Tyrfinn texti til skemmtunar.

Ég lofaði því um daginn að birta hérna á blogginu einhvern af þeim ótrúlega klaufalegu textum, sem komið hafa í íslenskum dagblöðum og tímaritum um dagana og ég hef lagt á minnið, mér til skemmtunar.

Stundum geta textar verið svo vitlausir og erfiðir að það má hafa af því gaman að læra þá utanbókar. Af því að það er sunnudagur geri ég þetta til tilbreytingar og hátíðarbrigða.

Einn þessara texta var að finna í er Alþýðublaðinu í kringum 1960 og þegar ég fer með hann orðrétt fyrir fólk, les ég upphátt greinarmerkin, kommur og punkta. Þá hljóðar hann svona í upplestri:

"Osló er vinalegur bær komma þegar maður er gangi á götu í Osló komma sér maður mann komma sem manni finnst að maður þekki komma nú komma þegar maðurinn er farinn fram hjá komma kemur í ljós komma að aðeins var um líka menn að ræða komma en Norðmenn eru mjög líkir Íslendingum punktur. Og nú hefur Silfurtunglið fengið norska danskonu sem dansmær punktur."

Ég man vel hver höfundur þessarar dásamlegu klausu var. Hann skrifaði á þessum tíma fréttir úr skemmtana- og menningarlífinu í blaðið.

Ef einhver efast um að þetta sé rétt haft eftir getur hann haft samband við mig og fengið nafn höfundar uppgefið. Þá ætti að vera hægt að finna það á timarit.is ef Alþýðublaðið frá þessum árum er þar inni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar

Mér þykir þér illilega farið að förlast, að muna þennan texta ekki betur en þetta eftir aðeins um 50 ár!

Svona er hann réttur.

"Osló er falleg borg og vinaleg, næstum því á hverju götuhorni eða á kaffisölum sér maður mann, sem maður er alveg viss um að þekkja, nú, svo þegar maðurin ner (sic) farinn fram hjá, er aðeins um mjög líkar manneskjur að ræða, en Norðmenn eru einkar líkir okkur Íslendingum."

Í annarri grein á sömu blaðsíðu stendur: "Silfurtunglið hefur fengið franska danskonu sem dansmær, með ekki svo mikið af fötum á kroppnum."

Þetta birtist í Alþýðublaðinu 4. júní 1960 og virðist skrifað af Hauki Morthens.

Hildur Jónsdóttir (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 10:37

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sé nú ekki betur en að öll aðalatriðin úr upprunalega textanum skili sér í hvikulu minni mínu. Kommurnar hjá mér er að vísu sjö hjá mér en fimm hjá Hauki.

Og orðin "...danskonu sem dansmær..." eru þarna rétt eftir höfð.

Ómar Ragnarsson, 8.2.2009 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband