VÖNDUM OKKUR GAGNVART ÞINGVALLAVATNI.

Sú meginregla í umhverfismálum var tekin upp á Ríó-ráðstefnunni 1992 að þegar vafi léki á um umhverfisáhrif framkvæmda ætti náttúran að njóta vafans. Fimmtán árum síðar virðist það sjaldgæft að þetta gildi hér á landi. Álit fremstu sérfræðinga um Þingvallavatn hringir Ríó-bjöllum hjá mér og mér finnst að horfa eigi aðeins lengra fram í tímann, þó ekki sé nema örfá ár, áður en farið er út í gerð hraðbrautar úr austurhátt inn í þjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO. 

Talað er um hagsmuni tveggja eða þriggja skólabarna sem eigi að valta yfir náttúruverndarsjónarmið sem varða eina heimsminjasvæðið á Íslandi.

Mín tillaga er þessi: Föllum frá gerð þessa vegar og endurbætum Kóngsveginn gamla heldur hæfilega mikið.  Hægt er að hækka hann lítillega á þeim stuttu köflum sem snjór sest í á vetrum svo að hægt sé að halda honum opnum allt árið án þess að þar verði um þunga hraðkeyrslu i gegn að ræða.

Útsýnið af þessum vegi er miklu betra en af hinum nýja vegi.

Hröðum framkvæmdum við tvöföldun Suðurlandsvegar og notum féð sem hefði farið í nýjan veg um norðanverða Lyngdalsheiði til gerðar 2 - 1 vegar frá Selfossi í Grímsnes.

Skólabörnin munu áfram komast stystu leið í skólann, hæfilega hröð ferðamannaleið verða árið um kring eftir Kóngsveginum og hröð, greið og örugg umferð tryggð frá uppsveitum Árnessýslu til Reykjavíkur.

Látum Þingvallavatn njóta vafans og skilum því til kynslóða framtíðarinnar með öryggi og sóma.   


mbl.is Beiðni um endurupptöku kærumáls vegna Gjábakkavegar synjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Mig minnir, Ómar, að Sif Friðleifsdóttir hafi notað þetta sem slagorð í sinni kosninga barátta áður en hún var gerða að umhverfisráðherra, að náttúran fengi að njóta vafans. Aldrei held ég að náttúran hafi fengið að kynnast því eins vel hvar Davíð keypti ölið eins og í tíð hennar á náttúruvaktinni. Svo það er eins og öfugmæli í mínum eyrum þegar talað er um að náttúran eigi að njóta vafans hér á landi.

Það er svolítið skrítið að upplifa það að verndun er annars flokks framkvæmd en mannvirkjagerð fyrsta flokks framkvæmd eins og raun varð með Kringilsárrana, þar sem hægt var að létta af friðlýsingu til að hægt væri að eyðileggja hluta ranans.

Við verðum bara að vona að þessi fyrirhugaði nýi vegur milli Þingvalla og Laugarvatns verði stöðvaður svo að landið verði ekki endalaust prikað út fyrir nýjum og nýjum vegi.

Við vitum allt of vel að bíllinn hefur forgang hér á landi, og því er það alveg rökrétt að leggja nýjan veg yfir Gjábakkaheiði fyrir tvö börn til að komast í skóla.

Á sama tíma er maður að heyra um að fyrir vestan er verið að reyna að fá fólk til að flytja úr Ísafjarðardjúpi vegna þess að það er svo dýrt að halda gangandi skólaakstri yfir í Hólmavík fyrir þau börn sem í Djúpinu búa

Brynjar Hólm Bjarnason, 28.9.2007 kl. 21:34

2 Smámynd: Sævar Helgason

Þegar Jónína Bjartmarz, fv. umhverfisráðherra  samþykkti þessa vegagerð þarna , þá lá fyrir að allir helstu vatnalíffræðingar landsins lögðust eindregið gegn þessari vegalagningu vegna mikillar mengunarhættu fyrir Þingvallavatn. Þrátt fyrir það veitti hún leyfið með þeim orðum að fylgjast yrði með áhrifum vegarins á lífríki vatnsins.. , en hvað á síðan að gera reynist þessi mengunahætta á fullum rökum reist...á þá að loka veginum og rífa hann ? Og verður það ekki um seinan ?

Nú eru miklar líkur á að höfuðborgarsvæðið komi til með að nota Þingvallavatn  fyrir neysluvatnforðabúr innan ekki svo langs tíma. Verður vatnið þá orðið mengað um of ?

Þarf ekki að endurskoða þessa ákvörðun ? 

Sævar Helgason, 28.9.2007 kl. 21:51

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Aðeins nánara varðandi skólabörnin. Auðvitað eiga öll skólabörn á landinu sinn rétt og ef svo færi að menn teldu það takmarkað hvað mætti hækka ákveðna kafla á Kóngsveginum vegna þess að hann er merkilegt sögulegt fyrirbæri, þá mætti hugsa sér að skólabílinn sem flytti þessi börn væri jöklajeppi sem kæmist þessa leið í nánast hvaða veðri sem væri. 

Þessi leið er nefnilega farin á slíkum jeppum allan veturinn og ég hef kynnst vestari hluta leiðarinnar á öllum árstímum.

Kostnaður vegna þessa eru hreinir smáaurar miðað við verðmæti Þingvallavatns, vatnasviðs þess og verðmæti þjóðarðsins.

Ómar Ragnarsson, 29.9.2007 kl. 00:20

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef náttúran ætti alltaf að njóta vafans gagnvart mannanna verkum, þá yrði lítið um framkvæmdir. Það er aldrei skortur á mótmælendum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.9.2007 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband