22.6.2009 | 10:45
Smá forsmekkur af framtíð Hálslóns.
Var að koma úr fyrstu ferð yfir Hálslón eftir að snjóa og ísa leysti.

Lenti á tveimur stöðum, á Hálsinum og Sauðárflugvelli.
Þótt enn sé ófært bílum um allt nágrenni flugvallarins kemur hann sjálfur frábærlega vel undan vetri, harður og þurr.
Einstætt flugvallarstæði þetta.
Breytingarnar á lónstæði Hálslóns frá því í fyrra eru miklar og gefa smá forsmekk af því sem er í vændum næstu ár.
Þetta er í fyrsta sinn sem hleypt er úr lóninu um 45 lóðrétta metra.
Ef það yrði gert við Hvalfjörð yrði hann allur á þurru nema einn hylur yst í firðinum.

Ég veit ekki um neitt miðlunarlón í Evrópu eða Ameríku sem er neitt líkt þessu lóni.
Hækkun og lækkun eru tíu sinnum hraðari en það hraðasta sem finnst í Ameríku.
Yfir 30 ferkílómetrar eru nú á þurru, þaktir þykku leirlagi sem verður eins og hveiti þegar það þornar.
Athugið að hægt er að skoða þetta betur með því að smella í tveimur áföngum á myndirnar og láta þær fylla út í skjáinn.
Á mynd númer 2 að ofan sjást stíflurnar og Kárahnjúkur á milli þeirra.

Vinstra megin við veginn sem sést er lónstæðið á þurru, þakið þykku leirlagi sem er að byrja að þorna.
Á mynd númer 3 sést Sandfell næst okkur, en það verður að eyju síðar í sumar þegar lónið á eftir að hafa náð upp í sárið, sem það sargar hratt inn í fellið.
Þetta fell kallaði einn bloggarinn "eyju" um daginn og dásamaði það hve Kárahnjúkavirkjun myndi gera hana að dásamlegu varpstæði fugla og mikils lífríkis.
Ekki er stingandi strá á "eyjunni" einsg og sjá má og ekki einn einasti fugl.

Lónið var leyft vegna þess að úrskurðað var að enginn vandi væri að stöðva leirfok með því að vökva þessa 30 ferkílómetra og dreifa yfir þá rykbindiefnum.
Á mynd númer 4 er horft yfir hluta foksvæðisins við innanvert lónið þar sem ekki er fært nokkru farartæki.
Leyfið fyrir lóninu byggðist á því að nota flugvélar til að dreifa rykbindiefnum yfir þessar leirur.
Hugsið ykkur að yfir alla byggðina frá Grafarholti út á Seltjarnarnes yrði dreift þykku lagi af fínu hveiti og síðan kæmi sterkur vindur.
Samkvæmt úrskurðinum yrði leikur einn að stöðva leirfokið.

Leikur einn að vökva þetta allt eða dreifa yfir það rykbindiefnum þannig að ekkert leirfok yrði.
Á mynd númer 5 er horft til norðurs og er Kringilsárrani, sem áður var friðaður, vinstra megin en grillir í Hálsinn hægra megin.
Skilin á milli þykkrar gróðurþekjunnar í Rananum og sandsins og leirsins í þurru lónstæðinu sjást vel.
Á mynd nr. 6 er horft á þetta nær.
Á miklum meirihluta hinna nýju uppfokssvæða verður engu farartæki við komið á landi.
Það verða engir tankbílar í Kringilsárrana.

Í fyrradag voru þegar komnir leirstormar þótt leirinn sé rétt að byrja að þorna.
Ég lenti 16 kílómetra fyrir sunnan Kárahnjúka við enda svokallaðs varnargarðs.
Þaðan sá ég hvorki Kárahnjúk við norðurenda lónstæðisins né Brúarjökul við suðurenda lónstæðisins vegna leir- og sandfoks sem var á svæðum á milli þessara punkta sem eru 25 kílómetra frá hvor öðrum.
Skrifa seinna sérstakan pistil um Kringilsá og eyðingarafl hennar eftir að lónið kom til sögunnar.

Frá enda varnargarðsins og suður í jökul eru hátt í tíu kilómetrar og á því vegalausa svæði væri gaman að sjá tankbíla sem gætu dreift vatni yfir víðáttumikla fláka leirs sem þar munu verða æ þurrari næstu vikur.
Á mynd númer 7 hér við hliðina er horft í suður yfir Hálsinn.
Þarna var áður þykkur grænn gróður, en nú breytist þetta æ meira í rjúkandi eyðimörk.
Svonefndur varnargarður sést vinstra megin á myndinni.
Á mynd númer 8 sést að vindur hefur aukist og svæðið að hverfa í leirstorm.

Vestan lónsins eru tuga ferkílómetra svæði þar sem engum farartækjum er fært.
Þar ætla menn líklega að dreifa rykbindiefnum yfir úr flugvélum. Hvaða flugvélum?
Á næstu dögum er von á sveit manna frá Landgræðslunni austur til þess að stöðva sandrokið.
Hálsinn, sem sökkt var, var 16 kílómetra löng bogadregin græn hlíð með nokkurra metra þykkum gróðri.
Í fyrra hafði leirnum ekki tekist að kaffæra gróðurinn að fullu en nú sjást stórir flákar þar sem leirinn hefur kaffært hann og byrjað er að rjúka úr.

Þegar myndir birtust af fyrsta sandfokinu þarna í fyrra var hringt í RUV og kvartað yfir lygum fréttarinnar því að rykmekkirnir væru ekki úr lónstæðinu heldur frá bílum ferðamannanna sem brunuðu þarna um til að njóta hins dásamlega útivistarsvæðis sem Landsvirkjun hefði opnað.
Það væri orðið vinsælasta ferðamannasvæði Austurlands og það allt virkjuninni að þakka.
Ég sá einn bíl á varnargarðinum í fyrradag. Fyrir vestan lónið hefur engum bíl verið fært vegna aurbleytu.

Ástandið þarna á ekki eftir að gera neitt nema versna ár frá ári í 10-15 ár sem það tekur fyrir dauðasveitir leirsins að drapa allt líf úr tugmilljónum tonna af jarðvegi og breyta í svipaðar leiru og við Hagavatn sem ekkert þrífst í og engin leið er að stöðva fok úr.
Athugasemdir
Þetta verður ekki vandamál sögðu þeir hjá Landsvirkjun. Gripið verður til mótvægisaðgerða er annar vinsæll frasi hjá þeim. En skv. þessu var það blekking. Sorglegt að sjá þessar myndir.
Ævar Rafn Kjartansson, 22.6.2009 kl. 11:07
Þú sýnir fok á svæðinu en segir það ennþá blautt. Ertu að segja að yfirborðið hafi þornað og það að blása eða að fokið sé ekki úr uppistöðulónssvæðinu?
Ég hef haldið fram (án þess að vita), að þegar vatnið lækkar muni aurinn þorna í harða skorpu og ekki blása fyrsta árið.
Og vegna þess að svæðinu er sökkt að hausti verði þetta aldrei vandamál, aurinn nái ekki að brotna upp.
Nú veit ég ekki hvort að jökulburðurinn þornar í harða skorpu (nógur leir í honum til þess?).
Þegar leir þornar, verður hann harður en brotnar svo upp í frostum.
þetta verður þá sumar sannleikans. Þessar myndir sýna sandfok,en ég hef séð alvöru sandfok á hálendinu og þetta ekki eitt af þeim. Kannski nærðu betri myndum í sumar.
Kv. Ingimundur Kjarval.
Ingimundur Kjarval (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 11:28
Þetta er gott hjá þér Ómar,þú stendur þig vel í vinnunni hjá Landsvirkjun.Kv.
Sigurgeir Jónsson, 22.6.2009 kl. 11:32
Þakka þér fyrir að standa vaktina Ómar. Vonandi að áhugamenn um Kárahnjúkavirkjun fái sér nú göngutúr um blessaða leirdrulluna. Svo geta þeir gert tilboð í eitthvað af þeim yfir 250 íbúðum sem eru til sölu á Egilstöðum og Reyðarfirði í bakaleiðinni. Enn eitt glæsilegt íslenskt afrekið sem hefur misheppnast.
Þór Saari (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 11:52
Góðar og lýsandi myndir segja meira en þúsund orð. Þetta er raunveruleikinn bakvið skrumið. Þakka þér fyrir að birta þær.
Páll Ásgeir Ásgeirsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 12:40
Hugmyndum um að veita Jökulsá á Fjöllum austur um ríma mjög vel við upphaflegar hugmyndir um eina allsherjar risavirkjun norðan Vatnajökuls. Sömuleiðis hugmyndir um tvöfaldan malbikaðan veg þvert vestur yfir hálendið sem stystu leið milli Egilsstaða og Reykjavíkur.
Þetta myndi að vísu kollvarpa Vatnajökulsþjóðgarði en það vefst áreiðanlega ekki fyrir mönnum á Íslandi þótt hugmyndir um stóra virkjun með svipu sniði á hreinu vatni á hálendi Noregs séu orðnar feimnismál þar í landi.
Ingimundur Kjarval, - það rauk þegar í fyrra úr stórum hlutum af fjörum Hálslóns sem þó voru miklu minni en í ár.
Það bætist alltaf nýr ferskur leir við á hverju vori og sökkvir rotnandi og deyjandi gróðrinum sem víðast er undir. Mín ályktun er sú að hreinræktuð leir- og sandsvæði muni vaxa ár frá ári og þar með leirfokið.
Á stórum svæðum verður leirinn ekki harður heldur breytist í hveitikenndt laust duft og fínan sand sem rýkur í minnsta vindi. Ég á myndir af því frá í fyrra sem ég ætla að sýna þegar ég fjalla um sérstaklega hér í blogginu um Kringilsá.
Ómar Ragnarsson, 22.6.2009 kl. 12:44
Spurningin hlýtur að vakna hvort að einhverju hafi verið logið í umhverfismatinu og ef svo er, er það alvarlegt mál. Er ekki kominn tími til að kalla menn til ábyrgðar vegna loginna staðhæfinga og feluleiks í umhverfismatsskýrslunum um Kárahnjúka ?
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 22.6.2009 kl. 14:44
Ég hef ekki komið austur en myndirnar ríma við drauminn:
Friður fjallaheiða
fuglsins bjarti söngur
margan manninn seiða
margar langar göngur
hef í huga farið
haldið yfir móa
allt það augum barið
álftir lömb og tófa
héldu hugljúf friðinn
hjörtu kærleiks slógu
léku lækjarniðinn
lontur fagrar hlógu
frjálst um fagurt ríki
fyljuð tölti merin
sást ei svikadýki
safaríkust berin
gjálf í gárum linda
glitrar dögg á lyngi
kringum klettatinda
kátt á hrafnaþingi
lagðist lautu niður
lyngdi brám mót sólu
seitlar sálarfriður
sætur angan fjólu
barst með blænum hlýja
beðið mjúka svæfði
Sá ég svani flýja
sandur landið kæfði
ágjarn orkugeirinn
öllu vildi ræna
hvarf í kaldan leirinn
krækilyngið græna
vélar valda tjóni
vætlar aur úr skeggi
hækkar hratt í lóni
hopar fugl af eggi
opna augun bláu
átta mig að nýju
ef þú svertir móður svörð
svíkur um að nærast
ekkert nema auðn og börð
yfir land mun færast.
Þorlákur Helgi.
Þorlákur Helgi (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 14:55
Þú ert iðinn við kolann, Sigurgeir eins og fleiri, sem hafa borið það út án þess að depla auga að ég hafi fengið 150 milljónir króna hjá Landsvirkjun og meira að segja bætt því við að þetta megi sjá í bókhaldi Landsvirkjunar.
Þetta er hreint ótrúlegt níð miðað við það að sá, sem talinn er hafa slíkar ofurtekjur, skuli kúldrast eingalaus í lítilli leiguíbúð í blokk.
Haltu bara áfram, Sigurgeir, með þetta níð þitt í trausti þess að sé það endurtekið nógu oft farið einhverjir að trúa því. En því oftar sem þú endurtekur það, því ákveðnari verð ég að svara þér í hvert einasta sinn, þótt svarið verði aftur og aftur það sama.
Ómar Ragnarsson, 22.6.2009 kl. 16:28
Ég prófaði að smella á myndirnar til að sjá þær í fullri stærð. Þetta er verra en ég hafði hugsað mér. Mikil eyðilegging hefur átt sér stað. Þetta er verk græðginnar. Ef hagkerfi Íslands hefði landslag þá myndi það líta nokkurn veginn svona út.
Árni Richard (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 17:21
Allt er nú að rætast sem varað var við í sambandi við Kárahnjúkavirkjun. Efnahagskerfið hrunið. Og sunnlenskir bændur fá jafnvel fyrr yfir sig sandinn en ætlað var. Menn eins og Sigurgeir geta verið stoltir!
María Kristjánsdóttir, 22.6.2009 kl. 17:28
Sæll Ómar og takk fyrir allt sem þú hefur gert og nennir að gera fyrir okkur og Ísland.
Ekki eyða orku í að svara mönnum eins og Sigurgeir, enginn maður með fullum sönsum trúir því að Ómar Ragnarsson sé falur fyrir pening.
Það verða alltaf til ómerkilegir karakterar sem kasta skít í fólk í kringum sig, en eins og amma mín , sem aldrei sagði styggðaryrði um nokkurn mann á sinni löngu ævi, sagði þegar menn voru stóryrtir í kring um hana: "Þetta fer með honum."
Og það er svo sannarlega rétt. Svona málflutningur segir okkur meira um Sigurgeir en Ómar og þessi orð munu fylgja honum en ekki þér,
áfram Ómar!
Hrönn (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 17:34
Hugsanlega er þetta leirfok aðeins opnunaratriði í hrollvekjunni uppi við Hálslón.
Mönnum tekst aldrei að hefta þennan fokleir á svo stóru svæði nema með stórkotslegum tilkostnaði.
Þetta hefur líka verið að gerast á eyrum Jöklu niður á Úthéraði á miðju sumri -- þar sjá menn í Hróarstungu sjá ekki yfir Jökulsárhlíð þegar vind hreyfir.
Hefurðu séð líka séð öskugrátt Lagarfljótið?
Takk fyrir að standa vaktina Ómar.
Þorfinnur (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 17:42
Það er talað um melgresi og tilraunir með hitt og þetta í úrskurði umhverfisráðherra.
Ég kom við á þessum fundi í febrúar árið 2004. Þar sagði Ólafur jarðvegsfræðingur að líffræðilegar mótvægisaðgerðir væru útilokaðar. Það var niðurstaðan eftir leitina að "lífrænu leiðinni". Þá væri spurning hvað verkfræðilegar aðgerðir kostuðu.
Pétur Þorleifsson , 22.6.2009 kl. 18:06
Skítkast hefur það í för með sér að maður verður að þrífa skítinn af í hvert skipti sem kastað er á mann.
Ef viðkomandi kastar skít daglega eins og Sigurgeir gerir nú þríf ég hann einfaldlega af mér í hvert skipti.
Það má ekki láta skítkastarana komast upp með það að þeir sem þeir kasta skítnum á, séu með drulluna á sér dag eftir dag.
Ómar Ragnarsson, 22.6.2009 kl. 19:00
Aei nu er eg bara ordin thunglynd. Takk fyrir ad birta thessar myndir/frettir en eg held eg verdi ad fordast bloggid thitt i bili thvi mer verdur baedi oglatt og illt af ad horfa a thaer skemmdir sem thessir snillar eru bunir ad koma af stad.
Sigrun
Sigrun (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 19:03
Kæra Sigrún, hertu upp hugann. Okkur ber að kenna til í stormum okkar tíðar eins og skáldið orðaði það. Það sem hefur farið mest úrskeiðis undanfarinn áratug hefur byggst á því að fólk hefur litið undan og reynt að láta sem ekkert sé.
En ef þú vilt forðast að sjá meira af svona í bili skaltu bara hlaupa yfir þann eða þá bloggpistla sem innihalda svona. Ég á eftir að fjalla um Kringilsá og flettu þá bara yfir hann.
Ómar Ragnarsson, 22.6.2009 kl. 19:16
Ljóta klúðrið - rímar við rústir efnahagshrunsins enda sama hugarfar að baki hvoru tveggja.
Dofri Hermannsson, 22.6.2009 kl. 19:49
:) Takk Omar. Eg kann virkilega vel ad meta thad sem thu ert ad gera - safna gognum i formi mynda og koma a framfaeri. En eg er ad horfa a thetta ur fjarlaegd (Arizona) og finnst thad ofsalega erfitt. Skil illa thau sjonarmid sem urdu til thess ad radist var ut i thessar storu framkvaemdir.
Sigrun (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 19:57
Hvar er nú Gunnar Th.? Forvitnilegt að sjá hvað hann hefur að segja um þetta mál :)
Pétur Kristinsson, 22.6.2009 kl. 20:03
Ómar. Kærar þakkir. Þjóðin á þér skuld að gjalda.
P. S.
Það eru til lög um ráðherraábyrgð.
Rómverji (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 20:09
Takk fyrir að birta þessar myndir. Það er erfitt að horfa upp á eyðilegginguna.
Þú manst kanski eftir stráknum, fabrizio, ítölskum kvikmyndatökumanni sem flaug með þér sumarið 2006. Hér er myndbrot úr því sem hann vann úr efninu.
http://www.vimeo.com/3333510
Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 21:00
Gott væri að þú kæmir jafnhliða með myndir af svæðinu eins og það var áður. Fyrr er ekki hægt að mynda sér raunhæfa skoðun á áhrifunum.
Stefán Stefánsson, 22.6.2009 kl. 21:06
Ég var að vinna við Kárahnjúka sumrin 2003 og 2004, þá var stundum svo mikið sand og leirfjúk að menn þurftu að nota hlífðargleraugu utandyra, þá var nú ekki einu sinni byrjað að fylla í lónið, hvað þá að hleypa úr því aftur...
Hafliði Hinriksson, 22.6.2009 kl. 21:17
Hálslón er mesti náttúruspjallaglæpur í sögu landsins. Hann var framinn með fullri meðvitund, af ásettu ráði og þvert gegn aðvörunum, og reyndar bænum, þeirra sem sögðu fyrir um hvernig færi.
Ég minnist þess þegar þú flaugst sérstklega með Geir Haarde og kompaní í vettvangsskoðun á æðisfögrum ágústdegi. Heillandi og einstök fegurð þessa svæðis snerti þetta lið ekkert. Enda var hrokinn, frekjan og skeytingarleysið í fyrirrúmi á Íslandi á þeim tíma. Þótti flott. Kannski enn. Reyndar var sú ferð of sein og eimreiðin komin á fullann velting. Ekki þannig að ferð fyrr hefði ekki breytt neinu.
Nú er auðvitað gott að eiga Káravirkjunarpeningamilluna að sem mun redda okkur upp úr hruninu. Klárir við Íslendingar.
Ég er ævinlega þakklátur fyrir að hafa lánast að ferðast tvisvar um allt þetta svæði í þrumufínu veðri áður en því var fórnað. Þetta var einstök náttúruperla.
Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 21:27
Ómar, þú átt heiður skilinn fyrir að standa áfram vaktina. Ég óttast mest að gróðursælasta hérað landsins, Fljótsdalshérað, verði moldviðri að bráð. Í Evrópu er fólki refsað fyrir umhverfisglæpi. Það endar með því að við þurfum að innleiða slíka löggjöf hér.
Sigrún P (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 21:41
Hálvitar þessi fyrrum sjáfstæðis- og framsóknarfifl að leyfa landinu að fjúka í burtu og leyfa allt virkjunarvesen sem skapar örfá störf við virkjunarframkvæmdir. Þetta kallar maður bara landráð, föðurlandsspjöll og lagaspilling í hæstu ránferðum íslandssögunnar. Og fyrr en varir deyr blómið í náttúrunni vegna græðgi mannsins.
Svavar Elliði (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 21:51
Takk fyrir Ómar að halda umræðunni um Hálslón gangandi.
Það er engin furða að Landgræðslan lagðist gegn þessari framkvæmd, enda óvinnandi verk að halda aftur af leirfjúkinu, sem á bara eftir að versna með árunum.
Tek undir með Sigrúnu P. það getur orðið illbúandi á Fljótsdashéraði, einkum verði suðvestanáttir ríkjandi.
Valgeir Bjarnason, 22.6.2009 kl. 22:00
Hafliði Hinriksson telur allt í lagi með moldrokið úr lónstæði Hálslóns, vegna þess að það hafi verið moldrok á þessum slóðum áður.
Það er rétt að af ákveðnum svæðum vestar á öræfunum kemur moldrok, einkum af Flæðunum við upptök Jökulsár á Fjöllum. Moldrokið af tugum ferkílómetra í lónstæði Hálslóns sem áður voru þaktir þykkum grænum gróðri kemur sem viðbót við moldrok Hafliða.
Samkvæmt þessari speki mætti alveg eins eyða öllum gróðri á Fljótsdalsheiði vegna þess að það var hvort eð er komið moldrok annars staðar frá.
Þetta er sama hugarfar og það þegar menn segja blákalt að vegna þess hve orðspor okkar Íslendinga er í rúst erlendis eftir bankahrunið getum við bara gert hvað sem okkur sýnist og gefið skít í álit okkar og heiður, það sé hvort eð er búið að rústa hvoru tveggja.
Hvað snertir útlit leirsvæðanna nú get ég upplýst að á allar myndirnar nema tvær eru af svæðum sem voru græn og þakin nokkurra metra þykkri gróðurþekju, eins og sést sérlega vel á neðstu tveimur myndunum, þar sem sést hvað lónið hefur nagað háan bakka í gróðurþekjuna vinstra megin á myndunum.
Rétt er að geta þess að lónið verður komið í fulla hæð í ágúst og þá þekur það leirfokssvæðin. En þangað til eru 6-8 vikur.
Ómar Ragnarsson, 22.6.2009 kl. 22:48
Hef stundum lent í því að aka í svona jökulleir við jökla. Því mætti líkja við það að aka inn í brúnan hveitibing, jeppinn hreinlega hverfur í ryki og rykið smýgur inn í um minnstu rifur. Fokið úr Hálslóni verður miklu verra en á Flæðum Jökulsár á Fjöllum enda fá flæðurnar reglulega vökvun. Þó þar geti verið ansi dimmt yfir í miklum vindum.
Að færa vatn úr Jökulsá yfir í Hálslón og malbika veg ofaná einhverja pípu. Er svona einsog að pissa í skóinn sinn þegar manni verður kalt. Malbik, brýr, mannvirki, og upplýsingarskilti eru það sem við köllum “Lálendisvæðingu”. Lálendisvæðing er einmitt að drepa það sem eftir er af miðhálendinu.
Jón G Sæland (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 23:19
Mér líður ekki vel með þetta frekar en mörgum; ég gekk um svæðið 2006 með þeim Augnablikskonum og er ævinlega þakklát fyrir þá heppni sem ég naut þar bæði í veðri og yfirleitt að komast. En þetta er bara eitt dæmið um ...??? það hugarfarslega ástand sem hefur kollriðið þjóðinni síðustu áratugina og við erum að taka afleiðingunaum af í dag.
Hulda Björg Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 00:10
Ég ferðaðist um þetta svæði í fyrsta og eina skipti síðasta sumarið fyrir Hálslón, rétt áður en stíflan lokaðist og lónið byrjaði að myndast. Ég fullyrði að þarna fór talsverð gróðurþekja undir vatn. Fólk þarf ekki einu sinni samanburðarmyndir til að sjá hvar gróður hafi verið milli núverandi gróðurþekju og vatnsborðs. Það nægir að hafa einhverntíma litið villta nátturu landsins augum til að vita að hún sker ekki langar línur við enda gróðurlendis langt frá vatnsborði nema vegna þess að þar upp að kemur strandlína og ágangur vatns sem hindrar frekari gróður.
Þegar ég var þarna á ferð voru starfsmenn Landgræðslunnar að útbúa tilraunareiti, einmitt á svæðinu sem sést á mynd 2, milli vegarins og lónsins. Vegurinn er á lónsbakkanum þegar lónið er fullt. Á þessum reitum átti að gera tilraunir með mismunandi rykbindiefni. Svo held ég að þeir hafi líka verið með tilraunareiti fyrir ofan veginn, þar sem áttu að koma einhverjar hríslur. Já, já og vegurinn sjálfur átti líka að vera einhverskonar varnarlína sem leirinn átti ekki að fara yfir. Landsvirkjun borgaði Landgræðslunni fyrir þessa vinnu.
Það myndi kannski virka best á leirinn að setja bara upp skilti sem stendur á: Björgum Íslandi - blástu ekki lengra! Mætti kannski hafa skiltið á ensku líka: Save Iceland - dont blow any further! Það hlýtur að vera hægt að finna eitthvert félag sem stendur fyrir þörfu málefni og borga því fyrir að kenna jökulleir að lesa. Bara ekki að kenna honum að skrifa líka, þá gæti hann komið með meinlegar athugasemdir við skýrslur um umhverfismat!
Soffía Sigurðardóttir, 23.6.2009 kl. 00:21
Mjög fróðlegar myndir. Takk fyrir þær. Á ekki að upplýsa okkur meira þessi mál, t.d. með sjónvarpsmyndum etc?
Grátlegt rugl eins og annað á Íslandi í dag.
Við hverju er að búast hjá þjóð sem umgengst landið sitt með þessum hætti?
Eyjólfur Ármannsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 00:30
Þegar verið er að útskýra aðstæður fyrir þeim sem lítið eða ekkert til þekkja, finnst mér að staðreyndir eigi að vera uppi á borðinu og þess vegna benti ég á þá staðreynd hér fyrir ofan að moldrok hefði klárlega ekki verið fundið upp af hönnuðum Kárahnjúkavirkjunar þar sem það var til staðar á svæðinu fyrir tilkomu Hálslóns. Ég hef nú aldrei verið sérstakur aðdáandi moldroks og langt frá því að mér finnist það sjálfsagt mál.
Hugmyndin hennar Soffíu hér fyrir ofan er sennilega ein sú gáfulegasta sem fram hefur komið til að hefta leirfokið á svæðinu, og þegar upp er staðið örugglega auðveldari í framkvæmd heldur en vökvun og rykbinding...
Hafliði Hinriksson, 23.6.2009 kl. 00:42
Takk fyrir þessar myndir og frásögn Ómar. Þetta er sorglegt og Landsvirkjun og þeim stjórnmálamönnum sem að Kárahnjúkavirkjun stóðu til ævarandi skammar.
Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 23.6.2009 kl. 09:01
Takk fyrir þessar myndir Ómar og allt sem þú hefur gert af þinni óbilandi eljusemi og fórnfýsi í þágu umhverfis- og náttúruverndar hér á landi. Þessar myndir afhjúpa lygaþvæluna í kringum þessar virkjunarframkvæmdir. Ég hlustaði á hana á sínum tíma, studdi þessar framkvæmdir og á eftir að skammast mín fyrir það til æviloka.
Ellert Grétarsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 09:42
Þú ert í góðum félagsskap, Ellert, og ég svosem líka þegar ég lít til baka og sé að ýmislegt sem ég studdi fyrir 20 árum og reyndist rangt þegar ég hafði kynnt mér málin betur með því að ferðast um heiminn.
Við erum nefnilega í félagsskap við einhvern merkasta stjórnmálamann Norðurlanda síðustu áratugi, Gro Harlem Brundtland, sem leyfði Altavirkjun þegar hún var umhverfisráðherra.
Í endurminningum sínum segist hún sjá mikið eftir því að hafa gert það. Olli Altavirkjun þó ekki nema litlu broti af þeim umhverfissspjöllum sem Kárahnjúkavirkjun veldur.
Ómar Ragnarsson, 23.6.2009 kl. 10:31
úff að sjá myndirnar af þessu svæði gerir mig klökka, ég er ungur íbúi á fljótsdalshéraði og er mjög sár yfir því að stjórnvöld skyldu hafa lofað öllu fögru og geta síðan ekki staðið við það sem þeir lofuðu ! É horfði á myndbandið sem Fabrizio vann, þetta myndband ætti að sýna í sjónvarpi og sýna þjóðinni hvernig allt er orðið.
Aðalheiður (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 15:07
Vatnið úr Jökulsá á Fjöllum yrði tekið af Dettifossi, sem hefur frægð sína af því að vera aflmesti foss í Evrópu. Ef þetta vatn ætti að gera eitthvað gagn þyrfti það að vera svo mikið að það myndi hafa afdrifarík áhrif á ána allt niður í sjó. Rennsli jökulánna norðan Vatnajökuls er svo lítið á útmánuðum að ekki einu sinni viðbótin frá Jökulsá á Fjöllum myndi duga til að halda yfirborði Hálslóns stöðugu nógu lengi.
20 kílómetra löng göng myndu kosta sitt, ekki satt? Liggur það fé á lausu hjá fyrirtæki sem menn hafa áhyggjur af að nálgist gjaldþrot á næstu árum?
Hvað snertir "fokvegi með ógeðslegu ryki" er að ýmsu að hyggja. Þannig hafa þeir sem best þekkja til þess hverjir eru töfrar Þórsmerkur eindregið laggst gegn því að ár yrðu brúaðar og malbikaður upphleyptur vegur lagður þangað.
Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem þangað fari vilji nefnilega ekki missa af þeirri "Safari" tilfinningu sem núverandi leið veiti.
"Meðalhófs"mennirnir hafa hingað til stundað það "meðalhóf" að reisa eigi löll þau álver sem mögulegt sé að reisa á Íslandi og virkja fyrir þau allt virkjanlegt afl landsins með tilheyrandi náttúrufórnum.
Ég er núna að berjast fyrir því Ölkelduhálsi verði þyrmt þótt allt annað á Hengils-og Hellisheiðarsvæðinu verði virkjað í fjórum stórvirkjunum.
Þessi viðleitni mín eru taldar öfgar og andstæðar "meðalhófi"
Ég er sömuleiðis að berjast fyrir því að af fjórum virkjanasvæðum fyrir norðan og austan Mývatn verði einu þyrmt. Fyrir það er ég kallaður "öfgamaður", "óvinur landsbyggðarinnar" og andstæður meðalhófi.
Skiptir engu þótt ég bendi á með tilvísun til reynslu annarra þjóða að þessi hin sama landsbyggð mun getað grætt mun meira peningalega til framtíðar á að nýta sér þá möguleika sem þetta svæði, Leirhnjúkur-Gjástykki, gefur ósnortið.
Ómar Ragnarsson, 23.6.2009 kl. 22:14
Þetta er skelfilegt hvað við höfum látið aurapúkana darga okkur á asnaeyrum.
Í gær var svo veitt leyfi til Orf til útiræktunar á lyfja-byggi þ.e byggið er látið framleiða í fræinu virka mannaþætti með mannagenum. Ef það reynist hættulaust annarri byggræktun og viltri náttúrinni og ekki skapa ótta gagnvart landinu og vörum okkar, mun sú ræktun flytjast til kjörsvæða byggræktunar í heiminum en ef ekki tekst að sýna fram á að það sé skaðlaust sitjum við uppi með tjónið. - Við munum í báðum tilvikuna aðeins selja aðgang að landini okkar um skamma hríð fyrir áhættu og smáaura.
Helgi Jóhann Hauksson, 24.6.2009 kl. 05:32
Gerður Pálma, 24.6.2009 kl. 10:50
Ég hef búið á Héraði síðan 1980 og hvorki fyrr né síðar hefur komin annað eins moldar og leirfok og árið 1991, og það var nánast sama hvaðan vindurinn blés loftið var mettað af mold. Ekki var hægt að hengja út þvott heilu og hálfu daganna og maður bruddi nánast sand væri maður eitthvað úti við,..... sem við gerðum reyndar mikið af þetta sumar því það var með afbrigðum heitt og gott.
Og því fer það alltaf einstaklega í taugarnar á mér þegar ég hitti fólk sem sér smá moldrok núna í dag að þá er þessari virkjun kennt um og eða Landsvirkjun.
Auðvitað er ekki gott þegar svo er að loftið er mettað af ryki og allir hafa áhyggjur af því, en væri ekki nær að reyna finna lausn á vandanum því hann var jú til staðar bæði fyrir og eftir Kárahnjúkavirkjun.
(IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 22:32
Hrikalega verð ég pirraður að lesa kommentin hjá þeim 95% sem gleypa þetta hrátt og fara að tala um græðgisvæðingu og náttúruspjöll. Þessar myndir hvorki sanna né afsanna að mikið uppfok sé á þessu svæði vegna lónsins. Flest af fólkinu sem kommentar hér hefur sennilega varla farið út fyrir borgarmörkin síðustu 10 ár. En fólk eins og ég sem ferðast mikið og reglulega um Ísland veit að svona myndir er hægt að taka á öllu Íslandi. Ég minnist t.d. flugferðar sem ég fór fyrir nokkrum árum í lok maí frá Akureyri til Vopanfjarðar og síðan áfam til Þórshafnar. Nær alla leiðina sá ég vart til jarðar fyrir foki. Reyndu að vera aðeins faglegri í þínum endalausa áróðri sem flestir eru komnir með leið á Ómar. Ekki skella fram nokkrum myndum og fullyrða að þær séu sannanir fyrir stórkoslegum náttúruspjöllum.
Gunnar Guðjónsson
Gunnar Guðjónsson (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 23:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.