RÚNTUR OG RÝMISGJALD.

Á annarri bloggsíðu hér á mbl.is er mér borið eftirfarandi á brýn: Ekur um á reykspúandi bensínhákum. Stundar utanvegaakstur. Skemmir landið með þjöppun flugbrauta. Leggur til aukinn útblástur. Ekkert af þessu er rétt. Hér eru staðreyndirnar:

Fyrsti bíllinn minn var minnsti og sparneytnasti bíll á Íslandi og síðan hef ég alla tíð reynt að aka um á minnstu, sparneytnustu og ódýrustu bílum sem hægt er að finna. Um árabil hef ég ekið um á minnsta og sparneytnasta bíl sem völ er á á Íslandi: Daihatsu Cuore 1987.

Eins oft og ég get ek ég um hálendið á langminnsta, sparneytnasta  og ódýrasta fjórhjóladrifsbíl sem hægt er að finna, Daihatsu Cuore 4x4 ´87.

Síðustu Vatnajökulsferð fór ég á Suzuki Fox, ´85, minnsta jöklabíl landsins, 920 kílóa bíl. Reyni að fara á honum allar jöklaferðir sem hægt er að fara á svo litlum bíl. 

Ásakanir um utanvegaakstur eru fráleitar nema það teljist utanvegaakstur að aka á jökli.

Ég lenti á tveimur stöðum í lónstæði Hálslóns áður en dalnum og þar með flugbrautunum var sökkt í drullu. Norðan við Brúarjökul er lendingarstaður svipaður öðrum slíkum sem Flugmálastjórn hefur gert. Þessi lendingarstaður var tekinn út af fulltrúum Umhverfisstofnunar, Norður-Héraðs, Landsvirkjunar og Impregilo, enda er það öryggisatriði fyrir svæðið að geta lent á besta lendingarstað norðan Vatnajökuls.

Vegna frostlyftingar yfir veturinn er ekki hægt að sjá það á vorin að þarna sé lendingarstaður.

Að lokum útblásturinn og bensíneyðslan sem ég er skammaður fyrir með því að leggja til að fríska aðeins upp á rúntinn í Reykjavík. Þessi aukning á akstri um nokkrar götur er svo lítið brotabrot af þeirri sóun sem felst í því að snatta um og fara í og úr vinnu á núverandi bílaflota að það tekur því ekki að tala um rúntinn í því sambandi.

Um Miklubrautina eina fara 100 þúsund bílar á dag. Með því að minnka þá eyðslu sem felst í daglega snattinu fengist vafalaust langt yfir 90 prósent af þeim sparnaði sem hægt er að fá á þessu sviði.   

Ég er með róttækar tillögur um minnka sóunina vegna hins daglega snatts: Einskonar rýmisgjald sem skattleggur bíla eftir lengd. Meðallengd bíls er um 4,50 metrar. Smart er 2,5 metrar. Ef helmingurinn af bílaflotanum væri af þeirri lengd myndu losna 100 kílómetrar af malbiki á Miklubrautinni einni á hverjum degi! Og bensínsparnaðurinn yrði gríðarlegur.

Það er réttlátast að borgað sé fyrir afnot af malbiki í hlutfalli við það flatarmál sem notað er. Þetta myndi spara milljarða vegna umferðarmannvirkja. Það þarf ekki 1500 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti. (Meðalfjöldi um borð í bíl er 1,1 ). Þaðan af síður þá 5,5 metra löngu 3ja tonna bíla sem maður sé þeytast um göturnar með einn mann hver.

Ég hef í nokkra áratugi dundað við að teikna bíl sem tekur tvo menn og er 2,5 metrar á lengd og 1,10 á breidd. Það er tæknilega mögulegt að framleiða slíkan bíl. Fjórir slíkir kæmust þversum í bílastæði þar sem einn kemst nú og hægt yrði að taka tveimur saman á akrein.

Ég legg til að Íslendingar taki forystu meðal þjóða um úrbætur og sparnað á þessum nótum með því láta gera módel af slíkum bíl og stokka upp bílagjöldin þannig að í staðinn fyrir rýmisgjaldið yrðu önnur gjöld á bílum lækkuð. Þegar á að spara á einhverju sviði næst mesti sparnaðurinn í hinni hversdagslegu og daglegu eyðslu.

Ef á að spara í matarkaupum yfir árið ráðast menn ekki fyrst á jólamatinn því hann er svo lítill hluti af þeim og jólasteikin er sálræn nauðsyn fólks til að gera sér dagamun.

Almennilegur rúntur í Reykjavík er tilbreyting í tilverunni en hið daglega snatt ekki. Úr því að möguleikarnir til umtalsverð sparnaðar liggja þar að auki nær allir í að draga úr kostnaði við þetta snatt er það leiðin til árangurs. Ekki að ráðast á örlítinn hluta akstursins sem skiptir engu máli miðað við heildina.

En nú spyrja menn: Hvað um fjölskylduna? Henni nægir ekki tveggja manna bíll. Jú, rétt er það, en þá kemur hugsanleg lausn á því. Meðalfjölskyldan á Íslandi á þegar tvo eða jafnvel þrjá bíla. Í þessu hugsanlega rýmisgjaldakerfi ættu menn kost á því að hafa innsiglaðan mæli í stóra bílnum sem grunn að því að borga rýmisgjaldið í hlutfalli við vegalengd sem ekin er.

Kerfið hvetur á jákvæðan hátt til sparnaðar. Litli bíllinn hefur yfirburði í þægindum í borgarakstri og ef einn maður þarf að skjótast til Akureyrar er það langódýrast á litla bílnum. Það geri ég alltaf ef mögulegt er.

En umfram allt næst fram sparnaður í gerð samgöngumannvirkja, eyðslu á eldsneyti og minni mengun.

Að lokum: Rýmisgjaldið kæmi í stað annarra gjalda á bíla sem yrðu lækkuð eða felld niður sem því næmi. Í Japan eru felld niður gjöld á bílum sem eru styttri en 3,40 og mjórri en 1,48. Hér á landi mætti byrja á því að leggja lengdargjald á hvern sentimetra sem bíllinn er lengri en 2,50. Smart-bíllinn yrði gjaldfrír og því hægt að kaupa hann en núna er hann of dýr.

 

 

 

 


JÓN BALDVIN OG UMHVERFISMÁLIN.

Ég sé á umfjöllun fjölmiðla að ákveðins misskilings gætir um viðræður mínar við Jón Baldvin Hannibalsson að undanförnu þvi eldmessa hans í Silfri Egils virðist hafa vakið upp þær spurningar hvort í uppsiglingu sé umhverfis-krata-framboð þar sem hinn fyrrum krataforingi ætli sér að kljúfa Samfylkinguna í herðar niður. Ég lít öðrum augum á útspil Jóns hvað varðar hugsanlegt nýtt mið-hægri-umhverfisframboð og vísa um hugsanlegt eðli slíks framboðs til viðtals við okkur Andra Snæ Magnason í blaði Framtíðarlandsins.

Við Jón Baldvin höfum þekkst frá því í menntaskóla og höfum allan þennan tíma "kjaftað saman" þegar við höfum hist og haft gaman af. Þetta spjall hefur verið spjall tveggja kunningja en ekki neinar formlegar viðræður og yfirleitt höfum við hist af tilviljun. Daginn eftir spjall mitt við Egil Helgason fyrir viku hringdi hann í mig sagðist vera mér sammála í umhverfismálum.

Það er mikils virði þegar maður á borð við Jón Baldvin sér jafn mikilvægan málaflokk og umhverfismál í nýju ljósi og þegar hann kom síðan fram í Silfri Egils viku síðar kom í ljós að hann hafði unnið úr því  sem hann hafði áður gert sér grein fyrir.

Í viðtalinu við Andra Snæ og mig í blaði Framtíðarlandsins kemur skýrt fram að tilgangur nýs umhverfisframboðs yrði fyrst og fremst að frelsa það umhverfisverndarfólk sem stjórnarflokkarnir hafa jafnan læst inni eftir hverjar kosningar, en stór hópur þessa fólks er í Sjálfstæðisflokknum.

Til þess að ná í slikt fylgi þarf að höfða sterkt til þess að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir stalinískum  ríkisþvinguðum og firnadýrum verksmiðjulausnum sem hefta með ruðningsáhrifum, þenslu og efnahagssveiflum framgang fyrirtækja sem byggjast á frumkvæði og einkaframtaki og gefa margfalt meiri arð og menntun af sér en verksmiðju- og vikjanastefnan.

Að ekki sé minnst á hin óheyrilegu spjöll á íslenskri náttúru, mestu verðmætum sem Íslendingum hefur verið falið að varðveita fyrir óbornar kynslóðir og mannkyn allt.  

Það hlýtur eitthvað mikið að vera að hjá Sjálfstæðisflokknum ef hann stendur fyrir hinum tröllkarlalegu sovésku handstýringum, til dæmis á Húsavík, - en á sama stað gefa vinstri grænir á Húsavík út plagg undir nafninu "Eitthvað annað" þar sem rakið er hvernig frumkvæði einstaklinga og hópa skópu á sínum tíma störf í staðinn fyrir þau sem fóru forgörðum við gjaldþrot staðnaðs kaupfélags á staðnum.  

Af tali Jóns Baldvins Hannibalssonar sést að hann gerir sér grein fyrir því að þungamiðja þeirrar breytingar sem þarf að verða í næstu kosningum felst í afdráttarlausri breytingu í umhverfismálum sem skila muni breytingum og lífskjarabótum út í alla kima þjóðlífsins, - hliðstætt því sem gerðist við EES-samninginn. Ég velkist ekki í vafa um að framganga hans nú helgast aðeins af hugsjón og eldmóði manns sem telur skyldu sína að láta til sín taka fyrir góðan málstað.

Jón Baldvin á glæsilegan stjórnmálaferil að baki og gæti þess vegna ornað sér við afrek sín frá fyrri árum. Hann þarf ekkert á því að halda að fara fram eða láta til sín taka til þess að öðlast vegtyllur. Ég er ekki í minnsta vafa um það að hann gerir þetta af köllun, hann skynjar kall síns tíma og kennir til í stormum sinnar tíðar.  

Þess vegna virðist hann reiðubúinn til að styðja nýtt umhverfisframboð sýnist honum það geta skipt sköpun um nauðsynlegar breytingar í næstu kosningum.

Á þessu stigi er í mínum huga aðeins hægt að segja þetta eitt um slíkt hugsanlegt framboð að því aðeins er hægt að fylkja slíku framboði inn á leikvöll stjórnmálanna að hvort tveggja sé tryggt:  

Annars vegar skýr hugsjónagrundvöllur til umbóta og nauðsynlegra breytinga, - og hins vegar getu til að framkvæma þessar hugsjónir. 

Strax sama kvöld og gangan mikla var farin í haust höfðu stjórnmálaforingjar samband við mig. Síðan þá hef ég hitt stjórnmálamenn úr öllum þremur stjórnarandstöðuflokkunum margsinnis og suma oftar en Jón Baldvin. Ævinlega var umræðuefnið það hvernig hægt yrði að fjölga grænum þingmönnum í næstu kosningum því upp úr kjörkössunum sprettur valdið sem ógnar mestu verðmætum Íslands.

Nú hefur Frjálslyndi flokkurinn gengið til liðs við stóriðjuflokkana og þar með er úr sögunni von um það hann gæti orðið umhverfisafl hægra megin við Samfylkinguna, svo að ekki þurfi að fjölga framboðum. Þess vegna er sú staða komin upp sem nú blasir við.


NÚ ÞARF AÐ META HINA NÝJU STÖÐU.

Staðan á leikvelli stjórnmálanna er að skýrast. Nú liggur vandinn í að meta hana rétt, skynja kall tímans og vinna þannig að málum að afstýrt verði þeirri martröð sem við blasir í kosningunum í vor að óbreyttu.  Eftir landsþing Frjálslyndra liggur fyrir að þótt ríkisstjórnin falli verður áfram meirihluti á þingi fyrir stóriðju ef Frjálslyndir fá það fylgi sem þeir vonast eftir að fá út á innflytjendamálin. 

Á landsþinginu gerðist það sem ég hafði óttast og búist við. Stór hluti ræðu formanns fór í innflytjendamál og hann mælti með "hóflegri stóriðju." Sem leiðir til ófarnaðar hinnar gölnu virkjanafíknar.   

Ég sagði í sjónvarpsviðtali um daginn að rétt væri að bíða eftir landsþinginu til að sjá á hvort markið inni á vellinum liðin myndu spila í kosningunum í vor. Nú er það ljóst. Allar vonir frá því í snemma í haust um "Frjálslynda - græna" og þörfina á því að fjölga ekki framboðum fuku út í veður og vind.

Þetta setur aukinn vanda á herðar þeirra sem vilja að í vor myndist þingmeirihluti fyrir því að staldra við í stóriðjumálunum og þar með verði leyst úr læðingi þau öfl til nýrrar lífskjarasóknar sem hafa liðið fyrir ruðningsáhrif stóriðju- og virkjanaframkvæmda.    

Í dag fór Jón Baldvin mikinn í Silfri Egils og hafði áhyggjur af minnkandi samanlögðu fylgi Samfylkingar og VG. Það var ekki bara athyglisvert í því ljósi að honum fyndist það slæm tilhugsun að stjórnin héldi velli út á minnkandi fylgi og lélega frammistöðu Samfylkingarinnar, heldur líka vegna þess að hann lagði því lið að stóriðju- og virkjanaframkvæmdir yrðu stöðvaðar og tók undir og útfærði frekar rökin fyrir því að það væri skynsamlegt.

Það munar um minna en að fá slíka umsögn eins helsta stjórnmálaforingja undanfarinna áratuga sem geysist nú inn á sviðið ferskari og frískari en nokkru sinni fyrr. Jón Baldvin sýnir með þessu að hann gerir sér grein fyrir breyttum aðstæðum í umhverfismálum á Íslandi og fyrir því að þau geta orðið þungamiðja breyttrar stefnu eftir kosningar.

Sú sýn í Silfri Egils fyrir viku um að Samfylkingin þurfi stuðningsaðila í umhverfismálum frá vinstri og hægri í íslenska flokkakerfinu hefur nú hlotið aukið vægi ef ekki á illa að fara í kosningunum í vor. Ofan á hinar slæmu fréttir af frjálslyndum bætast við nýjustu yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem felast í þessu þrennu:  

1.  Fagra Ísland verður ráðandi stefna hjá Samfylkingunni: Stóriðju- og virkjanastopp.

 2. Ingibjörg Sólrún og þar með flokkur hennar munu engin afskipti hafa af aðgerðum heimamanna á hverjum stað í virkjanmálum.

3.  Ef sveitarstjórnir setja virkjanir inn á skipulag verður ekki aftur snúið.

Þetta þrennt gengur ekki upp því liður númer 2 og 3 þýðir augljóslega það að virkjað verður ef heimamenn fara er af stað með það og Fagra Ísland verður marklaust plagg, því miður. Gott dæmi um það hvernig stóriðjuboltinn rúllar óstöðvandi af stað er nýjasta yfirlýsing Árna Sigfússonar um að ómögulegt sé að hafa atkvæðagreiðslu um álver í Helguvík, - of seint vegna þess að allt sé þegar komið af stað og atkvæðisgreiðsla yrði samningsbrot.   

Ekki er hægt að sjá að Fagra Ísland geti stöðvað virkjanir úr því að Samfylkingin hefur engin ráð til að stöðva það að hennar fólk á hverjum stað hefji óstöðvandi virkjanaferli.

Er það von að Jón Baldvin hafi áhyggjur af slakri frammistöðu draumaflokks síns og gefi í skyn að þörf sé á stuðningsaðila fyrir Samfylkinguna í formi nýs framboðs? 

 

   


FRJÁLSLYNDIR - STÓRIÐJUFLOKKUR.

Stóriðjusinnar á Íslandi hafa kallað sig hófsemdarfólk en þá sem hafa viljað staldra við öfgamenn. Nú kynnir formaður Frjálsynda flokksins "hóflega" stóriðju og álverastefnu flokksins. Með því vill hann í raun skipa sér með stjórnarflokkunum í þessu máli sem hafa alltaf pakkað stóriðjustefnunni inn í snakk um hófsemd, skynsemi og virðingu fyrir náttúrunni. 

Í orðinu stóriðja felst að hún sé stór. Fyrir liggja yfirlýsingar allra álfyrirtækjanna, líka Norsk Hydro, að álver séu ekki samkeppnisfær nema þau séu 5-700 þúsund tonn. Þess vegna þarf Alcan að stækka í Straumvík. Þess vegna mun Alcoa þurfa að stækka á Húsavík og álver í Helguvík verður aðeins fyrsti áfangi að risaálveri.

Einföld samlagning á orkunni sem þarf í þessi álver sýnir að þetta kostar að virkja alla orku Íslands, líka Jökulsá á Fjöllum, enda útilokar forsætisráðherra ekki það.

Guðjón Arnar segir að lausnin felist í því að hækka orkuverðið til álfyrirtækjanna, sem segja að þau séu ekki samkeppnisfær á núverndi orkuverði nema að reis risaálver. Þetta gengur augljóslega ekki upp. Forsendan fyrir veru álveranna hér er smánarlega lágt orkuverð.

 Guðjón Arnar, það er ekkert "hóflegt" til við framtíðarsýn þína. Hún felst í því að fórna einu af sjö undrum veraldar, íslenskri náttúru, mesta verðmæti sem Íslensku þjóðinni hefur verið falið að varðveita fyrir mannkyn allt og milljónir óborna Íslendinga, - fórna þessu verðmæti sem dýrmætara en sjálf handritin fyrir galna virkjanafíkn sem byggist á hæpnum og staðbundnum skammgróðasjónarmiðum.

Þú getur augljóslega ekki samþykkt að hætta virkjanaframkvæmdum í þau 6-15 ár sem það tekur að bíða eftir niðurstöðum af djúpborunum sem hugsanlega gætu skilað sömu orku með fimmfalt minni umhverfisspjöllum. Nei, þú vilt halda áfram í dansinum í kringum álkálfinn og segja síðan eftirá ef djúpborarirnar heppnast: Sorrý, ákvörðunin um áframhaldandi virkjanir var rétt miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir.

Við höfum báðir heyrt svona afsakanir áður, - hjá stjórnarflokkunum um Írak, - hjá Samfylkingunni ium Kárahnjúkavirkjun. Ég skora á þig áður en það er orðið of seint að skipa flokki þínum í fylkingu með þeim sem vilja staldra við áður en anað verður áfram. Ef þú og þínn flokkur gera það ekki hefur Frjálslyndi flokkurinn skipað sér í fylkingu með stjórnarflokkunum, - stóriðjuflokkunum, með Jóni Sigurðssyni sem heldur því blákalt fram að stóriðjustefnunni sé lokið.  

 

 


MISSKILNINGUR UM MIG OG FRJÁLSLYNDA

Ég sé í Fréttablaðinu í dag að menn skilja ummæli mín um Frjálslynda flokkinn á þann veg að ég hafi sérstakan hug á því að ganga til liðs við hann. Er þá vitnað í þau ummæli að ég muni bíða fram yfir landsþing hans með að meta hvernig kraftar mínir nýtist best í baráttu náttúruverndarfólks. En þetta er misskilningur, - höfuðástæðan er einföld og sambærileg við það að á leikvelli séu að safnast fyrir þeir sem þar muni keppa en það vanti samt bæði suma keppendur og einnig upplýsingar um það hvar þeir muni verða og hvernig þeir muni spila á vellinum ef til kemur. Það skiptir máli fyrir alla. 

Ég orðaði það svo í viðtalinu sem vitnað er í að ég vildi ekki taka ákvörðun fyrr en hið pólitíska landslag sæist ALLT betur en nú er. Svo einfalt er það. Ég hjó eftir því að fréttamenn sem fjölluðu um setningarræðu Guðjóns Arnars töldu upp ýmis mál sem hann talaði um en minntust ekki á að hann hefði talað um umhverfismál. En það skiptir máli, bæði fyrir Frjálslynda flokkinn og ekki síður aðra flokka og umhverfisverndarfólk hvað verður uppi á teningnum hjá flokknum í þeim málum sem öðrum.   


RÆÐUR MANNFÆÐIN ÚRSLITUM?

Í leik Íslands og Túnis í gær réði það úrslitum að Túnisarnir gátu ekki haldið uppi hraða sínum þegar líða tók á leikinn og þreytan sagði til sín. Það hefur verið vandi Íslendinga á svona mótum að afburðamennirnir okkar eru of fáir eins og skiljanlegt er með smáþjóð. Stórþjóðir á borð við Frakka eiga meiri breidd enda brillera Frakkarnir því meir sem leikjunum fjölgar. Á sama hátt og strákarnir okkar eiga mikið lof skilið fyrir frammistöðu sína verðum við að skilja þann vanda sem felst í því að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að krefjast af burðarásum liðsins leik eftir leik.

Þess meiri þakkir eiga þeir skilið fyrir það hvað þeir leggja sig fram og það er ósanngjarnt að við krefjumst þess af þeim að þeir séu einhver ofurmenni sem séu ónæm fyrir þreytu. Máltækið: "Enginn má við margnum" er grimmt.

Áfram, strákar! Þið hafið þegar sannað ykkur og við verðum stolt af ykkur, hvernig sem fer. ÞIð gerið ykkar besta og við lítum á allt sem er fram yfir það sem bónus.  


VANDI VINSTRI GRÆNNA.

Í nafni Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs felst aðalvandi hennar gagnvart umhverfismálum. Fyrri og lengri hluti nafnsins skilgreinir flokkinn í hægra-vinstri-litrófinu og "- grænt framboð" lítur út svona eins og hali eða viðbót. Afleiðingin hefur orðið sú að í undanförnum kosningum, einkum 1999, hefur með "smjörklípuaðferð" Davíðs verið sótt að VG með því að veifa málum sem helst aðgreina vinstri menn frá hægri mönnum. VG hefur neyðst til að verjast og sækja á í þeim málum og græna umræðan liðið fyrir það.

Með þessu er ég alls ekki að gera lítið úr því feiknarlega stóra hlutverki sem þessi flokkur hefur gegnt í umhverfismálum. Þetta er fyrsti íslenski stjórnmálaflokkurinn sem tekur græna stefnu upp á sína arma og neglir það í hluta nafns síns því til staðfestingar. Vinstri grænir hafa verið í sérflokki hvað snertir það að standa vaktina í þessum málum þegar aðrir hafa brugðist. Fyrir það á flokkurinn skildar miklar þakkir og heiður í þjóðarsögunni. 

Það breytir ekki fyrrnefndum vanda VG því stjórnarflokkarnir munu vafalaust notafæra sér það bragð í aðdraganda kosninganna í vor að láta þær snúast um önnur mál en umhverfismálin, -  reyna að láta þær til dæmis snúast um mál eins og matarverðið, sem kemur daglega beint við pyngju hvers manns.

Annar Akkilesarhæll VG er sá að þótt byrinn, sem flokkurinn hefur núna sé líklega að miklu leyti sprottinn úr verðskulduðu fylgi umhverfisverndarfólks við hann, eru takmörk yfir því hve marga flokkurinn getur laðað til sín af hægri sinnuðum kjósendum. Á þessu byggist stöðugt fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum því stóriðju- og virkjanastefnan hefur fyrst og fremst bitnað á Framsóknarflokknum.  Það er furðulegt og óréttlátt því það er Sjálfstæðísflokkurinn ber höfuðábyrgð á þessari stefnu, -  svo miklu stærri sem hann er en Framsóknarflokkurinn.

Það er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn sé látinn bera þá ábyrgð á virkjanafíkninni sem hann hefur ræktað í 16 ár sem leiðandi flokkur í ríkisstjórn. Ráðamenn flokksins þurfa líka að útskýra hvernig svonefndur flokkur einkaframtaksins getur gengist fyrir sovéskri handstýringu með ríkisábyrgð til að fylla landið af stórverksmiðjum sem með ruðningsáhrifum ryðja burt vaxtarbroddum frumkvæðis, einkaframtaks og útrásar.

 En gallinn er sá að þeir, sem segjast vilja kjósa Sjálfstæðísflokkinn þrátt fyrir að vera ósammála þessari stefnu, neyðast til þess vegna þess að þeir eru bólusettir gegn vinstri stefnu og geta hvorki aðhyllst VG né Samfylkinguna með sitt "Fagra Ísland."

Vinstri græna dreymir um 25 prósent fylgi í kosningunum í vor sem umbun fyrir góða frammistöðu í baráttunni gegn stóriðjustefnunni. Steingrímur og hans fólk eiga það  fylgi fyllilega skilið að mínu mati ef umhverfismálin ein væru notuð sem mælikvarði. Ef flokkurinn lægi á miðju íslensks stjórnmálalitrófs væri raunhæft að hann næði þessu markmiði og vel það. En meðan hann liggur á vinstri jaðrinum getur hann þetta ekki og það er vandi hans gagnvart stórum hópi umhverfisverndarfólks. Því miður.   


VANDI FRJÁLSLYNDRA

Það mætti blogga margar síður um ástandið í Frjálslynda flokknum. Snemma síðastliðið haust hefði flokkurinn hugsanlega geta tekið það að sér að verða fyrst og fremst "Frjálslyndir grænir, "athvarf fyrir þá umhverfisvini í stjórnarflokkunum, einkum Sjálfstæðisflokknum, sem eru ósammála stefnunni þar á bæ í stóriðju- og virkjanamálum. Það hefði haft þann stóra kost að framboðslistum hefði ekki fjölgað vegna þessara mála og kjósendur í öllu litrófi stjórnmálanna frá hægri til vinstri hefðu getað kosið tvö traustvekjandi græn framboð, systurflokkana FG og VG.

Frjálslyndir grænir hefðu getað sett fram splunkunýja og skýra græna stefnu með trúverðugum frambjóðendum sem hafa staðið vaktina mun skár en meirihluti frambjóðenda Samfylkingarinnar. Meðal grænna forystumanna í flokknum í virkjanamálum (látum hvalamálin liggja milli hluta) eru að minnsta kosti þrir, Ólafur F. Magnússon, Margrét Sverrisdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson (gekk í göngunni í haust).

Núverandi stefnuskrá flokksins er er að vísu ágæt í umhverfismálum þótt það megi teygja hana svolítið  sitt á hvað eins og gengur með stefnuskrár þar sem þarf að nást samstaða. En í haust hefði mátt stefna að því að taka upp á landsþingi flokksins nýja og afdráttarlausari  stefnu í umhverfismálum. En innrás Jóns Magnússonar og hans manna setti allt upp í loft eins og alþjóð hefur orðið vitni að.

Lítið hefur verið fjallað um frétt, sem virtist hálf drukkna, að borgarstjórnararmur flokksins hallaði sér að Margréti. Margir spá því að Margréti verði "slátrað" á landsþinginu en kannski er það jafn óútreiknanlegt í raun eins og það var að spá fyrir úrslit leiks Frakka og Íslendinga í handboltanum.

Engu að síður er hætta er á að átökin í flokknum og fyrirferð innflytjendamálanna muni yfirgnæfa svo allt annað á landsþinginu að umhverfismálin troðist undir.  

Ég hef heyrt að reglurnar í flokknum séu þannig að hægt sé að smala inn í hann alveg fram á þingið. Ef svo er gefur það stríðandi fylkingum færi á að halda að sér spilunum alveg fram á síðustu stundu. Ef smölunin verður mjög mikil gæti niðurstaðan orðið flokkur þar sem meirihluti félaga verður nýtt fólk og þar með allt opið og óráðið um yfirbragð flokksins.

Nú er ljúka starfi eins grasrótarhópsins í Framtíðarlandinu, sem fer að skila af sér ákveðnum tillögum í framboðsmálum, og í frétt á Stöð tvö var talað um að verið væri að leita að fólki á hugsanlegan framboðslista, - einnig nefnd dagsetningin 13. febrúar um úrslitaákvörðun.

Það er ljóst að útkoma átakanna í Frjálslynda flokknum getur haft áhrif á það hvernig hið pólitíska landslag lítur út í febrúarbyrjun. Þá verður hugsanlega komin mun skýrari mynd á allt skákborð íslenskra stjórnmála en nú. Það eru því miklir óvissutímar framundan og vandteflt af hálfu þeirra sem líta til þess skákborðs sem vettvangs umhverfismála.


BESTI LEIKUR ÍSLENSKS HANDBOLTA

Núr er besta leik íslenskrar handboltasögu að ljúka. Takk, takk, takk!


BESTI HÁLFLEIKUR ÍSLENSKRAR HANDBOLTASÖGU

Nú þegar síðari hálfleikur leiks Íslendinga og Frakkka er nýhafinn er ellefu marka munur. Ég held að það sé sama hvernig síðari hálfleikur fer, við skulum gleðjast yfir frábærustu frammistöðu íslensks landsliðs í einum hálfleik frá upphafi. Þetta er ekki B-keppni, þetta er viðureign við Evrópumeistara og ég segi bara: Takk, takk, takk! og er reiðubúinn að fyrirgefa mikið ef illa fer í síðari hálfleik.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband