HVAÐ UM MELKORKU? / FLEIRA EN HLÝNUN.

 Vegna furðulegrar hindrunar sem birst hefur á mbl-vefnum við því að ég færi nýja bloggfærslu ætla ég að reyna að komast inn með því að breyta næstu færslu á undan en láta hana koma á eftir. Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld sagði Gísli Einarsson, vinur minn og félagi, að Brák væri frægasta ambátt Íslandssögunnar. Sá fjórðungur minn sem ættaður er úr Dölum vestur reis upp við dogg og spurði: Hvað um Melkorku? 

Það eru tæp 60 ár síðan ég las Laxdælu og Eglu en mig minnir að miklu meira hafi farið fyrir Melkorku í texta Laxdælu en Brák í texta Eglu. Auk þess er Laxdæla mitt uppáhald vegna þess að mér finnst hún vera sígildari og hafa elst betur og eiga meira erindi við samtíma okkar en nokkur önnur Íslendingasagna.

Gísli Einarsson á heima í Borgarnesi og Brák og Egill væru nú talin Borgnesingar. Amma mín í föðurætt, frændur mínir, Jón frá Ljárskógum og Jóhannes úr Kötlum og Melkorka, - allt þetta fólk átti heima í nágrenni Búðardals og teldust nú samsveitungar.

Af þessum sökum kanna að vera að við Gísli séum vanhæfir til að dæna í þessu máli. Gísli sagði við mig í kvöld að hann teldi Egils svo miklu merkilegri en aðra Vestlendinga á hans tíð að Brák ætti að njóta þess þegar hún væri metin. Hann sagðist reyndar ekki hafa munað eftir Melkorku í svipinn þegar hann skrifaði fréttina.

Engu að síður gátum við ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu í málinu og ég skýt þessu því til blogglesenda. 

Af fyrstnefndum tæknilegu örðugleikum kemur hér svo "hýsil"-blogg pistill minn:

 

FLEIRA EN HLÝNUNIN.  

Í allri umræðunni og deilunum um hlýnun jarðar af mannavöldum gleymist það sem gefur jafn mikla ástæðu til að minnka notkun óendurnýjanlega orkugjafa strax og ekki er hægt að deila um. Það er hvernig nú er sólundað og bruðlað með það takmarkaða eldsneyti sem eftir er í olíulindum jarðarinnar. Með því að bruðla með það er styttur sá umþóttunartími sem jarðarbúar hafa til þess að fikra sig yfir í notkun annarra orkugjafa. 

Þetta ábyrgðarleysi gagnvart komandi kynslóðum veldur því að auki að meira er blásið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en ef gripið væri strax til aðgerða.

Ef strax væri reynt eftir fremsta megni að minnka notkun jarðefnaeldsneytis ynnist þrennt:

1. Lægra orkuverð vegna minni eftirspurnar en ella hefði verið.

2. Lengri tími til þess að vinna að því að skipta yfir í aðra orkugjafa.

3. Hægari hlýnun og þar af leiðandi minni áhrif af henni og lengri tími til að fást við afleiðingar hennar.

Þeir sem streitast við að afneita áhrifum manna á hlýnunina geta ekki mælt á móti atriðum nr. 1 og 2. Nema þeir vilji afneita því að jarðefnaeldsneyti sé takmarkað og benda á það að þetta sé svipaður heimsendaspádómur og heyrðist fyrst um 1960 þar sem spáð var þurrð um 1980 til 1990, síðan aftur um 1980 þegar spáð var þurrð upp úr aldamótum.

Rétt er það að með bættri rannsókna- og bortækni hafa fundist nýjar og nýjar olíulindir. Í allri umfjöllum um þessi mál ber mönnum þó saman um það nú að leiðin geti ekki legið nema niður á við í síðasta lagi upp úr 2020. Æ dýrara er og erfiðara að ná til þeirrar olíu sem eftir er. 

Og það sem verra er: Allan þann tíma sem eftir er til notkunar á jarðefnaeldsneyti munu Arabaríkin ráða yfir yfirgnæfandi hluta af því sem til er á jörðinni, allt til enda.

Það er auk þess fásinna að treysta ávallt á það að nýjar og jafngóðar olíulindir finnist endalaust. Allir hljóta, fjandinn hafi það, að vera sammála um það að jarðefnaeldsneyti er ekki endurnýjanleg orkulind.

Það er hreint ábyrgðarleysi og til skammar fyrir okkar kynslóð hér á jörðinni að vilja varpa vandanum og úrlausnarefnunum á herðar afkomendanna. Það erum við sem sköpum vandann og okkur ber að leysa hann.  

Okkur ber að skila jörðinni betri til afkomendanna en við tókum við henni. 


mbl.is Verð á hráolíu fór í 100 dali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Eldsneyti úr korni er farið að hafa mikil áhrif á matarverð í heiminum, en talið er að helmingur hækkunar á matarverði undanfarið sé vegna etanólframleiðslu í Bandaríkjunum. Með hækkandi matvælaverði aukast líkur á að fátækt fólk svelti, en á móti kemur að fátækasta fólk jarðar er bændur sem hagnast á hækkunum. Vont er að skóga þarf að ryðja til að framleiða eldsneyti úr korni en verst er, eru styrkirnir sem stjórnvöld í ýmsum löndum veita til etanólframleiðslu, einkum Bandaríkjunum en líka í Rússlandi. Það kemur í veg fyrir ódýran innflutning, td. frá Brasilíu.

Það er langt frá því staðfest að hlýnun sé af mannavöldum og þótt svo væri er engin vá fyrir dyrum. Með auknum hita rignir meira og þá fer aftur að vaxa korn í Sahara svo dæmi sé tekið.

Ég veðja á rafmagnið. Rafhlöðurnar verða æ betri og léttari og bílarnir kraftmeiri. Þegar rafmagnsbílarnir koma, verður það í líki flóðbylgju. Ekki nokkur vafi. 

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 3.1.2008 kl. 19:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sú ályktun að aftur fari að vaxa korn í Sahara ef þar hlýnar er í algerri mótsögn við álit helstu vísindamanna heims. Það er þegar of heitt í Sahara og aukið regn mun fyrst og fremst falla á norðlægari slóðum. Hins vegar mun gróðurmagn aukast á Íslandi.

Ómar Ragnarsson, 3.1.2008 kl. 21:15

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hin raunverulega kreppa snýst um hrun lífríkisins, samspil tegundanna. Það lifir jú hver á öðrum og þegar lífkeðjan brestur endar það með hruni mannsins sjálfs. Þetta hefur legið ljóst fyrir síðustu áratugina og hinir ýmsu think tankar setið með sveittan skallann við að finna upp smjörklípur til að leiða athygli almennings frá þessum alvarlegu staðreyndum.

Allt líf byggist á jurtum og jafnframt á sólinni - sem kunnugt er. Sólin leggur árlega til ákveðið orkumagn og nú er svo komið að maðurinn sem ein dýrategund tekur til sín nærri helming þess. Á kostnað annarra tegunda að sjálfsögðu. Núna éta allir heimsins heimilskettir meira af fiski en allir heimsins selir og meira en helmingur alls sjávarfangs fer í að framleiða mjöl til að fóðra nautgripi. Sem gerir beljuna í raun að mikilvirkasta ránfiski hafsins og hún er skiljanlega að útrýma samkeppninni.

Nútíminn stýrist af ótrúlegri græðgi og þetta er greinilega fyrsta kynslóðin sem er fjandans sama um hvað afkomendurnir taka við. Það er vegna þess að stæk áróðursmaskína hefur komið því inn hjá fólki. Þetta snýst um hagsmuni. Hverjir kosta ruslpóst og stjórnmálamenn? Hverjir móta viðhorf almennings?

Baldur Fjölnisson, 3.1.2008 kl. 23:38

4 identicon

Frásögnin í Laxdælu af Melkorku er svo óskaplega fögur að það er ekki nokkur leið fyrir mann að draga hana í efa. Melkorka er þar ættfærð og ljóst að niðjar hennar voru afar merkilegir og fjölmennir. Hins vegar er frásögnun um Brák mjög fátækleg en engu að síður er sagan af henni afar eftirminnileg.

Þó öll mín móðurætt sé úr Dölum held ég að írska blóðið sé nú orðið ansi þunnt í ætt minni en það breytir því ekki að Laxdæla er næstum því merkilegust Íslendingasagna.

sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband