Flugvöllurinn sem hefði getað breytt sögunni.

DSC00380DSCF0221IMGP0265Í bloggi mínu um árásina á Naumós í Noregi 1940 lofaði ég myndum af flugvallarstæðinu norður af Brúarjökli sem hefði getað breytt gangi heimstyrjaldarinnar.

Tilbúin var frábær innrásaráætlun Þjóðverja haustið 1940, en forsenda hennar var að ráða yfir nógu góðum flugvelli svo að þýski flugherinn gæti haldið landinu með yfirráðum í lofti rétt eins og hann hafði gert í Noregi.

Þýska herráðið hafði yfir korti að ráða sem sýndi helstu hugsanlega lendingarstaði á Íslandi en enginn þeirra var nógu góður.

Rétt fyrir stríð hafði þýskur prófessor, Emmy Todtmann, verið við rannsóknir á hinum einstæða Brúarjökli og sköpunarverkum hans, meðal annars frábæru flugvallarstæði við Sauðá.

Efst hér fyrir ofan er mynd af þessum stað, Brúarjökull er í baksýn með Sauðá nær og hvíti depillinn eru bílar.

Þetta sést betur ef menn stækka myndirnar í tölvunni hjá sér með því að smella tvívegis beint á myndirnar svo að þær fylli út í skjáinn. 

Í september 1940 lentu Agnar Koefoed Hansen og Bergur Gíslason á þessum stað þar sem Snæfell gnæfir í austri. 

Jökuldælingar fundu þar síðar í smölun hlaðnar vörður og reyndu að fjarlægja þær vegna þess að þá grunaði að þær væru til að merkja flugvöll fyrir Þjóðverja.

Enn sjást leifar af þremur þeirra. 

Merkingarnar voru þó ekki gerðar fyrir þýska herinn, því að annars hefði þetta frábæra flugvallarstæði verið merkt á kort ÞJóðverja.

Þeir hættu við innrás sem hefði fært þeim Ísland á silfurfati með möguleika til að verja það og breyta valdahlutföllum á Norður-Atlantshafi og gangi stríðsins.

Ég hef flutt um þetta fyrirlestur hjá Sagnfræðingafélagi Íslands, reynt að rannsaka allar hliðar þessa máls með því að fara í vettvangsferðir til Noregs, Bretlands, Þýskalands, Frakklands og Rússlands vegna kvikmyndar um þetta sem ég hef skrifað handrit að.

Þegar NA-SV-brautin verður lögð niður á Reykjavíkurflugvelli verður Sauðármelur næststærsti flugvöllur landsins, næst á eftir Keflavíkurflugvelli. Samanlögð lengd flugbrautanna er 3100 metrar. 

Hann er algerlega náttúrugerður, þarf aðeins að merkja og valta flugbrautirnar eins og myndirnar bera með sér.

DSC00305DSCF0272

Brautirnar eru nú 1400x30, 1000x20 og 700x20 metra langar, en lengsta brautin hefði verið 1600 metra löng með smávægilegum lagfæringum Þjóðverja.

Hér til hliðar er horft yfir flugvöllinn úr suðvestri og sjást Hálslón og Kárahnjúkar í baksýn.

Þótt myndin sé nokkuð óskýr sjást brautirnar vel svo og Sauðá, sem fellur norður í Hálslón.

Neðsta myndin sýnir völlinn úr norðaustri og sést til Brúarjökuls og Kverkfjalla í baksýn.

Enginn maður var þarna á ferli um 1940 nema smalamenn, sem komu þangað um mánaðamótin september -október.

Þjóðverjar hefðu getað verið þarna óséðir og ekki þurft nema viku í byrjun septmber 1940 til að valta brautir og koma fyrir flugvélum, hermönnum, vistum og búnaði.

Yfirráð þeirra yfir Íslandi og Norður-Atlantshafi hefðu þýtt að bandamenn hefðu orðið að kosta miklu til að ráðast inn í landið og hrekja þá á brott.

Í lok stríðsins brenndu Þjóðverjar heilu bæina á borð við Rovaniemi til ösku á undanhaldi sínu í Finnlandi og Norður-Noregi.

Svipað hefði hugsanlega gerst hér.

Og hvernig sem mál hefðu þróast hefðu aðgerðir bandamanna annars staðar, svo sem innrásin í Norður-Afríku og Ítalíu og inn í Normandy tafist.

Hvað Normandy snertir hefði það þýtt seinkun innrásarinnar svo að Rússar hefðu getað tekið mun stærri hluta af Þýskalandi, jafnvel komist allt vestur undir Rín með afleiðingum sem hefðu haft áhrif út 20. öldina og jafnvel fram á þennan dag.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Athyglisverðar hugmyndir, en heldurðu ekki að skortur á almennilegum flutningavélum hjá Þjóðverjum hefði sett strik í reikninginn? Allir þeirra þungaflutningar í lofti fóru fram með risastórum svifflugum sem varla hefði verið hægt að fljúga svona langa leið og þriggja hreyfla Junkers Ju-52 voru eiginlega þeirra stærstu flutningavélar og þær báru ekki nema 3-4 tonn. Allar vistir, tæki og eldsneyti hefði þurft að senda loftleiðina á þennan stað.

Einar Steinsson, 15.3.2009 kl. 10:22

2 identicon

Einhvern tíma heyrði ég sagt að Lufthansa  hefði, á millistríðsárunum, sótt til Íslenskra stjórnvalda, um leyfi til að kanna hugsanlegt flugvallarstæði uppi á hálendinu, sem nota skyldi til millilendar vestur yfir haf.  Hermann Jónasson hafði hafnað því og fengið bágt fyrir hjá Sjálfstæðismönnum. Er eitthvað til í þessari sögu?

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 13:08

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er búinn að fara í gegnum flugvélaflota Þjóðverja að sjálfsögðu og þess vegna fór ég sérstakt ferðalag til Demyansks í Rússlandi, en þar tókst Þjóðverjum að halda uppi 110 þúsund manna innilokuðum her frá janúar til maí 1942 og þurftu að fljúga 5-700 kílómetra leið með allar vistir og vopn auk þess að fljúga með 16 þúsund særða út og jafnmarga inn.

Höfuðástæða þess að auðvelt hefði verið fyrir Þjóðverja að byggja upp aðstöðu á Sauðármel er sú, að þeir voru eina stríðandi þjóðin 1940 sem átti langfleygar og burðarmiklar flugvélar, Focke-Wolf Condor sem gátu flogið allt að 4000 kílómetra leið, en flugleiðin frá Bergen til Sauðármels er 1160 kílómetrar.

Það er einfalt reikningsdæmi að finna það út hve mikinn búnað, mannskap og vistir þessar vélar hefðu getað flutt til Íslands á meðan ekki var hægt að skipa þeim upp í höfnum landsins.

Condor vélarnar voru hvort eð er í reglubundnu flugi yfir Ísland og Norður-Atlantshaf til að fylgjast með veðri eða ráðast á skip. Þær náðu raunar svo miklum árangri í því síðarnefnda að þær sökktu á tímabili fleiri skipum en kafbátar Þjóðverja.

Flug þessara véla inn yfir landið hefðu því ekki þurft að vekja neinar sérstakar grunsemdir þá 7-10 dag sem það hefði tekið að byggja upp byrjunaraðstöðu á Sauðármel.

Bretar sendu nokkrar vélar af gerðinni Fairey Battle til landsins í ágústlok en slíkar vélar voru kallaðar "fljúgandi líkkisturnar" vegna þess að til dæmis í Belgíu var hver einasta skotin niður. Einn af foringjum Breta sagði að betra hefði verið að senda flugdreka til Íslands!

Báðir aðilar þurftu á sem mestu að halda í orrustunni um Bretland, en 21. ágúst lá fyrir að Stuka-flugvélarnar höfðu verið dregnar úr orrustunni um Bretland vegna þess að þær höfðu ekki roð við Spitfire og Hurricane vélum Breta.

Þessar vélar hefðu Þjóðverjar getað sent til Íslands til að láta til sín taka við innrásina "Ikarus" og viðhalda yfirráðum í lofti yfir Íslandi.

Ómar Ragnarsson, 15.3.2009 kl. 13:24

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svar við spurningu Svavars: Þjóðverjar sóttu um lendingaleyfi á Íslandi snemma árs 1939 en aldrei var rætt um sérstaka flugvellargerð Þjóðverja á hálendinu enda eru nú fyrir hendi gögn sem sýna að þeim var ókunnugt um flugvallarstæði þar.

Á þeim tíma voru stórar sjóflugvélar mest notaðar til ferða yfir hafið.

Hermann neitaði þessu fyrir hönd þjóðstjórnarinnar sem hér sat og vakti staðfesta Íslendinga undrun erlendis, því á þessum tímum var það fáheyrt að nokkur þjóð þyrði að standa uppi í hárinu á ÞJóðverjum.

Hins vegar stóð Agnar Koefoed Hansen fyrir því að hingað var fengin lítil tveggja manna landflugvél til að opna leiðir á milli lendingarstaða á landi og finna nýja. Einnig þjálfaði Þjóðverji íslenska svifflugmenn.

Eins og fyrr sagði fann Agnar hið frábæara flugvallarstæði Sauðármel í september 1940 en sú staðreynd liggur nú fyrir að hvorki hann né Emmy Todtmann greindu Þjóðverjum frá því.

Ég ræddi við hjónin Berg Gíslason og konu hans í fyrra og þá lýsti hún því hve eiginkonur Agnars og Bergs voru áhyggjufullar þegar þeir flugu inn á hálendið og lentu þar.

Ómar Ragnarsson, 15.3.2009 kl. 13:55

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Virkilega athyglisverðar hugleiðingar. Endilega haltu áfram Ómar!

Gunnar Valdimarsson fyrrum bóksali var bóndi í Teigi í Vopnafirði á stríðsárunum og fyrir stríð. Hann sagði mér einhverju sinni frá dularfullum Þjóðverjum uppi á reginfjöllum upp af Jökuldalsheiðinni sem voru sumarlangt árunum fyrir stríð. Fannst mörgum bændum eystra umsvif þessara manna dularfull að ekki væri meira sagt enda vildu þeir lítt segja frá ferðum sínum.

Varðandi athugasemd Svavars þá hefur því verið haldið fram að Hermann Jónasson hafi með neitun um lendingarleyfi fyrir Lufthansa verið fyrsti ráðamaðurinn í heiminum sem stóð kokhreystur gegn þreyfingum Hitlers.

Þá er eitt sem mig langar til að bera undir þig Ómar og aðra fróðamenn um þessi stríðsmál: Fyrir alllöngu heyrði eg um að á stríðsárunum hefðu breskir herflokkar verið sendir upp á heiðar og bylta við gömlum vörðum. Vildu þeir með því koma í veg fyrir að þær gætu orðið Þjóðverjum að gagni ef þeir hygðust senda hingað hersveitir fallhlífahermanna.

Fróðlegt væri að heyra meira um þetta ef einhver gæti bætt einhverju við.

Sérkennilegt er að gamlar vörður eru ekki margar á Reykjanesskaga og eins má segja um sunnanverða Mosfellsheiðina.

Bestu kveðjur

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.3.2009 kl. 18:51

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tortryggni í garð erlendra vísiindamanna var mikil á þessum árum varð hinn stórmerki Wegener fyrir barðinu á því, vegna þess að til þess að renna stoðum undir landrekskenningu sína þurfti hann að hlaða vörður.

Á stríðsárunum sjálfum urðu Bretar víða móðursjúkir eftir að Luftwaffe hertók eyjuna Krít með fallhlífarliði einu saman en slíkt hafði aldrei gerst áður og hafði verið talið óhugsandi.

Hore-Belisha tók Churchill á beinið í breska þinginu á svipaðan hátt og hann hafði gert við Chamberlain árinu áður.

Bretar þurftu ekki að fara á límingunum út af þessu. Hernám Krítar stóð mjög tæpt og Þjóðverjar misstu svo marga menn að Hitler sagði að aldrei aftur yrði slíkt endurtekið.

En það sagði hann aðeins við þá nánustu í herráðinu því það hentaði Þjóðverjum að halda Bretum hræddum.

Ef Þjóðverjar hefðu ráðist inn í Ísland hefði saga hrikalegustu ófara breskrar hernaðarsögu litið svona út:

1. Þjóðverjar gerðu hið ómögulega og tóku Noreg í apríl-júní 1940.

2. Þjóðverjar hröktu breska leiðangursherinn til strandar við Dunkirk um svipað leyti.

3. Þjóðverjar tóku Ísland á einum degi ca 14-16. september 1940 og rassskelltu Breta bæði á sjó,

landi og í lofti. (Breski flotinn hélt frá Scapa Flow 13. september til að aðstoða við vörn gegn

innrás Þjóðverja í Bretland og var því víðs fjarri Íslandi.)

4. Þjóðverjar gerðu enn hið ómögulega og tóku Krít í maí 1941 með fallhlífarliði einu saman.

5. Japanir náðu Singapore í ársbyrjun 1942 og tóku 80 þúsund breska hermenn til fanga.

Ómar Ragnarsson, 15.3.2009 kl. 22:37

7 identicon

Athyglisverð grein Ómar.

Til að bæta einhverju við þá má nefna eftirfarandi:

- Heinkel 111 flugvélar Þjóðverja höfðu drægi hingað og voru oft notaðar til flutninga í neyðþar sem Ju52 skorti ofl.

- Fallhlífarlið þjóðverja (það er seinna varð frægt fyrir að taka krít) var notað í leiftursókninni Niðurlönd-Frakkland. Það var ekki notað eftir Krít vegna gífurlegs manntjóns, sem kom reyndar til af því að Bretar vissu af því fyrirfram. En það ævintýri átti sér stað mikið seinna (1941). En liðið. svo og loftflutningurinn mestallur (ju52 voru notaðar mikið í Hollandi, og töpuðust þar margar) voru sem sagt uppteknar við innrásina þar suður frá þegar Bretar lentu á Íslandi.

- Hér á bæ höfðu menn stórar áhyggjur af hugsanlegri "fimmtu herdeild" Þjóðverja fyrir hernám Breta, s.s. skipverja á Bahaia Blanca.

- Hvernig eru vegskylirði og samgöngur til og frá þessum stað í allar áttir í Apríl/maí????

Svo að ég snari þessu saman í einhvern punkt, þá fyndist mér þessi nálgun til hernáms eyjarinnar tiltölulega langsótt. Lykilatriðið í hersetu eru hafnirnar, og sérstaklega höfuðborgin að auki. Bretar gátu jú annars landað liði og þungavöru þar beint.  Ef Þjóðverjar hefðu nú afráðið að  rýra sinn styrk í stríði á meginlandi Evrópu til þess að taka okkar ástkæra sker, hefði þá ekki verið betra að gera það á fljótlegri hátt, t.d. með lendingum á nokkrum stöðum,svo sem á Rangárvöllum og í Árnessýslu þar sem nóg var um náttúrulega lendingarstaði og stutt í byen? Gunnarsholt? Kaldaðarnes? Suðurströndin? Fallhlífarlið til undirbúnings (Student, yfirmaður fallhlífasveitanna hafði svo best ég veit ca 6.000 manns) bæði til að stika út nothæf vallarstæði frá náttúrunnar hendi svo og að taka höfuðborgina í einum grænum.

Svona hefði ég hugsað mér þetta, og þá hefði Brúarjökulsvöllur verið tilvalinn til samgangna niður á firði.

Annars gott að vekja máls á því hvað við vorum heppin að Þjóðverjar gerðu þetta ekki.

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband