Færsluflokkur: Heilbrigðismál
24.6.2021 | 09:24
Flest gilin í "Giljaheimi" eru eftir.
Þegar ég flaug í fyrsta í austurátt sinn meðfram fjalllendinu austan við Sólheimajökul allt austur fyrir Mýrdalsjökul var það stórundarlegt hvernig svo mörg undraþröng og djúp gil voru þarna án þess að það virtist vera á vitorði nema örfárra.
Þetta var eins og almættið hefði sett á fót Íslandsmóti, já, Evrópukeppni í gljúfrasmíði.
Hátt á annan tug hrikalegra djásna, en líklega ekkert manngengt að innanverður, heldur í mesta lagi eftir gljúfurbörmunum.
Eitt gilið, það langstærsta, Norðurgil, var hins vegar svo hrikalega stórt, að í sjónvarpsþættinum Heimsókn 1975, sem snerist um Vík í Mýrdal, var myndin af því gili tekin út um framgluggann á tveggja hreyfla flugvél af gerðinni Cessna 310.
Eftir það var það eitt það stórbrotnasta sem hægt var að bjóða farþegum í litlum flugvélum upp á, að fljúga lágt niður skriðjökulinn í norðausturhorni gilsins og beygja inn í það, þar sem það þrengdist og virtist ætla að enda með þverhnípum hamravegg.
Þá var sagt við farþegana: Það verður hægt að beygja bæði til vinstri og hægri við endann, en aðeins önnur leiðin er rétt; hin leiðin liggur inn í dauðagildru.
Síðan var rétt beygja tekin þar sem komið var að gljúfri, sem liggur þvert fyrir enda gilsins, 90 gráðu beygja, mjög kröpp og haldið áfram að þræða krókótt gilið í svo kröppum beygjum að taka varð þær eð því að halla vængjunum í nær lóðrétt í hverri þeirra til þess að ná þeim.
Að lokum komið út úr gilkjaftinum niðri á láglendinu eftir för um magnaða flugleið.
Þetta var endurtekið í sjónvarpsþætti Láru, Ferðastiklum, þegar hún fór með smalamönnum um svæðið, en giljaheimur allra hinna þröngu gilja, sem jafnvel eru ófær drónum, bíður síns tíma.
Kannski tæknilegur möguleiki að leyfa ferðamönnum að horfa á stórum skjá á flug um gilin á drónum.
Athuga má að þessu svæði verði gefið nafn, til dæmis nefnt Giljaheimur og sett á sérstall sem náttúrufyrirbæri af hæstu gráðu.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2021 | 11:05
Það var búið að spá honum, þessum. Hvað næst?
Nú eru rúmt ár síðan skjálftahrinur fóru að koma norður af Grindavík. Kvikuhreyfingar og landris mældust við Eldvörp og smám saman fluttist miðja skjálftanna til norðausturs og varð nálægt Fagaradalsfjalli.
Sú spá kom fram í eitt sinn hjá jarðfræðingi að líklegt væri að stórskjálfti riði yfir áður en langt um liði.
Í ýmsum upprifjunum kom fram að fyrir 700 til l000 árum hefði verið óróatímabil á Reykjanesskaga með eldgosum og tilheyrandi hraunum.
Eftir hvíldina síðan þá væri ekki hægt að útiloka að það stefndi í annað eins. Spurningunni "hvað næst?" er þó ósvarað á þessum fagra febrúarmorgni, sem er við sunnanverðan Faxaflóa.
En hrinan í heild, sem nær frá Grindavík austur undir Kleifarvatn, er orðin sú stærsta til þessa.
En engin merki enn um kvikuhreyfingar.
Velta má vöngum yfir áframhaldandi tilfærslu helsta óróasvæðisins til norðausturs austur í Brennisteinsfjöll og segir Kristín Jónsdóttir hjá Veðurstofunnni að þar geti orðið enn stærri skjálftar.
Hvernig yrði brugðist við því ef í aðsigi væri óróatímabil með eldgosum eins og fyrir 700 árum?
Það er stór spurning sem ekki hefur verið svarað til fulls.
Og þó. Í gangi er vinna við þá bjargföstu áætlun að leggja nýjan alþjóðaflugvöll sem næst þeim sloðum þar sem runnið gætu ný hraun í nýjum hrinum.
P.S. Keilir er ekki "á Reyjkanesi" heldur á Reykjanesskaga. Reykjanes er í meira en 25 kílómetra fjarlægð frá Keili.
Skjálftahrina á Reykjanesskaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)