Vissi forsetinn það sama og við hin ?

Geir Haarde sagði flokksfólki sínu frá því sem merkilegum tíðindum að í einkasamtali hans við Ólaf Ragnar Grímsson forseta hefði komið fram í máli Ólafs að hann hafi vitað af þreifingum um núverandi stjórnarsamstarf áður en kom til slita síðustu stjórnar.

Mér finnst þetta nú ekki miklar fréttir og ekki frásagnarvert vegna þess að ýmislegt benti til þess arna sem varð meira að segja mér og öðrum tilefni til að blogga um það talsvert áður en stjórnin sprakk.

Öll þjóðin skynjaði þetta þegar Framsóknarmenn spiluðu út hlutleysi sínu en það var líka tilefni til vangaveltna þegar Ögmundur Jónasson átti einkafund með Össuri Skarphéðinssyni talsvert fyrr.

Þá höfðu einstakir þingmenn og fjöldi flokksmanna í Samfylkingunni tekið undir gagnrýni á stjórnina og tekið þátt í mótmælum gegn henni. Ég labbaði til dæmis með Merði Árnasyni niður Bankastræti og alla leið á mótmælafund á Austurvelli nokkrum vikum fyrir stjórnarslit þar sem þess var krafist að stjórninni yrði vikið frá.

Þá bloggaði ég um það að oft færu þreifingar þannig fram á milli flokka að forystumenn þeirra gættu þess að taka ekki beinan þátt í þeim til þess að geta fríað sig af því eftirá að hafa verið óheilir í samstarfi.

Með því að segja frá því sem einhverjum fréttum að forsetinn, sem fylgist auðvitað sem gamall stjórnmálamaður að minnsta kosti jafn vel með pólitíkinni og almenningur, - er verið að gefa í skyn að hann hafi átt þátt í hugsanlegum þreifingum um nýja stjórn.

Það finnst mér ekki smekklegt og hæpið að nota meint ummæli úr einkasamtali í því skyni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta tal Geirs H. Haarde sýnir enn og aftur hversu ótrúlega sambandslaus þessi stjórnmálamaður var og er við samfélagið og „strauma sinnar tíðar.“ - Karlgarmurinn!

Stefán Ásgrímsson (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 09:08

2 identicon

Já þetta eru nú ekki miklar fréttir en líkist helst tapsárum krakka.

Þröstur (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 09:32

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég segi nú bara: Hver gat ekki gert sér það i hugarlund að menn væru að þreyfa fyrir sér um stjórnarsamstarf.  Annað heði í raun veriði ótrúlegt.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.2.2009 kl. 10:14

4 identicon

Framkoma Sjálfstæðismanna hefur nú ekki verið mikið til fyrirmyndar undanfarna daga og þetta er í takt við hana. Að vísu þykist ég sjá þarna vissa taktík en vona að hún virki ekki.

Sverrir (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 11:50

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Oft veit minna en ekki neitt,
og ætíð hefur því vopni beitt,
hann Óli kemst því yfirleitt,
í Agnesar Braga rúmið heitt.

Þorsteinn Briem, 8.2.2009 kl. 12:20

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þeir eru bara tapsárir.  Það er staðreynd að enginn flokkur er eins tapsár og Sjálfstæðisflokkurinn.  Sjáðu bara gráhærða Hólmarann sem hélt að hann héldi stólnum sínum við valdaskiptin.  Það er aumkunnarvert að horfa upp á þetta.  Að ég tali nú ekki um Sigríði Andersen (heitir hún það ekki annars), sem gat ekki tekið þátt í umræðu í Kastljósi öðru vísi en að segja "umboðslaus 80 daga stjórn" þrisvar í hverri setningu.  Þetta er manneskja sem hefur verið ákaflega rökviss og skynsöm í öllu sínu tali, en nú var hún bara í taugaáfalli eins og stelpa sem hafði verið sagt upp af gæjanum sem hún hafði farið illa með.

Marinó G. Njálsson, 8.2.2009 kl. 12:40

7 Smámynd: Offari

Ég tel ekkert óeðlilegt við að einhverjar þreifingar hafi verið þegar ljóst var að ríkisstjórnin var lömuð.

Offari, 8.2.2009 kl. 13:21

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ólafur Ragnar hefur alla tíð verið á kafi í pólitík í embætti sínu. Þeir sem froðufella af reiði út í Davíð Oddsson og saka hann um að vera í pólitík í sínu embætti, virðast ekkert sjá athugavert við framgöngu forsetans. Hún er vægast sagt einkennileg afstaða Ólafs-sinna, til pólitískra afskipta forsetans í hans valdalausa embætti.

Forsetinn er ekki kosinn á pólitískum forsendum, allir eru sammála um það. Samt kemst ÓRG upp með hvað sem er í skjóli vinstriflokkanna. Fólk talar ekki um friðarstól og forsetaembætið lengur, í sömu andránni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2009 kl. 13:26

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í umboði hverra sátu utanþingsráðherrarnir Geir Hallgrímsson, utanríkisráðherra 1983-1986, Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherra 1988-1991, og Jón Sigurðsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra 2006-2007?

Geir Hallgrímsson var formaður Sjálfstæðisflokksins 1973-1983, Ólafur Ragnar Grímsson formaður Alþýðubandalagsins 1987-1995 og Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins 2006-2007.

Geir Hallgrímsson var utanríkisráðherra í fyrsta ráðuneyti (ríkisstjórn) Steingríms Hermannssonar, Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra í öðru ráðuneyti Steingríms Hermannssonar og Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra í fyrsta ráðuneyti Geirs H. Haarde.

Og Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir eru nú utanþingsráðherrar í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Framsóknarflokkurinn bauðst til að verja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti á Alþingi og forseti Íslands setti fram þá hugmynd að 1-2 utanþingsráðherrar yrðu í stjórninni til að koma til móts við óskir margra um utanþingsstjórn.

Samkvæmt Stjórnarskránni fara forseti Íslands og önnur stjórnvöld með framkvæmdavald og forsetinn ásamt Alþingi með löggjafarvald. Lög skal bera upp fyrir forseta og hann skipar ráðherra. Forseti Íslands er þjóðhöfðingi Íslands og hann er eini fulltrúinn sem kosinn er af þjóðinni í beinni kosningu.

1.2.2009
: "Frá ríkisráðsritara. Ríkisráð Íslands hefur verið kvatt saman til tveggja funda á Bessastöðum í dag. Hefst sá fyrri kl. 17:00, þar sem annað ráðuneyti Geirs H. Haarde lýkur störfum. Seinni fundurinn hefst kl. 18:00 þar sem forseti Íslands mun skipa fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur."

Þorsteinn Briem, 8.2.2009 kl. 15:16

10 Smámynd: hilmar  jónsson

Þarna fer Geir með Dylgjur.

hilmar jónsson, 8.2.2009 kl. 18:05

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svar til Kristjáns: Íslandshreyfingin - lifandi land hefur til þessa starfað í samræmi við þá yfirlýsingu eftir síðustu kosningar að láta til sín taka í næstu kosningum, ef það telst þjóna málstað hennar best.

Enn hefur endanleg ákvörðin ekki verið tekin en unnið er eftir þessari áætlun og verið að kanna jarðveginn.

Mikil gerjun er nú hjá öðrum hreyfingum, sem eins og Íslandshreyfingin falla undur grasrótarsamtök utan þings. Við fylgjumst með því með opinum huga og settum reyndar fram fyrir tveimur árum sömu kröfur og þessi samtök fyrir tveimur árum um umbætur á stjórnarskrá og stjórnarfari.

Við verðum hins vegar að hafa í huga sérstöðu okkar sem eina græna framboðsins sem er hvorki til hægri né vinstri.

Við skuldum enn eftir síðustu kosningar og myndum heyja næstu kosningabaráttu án þess að geta gengið í nokkra sjóði.

Slíkt var óhugsandi fyrir tveimur árum en nú eru aðrir tímar og því alveg inn í myndinni að fara út í framboð án bæklinga, auglýsinga kosningaskrifstofa og ótal annars sem kostar peninga í kosningabaráttu.

Ómar Ragnarsson, 8.2.2009 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband