RAGNAR REYKÁS BLÓMSTRAR.

Margt er athyglisvert við skoðanakannanir. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti því skemmtilega í viðtali við Jónas Jónasson hvernig yfir 70 prósent þjóðarinnar hefði á sínum tíma lýst sig á móti kvótakerfinu en samt kaus yfirgnæfandi meirihluti kjósenda þá flokka sem stóðu að þessu sama kerfi og meira en 70 prósent sjómanna og fiskvinnslufólks kaus þá flokka. 

Sjórnmálaflokkarnir guma mikið af lýðræðisást og mikið er talað um að gera lýðræðið beinna, þ. e. að kosið sé sérstaklega um mikilsverðustu og einföldustu málin. Samt felldi meira en 80% þingmanna tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um stærsta mál þess tíma, Kárahnjúkavirkjun. Ekki er að sjá að þessi ríkisstjórn muni setja þjóðaratkvæðagreiðslur og beint lýðræði á oddinn.

Sú var tíðin að yfirgnæfandi meirihluti í skoðanakönnunum vildi láta auka opinbera þjónustu en jafn yfirgnæfandi meirihluti vildi láta minnka útgjöld til þeirra mála.

Í vor vildi 59% þjóðarinnar stóriðjustopp í fimm ár en samt blasir við að stóriðjuáformin eru á blússandi siglingu.  

Frjálslyndi flokkurinn mælist nú með 4,4% fylgi sem nægir flokknum ekki til að koma manni á þing þótt þetta ætti að vera ríflegt til að koma tveimur mönnum á þing ef ekki væri hið ósanngjarna skilyrði um 5% fylgi.

Í þessari skoðanakönnun er ekki gefið upp hve mikið fylgi flokksins er núna í einstökum kjördæmum en ljóst er að hann þyrfti 12 prósent í norðvesturkjördæmi til þess að koma inn manni þar.  

Á sama tíma og þessi miklu hærri þröskuldur er settur hér en í næstu löndum er gumað af lýðræðislegum kosningareglum.

Það gæti alveg orðið inni í myndinni að tvö framboð með alls um 9% prósent atkvæða fengju engan mann kjörinn þótt fylgið ætti að nægja fyrir sex þingmenn ef fyrrnefndur þröskuldur væri ekki fyrir hendi. 

Og ætli það sé ekki rétt að enda þetta eins og Ragnar Reykás: Ma..ma...ma...maður bara áttar sig ekki á þessu! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Eitt sló mig sérstaklega við lestur Fréttablaðsins þar sem þessi könnun er birt. Íslandshreyfingin er ekki nefnd. Mældist hún ekki í könnuninni?

Magnús Þór Hafsteinsson, 1.10.2007 kl. 13:33

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Seint verður hægt að segja að fjölmiðlar hafi sýnt Íslandshreyfingunni sanngirni í umfjöllunum sínum. Dæmi:

1. Staksteinar Moggans hömuðust á Ómari og félögum síðustu 3 dagana fyrir kosningar og reyndu að gera lítið úr ýmsum stefnumálum þeirra, t.d. í fiskveiðistjórnun og ES-viðræðum. Við hvað voru þeir hræddir?

2. Stöð 2 fór af stað með kosningafundi löngu áður en framboðsfrestur var útrunninn og neitaði Íslandshreyfingunni að taka þátt í upphafi vegna þess að framboðslistar lágu ekki fyrir. Þeir létu þá ósanngirni eftir fulltrúum hinna flokkanna.

3. Krónikan birti grein þar sem reynt var að sýna fram á að ný framboð væru fyrirfram dauðadæmd. Líklega var þar eigin grafskrift á ferð.

4. Ríkissjónvarpið birti nafnlausa árás á Ómar 2 dögum fyrir kosningar þar sem hann var ásakaður um umhverfisspjöll. Það hefði þótt saga til næsta bæjar ef sambærilegur áburður á Geir Haarde eða Ingibjörgu Sólrúnu hefði hlotið náð fyrir augum fréttastjórans.

Þess vegna kemur það ekki á óvart að Fréttablaðið láti eins og Íslandshreyfingin sé ekki til. Þeir voru líka ófeimnir að benda lesendum sínum á að atkvæði greidd Íslandshreyfingunni gætu misst marks. Magnús Þór ætti frekar að hafa áhyggjur af því hvað "Frjálslyndir" koma illa út úr þessari könnun. Hugsanlega ættu þeir að leggja fram frumvarp til að afnema 5% regluna svo að þeir lendi ekki utanþings næst þegar verður kosið.

Sigurður Hrellir, 1.10.2007 kl. 15:05

3 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Ég læt nú ekki svona kannanir slá mig út af laginu. Hef séð það svartara. Frjálslyndi flokkurinn var að mælast svipað haustið 2003, nokkrum mánuðum eftir kosningar. Skil ekki þessar kvartanir yfir fjölmiðlum. Fá eða engin ný framboð í Íslandssögunni hafa fengið jafn góða og jákvæða kynningu í fjölmiðlum og "hreyfingin" sem kenndi sig við Ísland. Hvenær gangið þið til kosninga í helstu embætti innan félagsins?

Magnús Þór Hafsteinsson, 1.10.2007 kl. 18:02

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það hafa áður komið fréttir af skoðanakönnunum þar sem ekki var getið um hlutfall Íslandshreyfingarinnar í fyrstu frásögn en síðar kom fram að rúmt eitt prósent hefði nefnt hana. Í fyrri frásögni blaðsins hafði þessu einfaldlega verið sleppt. 

Sé svipað uppi á teningnum nú hefur stærri hópur kjósenda farið frá Frjálslyndum en Íslandshreyfingunni.

Eins og Magnús hef ég séð það svart áður. Íslandshreyfingin fór niður fyrir tvö prósent á þeim tíma þegar hræðsluáróðurinn um ónýt atkvæði var hvað beittastur.

Á ferðum mínum víða eftir kosningar hafa fjölmargir tekið mig tali af fyrra bragði um kosningarnar og af þeim viðtölum get ég ekki ráðið annað en að við hefðum fengið mun meira fylgi ef þessi hræðsluáróður hefði ekki verið fyrir hendi.

Hann er í fullu gildi áfram og það hefur skipt miklu máli hvað varðar skoðanakannanir að Íslandshreyfingin var svipt því að fá þingmannatölu í samræmi við fylgi sitt.

Það er hefð fyrir því í fjölmðlun að starfandi þingflokkar fái athygli og aðgang.  

Í spurningunum í skoðanakönnunum er spurt:  "Hvaða flokk myndir þú kjósa ef kosið væri nú". 

Þetta er leiðandi spurning að því leyti að í huga fólks koma þeir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi. 

Stjórn Íslandshreyfingarinnar sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla eftir kosningarnar þar sem þess var getið flokkurinn myndi halda áfram vakandi starfsemi.

Fjölmiðlarnir stungu þessu undir stól.

Annars er ég ekki mikið að kippa mér upp við mikla eða litla umfjöllun fjölmiðla. Ég veit að fyrrum kollegar okkar Magnúsar Þórs reyna sitt besta. 

Ég veit eftir að hafa verið þeim megin við borðið hve erfitt er fyrir litla flokka að fá athygli, að maður nú ekki tali um flokka sem ekki eiga kjörna fulltrúa.

Mér er í fersku minni óánægja Ólafs F. Magnússonar með það hve sjaldan var leitað eftir áliti hans í borgarmálefnum.  

Ég legg til að við beinum sjónum okkar frá einstökum framboðum að þeirri staðreynd hvað það getur þýtt að hafa fylgisþröskuldinn svona háan. Auðvitað eiga Frjálslyndir eða aðrir litlir flokkar ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því þótt fylgi í skoðanakönnunum rokki upp og niður í kringum fimm prósentin.

Á Norðurlöndum er þröskuldurinn helmingi lægri. Fyrirmyndin hér er kannski reglan í Þýskalandi sem er miðuð við það að hamla gegn því að nýnasistar komi mönnum á þing!

Ómar Ragnarsson, 1.10.2007 kl. 18:55

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sé í sjónvarpsfréttum kvöldsins að ég hef átt kollgátuna: Fréttablaðið sleppti því að nefna Íslandshreyfinguna sem er á sama róli og verið hefur í sumar. 

Ómar Ragnarsson, 1.10.2007 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband