Búdda-stytturnar í Afganistan.

250px-Afghanistan_Statua_di_Budda_1-1

Það sauð og kraumaði af mótmælum og hneykslan í alþjóðasamfélaginu þegar stjórn Talibana í Afganistan stóð að því 2001 að sprengja og eyðilegggja risastórar styttur af Búdda, sem gerðar höfðu verið fyrir margt löngu í 2500 metra hæð uppi í fjöllunum 230 kílómetra frá höfuðborginni Kabúl. 

Þótti þetta mikil óhæfa. Þó voru áreiðanlega til lönd í heiminum, þar á meðal Ísland, þar sem enginn hafði séð þessar styttur.

Það var réttilega ekki talið skipta máli heldur vitneskjan um að þessi listaverk og menningarverðmæti væru til.

Þetta sögðu og viðurkenndu menn hér á landi sem sögðu á hinn bóginn að engin ástæða væri til að varðveita náttúruverðmæti hér á landi vegna þess hve fáir hefðu séð þau.  

Nú vilja Japanir og Svisslendingar fá að standa að því að endurgera þessar styttur og af því má draga þá ályktun að þessi hervirki hinna illu Talibana hafi samt sem áður verið bætanleg og eyðilegging þeirra afturkræf.

Hér á Íslandi leggja menn kollhúfur yfir því að hinn eldvirki hluti landsins sé talinn eitt af helstu náttúruundrum veraldar og telja það í góðu lagi að eyðileggja sumt af því merkasta á algerlega óafturkræfan hátt vegna þess að svo fáir hafi séð viðkomandi verðmæti.

Nýrunnið og úfið hraun í Gjástykki verður ekki endurgert eins og stytturnar í Afganistan og þaðan af síður verður Hjalladalur sem nú hefur verið drekkt í drullu endurheimtur með öllum sínum fjölbreytilegu náttúruverðmætum.

Það er hins vegar til marks um það hvernig allri umræðu er snúið á haus að það fólk á vinstri væng stjórnmálanna sem fyrir nokkrum árum vildi ekki ganga braut óafturkræfrar eyðileggingar á mestu verðmætum landsins skyldi fá uppnefnið Talibanar á sínum tíma.  

George Orwell hefði elskað að setja slíkt inn í bók sína 1984.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er löngu ljóst að þegar á reynir eru allir tilbúnir til að eyðileggja náttúruverðmæti fyrir efnalegan ávinning.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.11.2009 kl. 00:19

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir þennan góða pistil, við Íslendingar mættum gjarnan líta okkur nær. Það er sorglega mikið til í því sem nafni minn segir. Þess vegna er það kaldhæðnislegt að það hervirki sem unnið var á náttúrunni með Kárahnjúkavirkjun er líklega stærsta atvinnubótavinna Íslandssögunnar.  Ómar, mun Bitra njóta þess að vera nær þéttbýlinu?

Sigurður Þórðarson, 23.11.2009 kl. 06:12

3 identicon

Góðar athugasemdir hjá þér, Ómar. Samt finnst mér eins og stundum séu miklar öfgar í flutningi manna á þessu vandamáli. Þetta minnir dálítið á þá heimspekilegu spruningu: Ef tré er fellt í skógi, og enginn er þar staddur til að hlusta, er þá einhver hávaði af falli trésins ?.....Flestir Íslendingar hafa aldrei komið á þessi svæði og flestir túristar sem koma til landsins hafa ekkert erindi þangað. Er þá einhver eitthvað verðmæti þarna á ferðinni ? Svarið er auðvitað, Já, en fyrir hvern eru þessi verðmæti ?

Því miður verður náttúru landa alltaf spillt í einhverju formi og ekki þarf að fara lengra en inn í Sundahöfn í höfuðborginni til að sjá að þarna hafa menn byggt einhverja forljóta höfn þar sem náttúrulegri strandlengju var fórnað. Svona má auðvitað halda áfram en einhver millivegur verður alltaf að vera í náttúruvernd.

baldvin berndsen (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 14:57

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ásóknin í Bitruvirkjun og eyðileggingu Ölkelduháls er yfirþyrmandi því að meira að segja þótt Bitruvirkjun verði að veruleika vantar orku fyrir hið fáránlega stóra álver sem nú er þrýst á að rísi í Helguvík.

Ég vonast til að nábýlið við Hveragerði og þéttbýlið hér við Faxaflóa geti skapað öflugri andstöðu við Bitruvirkjun en við nokkrar aðrar virkjun hingað til.

Þessi andstaða er ekki aðeins nauðsynleg vegna þess að um verðuga baráttu sé að ræða gegn "ágengri orkuvinnslu" óendurnýjanlegrar orku með ósjálfbærri þróun, heldur ekki síður til að afsanna þá kenningu landsbyggðarfólks að fólkið á höfuðborgarsvæðinu sé alveg sama um eyðileggingu náttúruverðmæta hér en "hamist gegn" sams konar fyrirbærum úti á landi. 

Mín afstaða í þessum málum er og hefur verið sjálfri sér samkvæm í svona málum: Meðferð náttúruverðmæta á heimsmælikvarða, hvar sem er á landinu, er ekki einkamál heimamanna, og Reykjavíkurflugvöllur er ekki einkamál höfuðborgarbúa.  

Ómar Ragnarsson, 23.11.2009 kl. 15:00

5 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hinir sérstæðu sethjallar munu varðveitast undir vatni Hálslóns stendur hér.

Ekki hefur maður frétt neitt af skilyrði nr. 11.

Pétur Þorleifsson , 24.11.2009 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband