31.12.2010 | 17:09
Gildi einstaklingsins. Gleðilegt ár!
Val hlustendar Rásar tvö á Þórði Guðnasyni sem manni ársins 2010 sem og hlustenda Bylgjunnar sýnir, að almenningur metur það þegar einstaklingar vinna hetjuleg afrek og hika ekki þótt það setji þá sjálfa í hættu.
Bæði Þórður og Edda Heiðrún Backman, sem valin var í fyrra, eru vel að þessu komin.
Eins og nú háttar þarf íslenska þjóðin á uppörvun að halda og þetta val, bæði nú og í fyrra, sýnir hug þjóðarinnar í því efni.
Raunar hefur svona val líka löngum birst í því að velja þá persónu, sem mest bar og setti mestan svip á árið eða áorkaði mestu yfir heildina litið, burtséð frá því hvort það var til góðs eða ills.
Þannig valdi tímaritið Time Adolf Hitler sem mann ársins 1938 og Jósef Stalín sem mann ársins eitt heimsstyrjaldarárið, og tel ég að enda þótt þetta væru tveir af þremur verstu harðstjórum aldarinnar, að valið hafi út af fyrir sig verið rétt í bæði skiptin.
Ekki þarf annað en að setja sig inn í samtímann 1938 til að sjá að á því ári hafði Hitler meiri áhrif á framvindu mála og söguna en nokkur annar, raunar langtum meiri.
Hann fór sigurför inn í Austurríki og sameinaði það Þýskalandi og vafði síðan forystumönnum Breta og Frakka um fingur sé í Munchenarsamningum sem um áramótin 1938-39 sýndist á yfirborðinu vera friðarsamningur af því tagi sem orð Chamberlains vitna um þegar hann veifaði blaði með samningnum við heimkomuna til Bretlands og hrópaði: "Friður um okkar daga!"
Á árunum 1941-44 báru Sovétmenn, leiddir af einvaldinum og harðstjóranum Stalín, hitann og þungann af stríði bandamanna við Hitler og þrátt fyrir mislagðar hendur í upphafi stríðs, var Stalín á þeim tíma óumdeilanlega maður ársins, "for good og worse" eins og sagt er.
Time valdi borgarstjóra New York borgar mann ársins 2001 en í raun var enginn einn einstaklingur í heiminum, sem jafn mikið mark hafði sett á það ár og Osama bin Laden.
Þegar við íhugum það hverju kaldrifjaðir harðstjórar hafa getað komið til leiðar verður það enn skýrara hve miklu hver einstaklingur getur komið til leiðar, ef hann sýnir hugrekki og fórnarlund.
Það ætti kannski að verða brýning fyrir okkur öll á nýju ári.
Með þeim orðum óska ég öllum árs og friðar með kærri þökk fyrir ómetanlegan stuðning við verk mín og viðfangsefni á liðnu ári.
![]() |
Þórður Guðnason maður ársins á Rás 2 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.12.2010 | 16:44
Sælustu augnablikin.
Líklega eru sælustu augnablik íþróttamanna þau þegar þeir sigrast á erfiðleikum og vinna sigur í kjölfarið eins og gerðist nú í Gamlárshlaupi míns gamla, góða félags, ÍR.
Ef Finninn Lasse Viren hefði unnið sigur í 10 kílómetra hlaupi á Ólympíuleikunum 1972 hefði það farið í sögubækurnar eins og hver annar Ólympíusigur og horfið inn í sæg slíkra sigra.
Í staðinn varð hlaup Virens eitt af eftirminnilegustu atvikum Ólympíusögunnar vegna þess að þegar hann hafði skapað sér forystu í lok hlaupsins, varð hann fyrir því óhappi að detta kyllflatur.
Þegar hann stóð upp voru skæðustu keppinautar hans, sem þá voru meðal allra fremstu langhlaupara heimsins, á bak og burt.
En Viren gafst ekki upp heldur stóð upp og tók sprettinn þótt ósigur blasti við. En hann barðist og smám saman dró hann keppinauta sína uppi, hvern af öðrum, og endaði hlaupið með því að koma fyrstur í mark.
Ég held að enn sælli stund sé sú þegar svona gerist í boðhlaupi, því að þá er þetta ekki aðeins spurning um einstaklingsárangur heldur útkomuna fyrir boðhlaupssveitina og félagið eða þjóðina eftir atvikum.
Ég var svo lánsamur að upplifa slíkt í 4x100 metra boðhlaupinu á drengjameistaramóti Íslands 1958 og fá á því samanburð að sigra í einstaklingsgreinum eða í blöndu af einstaklingsgrein og hópíþrótt, sem boðhlaupið er.
Mér var falið að hlaupa lokasprettinn fyrir ÍR en þegar ég tók við keflinu voru Ármenningurinn Grétar Þorsteinsson, síðar forseti ASÍ, og KR-ingurinn Úlfar Teitsson, á undan mér.
Mér tókst að draga þá uppi, og enn þann dag í dag minnist ég þeirrar ógleymanlegu tilfinningar að horfa á boðhlaupskeflið fyrir framan sig í hverju skrefi og láta það líkt og toga sig áfram til sigurs.
Svona augnablik hljóta að vera sælustu augnablikin í íþróttunum.
Ég meiddist illa á ökkla skömmu seinna og gutlaði aðeins nokkrar vikur í senn við spretthlaup sex árum síðar, sumrin 1964 og 1965.
Á meðan höfðu þeir Grétar og Úlfar haldið áfram að æfa, keppa og bæta sig, og komst Grétar í fremstu röð 400 metra hlaupara landsins og Úlfar náði best 11,1 í 100 metrunum ef ég man rétt.
Þeir voru báðir hættir að keppa 1964 og 1965 þannig að aldrei reyndi með okkur aftur.
Óska íþróttafólki og öllum þeim sem etja kappi við viðfangsefni lífsins árs og friðar.
![]() |
Nýtt met þrátt fyrir fall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2010 | 21:05
Sprettharði Maraþonmaðurinn.
Ég efast um að nokkur íslenskur ráðherra hafi í sögu lýðveldisins tekið að sér eins erfitt verkefni og Steingrímur J. Sigfússon gerði eftir Hrunið. Þetta var ekki bara verk fyrir skorpumann, heldur mann sem hefur þar að auki endalaust úthald.
Steingrímur lagði af stað á fullum spretti í pólitískt hlaup sem ekki sá fyrir endann á og verður helst líkt við Maraþonhlaup á spretthlaupshraða.
Menn getur greint á um ýmsar erfiðar ákvarðanir sem hann hefur orðið að taka, ekki síst ákvarðanir sem honum sýndist réttar í þeirri stöðu sem mál voru þegar voru teknar, en hafa síðan orkað tvímælis þegar aðstæður hafa breyst í aðra veru en Steingrímur óttaðist þegar hann tók þessar ákvarðanir.
En þessi ótrúlega seigi og harði stjórnmálajaxl virðist fáum líkur.
Í áratugi var embætti fjármálaráðherra talið eitthvert það erfiðasta og vanþakklátasta starf sem stjórnmálamaður gæti tekið að sér og í samsteypustjórnum fóru oddvitar flokka ekki í þetta embætti, heldur var hefð fyrir því að þeir yrðu utanríkisráðherrar.
Þessi hefð varð áreiðanlega oft til tjóns fyrir ríkisstjórnir, því að með henni kúpluðust viðkomandi formenn að miklu leyti út úr hringiðunni hér heima.
Kjarkmaðurinn Steingrímur lét það ekki hræða sig að eðlis málsins vegna væri fjármálaráðherraembættið í kjölfar Hruns jafngildi hættunnar á pólitísku sjálfsmorði.
Hann tók slaginn og að sjálfsögðu er hann fyrir vikið umtalaðasti stjórnmálamaðurinn í fjölmiðlum og í umræðunni í þjóðfélaginu.
Menn geta verið ósammála Steingrími í ýmsu en þessi burðarás ríkisstjórnarinnar minnir á fornmenn sem voru ekki einhamir, heldur komu sér þar fyrir í orrustum þar sem bardaginn var harðastur.
Þegar rykið hefur loksins sest eftir atganginn hygg ég að margir muni sjá Steingrím í nýju ljósi og meta dugnað hans á þeim tíma sem allt var að fara fjandans til eftir mestu ófarir Íslendinga á síðari tímum.
![]() |
Mest fjallað um Steingrím |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
30.12.2010 | 18:12
Græðgin er alþjóðleg.
Dæmið um risaframkvæmdir í Kína, sem ekki var innistæða fyrir, sýnir að græðgin er alþjóðlegt fyrirbæri, sem virðir hvorki landamæri né þjóðskipulag.
Þegar kommúniskt alræðisríki eins og Kína tekur upp trú á heimsmetshagvöxt og hleypir áhættufíknum fjárfestum og verktökum of lausbeisluðum í eftirsókn eftir sem mestum uppgangi er ekki á góðu von.
Raunar minna þessar fjárfestingar á svipuð fjárfestingarævintýri hér á landi og víðar þar sem græðgin var gerð að dyggð.
En hvað með lönd eins og Norður-Kóreu þar sem alræðið byggist á því að halda kjörum fólks neðan við allt velsæmi?
Jú, þar lýsir græðgi valdhafanna sér í yfirgengilegu persónulegu bruðli þeirra og eyðslu í rándýra kjarnorkuáætlun sem miðast við það að hóta nágrönnum þeirra og alþjóðasamfélaginu með kjarnorkustyrjöld til þess eins að hinir gjörspilltu Norður-Kóresku valdhafar geti viðhaldið völdum sínum og bílífi.
![]() |
Stærsta Kringla heims er tóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.12.2010 | 11:05
Hefur ekki gerst í aldarfjórðung.
Leiðtogafundurinn í Höfða 1986 hefur líklega verið ein af tíu helstu fréttum ársins 1986. Kannski ein af fjórum þótt það sé ólíklegra.
Ekki er víst að "einvígi aldarinnar" milli Spasskís og Fishers hafi verið í hópi tíu stærstu frétta ársins 1972.
Hrun íslensku bankanna komst ekki í topp tíu á heimsvísu 2008.
Hitt er nú staðreynd að gosið í Eyjafjallajökli var fjórða stærsta frétt ársins 2010 í fjölmiðlum heimsins og er vafasamt að nokkur íslensk frétt geti náð hærra.
Það sem er best við orðið Eyjafjallajökul er það að í erlendum fjölmiðlum forðast menn að klæmast á þessu orði og tala í staðinn um "íslenska eldgosið".
Að því leyti til vekur þetta gos meiri athygli á Íslandi á heimsvísu en hægt er að ímynda sér að nokkur frétt hafi gert eða muni geta gert.
Eldgosið var slæmt fyrirbæri í sjálfu sér en skapar þó ótal sóknarfæri fyrir land, sem loksins er komið á alheimskortið svo óyggjandi sé.
![]() |
Eldgosið ein af stærstu fréttum síðasta árs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2010 | 01:09
Ökumenn eru mannlegir.
Við eigum öll að vita um muninn á réttu og röngu. Samt gerum við svo margt rangt, segjum eitt en gerum annað. Niðurstaða könnunarinnar bandarísku sem leiddi í ljós "hræsni" varðandi akstur undir áhrifum áfengis gat aldrei orðið önnur en hún varð.
Við erum ófullkomin og syndug og oft í mótsögn við okkur sjálf. Við getum oft verið "sjálfur Ragnar Reykás" inn við beinið.
![]() |
Ökumenn almennt hræsnarar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2010 | 19:20
Komast sumir í 25-30 lítra!
Bandaríski risapallbíllinn er eitt af táknum gróðabólunnar miklu líkt og Range Rover sem fékk strax viðurnefnið Game Over við Hrunið.
Allt of hátt gengi krónunnar, ótakmörkaðir lánamöguleikar og tíðarandi græðgi og bruðls urðu til þess að þessum bílum var mokað inn í landið.
Sumir þeirra voru taldir nauðsynlegir til að draga stórar hestakerrur, hjólhýsi og báta en langflestir þessara bíla voru miklu stærri en þörf var á.
Til landsins voru fluttar þúsundir pallbíla sem voru hátt í fjögur tonn að þyngd með 3-500 hestafla vélum og lengdin hátt á sjöunda metra.
Ef slíkum bíl er ekið innanbæjar að vetri til getur eyðslan hæglega orðið 25-30 lítrar á hundraðið og sama er uppi á teningnum þegar ekið er hratt á þjóðvegum eða með þungan drátt.
Verð á gangi af hjólbörðum undir svona bíla hleypur á hundruðum þúsunda króna.
Myndin á mbl.is af pallbílnum, sem lagt er á ská yfir gangbraut og upp á gangstétt á móti rauðu merki sem bannar umferð í akstursstefnu tröllsins er mjög dæmigerð 2007 mynd.
Það er skondið að sjá menn, einn í hverjum bíl, reyna að troðast á þessum stóru bílum í þrengslum og inn í stæði á leið þeirra til að versla í Bónusi eða Hagkaupum!
![]() |
Pallbílamenningin í nauðvörn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
29.12.2010 | 19:06
Ljómi yfir Thoroddsen-ættarnafninu.
Gunnar Thoroddsen var slyngur píanóleikari og lagasmiður. Emil Thoroddsen var eitthvert besta tónskáld sem Íslendingar hafa átt og samdi til dæmis frábær lög við verk Jóns Thoroddsens.
Það er ljómi yfir þessu nafni og ákaflega viðeigandi að Björn Thoroddsen fái þá viðurkenningu sem styrkur úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsens.
Hann er tónlistarsnillingur sem sver sig í ættina og á þessa viðurkenningu svo sannarlega skilið.
Til hamingju, Björn! Vísa í blogg mitt á eyjan.is um Gunnar Thoroddsen.
![]() |
Hlaut styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2010 | 14:00
Sjaldnar bætt við en ekki.
Í lok árs 1938 fóru á kreik kviksögur um að Hermann Jónasson og Jónas frá Hriflu væru í leynilegum viðræðum við Sjálfstæðismenn um að koma inn í ríkisstjórn vegna stríðshættu í Evrópu og afleitrar stöðu þjóðarbúsins. 1939 var "þjóðstjórn" Framsóknar-Alþýðu-og Sjálfstæðisflokks mynduð.
1953 var mikið talað um að þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, fengju Alþýðuflokkinn með sér í stjórn. Af því varð ekki.
Í árslok 1958 og fram á árið 1959 gældi Ólafur Thors við þá hugmynd að endurvekja þrigga flokka "nýsköpunarstjórn" en niðurstaðan varð Viðreisnarsamstarf Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks sem entist í 12 ár.
Oftar en ekki hefur verið horfið frá því að hafa fleiri flokka í ríkisstjórn en sem nemur því að hafa meirihluta á þingi, þótt hann hafi verið tæpur eins og var 1959.
Í samræmi við það ættu að vera litlar líkur á því að Framsóknarflokkurinn komi með í ríkisstjórn núna nema að fleiri en þremenningarnir Lilja-Ásmundur-Atli hlaupi út undan sér.
![]() |
Missa sig í spunanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.12.2010 | 09:57
Stjórnir hafa áður staðið tæpt en staðið þó.
Viðreisnarstjórnin hafði mjög tæpan þingmeirihluta, einkum síðustu árin, en stóð það þó af sér út þrjú kjörtímabil.
Stjórn Gunnars Thoroddsens stóð enn tæpar og það voru ýmist Eggert Haukdal, Albert Guðmundsson eða Guðrún Helgadóttir sem gátu fellt stjórnina en gerðu það þó ekki.
Jafn tæpt stóð stjórn Steingríms Hermannssonar í byrjun og þurfti Steingrímur að hafa mikið fyrir því að hafa Stefán Valgeirsson góðan. a drjúgan þingmeirihluta.
Stjórn Þorsteins Pálssonar hafði gríðargóðan meirihluta í árið 1987 en sprakk þó eftir rúmt ár. Það þarf ekki að vera ávísun á styrka stjórn að haf
Stjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar hafði líka stóran meirihluta 1947 en sprakk eftir tvö ár.
Stjórn Ólafs Jóhannessonar hafði mjög myndarlegan meirihluta 1978 en sprakk eftir aðeins rúmt ár.
Þegar meirihlutinn er tæpur verður samheldni stjórnarmeirihlutans oft meiri en þegar hver þingmaður um sig getur hugsað sér að fara út af línunni.
Það er því ekkert gefið að núverandi stjórn yrði sterkari með því að gera hana að þriggja flokka stjórn, eins og síðastnefndu þrjár stjórnir voru.
Í raun hefur núverandi stjórn verið þriggja flokka stjórn frá upphafi vegna mismunandi áherslna þingmanna VG.
Ef þrír þingmenn VG hætta nú stuðningi við stjórnina mun það einungis verða staðfesting á klofningi sem hefur verið fyrir hendi í meira en ár.
Það gæti þjappað þeim sem eftir sitja í stjórnarmeirihlutanum meira saman en auðvitað gæti það líka orðið til þess að hann sæi sitt óvænna vegna tæps meirihluta eins og gerðist eftir kosningarnar 1995 og 2007.
![]() |
Leita að Evrópusinnuðum þingmönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)