BAULAÐU NÚ, BÚKOLLA MÍN !

Gamall kúarektor frá Hvammi í Langadal um 1950 kippist við þegar rætt er um innrás sænskra kúa. Í Hvammi voru landnámshænur og íslenskir hestar drógu sláttuvélar og rakstrarvélar. Gildi hestanna miðaðist fyrst og fremst við afköst þeirra sem dráttardýra. Ekki er að efa að sænskir hestar hefðu verið afkastameiri og hagkvæmari en sem betur fer varð innrás dráttarvéla til þess að aldrei var í umræðunni að víkja íslenska hestinum til hliðar. 

1950 hefði engum dottið í hug að einstakir skapsmunir, lipurð og nægjusemi íslenska hestsins ætti eftir að skapa milljarða verðmæti. 

Næstum tókst að útrýma landnámshænunum á Íslandi á altari hagræðingar en sem betur var síðustu eintökunum bjargað.

Við útreikninga á gróðanum af sænsku kúnum er ekkert tillit tekið til þess mikla kostnaðar sem það hefur í för með sér að breyta fjósunum eða reisa ný. Ekkert er minnst á gæði mjólkur sænsku kúnna, bragð eða hollustuna sem læknavísindi hafa nú uppgötvað að felist í mjólk íslensku kúnna. Ekki reynt að setja verðmiða á þá möguleika sem slíkt gefur. 

Heldur er ekkert minnst í fréttum af þessu máli á lund sænsku kúnna og skapferli, hvernig er að fást við þær. Ef við værum að skipta út bílaflotanum myndi það skipta máli hvernig er að umgangast bílana.

Ekkert er minnst á það í fréttum af þessu máli hvort mjólk íslensku kúnna kunni ekki að verða milljarði verðmætari við það að vera kynnt og seld sem einstök hollustuafurð.

Líklegast eru sauðkindur í löndum sem eru hlýrri en Ísland stærri og afurðarmeiri en hinar íslensku. Nú er spáð hlýnandi veðurfari hér á landi þannig að hugsanlega má reikna 11% gróða út úr því að flytja inn skoskar, sænskar eða nýsjálenskar kindur. Er það kannski næst á dagskrá?  

Baulaðu nú, Búkolla mín, segi ég nú bara, - en af því að nútímafólkið á malbikinu skilur ekki baul þitt, skal ég reyna að baula fyrir þig í þessara bloggfærslu og tjá þér virðingu mína og þökk. 

Hvernig sem allt fer er vonandi að ekki fari fyrir íslensku kúnni eins og landnámshænunni, að hún lendi í útrýmingarhættu.  

Glaður skal ég borga 11 prósent hærra verð fyrir mjólkina úr hinni íslensku Búkollu en úr hinni sænsku Gilitrutt!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo er þetta gagnslaus innflutningur. Mín kenning er sú að yrði þetta framkvæmt. Sænskar kýr yrðu fluttar inn til landsins, þá þyrftum við ekki að bíða í nema nokkra áratugi 40 - 60 ár þegar Kýrin sænska er farin að mjólka jafn illa og sú íslenska því að eitthvað gerir það að verkum að Búkollan okkar mjólkar ekki eins vel og í öðrum löndum. Mjólkurmagn úr kúm fer mikið eftir líðan hennar og eins og gefur að skilja þá er kaldara hér nyrðra og hér er meira myrkur. Einhverstaðar heyrði ég að kýr mjólkuðu að jafnaði verr í skammdeginu heldur en á sumrin. Kýrnar éta jú ferskara og betra fæði á sumrin og eru mun minna úti yfir árið en gengur og gerist annarstaðar. Þetta hefur óneitanlega áhrif á líðan kúnna. Þannig að Noskir fósturvísar eða eitthvað svona innflutt dótarí væri með öllu gagnslaust.

spritti (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 22:37

2 identicon

Ég veit ekki hvort ég nenni að svara þér Ómar, en þú virðist alveg gleyma því að íslenska kýrin hlýtur að vera að uppruna skandínavísk - eða voru kýr hér þegar land var numið um síðustu aldamót?

 NEi.

Forsjálir bændur tóku með sér kýr, hesta og aðrar skepnur frá heimahögunum. Síðan liðu dagar og liðu ár... kynbætur urðu í Skandinavíu en ekki hér heima. Hér heima var nefnilega stuðst við kúastofninn sem fyrir var, hestana sem fyrir voru og féð sem kom með um aldamótin. Það er ansi erfitt að reka fé þvert yfir Atlantshaf, á sexæringinum.

Þessi fjósarök eru ein mesta vitleysa sem ég hef heyrt. Geta bændur ekki reiknað þetta sjálfir? Er eitthvað að því að leyfa einhverjum bændum að taka þá áhættu að sænska Búkolla sé það mikið verri og fari það mikið verr með ný fokdýr fjós að þeim sé bannað að prófa. Þeir fara þá bara á hausinn sjálfir, ef svo færi. Fyrirhyggja stjórnmálamanna og stjórnsemi er með öllu óþolandi.

Ef mjólkin er verri (sem ég reyndar útiloka ekki), þá er það enn einn áhættuþátturinn sem áhættusami bóndinn þarf að vega og meta til að lokum svara þeirri spurningu hvort það sé þorandi að taka slaginn. Ekki veit ég það, og ekki þú heldur. Markaðurinn svarar því, ef honum er leyft að gera það.

Varðandi myrkfældu búkollurnar hans Spritta, þá eru norskar og sænskar kýr einnig á býlum fyrir norðan nyrðri hvarfbaug (66° N) þar sem sama myrkur er og hér. Nákvæmlega sama, jafnvel enn meira.

Ég er mest hissa á sjálfum mér að nenna að svara ykkur. 

Þrándur (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 23:27

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég þakka þeim sem "nenna" að leggja orð í belg.

Hugsanlega fer þetta þannig að hér verða tvö kúakyn og að afurðirnar úr íslensku kúnni geti keppt á grundvelli þess að vera hollari og betri.

Hins vegar er markaðurinn hér heima svo lítill að hætt er við því að þeir sem stærri eru og sterkari og geta keypt og byggt yfir sænsku kýrnar muni valta yfir hina.  

Ómar Ragnarsson, 22.10.2007 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband