Eggin í sjoppunni.

Eitt skondnasta dæmi sem ég man eftir varðandi æsing og rifrildi sem olli árekstri gerðist á Lönguhlíð 1974. Ég ók á bíl mínum í norðurátt frá Þóroddsstöðum í átt að Miklubraut. Á undan mér var fólksbíll. Á móts við söluturn við götuna gerist það fyrirvaralaust að bílstjórinn í bílnum fyrir framan mig nauðhemlaði algerlega að ástæðulausu að því er virtist því hann var inn við miðju þessarar breiðu götu og langt frá gangstéttinni.

Þótt ég nauðhemlaði líka tókst mér ekki að stöðva bílinn að fullu og rakst því aftan á bílinn fyrir framan, að vísu nær því stöðvaður.

Ég fór út til að tala við bílstjórann í bílnum, sem ég hafði snert, en komst ekkert að til að tala við hann því að hann var í hörkurifrildi við konu sína, sem sat við hlið honum. "Ókey, farðu þá út og gáðu sjálf hvort það séu seld egg í sjoppunnni!" hrópaði hann.

"Þú þurftir nú ekki að stöðva svona skyndilega, "æpti hún á móti. "Ekki í fyrsta skipti sem við lendum í árekstri út af æsingnum og skapvonskunni í þér!"

"Þetta hefurðu upp úr frekjunni í þér," svaraði hann. Það varst þú sjálf sem heimtaðir að við stoppuðum til að kaupa eggin, sem ég veit vel að eru ekki seld í þessari sjoppu!" svaraði hann.

Það leið talsvert langur tími sem ég varð að hlusta á þetta ákafa rifrildi áður en þau fengust til að ræða við mig til að útkljá okkar mál. Loksins tókst það og ég ók í burtu. Bíllinn minn hafði ekkert skemmst en dæld var á þeirra bíl og við sættumst á að hittast aftur um kvöldið og afgreiða málið.

Ekki veit ég hvort egg voru seld á þessum tíma í sjoppunni en þegar ég kvaddi og fór heyrði ég álengdar að rifrildið um það blossaði upp sem aldrei fyrr hjá hinum skapstóru hjónum.

Sjálfur hef ég ekki hugmynd um enn þann dag í dag hvort þeirra hafði rétt fyrir sér.


mbl.is Gefðu þér tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skattborgari

Örugglega mörg svipuð dæmi til. Var einu sinni nærri búinn að keyra aftan á traktor á 20km hraða í ártúnsbrekunni á vinstri akrein.

Skattborgari, 4.6.2008 kl. 22:56

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Skemmtileg saga og minnir á að aldrei á að vera nema einn ökumaður í hverjum bíl.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 5.6.2008 kl. 11:58

3 Smámynd: Skattborgari

Allt sem er óeðlilegt í umfeðinni skapar hættu bæði óeðlilega hraður og óvenjuhægur akstur Traktorinn var á um 20km hraða undir honum jafnvel þurfti að setja bílinn í fyrsta gír og fór framúr í honum þega ég gat lok skipt um akrein.

Skattborgari, 5.6.2008 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband