki hafi verið á útboðslýsingunni um óvissuþætti varðandi bergið í aðrennslisgöngunum, hver ábyrgð verktakans er og hver ábyrgð  Landsvirkjunar er. Ég á ekki von á því að LV borgi allan kostnaðinn við þá seinkunn en í samningi LV við Alcoa er kveðið á um skaðabætur vegna hugsanlegrar seinkunnar á afhendingu orkunnar. Alcoa hefur sýnt langlundargeð enn sem komið er og því ber að fagna.

Ummæli Halldórs Ágrímssonar eru eðlileg.

Skjálftarnir við Upptyppinga, hverju breyta þeir? (miklu? óskhyggja?) Auk þess heyrðust efasemdarraddir meðal virtra vísindamanna í sumar um tengslin við Kárahnjúka en enginn sagði samt af eða á með það. Hins vegar fullyrtu þeir að þó eldgos yrði þarna þá hefði það í engu áhrif á virkjunina, til þess væri fjarlægðin of mikil. Dóttir þín tók málið upp í fréttatíma Stöðvar 2 en hún fann engan vísindamann sem staðfesti það að um tengsl væri að ræða en bent var á athyglisverða samsvörun milli fyllingar lónsins og smáskjálfta.

Ég hef áður bent þér á að það er víðar en við Kárahnjúka erfitt að manna störf með íslensku vinnuafli. Þannig er bara ástandið í þjóðfélaginu í dag. Frekar vildi ég hafa það þannig en að hafa hér atvinnuleysi. Það eru ekki mörg ár síðan Bubbi vinur þinn hélt tónleika í Borgarleikhúsinu sem báru yfirskriftina "Atvinnuleysi, komið til að fara"

Röksemdir þínar halda ekki vatni Ómar, ólíkt Kárahnjúkastíflu, þrátt fyrir hrakspár og óskhyggju.

Ef önnur erlend fyrirtæki eru tilbúin að kaupa orku af Landsvirkjun fyrir hærra verð en álfyrirtækin, hvers vegna í ósköpunum ætti þá Landsvirkjun ekki að vilja selja þeim orkuna? Haldið þið að það sé eithvert sérstakt keppikefli hjá Landsvirkjunarmönnum að framleiða BARA rafmagn fyrir álverksmiðjur? Ef komið verður með viðskiptaplan til Landsvirkjunarmanna um veruleg orkukaup á háu verði, þá get ég lofað ykkur því að það verður skoðað með opnum huga.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.9.2007 kl. 02:04

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fróðlegur pistill fyrir "hrakspárfólk" : http://sz.blog.is/blog/sz/entry/242930/#comments

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.9.2007 kl. 02:46

18 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hún er meira en lítið athyglisverð samsvörunin milli fyllingar Hálslóns og jarðskjálftanna við Upptyppinga djúpt í jörðu 20 kílómetrum frá.  Páll Einarsson jarðfræðingur benti á þetta í viðtalsþætti Sigurðar G. Tómassonar á Útvarpisögu á mánudaginn var.  Þátturinn verður endurtekinn um helgina.

Pétur Þorleifsson , 28.9.2007 kl. 08:55

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get upplýst að í útboðslýsingu er að finna skilyrði sem Landsvirkjun ábyrgist upp á alls um 1100 blaðsíður og þar vegur lýsing á aðstæðum þungt. 

Landsvirkjun ákvað að sleppa því að rannsaka misgengisbeltið sem sést úr lofti á þeim forsemdum að það "þyrfti að fara þar í gegn hvort eð er." Töfin þar vegur langþyngst og þar hefur Impregilo öll tromp á hendi, - þeir fengu ekkert að vita um þetta misgengisbelti.

Allur kostnaður af þessu hlýtur því að lenda á Landsvirkjun og ég á eftir að sjá að Impregio sleppi LV úr snörunni. Ítalirnir hafa á skipa þaulvönum lögfræðingum á við það besta sem gerist í heiminum.  

Ómar Ragnarsson, 28.9.2007 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband