ÞREYTANDI UNGLINGADRYKKJA.

Fréttin í 24 stundum um þreytta skólastjóra vegna unglingadrykkju kemur mér ekki á óvart. Ég bý skammt frá einum helsta skemmtistað borgarinnar og það er ömurlegt að vakna upp á næturnar við það þegar ofurölvi unglingar undir lögaldri veltast um nágrenni staðarins og um hverfið í nágrenninu. Ég veit til þess að þeir hafi komist inn í stigaganga fjölbýlishúsa og ælt þar allt út. Nú síðast á nýársnótt töfðumst við hjónin, Helga og ég, fyrir utan blokkina sem við búum í, því að hópur unglinga fór hamförum í anddyrinu, kúgaðist og ældi fyrir utan blokkina og reyndi allt hvað hægt var að komast inn í stigaganginn.

Loks gáfust þeir upp og slöguðu á móti óveðrinu í austurátt. Ekki veit ég hve langa leið þeir ætluðu að fara en það vöknuðu áhyggjur um það hvernig þeim gengi í óveðrinu. Tók óratíma fyrir þá að komast aðeins 20 metra fyrir húshornið. Fyrst þá var óhætt að fara inn í anddyrið því að maður veit ekkert í hverju maður getur lent ef maður fer að skipta sér af hópi sem er í þessu ástandi. 

Fyrir nokkrum árum stálu unglingar bíl sem ég átti og fannst hann síðar ónýtur í Hafnarfirði. Lögreglan þar sagði að ekki væri rétt að tala um unglingavandamál heldur frekar foreldravandamál. Langoftast kæmu svona unglingar af heimilum þar sem foreldrarnir mættu ekkert vera að því að hugsa um afkomendur sína um helgar, því að "skyldudjammið" svonefnda vægi þyngra.

Í sumum tilfellum væri ekkert hægt að gera því að foreldrarnir stunduðu vinnu sína á virkum dögum á viðunandi hátt en þyrftu ævinlega að detta í það á föstudagskvöldum og síðan rynni ekki af þeim fyrr en í lok helgarinnar.

Mjög líklegt er að unglingarnir sem við sáum á nýjársnótt og voru langt undir lögaldri, hafi í raun ekki átt í nein hús að venda þessa nótt vegna þess ástands sem var á heimilum þeirra.

Þeir hafa ekki við neitt annað að vera um helgar en það sem þeir hafa leiðst út í. Ég segi bara eins og Jón Ársæll: Já, svona er Ísland í dag.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Svona lagað er lýsandi fyrir okkar þjóðfélag í dag. Foreldrar að vinna allt of mikið til að geta verið maður með mönnum í eyðslufylleríi. Mikilvægast í lífinu virðist vera að eiga flotta bíla, vera klæddur eftir nýjustu tískublöðunum, búa í flottri íbúð með nýjum húsgögnum og geta leyft sér að fara "út á lífið" um hverja helgi. Engin tími til að vera með börnunum, engin tími að ala æskuna upp í mannlegum gildum. Börnin eru eftirlitslaus um helgar og engin virðist vilja bera ábyrgð á þeim. Þetta er auðvitað foreldravandamál þegar unglingar undir lögaldri veltast um í miðbænum útúrdrukknir og illa haldnir.

Úrsúla Jünemann, 4.1.2008 kl. 13:18

2 identicon

Ég hef oft lent í karpi við eldri son minn sem er 16 ára núna, ég er alveg harður á útivistartímum en það sama var ekki að segja um flesta félaga hans, þeir máttu vera úti að því virðist algerlega ótakmarkað, ég sagði nú bara að ég þyrfti ekki að vera fífl þó foreldrar vina hans væru það.

DoctorE (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 13:25

3 Smámynd: Margrét Elín Arnarsdóttir

Æj já þetta er skelfilegt ástand, og hvað er eiginlega til ráðs? Ekki er hægt að fara að ala upp foreldrana, þó svo að það væri reyndar ágætt stundum

Margrét Elín Arnarsdóttir, 4.1.2008 kl. 15:35

4 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Verð nú að segja að unglingar eru ekkert verri en fullorðnafólkið.  Finnst nú bara drukkið fólk almennt þreytandi.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 4.1.2008 kl. 20:28

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Alveg er ótrúlegt að það megi ekki hafa eftir lögreglumönnum og kennurum hvernig ástandið er hjá LITLUM HLUTA íslenskra foreldra án þess að vera sakaður um að "níða niður áfengisnotendur" eins og það er orðað hjá þeim fulla, sem þar að auki fer rangt með um það að ég sé góðtemplari.

Ómar Ragnarsson, 4.1.2008 kl. 22:01

6 identicon

Þetta er nú ekki eins slæmt og allir virðast tala um. Í sumar sagði mér nú einn maður í eldri kantinum (um 55 og 65 ára gamall, hehe ) sem þykir nú ekki gamall í dag miðað við fólkið sem virðist vera að býsnast þessi ósköp öll yfir ungdómnum í dag að í DEN hafi nú bílum, jafnvel lögreglubílum verið rústað og árlega hefði þurft a flytja útisamkomur frá einum stað til annars vegna slæmrar umgengni það árið. T.d. frá Bifröst í Húsafellsskóg o.s frv. Það er ekki alltaf hægt að kenna ungdómnum um. Þarna er ég að ræða um sumarútikomur. En er þetta e-h öðruvísi farið varðandi skólaböll og fl. þ.h.

Kveðja,

Hanna

Hanna frænka (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 00:41

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Orðið dagdrykkja þýðir ekki að menn séu að drekka dagana og ég veit ekki til þess að neinn dagdrykkur sé til sölu. Dagdrykkja þýðir drykkja sem stunduð er að degi til og talað er um dagdrykkjumenn um þá menn, þar sem ofneysla áfengis birtist í því að þeir sleppa varla úr degi við drykkjuna.

Hófdrykkja þýðir ekki það að menn séu að drekka hófin eða að hófdrykkur sé á boðstólum heldur að menn drekki hóflega.

Ómar Ragnarsson, 5.1.2008 kl. 01:31

8 identicon

Misnotkun á áfengi er ekki eitthvað sem fylgir sérstökum aldri, hún þekkist jafnt hjá unglingum sem og öldruðum.  Mín kenning er sú að ástæðan fyrir því að unglingadrykkja sé svona mikið í sviðsljósinu sé sú að auðvitað er hún sú eina sem er ólögleg og því má býsnast yfir því án þess að allir fari í vörn, en einnig sú að þeir hafa engan stað til að drekka.

Fólk yfir lögaldri kemst inn á skemmtistaði og getur verið þar og drukkið sig pissfullt og margir enda inn á klósetti skemmtistaðanna ælandi eins og aumingjar.  Aðrir halda partý þar sem fólki er boðið og oftar en ekki endar það með því að einhver drekkur of mikið.
Einnig geta fæstir krakkar/unglingar farið heim snemma á kvöldin þar sem þeir eru að drekka án vitundar foreldra og vilja ekki að þeir komist að því, þess vegna verða þeir að bíða eftir því að foreldrarnir séu farnir að sofa svo þeir geti smeigt sér inn um dyrnar og inn í herbergi og vonast til að vekja ekki aðra íbúa hússins.  Það er að sjálfsögðu ekkert gaman að sitja bara úti og bíða, skítkalt, aðrir hafa þann möguleika að líta þá inn á skemmtistað og ylja sér, en ef þú ert ekki velkominn þar, þá er enginn annar staður en stigagangar eða bensínstöðvar til að ylja sér.  Oftar en ekki eru öryggisverðir á bensínstöðvum til að vísa fólki út sem er ekki að versla svo að það skilur aðeins eftir blessuðu stigagangana, og vekur það að sjálfsögðu pirring meðal íbúa íbúða hússins.

Ég hef því miður ekki lausn á þessum vanda, veit ekki hvort sniðugt væri að lækka áfengisaldurinn og þar með þann sem þarf til þess að komast inn á skemmtistaði, en ég hef engin önnur svör nema forvarnarherferðir, frekar heldur en að fordæma drykkju með öllu væri líklega sniðugt að ýta meira undir hófdrykkju, einnig þurfa foreldrar að vera opnari fyrir því að unglingar drekki, þó þeir vilji ekki trúa því upp á krakkana sína þá skilar það litlu, flestir t.d. framhaldsskólanemar drekka og er það staðreynd, sama gildir um að flestir framhaldsskólanemar eru undir lögaldri.

Klemenz Hrafn (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband