RÁÐ VIÐ BOTNGJÖF OG HEMLALEYSI.

Frétt um vandræði og árekstur af völdum fastrar bensíngjafar leiða huga minn að hugarleikfimi sem gott er að stunda reglulega hvað varðar það og einnig það að hemlar bresti. Föst bensíngjöf: Stiga strax á kúpingu / setja sjálfskiptingu í hlutlaust og hemla. Hemlaleysi: Notað neyðarhemil sem á að vera í hverri bifreið og kallast handbremsa.

En hugarleikfimin er aðalatriðið, því að aðalatriðið er að "frjósa" ekki eða fara í panik. Þessi hugarþjálfun er sú leikfimi að fara að staðaldri í gegnum það í huganum og þá helst í næði í bílnum sjálfum að æfa sig í þessum viðbrögðum svo að þau verði helst ósjálfráð.

Mér er það minnisstætt haustið 2001 þegar ég kom akandi á 43 ára gömlum NSU Prinz inn í Gautaborg og hemlarnir fóru skyndilega af. Litlu munaði að ég gleymdi því að handbremsa var á bílnum af því að það var orðið svo langt síðan að ég hafði leitt hugann að þessu. Mundi það þó nógu snemma til að afstýra stórslysi.


mbl.is Bensíngjöfin festist í botni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HLÝNUN OG MEIRI SNJÓR ?

Já, hlýnandi veðurfar getur valdið aukinni snjókomu á ákveðnum svæðum. Það stafar að því að stóraukin úrkoma fellur að vetrarlagi sem snjór á hálendi eins og nú gerist á skoska hálendinu og í Siearra Nevada í Kaliforníu. Sama hefur átt sér stað á norska hálendinu undanfarin ár. Munu jöklar þá ekki vaxa með aukinni snjókomu? Nei, því að það er bara takmarkaðan tíma ársins sem úrkoman fellur sem snjór en frá vori til hausts er hlýrra og meiri rigningar en áður og leysingin gerir meira en vinna aukna snjókomu upp.

Á ótal ferðum mínum um hálendið hef ég tekið eftir því undanfarna vetur að hlákurnar eru lengri og ákafari en áður var og að norðan Vatnajökuls gerir það meira en vega upp aukna snjókomu á köflum. Þannig gat ég lent á flugvellinum við Herðubreiðarlindir alla mánuði ársins 2004 og hef lent á Sauðarmel rétt norðan Brúarjökuls allt fram undir jól.


mbl.is Snjóflóðahætta á Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SÉRKENNILEGUR FLÓTTI.

Ummæli Jóns Viðars Jónssonar, "snobbliðið mætir til að klappa (í Borgarleikhúsinu) en almenningur finnur nályktina og flýr" hafa verið á allara vörum að undanförnu. Við sem tökum þátt í söngleiknum Ást höfum ekki skynjað þetta svona. Uppselt hefur verið á þær 70 sýningar sem haldnar hafa verið og sér ekki fyrir endann á því.
Í Morgunblaðinu í dag sé ég að þegar sé uppselt á allar fyrstu níu sýningar fram í febrúar á söngleiknum Jesus Christ Superstar á stóra sviðinu. Sérkennilegur flótti áhorfenda þar.

Að öðru leyti dettur mér ekki í hug að fara að deila um ummæli sem tengjast smekk eða matsatriðum þessa ágæta gagnrýnanda eða annarra. Hver verður að dæma fyrir sig.


ÞREYTANDI UNGLINGADRYKKJA.

Fréttin í 24 stundum um þreytta skólastjóra vegna unglingadrykkju kemur mér ekki á óvart. Ég bý skammt frá einum helsta skemmtistað borgarinnar og það er ömurlegt að vakna upp á næturnar við það þegar ofurölvi unglingar undir lögaldri veltast um nágrenni staðarins og um hverfið í nágrenninu. Ég veit til þess að þeir hafi komist inn í stigaganga fjölbýlishúsa og ælt þar allt út. Nú síðast á nýársnótt töfðumst við hjónin, Helga og ég, fyrir utan blokkina sem við búum í, því að hópur unglinga fór hamförum í anddyrinu, kúgaðist og ældi fyrir utan blokkina og reyndi allt hvað hægt var að komast inn í stigaganginn.

Loks gáfust þeir upp og slöguðu á móti óveðrinu í austurátt. Ekki veit ég hve langa leið þeir ætluðu að fara en það vöknuðu áhyggjur um það hvernig þeim gengi í óveðrinu. Tók óratíma fyrir þá að komast aðeins 20 metra fyrir húshornið. Fyrst þá var óhætt að fara inn í anddyrið því að maður veit ekkert í hverju maður getur lent ef maður fer að skipta sér af hópi sem er í þessu ástandi. 

Fyrir nokkrum árum stálu unglingar bíl sem ég átti og fannst hann síðar ónýtur í Hafnarfirði. Lögreglan þar sagði að ekki væri rétt að tala um unglingavandamál heldur frekar foreldravandamál. Langoftast kæmu svona unglingar af heimilum þar sem foreldrarnir mættu ekkert vera að því að hugsa um afkomendur sína um helgar, því að "skyldudjammið" svonefnda vægi þyngra.

Í sumum tilfellum væri ekkert hægt að gera því að foreldrarnir stunduðu vinnu sína á virkum dögum á viðunandi hátt en þyrftu ævinlega að detta í það á föstudagskvöldum og síðan rynni ekki af þeim fyrr en í lok helgarinnar.

Mjög líklegt er að unglingarnir sem við sáum á nýjársnótt og voru langt undir lögaldri, hafi í raun ekki átt í nein hús að venda þessa nótt vegna þess ástands sem var á heimilum þeirra.

Þeir hafa ekki við neitt annað að vera um helgar en það sem þeir hafa leiðst út í. Ég segi bara eins og Jón Ársæll: Já, svona er Ísland í dag.  


HVAÐ UM MELKORKU? / FLEIRA EN HLÝNUN.

 Vegna furðulegrar hindrunar sem birst hefur á mbl-vefnum við því að ég færi nýja bloggfærslu ætla ég að reyna að komast inn með því að breyta næstu færslu á undan en láta hana koma á eftir. Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld sagði Gísli Einarsson, vinur minn og félagi, að Brák væri frægasta ambátt Íslandssögunnar. Sá fjórðungur minn sem ættaður er úr Dölum vestur reis upp við dogg og spurði: Hvað um Melkorku? 

Það eru tæp 60 ár síðan ég las Laxdælu og Eglu en mig minnir að miklu meira hafi farið fyrir Melkorku í texta Laxdælu en Brák í texta Eglu. Auk þess er Laxdæla mitt uppáhald vegna þess að mér finnst hún vera sígildari og hafa elst betur og eiga meira erindi við samtíma okkar en nokkur önnur Íslendingasagna.

Gísli Einarsson á heima í Borgarnesi og Brák og Egill væru nú talin Borgnesingar. Amma mín í föðurætt, frændur mínir, Jón frá Ljárskógum og Jóhannes úr Kötlum og Melkorka, - allt þetta fólk átti heima í nágrenni Búðardals og teldust nú samsveitungar.

Af þessum sökum kanna að vera að við Gísli séum vanhæfir til að dæna í þessu máli. Gísli sagði við mig í kvöld að hann teldi Egils svo miklu merkilegri en aðra Vestlendinga á hans tíð að Brák ætti að njóta þess þegar hún væri metin. Hann sagðist reyndar ekki hafa munað eftir Melkorku í svipinn þegar hann skrifaði fréttina.

Engu að síður gátum við ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu í málinu og ég skýt þessu því til blogglesenda. 

Af fyrstnefndum tæknilegu örðugleikum kemur hér svo "hýsil"-blogg pistill minn:

 

FLEIRA EN HLÝNUNIN.  

Í allri umræðunni og deilunum um hlýnun jarðar af mannavöldum gleymist það sem gefur jafn mikla ástæðu til að minnka notkun óendurnýjanlega orkugjafa strax og ekki er hægt að deila um. Það er hvernig nú er sólundað og bruðlað með það takmarkaða eldsneyti sem eftir er í olíulindum jarðarinnar. Með því að bruðla með það er styttur sá umþóttunartími sem jarðarbúar hafa til þess að fikra sig yfir í notkun annarra orkugjafa. 

Þetta ábyrgðarleysi gagnvart komandi kynslóðum veldur því að auki að meira er blásið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en ef gripið væri strax til aðgerða.

Ef strax væri reynt eftir fremsta megni að minnka notkun jarðefnaeldsneytis ynnist þrennt:

1. Lægra orkuverð vegna minni eftirspurnar en ella hefði verið.

2. Lengri tími til þess að vinna að því að skipta yfir í aðra orkugjafa.

3. Hægari hlýnun og þar af leiðandi minni áhrif af henni og lengri tími til að fást við afleiðingar hennar.

Þeir sem streitast við að afneita áhrifum manna á hlýnunina geta ekki mælt á móti atriðum nr. 1 og 2. Nema þeir vilji afneita því að jarðefnaeldsneyti sé takmarkað og benda á það að þetta sé svipaður heimsendaspádómur og heyrðist fyrst um 1960 þar sem spáð var þurrð um 1980 til 1990, síðan aftur um 1980 þegar spáð var þurrð upp úr aldamótum.

Rétt er það að með bættri rannsókna- og bortækni hafa fundist nýjar og nýjar olíulindir. Í allri umfjöllum um þessi mál ber mönnum þó saman um það nú að leiðin geti ekki legið nema niður á við í síðasta lagi upp úr 2020. Æ dýrara er og erfiðara að ná til þeirrar olíu sem eftir er. 

Og það sem verra er: Allan þann tíma sem eftir er til notkunar á jarðefnaeldsneyti munu Arabaríkin ráða yfir yfirgnæfandi hluta af því sem til er á jörðinni, allt til enda.

Það er auk þess fásinna að treysta ávallt á það að nýjar og jafngóðar olíulindir finnist endalaust. Allir hljóta, fjandinn hafi það, að vera sammála um það að jarðefnaeldsneyti er ekki endurnýjanleg orkulind.

Það er hreint ábyrgðarleysi og til skammar fyrir okkar kynslóð hér á jörðinni að vilja varpa vandanum og úrlausnarefnunum á herðar afkomendanna. Það erum við sem sköpum vandann og okkur ber að leysa hann.  

Okkur ber að skila jörðinni betri til afkomendanna en við tókum við henni. 


mbl.is Verð á hráolíu fór í 100 dali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÖRUGGARI BÍLAR OG AKSTURSFRAMFÖR.

Þetta tvennt ræður mestu um það að hægt sé að segja þær góðu fréttir að banaslysum fækki í umferðinni þótt fréttir af banaslysum séu ævinlega dapurlegar. Með orðunum "framför í akstri" er átt við hæfilegri hraða og betri aðgæslu og einbeitingu ökumanna. Öruggari bílar vega ef til vill þyngst en betri öryggisbúnaður verður þó gagnslaus ef menn nota ekki bílbelti og skortur á notkun þeirra veldur sífellt 4-6 banaslysum á ári auk tuga alvarlegra slysa, sem hægt væri að komast hjá.

Því miður er erfitt að komast hjá alvarlegum slysum á meðan nógu margir aka ölvaðir eða sýna vítavert gáleysi sem jaðrar við það að ganga með byssu um götur og skjóta í allar áttir. 

Akstursfærni margra er ábótavant og þeir því vanbúnir til réttra viðbragða þegar óvæntar aðstæður koma upp. Almenn aðstaða til æfinga við erfið skilyrði á erfiðum vegum vantar enn og illitsleysi og sofandaháttur vaða enn uppi. Það væri gott áramótaheit hjá okkur öllum að taka okkur á í þessum efnum.  

 


mbl.is 15 létust í umferðarslysum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EILÍFÐARVANDI KNATTSPYRNUNNAR.

Meiðsli vegna tæklinga er eilífðarvandi knattspyrnunnar, sem kemur upp aftur og aftur. Einna lengst komst hann í heimsmeistarakeppninni 1966 þegar Brasilíumenn kvörtuðu sáran undan meðferðinni sem þeir voru látnir sæta á vellinum, og kenndu henni um að þeir komust ekki áfram í úrslitaleikinn. Þetta er líka eilíðfðarvandamál dómaranna því að takmörk eru fyrir því hve langt þeir geta gengið í að koma í veg fyrir að hinir brotlegu hagnist á brotum sínum þegar á heildina er litið.

Harka verður ávallt eitt af atriðum knattspyrnu og handbolta. Í handboltanum hefur gamla orðtakið "að taka vel á móti" sem notað var um góðan viðurgerning við gesti, breyst í það að nota öll hörkubrögð, "læsingar", olnbogaskot o. s. frv. þegar "tekið er vel á móti" andstæðingum þegar þeir sækja inn að vörninni.

Faðir minn heitinn var Íslandsmeistari hjá Fram í 1. flokki 1939 og sagði mér frá því hvernig hinn þýski þjálfari Linnemann gerbreytti leik liðsins á öllum sviðum, gerði hann bæði hraðari, nettari og skipulagðari, en einnig harðari á vissum sviðum. Hann gerði varnarmanninn Sigurð sem kallaður var "Stalín" að einum helsta máttarstólpa liðsins og lét hann til dæmis taka allar vítaspyrnur liðins, en það var þá alveg óþekkt að varnarmenn gerðu það.

Hann lét sig engu varða hverjir hefðu tekið vítaspyrnurnar fram að því heldur lét alla leikmenn liðsins reyna sig á fyrstu æfingunnni og valdi, öllum á óvörum, Sigga Stalín til hlutverksins. Þessi sterki varnarmaður skoraði öugglega úr öllum vítaspyrnum sem hann tók eftir það og ævinlega eins, með þrumuföstu "sláttuvélarskoti" rétt ofan við jörð í bláhornin. Eitt sinn fór skot hans í stöngina.  

Linnemann lagði áherslu á sálfræðinni í leiknum og fljótur að reikna út skæðasta og liprasta sóknarmann Vals, Ellert "Lolla" Sölvason.

"Lolli er í sérflokki sem sóknarmaður og hættulegasti mótherjinn í Val" sagði sá þýski,  "en hann hefur sálrænan veikleika, - sem felst í því að hann mun brotna andlega ef hann er tekinn nógu föstum tökum, því að hann skortir líkamlegan styrk. Í næsta leik verður það hlutverk Sigga Stalíns að taka Lolla sérstaklega fyrir og beita hann ítrustu hörku, láta hann finna fyrir líkamlegum styrkleikamun svo um munar."

Hann gaf Sigga Stalín heimild til að ganga svo langt ef þurfa þætti að hann tæki áhættu af að verða rekinn af leikvelli. "Ég spái því að ef þú þurfir ekki að taka svona fast á Lolla nema einu sinni og þá verður hann alltaf hræddur við þig eftir það. " 

Þetta gekk eftir og Siggi Stalín þurfti ekki að ganga til hins ítrasta gegn Lolla nema einu sinni í næsta leik. Eftir það var greinilegt að Lolli kveið ævinlega fyrir því að lenda á móti Sigga, sem þurfti aðeins og koma nálægt honum til að hafa sitt fram og þurfti eftir þetta ekki að beita hann meiri hörku en sýndist vera eðlileg og innan marka.

Linnemann tók sérstaklega fyrir vörn gegn hornspyrnum og taldi að markvörðurinn ætti að geta náð til 90% þeiirra, en það var alveg nýtt mat í íslenskri knattspyrnu. Hann lét markvörðinn standa úti í fjærhorninu í stað þess að fram að því höfðu markverðir staðið í miðju marki, - taldi að markvörðurinn sæi betur yfir markteiginn á þessum stað og ætti betra með að fara á móti boltanum og bægja hættunni frá.

Knattspyrnan getur verið hörð og óvægin íþrótt og vonandi er hún ekki eftir að komast á það stig sem hún komst á tímabili í heimsmeistarakeppnnini 1966, að hinn brotlegi hagnist á brotum sem beitt er í tíma og ótíma.  


mbl.is Meiðslin hjá Tevez skyggðu á sigur United
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KENNEDY - BHUTTO

Ýmislegt er líkt með morðunum á Bhutto og John F. Kennedy, svo sem það að fleiri en einn hafi hleypt af skotum. Í Sarajevo 1914 virðist ekkert hafa farið á milli mála að skotmaðurinn var einn á ferð og var þó ekki komin til skjala myndatökutækni okkar tíma. Nú er liðin næstum öld og fram koma misvísandi skýringar á dánarorsök Bhuttos, - framfarirnar hafa nú ekki orðið meiri en það.

Hins vegar ætti engum að koma á óvart þótt skotmenn Bhuttos og Kennedys hafi verið fleiri en einn. Þegar farið er út í aðgerð á borð við þessar reyna þeir sem að þeim standa að sjálfsögðu að tryggja árangur. Öruggast er að öfga- og vandræðamaður á borð við Lee Harvey Oswald beini allri athyglinni að sér eða þá að svipuð týpa sem er fyrirfram reiðubúin að taka eigið líf sé að verki á þann hátt að rannsóknin fari í ákveðinn farveg.

Það voru fleiri en hryðjuverka- og öfgamenn sem höfðu hag af því að ryðja Bhutto úr vegi, rétt eins og það voru fleiri en Lee Harvey Oswald sem gátu hugsað sér að Kennedy hyrfi af sjónarsviðinu.

Líklega situr heimurinn uppi með morð sem aldrei verður hægt að upplýsa um til fulls.


mbl.is Útskýringar á dauða Bhutto dregnar til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á AÐ HALDA ÁFRAM.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram til embættisins í öndverðu lét hann orð falla sem skilja mátti á þann veg að vísast yrði ekki um langan embættisferil að ræða enda slíkt ekki æskilegt. Staðan nú er hins vegar sú að mínu mati að ekki hefði verið heppilegt að hann drægi sig í hlé og því hið besta mál að hann haldi áfram.

Það duldist engum sem var samtíða Ólafi Ragnari í Menntaskólanum í Reykjavík að þar fór ungur ákafamaður sem ætlaði sér stóran hlut í að vinna fyrir þjóð sína. Hann kom eins og hvítur stormsveipur inn í skólann og minnstu munaði að honum tækist að kollvarpa því kerfi félagsmála nemenda sem ríkt hafði í skólanum frá öndverðu og byggðist á því að sjöttubekkingum voru tryggð mikil áhrif hverju sinni en busar hins vegar nokkuð afskiptir. Þetta fannst Ólafi Ragnari ekki ekki réttlátt og tókst næstum því að breyta því með því að vera í forystu fyrir uppreisn busa og neðribekkinga.

Sumir líta á Ólaf Ragnar í ljósi þess að hann var lengi í forystu Alþýðubandalagsins og formaður þess um skeið og tala um mikla vinstri slagsíðu á stjórnmálaferli hans. Ég tel þetta rangt mat á þeim grunngildum sem Ólafur Ragnar vildi berjast fyrir frá upphafi og sást best í því að í upphafi reyndi hann að hasla sér völl í miðjuflokki, Framsóknarflokknum, sem hins vegar reyndist of niðurnjörvaður í gömlu fari þröngra hagsmuna til þess að Ólafi tækist að hafa áhrif til þeirra umbóta sem hann taldi nauðsyn á.

Ólafi Jóhannessyni var ekki vel við það sem þessi umbótasinnaði ungi maður vildi gera og Ólafi Ragnari hefði aldrei tekist að komast fram fyrir erfðaprinsinn Steingrím Hermannsson í Framsóknarflokknum.

Kannski var það best eftir á að hyggja því að ekki hefði verið heppilegt að Steingrími hefði verið varnað að hasla sér völl með eftirminnilegum hætti.

Ég minnist augnabliks veturinn 1995-96 þegar ég ók rólega inn Hverfisgötu og sá biðröð við kvikmyndahúsið Regnbogann. Þar stóðu þau hjónin, Ólfur Ragnar Grímsson og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir og báru af að glæsileika svo að það sást langar leiðir og niður í huga minn laust þessari hugsun eins og eldingu: Auðvitað!
Þetta yrðu frábær forsetahjón!

Ég hef átt þess kost að vera samferða forsetanum bæði erlendis og innanlands og hrifist af því hve vel hann hefur rækt hlutverk sitt sem fulltrúi þjóðarinnar og gæti sagt af því nokkrar sögur. Læt aðeins eina fylgja hér:

Við styttu af Jóni Sigurðssyni í Winnipeg þurfti Ólafur að halda tækifærisræðu. Ég sé alltaf eftir því að hafa ekki látið myndavélina ganga allan tímann sem hann hélt þessa afburða góðu ræðu, blaðalaust af munni fram á svo frábæran hátt að ætla hefði mátt að margra daga lærdómur og æfingar stæði að baki, svo vel var þessi ræða saman sett og flutt.

Í þeirri ferð og öðrum ferðum erlendis gat maður verið stoltur sem Íslendingur af því að eiga svo frábæran fulltrúa. Raunar höfum við Íslendingar verið einstaklega heppin með val okkar í þetta embætti, minnug glæsilegrar frammistöðu Vigdísar Finnbogadóttur í embættinu á sinni tíð sem ljómi mun leika um á meðan land byggist.

Fleiri dæmi gæti ég nefnt þar sem Ólafur nýtti sér frábærlega þá einstöku aðstöðu sem þjóðhöfðingjar landa hafa til að láta til sín taka á alþjóðavettvangi.

Svo margt gott hefur Ólafur gert í embætti og svo vel hefur hann sinnt því að það eina sem mér finnst að hann hefði átt að gera öðruvísi, þ. e.. að skjóta Kárahnjúkamálinu til þjóðarinnar, breytir í engu því áliti mínu að betri mann getum við Íslendingar ekki átt til að gegna þessu embætti nú.

Vandséð er annað en að Ólafur verði kjörinn úr því að hann gefur kost á því og ástæða er til að óska honum og Dorrit velfarnaðar á komandi árum.


mbl.is Býður sig fram til endurkjörs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband