11.1.2010 | 18:29
Jóhanna í Time.
Jóhanna Sigurðardóttir er ekki aðeins í helstu fréttum hér á landi með tilheyrandi myndum þegar velt er vöngum yfir bestu leiðinni í Icesave-málinu.

Nú má sjá að grein um evrópska leiðtoga í nýjasta hefti tímaritsins Time og hefst greinin á því að segja frá Jóhönnu.
Í þeirri grein er raunar ekki fjallað um stjórnmálastörf hennar og því síður um Icesave, heldur er fjallað um nafngreinda sex samkynhneigða evrópska leiðtoga.
Sagt er frá því að Jóhanna hafi gengið í sambúð með konu fyrir átta árum en engum Íslendingi hafi þótt það fréttnæmt eða tiltökumál, þannig séu nú viðhorfin í landi okkar.
Íslendingar hafi ekki farið að ræða um þetta fyrr en erlendir fjölmiðlðar fóru að gera mikið úr því.
'
Ég minnist þess ekki að íslenskur stjórnmálamaður hafi áður komist í myndskreytta grein í Time.

![]() |
Mjög gott skref |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2010 | 09:25
Fljótfærnislegt og rangt mat.
Sú ákvörðun Fitch Ratings að setja Ísland í ruslflokk var bæði fljótfærnisleg og röng og ber þess vott að sérfræðingar fyrirtækisins hafi ekki vitað í hverju ákvörðun forseta Íslands var fólgin.
Ákvörðun forsetans er kölluð veto á ensku en merking þess orðs er endanlegt neitunarvald svipað og stórveldin hafa í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
En hér er notað rangt orð. Hið rétta orð hefði verið appeal sem þýðir málskot.
En veto íslenska forsetans er ekki það sem menn halda þegar þeir heyra það nefnt. Þvert á móti taka lögin gildi og verða í gildi minnsta kosti fram til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og hugsanlega líka eftir hana.
Það er ekki neitunarvald í venjulegum skilningi sem forsetinn hefur, heldur áfrýjunarvald, málskotsréttur.
Þótt 6-7 vikur muni líða þar til atkvæðagreiðslan fari fram er það staðreynd að lögin gilda þangað til, þótt vissulega sé óvissa um framhaldl þeirra eftir það.
Fitch Ratings hefði samkvæmt þessu í mesta lagi átt að setja Ísland á athugunarstig eins og önnur lánshæfismatsfyrirtæki gerðu.
Og þess ber að gæta fyrir hverja lánshæfisfyrirtækin vinna. Þau vinna fyrir lánveitendur, ekki lántaka.
Ríkisstjórnin sagðist hafa farið á fullu í slökkvistarf eftir ákvörðun forsetans. Það fólst meðal annars í því að koma erlendum aðilum í skilning um að veto forsetans væri ekki þess eðlis sem haldið var erlendis.
Fitch Ratings getur ekki þvegið af sér frumhlaup sitt því að það blasir við öllum.
![]() |
Fjármögnun sett í uppnám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.1.2010 | 15:02
Mesta hættan, náttúruverðmætum fórnað.
Margir náttúruverndarmenn sögðu sem svo að ekki væri allt alvont við hrunið, - nú yrði kannski smá hlé á því að vaðið væri áfram með stóriðju og tilheyrandi virkjanir í skefjalausum hernaði gegn landinu.
Ég benti þá strax á það og það á eftir að koma betur á daginn, því miður, að þessu væri þveröfugt farið.
Nú yrði hið slæma ástand notað sem afsökun fyrir því að vaða áfram af enn meiri græðgi í að láta kreppuna bitna á náttúruundrum landsins.
Nú liggur mönnum svo mikið á að þeim er sama þótt fældir séu frá skaplegri kaupendur orkunnar.
Lyktir Icesave-málsins og enn stærri skuldamála hrunsins munu því hafa gríðarlega þýðingu langt fram í tímann, löngu eftir að þessum fjármálavandamálum lýkur, því að náttúrueyðileggingin verður mjög víða aldrei bætt frekar heldur en var við Kárahnjúka.
Það verður tjónið sem mun bitna á milljónum ófæddra Íslendinga um alla framtíð.
Eitt besta dæmið er svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki.
Stigið hefur veirð stórt skref í því að fórna því svæði með því að samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins hefur samþykkt einróma að verði gert að virkjana- og iðnaðarsvæði í skipulaginu.

Þetta á að gera þótt með því sé óheyrilegum náttúruverðmætum fórnað fyrir mun minni fjárhagslegan ávinning en felst í því að nýta það til hæfilegrar ferðamennsku og auglýsingar fyrir landið og þjóðina sem varðveitir það fyrir mannkynið.
![]() |
Lipietz: Veikur málstaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.1.2010 | 12:00
Eru innistæður útlendinga ekki þeirra mál líka?
Ef verið væri að greiða þjóðaratkvæði um vínbann á Íslandi eða um fjölmiðlalög væru það íslensk innanríkismál og því ekki við hæfi að útlendingar væru að skipta sér af því.
En komandi þjóðaratkvæðagreiðsla er mjög óvenjuleg, ekki aðeins hér á landi, heldur væri hún það í hvaða landi sem er, vegna þess að hún er tilkomin vegna milliríkjasamnings.
Hún snýst ekki aðeins um það að íslenskt bankaútibú í útlöndum varð gjaldlþrota heldur um innstæður útlendinga í þessu útibúi, sem ekki fá sömu afgreiðslu og innstæður Íslendinga sjálfra fengu öðrum útibúum sama banka á Íslandi.
Lög um ríkisábyrgð á Icesave-innistæðum urðu til vegna milliríkjasamninga og milliríkjasamningar Íslendinga eru ekki eingöngu innanríkismál Íslendinga heldur hljóta þeir líka að snerta þá útlendinga, sem töpuðu innistæðum sínum.
Eða þetta hélt ég. En kannski er það bara misskilningur hjá mér.
Kannski er íslenskt innanríkismál og sú krafa okkar að við fáum þá peninga hjá Dönum sem okkur sjálfum sýnist að við þurfum.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.1.2010 | 18:22
Ýmsar hliðar á 2007 enn á ferli.
Hliðarnar á hruninu eru margar og misjafnar. Ein mun sjást á morgun í bílamótmælum sem stefnt er að.
Ekki þarf annað en að kynna sér bílainnflutning gróðærisáranna til að sjá að margir hljóta að hafa farið illa út úr lántökum vegna kaupanna.
Bylgjan hófst 2002 þegar skrifað var undir Alcoasamninga um Kárahnjúkavirkjun og ári áður en framkvæmdir hófust.
Ég þekki mann, sem sérhæfði sig í innflutningi fyrir einstaklinga, einkum frá Bandaríkjunum.
Hann sagði mér að strax við undirritun samningana um álverið hefði alger ládeyða í innflutningi breyst í brjálaða törn. Samt var heilt ár þangað til einhvað var yrði farið að vinna við Kárahnjúka.
Hann sagði mér að yfirleitt hefðu þeir sem komu til hans slegið lán fyrir kaupunum og keyrt yfirdráttarheimildir í botn.
Ráðleggingar hans um að fara að með gát hefðu fallið í grýttan jarðveg, - allir voru að taka lán út á væntanlega þenslu.

Það var athyglisvert að skreppa í dag og skoða tvo nýja bíla sem á að fara að flytja inn til landsins.
Það er lítið um slíkt framtak um þessar mundir, svo mikil lægð hefur verið í bílainnflutningi að nálgast frost.
Hjá Brimborg var verið að kynna nýja gerð af Ford Ka, sem er minnsti bíll Fordverksmiðjanna og tvíburabíll Fiat 500 sem var kjörinn bíll ársins í Evrópu þegar hann kom á markaðinn, Meðal keppinauta þessa nýja bíls eru þríburabílarnir Citroen C1, Toyota Aygo og Peugeot 107, Suzuki Alto, Hyunda i10 og Kia Picanto.

Ford Ka og Fiat 500 eru vel heppnaðir og mismunurinn á þeim liggur fyrst og fremst í útliti og tilbrigðum í búnaði og fjöðrun.
Minnstu og ódýrustu bílarnir sem hér hafa verið nefndir kosta frá rúmum tveimur milljónum króna.
Á sama tíma var verið að kynna nýjan Toyota Landcruiser 150 en bílarnir af þeirri gerð, sem sýndir voru, kosta 10 til 13 milljónir króna.
Nú skyldi maður ætla að á tímum kreppu og hruns væri mikil hreyfing í kringum ódýrustu bílana en færra áhugafólk um þá dýru, stóru og þungu.
En þetta var alveg öfugt. Mikill fjöldi fólks var í bílasalnum hjá Toyota og þegar ég spurði sölumennina hvort þetta fólk væri að skoða Toyota Aygo og Yaris svöruðu þeir því til að sáralítil hreyfing væri á þeim bílum.
Allt þetta fólk væri að skoða stóru jeppana, nokkrir jeppanna hefðu þegar selst og liti ágætlega út með söluna á fleirum næstu vikur.
Hvernig má það vera að nær engin hreyfing sé á ódýrustu bílunum en húsfyllir að skoða bíla sem kosta hver um sig á annan tug milljóna króna?
Einu sinni var sunginn söngurinn "Þú ert sjálfur Guðjón inn við beinið" og kannski er svarið núna" Þú ert svolítið 2007 inn við beinið."
Þrjár aðrar skýringar má nefna.
1. Það er alltaf gaman að láta sig dreyma, svona svipað eins og þegar fólki býðst að fara á sýningu þar sem kjólar, skartgripir og dýrir munir glitra, bara til að fá að horfa á og skoða.
2. Eftir gróðærið eiga margir jeppa í þessum flokki og hafa áhuga á að skoða nýjustu gerðina.
3. Ævinlega er til fólk, sem hefur góð fjárráð, hvort sem ríkir uppsveifla eða kreppa. Sumir finna jafnvel betri gróðamöguleika í kreppunni en í gróðæri.
Tilfellin þar sem fólk á í vandræðum með bílalánin eru jafn mismunan og þau eru mörg, allt frá því að vera komin í vandræði út af ástandi, sem ekki var hægt að sjá fyrir, og upp til þess að hafa látið blindast af gylliboðum gróðærisins og óraunhæfum fjárhagsáætlunum.


![]() |
Enn mótmælt á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.1.2010 | 13:45
Kristinn, besti söngvari Íslandssögunnar.
Ofangreind orð kunna að þykja djarflega mælt en til er enskt máltæki, sem segir:"you can´t argue with success", þ. e. - um árangur þarf ekki að deila.
Kristinn getur nú gengið inn í aðalhlutverk í hvaða óperuhús heims sem hann kýs og enginn Íslendingur hefur náð eins langt í því merkasta af þeim, Metropolitan óperunni í New York.
Í einu af virtustu tónlistartímaritum Evrópu kom einu sinni dómur um söng Kristins í Töfraflautunni eftir Mozart, svohljóðandi: "Sigmundsson söng þannig að betur verður ekki gert".
Ég held að enginn íslenskur óperusöngvari geti státað af svipuðum dómum og Kristinn hefur fengið.
Hann er hins vegar hógvær maður og ofangreindur dómur komst ekki í neinar fréttir hér á landi, heyrðist aðeins einu sinni um þetta í fréttum útvarpsins klukkan fjögur.
Í viðtali við Kristin í útvarpi fyrir viku mátti heyra upptöku á því þegar óperugestir slepptu sér eftir aríu hans í Rakaranum í Sevilla, risu á fætur, blístruðu, hrópuðu og klöppuðu taktfast drykklanda stund.
Þetta heitir "show stopper" á leikhúsmáli og gerist sjaldan í stærstu óperuhúsum heims.
Miðað við það hver mörgum öðrum Íslendingum hefur verið verðskuldað hér heima er kominn tími til þess að við látum Kristinn njóta hins sama í hlutfalli þess sem hann á skilið.
Sumir íslenskir óperusöngvarar hafa ekki fengið þá viðurkenningu hér heima sem hefði verið í hlutfalli við viðurkenningu annarra.
Á sínum tíma var Stefáni Íslandi mjög hampað fyrir frammistöðu sína í Kaupmannahafnaróperunni og ekkert við því að segja, hylli hans var verðskulduð.
En minna fór fyrir því að Einari Kristjánssyni væri hampað fyrir það hve þekktur og virtur hann var í þýskum óperuhúsum á mun stærri vettvangi og í mun harðari samkeppni.
![]() |
Kristinn syngur í beinni á Rás 1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.1.2010 | 22:15
Hvaða fé "stingum við í eigin vasa"?
Stórskemmtileg er grein Hatterslays lávarðar um okkur Íslendinga. Þegar ég horfi á íslenska umferð og útlendingar spyrja mig hvers vegna hún sé svona finn ég ekkert annað svar en að við hefðum fyrir 1100 hundruð árum farið frá Noregi til þess að vera okkar eigin herrar en hlíta engum boðum né bönnum.
Ekki er þá ónýtt að geta vitnað í hina frægu setningu: "Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."
Og til þess að nefna nýrra dæmi má nefna setninguna, sem við sungum öll af svo mikilli innlifun í fyrsta þorskastríðinu: "Á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint!"
Það skemmir þýðinguna á texta lávarðarins að þýða orðið "unreasonable" sem " ósanngjarnir".
Hér kemur upp vandamál við þýðingar sem felst í því að blæbrigði og gildissvið orða getur verið mismunandi eftir tungumálum.
Þá verður að bera hið vandþýdda orð við annan texta á undan og eftir og þá sést af samhenginu í grein Hatterslays, að ef hann hefði meint það að Íslendingar væru "ósanngjarnir" hefði hann frekar notað orðið "unfair".
Fjölmörg dæmi eru um að merking enskra orða geti náð yfir merkingu fleiri íslenskra orða.
Þannig þýðir orðið "power" á ensku ekki aðeins "afl" heldur líka "vald".
En mikið væri nú gaman ef þessir peningar sem þjóðirnar rífast um rynnu ofan í okkar vasa hvers og eins, eins og lávarðurinn orðar það.
Það væri nú ekki ónýtt að að hvert okkar fái útborgað 2,4 milljónir út á þrjóskuna.
![]() |
Hinir þrjósku Íslendingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.1.2010 | 21:52
Að móta hefð.
Forsetinn okkar talaði um lýðræðishefðina sem stæði að baki þjóðaratkvæðigreiðslum á Íslandi í frægu viðtali við grimman breskan fréttamann.
Raunar eru liðin 65 ár frá síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu og allir dauðir sem stóðu að henni, en það skiptir ekki máli heldur hitt að nú sýnist loksins vera komið að því að móta þá hefði sem forsetinn sagði að hér hefði verið.
2004 ætluðu þáverandi stjórnvöld að snúa sig út úr vandræðunum með því að leggja fram annað fjölmiðlafrumvarp sem aðeins örlítið breytt og láta það líta út sem nýtt frumvarp og synjun hins fyrra frumarps væri því ekki lengur gild.
Þetta féll um sjálft sig og þáverandi stjórnarandstaða fannst þessi útgönguleið fráleit.
Nú er hún við völd og Icesave-málið þannig vaxið að ekki kemur annað til greina en annað hvort já eða nei.
Og það þarf snör handtök, bæði vegna ákvæðis stjórnarskrárinnar og eðils málsins.
Vonandi er nú um síðir um að ræða upphaf á því sem verði hefð í íslenku stjórnarfari aukins og beinna lýðræðis á 21. öld.
![]() |
Lög um þjóðaratkvæði samþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.1.2010 | 17:25
Stjórnarflokkarnir ráða, - ekki ráðherrar utan flokka.
Ríkisstjórn Íslands er mynduð samkvæmt stjórnarsáttmála, sem gerður var milli tveggja flokka, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Jóhanna Sigurðardóttir er forsætisráðherra. Gylfi Magnússon varð ráðherra, eftir því sem best var vitað, sem ráðherra utan flokka.
Ekki veit ég til þess að það hafi breyst. Þess vegna verður það hvorki hann né hinn ráðherrann, sem er utan flokka, Ragna Árnadóttir sem ákveða hvort ríkisstjórnin eigi að segja af sér ef Iceasave-lögin verða felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þau geta ákveðið fyrir sjálf sig hvort þau tengja stjórnarsetu sína við þetta mál, en það hefur ekkert gildi fyrir stjórnarsamstarfið.
Það geta raunar fleiri ráðherrar gert án þess að það valdi stjórnarslitum því einn ráðherra, sem er flokksbundinn í VG, þegar sagt af sér vegna Icesave-málsins án þess að það hefði áhrif á stjórnarsamstarfið, felldi stjórnina eða meirihlutafylgi fyrir málinu á þingi.
Gylfi getur, eins og allir aðrir, haft sína skoðun á því hvort rétt sé að ríkisstjórnin leggi sjálfa sig að veði í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
En einungis stjórnarflokkarnir sjálfur geta lagt þær línur sem lagðar verða, ekki ráðherrar utan flokka.
![]() |
Gylfi: Stjórnin frá ef Icesave fellur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2010 | 23:12
Borgin og bílarnir.
Fyrrum fjölmiðlamenn eru nú að hasla sér völl í skipulags- og umhverfismálum í Reykjavík.
Ég fór síðdegis á fyrirlestur Gísla Marteins Baldurssonar í Þjóðminjasafninu þar sem hann reifaði það helsta sem hann hefur lært í námsdvöl sinni erlendis um skipulags- og umhverfismál í borgarsamfélaginu.
Gísli Marteinn flutti þarna stórskemmtilegan og fræðandi fyrirlestur með tilheyrandi myndefni og var gerður góður rómur að málflutningi hans.
Það hefur vantað á að Íslendingar hafi farið til útlanda til að víkka sjóndeildarhring sinn í þessum málum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom hingað heim frá reisu sinni víða um lönd til að kynna sér þessi mál og hristi rækilega upp í stöðnuðum og úreltum sjónarmiðum, sem hér réðu þá för.
Báðir þessir menn eru fyrrverandi samstarfsmenn mínir í Sjónvarpinu og hafa kynnst rannsóknarblaðamennsku og vinnubrögðum sem nýtast vel á öðrum sviðum.
Auk þeirra er Hjálmar Sveinsson kominn á kreik fyrir Samfylkinguna með svipaðan málaflokk sem helsta áhugamál eftir vel heppnaða og upplýsandi umfjöllun í þáttum sínum í útvarpinu.
Helsti gallinn við umfjöllun Gísla Marteins og fleiri í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna er sá að vegna þess að höfða þarf til Reykvíkinga er vettvangur þeirra bundinn um of við borgina eina.
Gísli Marteinn og Hjálmar munu fá harða samkeppni frá öflugum keppinautum sem eru á svipaðri línu og þeir og hafa barist fyrir svipuðum sjónarmiðum.
Hjálmar Sveinsson fór í þáttum sínum ofan í þessi mál í nágrannasveitarfélögunum ekki síður en í Reykjavík, en spurning er hvort hann geti haldið þeirri víðu sýn áfram í kapphlaupinu um fylgi í Reykjavík.
Meðal gesta á fyrirlestri Gísla í dag var Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Fyrir nokkrum árum fór ég í ferð um þrjú Norðurlandanna til að taka myndir í fyrirhugaða þætti mína um skipulagsmál í norrænum borgum og tók myndir í alls tólf borgum.
Var þetta gert í tilefni af skýrslu borgarsamtaka Norðurlanda sem bar saman 16 norrænar borgir.
Athyglisvert var að allar borgirnar sem voru álíka stórar og Reykjavík voru álíka dreifbyggðar og það sýnir að dreifð byggð í Reykjavík er ekki einstætt fyrirbrigði eins og heyrst hefur í sibylju hér á landi í áratugi.
Meðal skemmtilegra hugmynda Gísla Marteins var að fjölga íbúum í Skeifuhverfinu í Reykjavík úr einum upp í 1300 án þess að leggja nokkra verslun eða þjónustu þar niður.
Þar kemur hann inn á ný viðhorf skipulagsarkitekta erlendis sem Sigmundur Davíð minntist líka á á sínum tíma, en þeir eru að hverfa frá blokkabyggðum, sem annað hvort eru skrifstofublokkir eða íbúðablokkir og halda frekar fram blandaðri byggð og sækjast ekki eingöngu eftir háhýsum í viðleitninni við að þétta byggð.
Í DV hefur verið rætt um að innan raða Sjálfstæðismanna sé hreyfing um að koma Gísla Marteini út úr efstu sætunum.
Ég hjó eftir því í fyrirlestrinum að hann kvað þurfa sátt um innanlandsflugið í borginni og á landsvísu. Ef hann heldur sig við það er það klókt hjá honum og ef hann stendur sig jafnvel í kosningabaráttunni og á fyrirlestrinum í dag verður spennandi að sjá hvernig honum mun vegna.
Læt svo fylgja með í lokin að ég var fyrst núna að klára pistil sem kemur inn á eitt vandamál umferðarinnar sem er stærð farartækjanna og datt of snemma inn á bloggsíðuna ókláraður.
Það er pistill er nú fullklráraður hér á undan með nafninu "Japönsku Kei-bílarnir á Íslandi" og er nú hægt að lesa hann í endanlegri mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)