Óhugsandi að Davíð fari út ?

Engum íslenskum stjórnmálaflokki hefur tekist að lyfta helstu foringjum sínum, þeim sem lengst ríktu, í þvílíkar dýrðarhæðir í augum fylgismanna sinna en Sjálfstæðisflokkurinn. Þeir hafa verið nánast í guða tölu, Jón Þorláksson, Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson og Davíð Oddsson.

Framsóknarmenn spörkuðu til dæmis úr formannssæti Jónasi frá Hriflu, stjórnmálamanni aldarinnar að mínu mati, stofnanda flokksins og helsta hugmyndasmiðinn að íslensku flokkakerfi.

Engum foringja flokksins var haldið annað eins afmæli og Davíð þegar hann var fimmtugur og stóð á hátindi ferils síns. Flugeldasýning við Perluna, eitt helsta merkinu um dýrðardaga hans í borgarstjórn.

Engu virðist nú skipta þótt kerfið sem hann kom á hér á landi í anda Thatcher og Reagans hafi sprungið í loft upp.
Það virðist óhugsandi að flokkurinn geti horfst í augu við þá staðreynd að tími Davíðs er liðinn, rétt eins og tími Jónasar frá Hriflu var liðinn 1944.

Í raun færist Samfylkingin mikið í fang ef hún ætlast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sparki manninum sem var dýrkaður eins og guð í flokknum. Ég á eftir að sjá að Geir Haarde fari þannig með læriföður sinn og átrúnaðargoð.

Ég nota orðið pólitík því að í Seðlabankanum hefur Davíð í raun verið í bullandi pólitík.

Davíð gaf í skyn í haust að hann "hefði eitthvað á" ráðamenn svo að ég noti algengt orðalag sem þrífst í kringum hann. Hann hefur kannski eitthvað á Geir eða Þorgerði, svipað og sagt er að hann hafi látið Jón Sigurðsson vita af í fyrra.

Hann vísaði í slíkt í frægri ræðu hjá Viðskiptaráði og gaf í skyn í dönsku blaði að hann myndi bara hella sér á fullu í pólitíkina ef hreyft yrði við honum í Seðlabankanum.

Ég veðja frekar á að Sjálfstæðisflokkurinn vilji sökkva með fyrrum guði sínum en rísa gegn honum. Slík meðferð á einu af goðum flokksins yrði dæmalaus. Ég óttast ég að þetta sé svona, því miður. Ekki bætir úr skák að Ingbjörg Sólrún vann sér til ævarandi óhelgi hjá Davíð fyrir að taka borgina og halda henni.

Er líklegt að sjálfstæðismenn láti eftir henni slíkan sigur yfir höfuðandstæðingi hennar ?

Ef þett er svona í pottinn búið og úrslitaatriði hjá Samfylkingunni að Davíð, víki mun stjórnin falla á næstu dögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Nú er að sjá hvort Davíð flytji til .............................................?

Mjög gott hjá þér að koma með þetta fram hér . 

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 02:55

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks, sem Samfylkingin myndi verja falli fram að þingrofi eftir tvo mánuði, væri langbest fyrir Samfylkinguna, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn hvort eð er ráðið nánast öllu í þessari ríkisstjórn, með ráðuneyti forsætis-. fjármála-, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, dóms-, mennta- og heilbrigðismála.

Ekki er hægt að kjósa til Alþingis fyrr en í apríl eða maí vegna alls kyns tæknilegra atriða og ekkert þinghald verður á Alþingi síðasta mánuðinn fyrir kosningarnar.

Minnihlutastjórn nýtur ekki yfirlýsts stuðnings meirihluta Alþingis en er hins vegar líkleg til að verða varin falli gegn vantraustsyfirlýsingu meirihluta þingsins af nægilega mörgum þingmönnum til að skipun hennar stangist ekki á við þingræðisregluna sem felst í 2. grein Stjórnarskrárinnar.

Minnihlutastjórn Alþýðuflokksins
, sem sat í tæpa fjóra mánuði 1979-1980, var varin falli af Sjálfstæðisflokknum og hún var starfsstjórn með sex ráðherrum framyfir kosningar til Alþingis 2.-3. desember 1979.

Upplausn var eftir kosningarnar og undir lok janúar 1980 lagði forseti Íslands, Kristján Eldjárn, drög að utanþingsstjórn með Jóhannes Nordal seðlabankastjóra sem forsætisráðherra. Gunnar Thoroddsen hjó á hnútinn, klauf Sjálfstæðisflokkinn og myndaði stjórn með sínum armi í flokknum, Alþýðubandalaginu og Framsókn.

Ráðuneyti Benedikts Gröndals 15. október 1979 - 8. febrúar 1980.

Þorsteinn Briem, 26.1.2009 kl. 03:06

3 Smámynd: Offari

Í dag er ekkert óhugsandi.

Offari, 26.1.2009 kl. 03:16

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill Ómar og lýsir sjálfstektinni vel.. þeir eru foringjahollir og hafa sauðshugsunarhátt..

Óskar Þorkelsson, 26.1.2009 kl. 08:58

5 Smámynd: Sævar Helgason

Sjálf hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er hrunin.  Tími Davíðs er einfaldlega liðinn.Hann átti að standa að eigin ósk upp úr stól Seðlabankastjóra, nú þegar í haust. Hann hefði þá endað ferilinn mun betur en nú verður  . Tugþúsundir Íslendinga hafa safnast saman í 4 mánuði til að mótmæla  veru hans í Seðlabankanum og heimtað hann burt. Þau mótmæli skrá lokakaflann í opinberri sögu hans .  Það er slæmt þegar menn skynja ekki sinn vitjunartíma og lifa sjálfan sig.  Frægðarsól Davíðs Oddssonar er til viðar hnigin.

Sævar Helgason, 26.1.2009 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband