Ljós í myrkrinu.

Reikna megi með því að kreppan hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í heiminum eins og flest annað. Einkum hlýtur slíkt að eiga við í löndum eins og Íslandi sem liggja langt frá öðrum löndum og dýrt er að ferðast til. Á móti kemur að stórfelld veiking krónunnar gerir landið miklu ódýrara ferðamannaland en áður var.

Margoft áður í þessum bloggpistlum hefur verið bent á það hvernig tekist hefur á fjarlægum norrænum slóðum að auka ferðamannastraum allt árið, ekki síst á veturna og Lappland nefnt sem dæmi. Árangurinn hefur náðst af því að menn hafa nýtt sér sérstöðu aðstæðna og náttúru og allir hafa lagst á eitt, stjórnvöld jafnt sem heimamenn, að leggja hönd á plóg.

Hér á landi hafa ruðningsáhrif landspjalla- og stóriðjustefnu í bland við ruðningsáhrif skammgróðabólunnar og hágengisins leitt athyglina frá möguleikum ferðaþjónustunnar.

Þrátt fyrir kreppuna hafa land og þjóð alla burði til að auka hér ferðamannastraum þótt hann minnki annars staðar. Það gæti orðið ljós í myrkri hruns fjármálakerfisins.


mbl.is Gistinóttum í desember fjölgaði um 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þér er tíðrætt um Lappland í samandi við ferðaþjónustu á veturna. Ég hef áður bent þér á að Ísland er langt í frá sambærilegt við það ágæta svæði vegna gjörólíkra veðurskilyrða. Í Lapplandi er raunhæft að markaðssetja snjóinn og kuldann, en ekki á Íslandi. Vissulega getum við markaðssett Ísland á veturna, en það verður að vera með öðrum hætti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.2.2009 kl. 10:43

2 identicon

"en á Norðurlandi fækkaði gistinóttum í desember um 25% miðað við desember 2007." Ekki sjáum við ljósið hér f. norðan. . . Elliðaá.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 12:14

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á vesturströnd Írlands markaðssetja þeir sjórokið og saltstorki suðvertan rok og rigningu og markhópurinn eru Suður-Evrópu búar. Náttúra Ísland er komin í hóp helstu undra veraldar þar sem Lappland eða norðurslóðir eru ekki á lista, hvað þá vesturströnd Írlands.

Hingað kom breskur blaðamaður og skrifaði um það grein í Sunday Times hvað skafrenningurinn íslenski hefði verið mikil upplifun.

En það þarf hugvit og peninga til að búa til peninga. Meðan peningarnir voru hérna fóru þeir í annað og nú sést á athugasemdunum að menn sitja bara og sjá ekkert nema stóriðju sem getur aldrei leyst atvinnuvanda þjóðarinnar. 2% vinnuaflsins í álverum mun aldrei leysa meginvandann.

Það hefði verið hægt að gera heilsársveg að Dettifossi fyrir áratug. Nei, stóriðjan var málið. Það hefði verið hægt að gera Ísland að heimkynnum jólasveinsins fyrir hálfri öld. Nei, bölvuð vandræði þessi bréf sem börnin í Evrópu sendu til jólasveinsins á íslandi.

Ómar Ragnarsson, 6.2.2009 kl. 13:31

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gera má ráð fyrir að erlendir ferðamenn eyði hér um hundrað milljörðum króna um allt land í ár, enda þótt þeim fjölgaði ekkert frá síðastliðnu ári.

Hver erlendur ferðamaður, sem ekki er farþegi með skemmtiferðaskipi, eyddi hér að meðaltali um 100 þúsund krónum árið 2007 og vegna gengishruns krónunnar má búast við að þeir eyði hér hátt í 200 þúsund krónum í ár.

Í Leifsstöð komu 123 þúsund erlendir ferðamenn síðustu fjóra mánuðina í fyrra og það var nú ekki sumartími í minni sveit. Þessir ferðamenn eyddu hér samtals um 25 milljörðum króna um allt land, miðað við að þeir hafi eytt hér 200 þúsund krónum hver að meðaltali, þar sem gengi íslensku krónunnar hrundi snemma í haust.

Hver ferðamaður dvelur hér að meðaltali í viku og hálf milljón erlendra ferðamanna kom hingað með flugvélum og Norrænu í fyrra. Flestir þeirra dvelja skamman tíma í Reykjavík, þannig að þeir dreifa þessum gjaldeyri um allt landið.

Og hver erlendur ferðamaður keypti hér mun meiri þjónustu og vörur nú í haust en haustið 2007 vegna gengishruns krónunnar.


Þar að auki komu hingað í fyrra um sjótíu þúsund farþegar með um 80 skemmtiferðaskipum og þau geta lagst að bryggju í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri og Húsavík. Þessir ferðamenn fara til dæmis að Gullfossi, Geysi, Þingvöllum, Goðafossi, Mývatni, Ásbyrgi og Dettifossi, auk þess að ryksjúga hér upp lopapeysur.

Og allir átu þessir 570 þúsund ferðamenn íslenskan mat, sem er þá gríðarlegur útflutningur á íslenskum landbúnaðarafurðum.

Í byrjun þessa mánaðar fengust 80% fleiri krónur fyrir hvern Bandaríkjadal en 2. febrúar í fyrra, 56% fleiri fyrir evru, 114% fleiri fyrir japanskt jen og 30% fleiri fyrir breskt sterlingspund.

Þorsteinn Briem, 6.2.2009 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband