Heppnir útlendingar og við líka.

Það leit ekkert alltof vel út með veðrið um þessi áramót. Óveður seinkaði flugferðum og þar með ferðum margra.

En nú hefur ræst vel úr veðrinu í kvöld og þeir útlendingar, sem komu dýrum dómum til Íslands til þess að upplifa einstök hátíðahöld okkar Íslendinga.

Og fyrir okkur sjálf lofar veðurspáin góðu og fínni inngöngu inn í árið 2012.

Á þessum tímamótum okkar hjóna, (gullbrúðkaup)  sendum öllum nær og fjær okkar bestu nýjársóskir með þökkum fyrir hið liðna.  Lifið heil !


mbl.is Ágætt flugeldaveður í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Árið 2012 - þá og nú",- nýr texti um spádómana 1967.

Í textanum "Árið 2012" sem gerður var fyrir 45 árum og Vilhjálmur Vilhjálmsson söng af snilld í frábærri útsetningu og hljóðfæraleik hljómsveitar Magnúsar Ingimarssonar var mörgu ótrúlegu spáð um árið 2012 en ekkert var minnst á þann möguleika að konur yrðu í meirihluta í ríkisstjórn á því ári.

Heldur ekki á þann möguleika að Jóhann, sonur Vilhjálms, hyggðist hefja söngvaraferil sinn af alvöru einmitt árið 2012 og syngja um það, hvernig spádómarnir gömlu hefðu ræst með því að fara fyrst með upprunalega textann en síðan viðbót sem sýndi hvernig ræst hefði úr því sem spáð var.

Og riðið á vaðið með Óskari Péturssyni, Gunnari Þórðarsyni og mér í Kastljósinu í kvöld, sjá link neðar á síðunni inn á klippta upptöku sem Lára Hanna Einarsdóttir sendi mér.

Textinn var upphaflega gerður fyrir stutt kántrílag, en Villi heitinn var afar hrifinn af bandarískri sveitartónlist - , og því var formið knappt, aðeins hægt að tæpa á fáum atriðum.

Lagið, sem er eftir B. Owens, bauð ekki upp á ártal með fleiri en fimm atkvæðum og 2012 var hæsta ártalið sem hægt var að nota af viti, því að næst á eftir því í tímalínunni kemur ártalið 3001.

Grunnhugsunin að baki textans var sú að 2012 yrði komin á bylting hins smáa í tölvutækninni og sjálfvirknin yfirgengileg, langt umfram það sem við gátum ímyndað okkur 1967.

Munum, að 1967 var tölvubyltingin ekki gengin í garð. Háskólinn var að fá eina tölvu sem var svo fyrirferðarmikil, að hún fyllti heilt herbergi og gat ekki leyst nema brot af því sem lítill farsími eða örtölva eða tölvukubbur gerir nú.

Maður varð því að leita að einhverju smáu, sem þá var til, til að túlka spádóminn, eins og kemur fram í hendingunni um útvarpsstjórann 2012: "....yfirmaður hans var lítill vasatransistor", -

- og:  "forsætisráðherrann var gamall IBM."  

Heildarhugsunin var sú að vinnsla mála í framtíðarþjóðfélaginu yrði kominn í sjálvirkni tækninnar: -

"...vélar unnu störfin og enginn gerði neitt."

Í seinni hluta nýju gerðarinnar er þetta afgreitt svona: "...því tölvur vinna störfin og hugsa fyrir menn"

Í nýju viðbótinni er útvarpsstjórinn afgreiddur svona: "...öllu nú i lífi´hans stjórnar snjallsíminn svo smár."

Og forsætisráðherrann svona: "...forsætisráðfrúin er spánný Macintosh."

Tölvubyltingin er nefnilega langstærsta breytingin milli 1967 og 2012. Ef allir tölvustýrðir hlutir og verkefni hættu á sama tíma í landinu, myndi þjóðlífið allt stöðvar, jafnt innan sem utan dyra.

Í textanum 1967 var gantast með það að á veitingastað yrði boðið upp á eitthvað annað en áfengi.

Þá datt manni helst í hug sprauta en árið 2012 tekur morgunstund að fara til Hollands þar sem hass er leyft.

Um fjölgun mannkynsins var því spáð að ný tækni gæti gert gömlu aðferðina úrelta: "...við notum pillur nú til dags."

En pillutæknin og aðrar fjölgunaraðferðir 2012 eru komnar fram úr spádómunum 1965 með klónun og tæknifrjóvgun.

Látum þetta nægja um nýja textann sem var fluttur í Kastljósinu og má skoða á ruv.is. Þegar ég sagði frá að eitthvað svona stæði til í haust var hvatt til þess að gert yrði myndband um málið og það hefur nú verið gert.

Myndin á síðunni er af tveimur bílum, sem voru til taks við myndbandið og voru upp á sitt besta fyrir 1967.  Þess má geta að 1967 endaði textinn svona:

"...Gömlu dagana gefðu mér, -

en sá draumur  -

og ég er ánægður með lífið eins og það er."

Svona er lagið sungið núna og hægt að bera saman spádóma og veruleika.  PC300019

Þess má geta að ég las nýlega í tæknitímariti um þann möguleika, að eftir fimmtíu ár verði komin tækni til að safna saman helíum 3 á tunglinu og flytja 100 tonn til jarðarinnar á ári, en það myndi fullnægja orkuþörf mannkynsins.  Í dag væri því hægt að spá 45 ár fram í tímann: "...Þeir tunglið höfðu sópað allt og tæmt í hólf og gólf".

Sunginn texti er feitletraður en talaður texti með grönnu letri. Flutninginn á laginu í Kastljósi í kvöld má finna hér http://www.youtube.com/watch?v=wKJxtvwYwHo

 

ÁRIÐ 2012 - ÞÁ OG NÚ. 

 

Fyrir næstum hálfri öld velti ég vöngum yfir því hvernig lífið og tilveran yrðu árið 2012 og svona hljómaði spádómurinn:

Mig dreymdi´að ég væri uppi árið 2012.

Þeir tunglið höfðu malbikað og steypt í hólf.

En veröldin var skrýtin - það var allt orðið breytt,

því vélar unnu störfin og enginn gerir neitt.

 

 

 Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor

þvi yfirmaður hans var lítill vasatransistor

og þingmennirnir okkar voru ei með fúlle fem,

því forsætisráðfrúin er spánný Macintosh.

 

 

Gömlu dagana gefðu mér ! 

Þá gat ég verið einn með  þér.

Nú tæknin geggjuð orðin er.

Gömlu dagana gefðu mér !

 

 

Ég álpaðist á bíó þar með ungri stúlkukind

en ekki hélt ég út að horfa´á kaboj-röntgenmynd.

Ég dapur fór á barinn og um doble bað af stút

en er dóninn tók upp sprautu, þá flýtti ég mér út.

 

 

Gömlu dagana gefðu mér!

Þá gat ég verið einn með þér.

Nú tæknin geggjð orðin er.

Gömlu dagana gefðu mér!

 

 

Mig dreymdi ég væri giftur þeirri sömu sem ég er.

Hún sagði: "Ó, mér leiðist þetta barnaleysi hér."

Ég gerðist nokkuð bráður og vildi bæta úr því strax.

"Nei, bíddu", sagði hún, góði, "við notum pillur nú til dags."

 

 

Þá fannst manni þetta ógnarlangt frammi í framtíðinni, en skyldu þessir spádómar hafa ræst á einn eða annan hátt?  Skoðum það:

 

Nú er runnið upp hér árið 2012

en tunglið hvorki malbikað né steypt í hólf og gólf.

En tilveran er skrýtin og tryllingsleg í senn

því tölvur vinna störfin og hugsa fyrir menn.

 

 

Og ekki hefur margt að gera útvarpsstjórinn knár

því öllu nú í lífi´hans stjórnar snjallsíminn svo smár

og þingmenn ei með fúlle fem nú fíflast hér í kross

því forsætisráðfrúin er spánnýr Macintosh.

 

 

Er  álpast ég til Hollands á einni morgunstund

æra mig þar tækninýjundar á flesta lund.

Ég dapur fer á barinn og um doble bið af stút

en er dóninn býður hassköggul, þá flýti ég mér út.

 

 

Pillutækni vísindanna mögnuð orðin er:

Enginn vandi´að nota klónun til að fjölga sér.

Tæknifrjóvgun  stórkostleg er stunduð hér í dag:

Staðgöngumæðrum verður bráðum löggilt fag.

 

 

Gömlu dagana gefðu mér !

Þá gat ég verið einn með þér.

Nú tæknin geggjuð orðin er.

Til gömlu daganna gef mér far

fljótt til baka.

Ég yrði ánægður með lífið eins og það var.

 PC300019

 


Öflugar, ungar konur, loksins !

Mér finnst gott til þess að vita að aukin háskólamenntun kvenna sé að skila sér út í stjórn þjóðfélagsins. 

Á tímabili virtist sem þessi aukna menntun skilaði sér ekki að ráði út í þjóðlífið og að menntun allra þessara kvenna nýttist ekki sem skyldi.

Biðin eftir fullkomnu jafnrétti og samvinnu kynjanna í gegnum allt þjóðfélagið hefur verið löng en vonandi er að loksins sé nú að verða breyting á því.

Kannski hefur Hrunið áttt þátt í þessu, því að í einhverri mestu herferð fjárglæfra sem sagan kann frá að geina voru valda- og fégráðugir ungir og miðaldra menn í framvarðasveitinni og voru stráfelldir á sumum stöðum vígstöðvanna í þessari peningastyrjöld eða flúðu úr landi. 

Á undanförnum misserum hef ég tekið eftir því að ungar og öflugar konur eru að hasla sér völl í stjórnmálum, skeleggar og frambærilegar.

Ég nefni sem dæmi bæjarstjórana í Hveragerðisbæ og í Vogum, sem mér fannst standa sig vel á fundum þar sem þær hafa tekið til máls.

Ég hlakka til að sjá fleiri slíkar stíga fram.


mbl.is Fleiri konur ráðherrar en karlar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endar hún með vísu K.N. ?

Sinead O'Connor er enn ekki það gömul að það geti verið tímabært að huga að því hvernig það sé að vera ofan í líkkistu.  Efast reyndar um að hún geti ímyndað sér það.

Til er þó dæmi um það að "lík" hafi vaknað í líkkistu, og margir eru "dauð"hræddir við að verða kviksettir.

En ef O´Connor heldur áfram á svipuðum nótum til efri ára er hugsanlegt að hún geti á endasprettinum tekið undir með K.N. sem orti:

 

Bráðum kveð ég fólk og Frón

og fer í mína kistu

rétt að segja sama flón

sem ég var í fyrstu.


mbl.is Leið eins og í líkkistu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sama að fara upp eða niður.

Í hverfinu þar sem ég á heima, er halli á flestum götum þannig að ekið er upp eða niður. Svona háttar til um marga "botnlanga", aðkeyrslur og stæði í borginni.

Ég hef þurft að vera talsvert á ferðinni í dag og hef ekki lengur tölu á þeim bílum, sem ég hef kippt í.

Flestir bílstjórarnir gera sömu mistökin, svipuð þeim sem ég hef séð hér fyrir utan blokkina sem ég bý í.  (Sjá P.S. hér fyrir neðan sem útskýrir myndina, sem ég hef sett sem viðbót inn á bloggið)

Þeir koma að aflíðandi brekku í nokkurs konar botnlanga niður með blokkinni og ættu reyndar að geta séð það strax að mjög hæpið er að þeir komist niður hana.  Og gleyma því að ef þeir taka áhættuna á því að böðlast niður eftir verður miklu erfiðara að komast upp eftir til baka.

Samt "láta þeir á það reyna" að íslenskum sið og fara af stað en sjá ekki fyrr en um seinan að þeir geta ekki snúið við og þaðan af síður bakkað til baka.

Einn var á voldugum Benz og af því að hann er afturdrifinn er slíkur bíll gersamlega vonlaus ef á að bakka honum upp brekku sem hann átti hvort eð er erfitt með að fara niður.

Framendinn á svona bílum er þyngri en afturendinn og þyngist enn meira miðað við afturendann ef farið er niður brekku.

Annar var á BMW sem líka er afturdrifinn og kemst lítið ef bakkað er upp brekku.

Í dag sá ég einn framdrifinn sem var að reyna að komast áfram upp brekku og spólaði, enda fullur af fólki, og þá verður slíkur bíll jafnvel þyngri að aftan en framan auk þungans sem sest á afturhjólin vegna bratta götunnar.

Í mörgum tilfellum loka þessir bílar leiðinni, vegna þess að ruðningar liggja þétt að henni.

Ein spurning vaknar: Skyldi nokkur ökukennari kenna þetta atriði?

Reglan gæti hljóðað svona:

Forðastu að lenda í sjálfheldu. Ekki aka í tvísýnu færi niður í móti ef þú þarft að aka aftur til baka.

Eða:

Þú átt meiri möguleika að reyna fyrir þér upp í móti en niður í móti því að það er auðveldara að bakka út úr vandræðunum til baka undan halla en á móti halla.  PC300016

 

P. S.  Og sem ég er að setja þessa færslu inn og lít út um gluggann um miðnættið, hefur nákvæmlega þetta ofanskráða gerst á afar óheppilegum stað fyrir mig eins og sést á myndinni sem ég var að taka af þessu.

Gráa bílnum var ekið undan hallanum niður með blokkinni en þegar hann er búinn (áreiðanlega með mestu herkjum´) að snúa honum við til að aka upp eftir aftur, bakkar hann bílnum að Lödunni minni og pikkfestist þar.

Þar með er hann búinn að loka minn bíl inni uppi við bílskúrinn, farinn burtu og skilur bílinn eftir þannig að Ladan er aðþrengd á bak við hann.

Annað hvort hefur hann gefist alveg upp og ætlar að sækja bílinn á morgun eða hann er í heimsókn einhvers staðar í blokkinni, í einhverri af 16 íbúðum við tvo stigaganga.

Af því að spáð er austan hríð í fyrramálið ákvað ég að stökkva út og reyna að smokra Lödunni út úr ógöngunum við bílskúrshurðina meðn veður og snjóalög væru skapleg.

Var nefnilega búinn að moka allt of mikinn snjó í dag miðað við slæmt bak og er búinn með kvótann að því leyti og hugsanlega meira en það (vonandi þó ekki).  Forðast því snjómokstur á morgun og nota bílinn til að þjappa og búa til heppuleg för.  

Þegár mér hafði tekist að smokra Lödunni í betri stöðu, kom hins vegar bílstjórinn ásamt farþegum sínum út úr íbúð hinum megin í blokkinn, og þar með var hægt að leysa þetta mál.

Við bættist enn einn drátturinn, svona aukalega rétt fyrir svefninn, (bíldráttur að sjálfsögðu), að draga þennan bíl upp úr botnlanganum og á auðan sjó.


mbl.is Taka daginn snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á styrkingu stjórnarinnar 1989.

Það sem er gerast núna varðandi það að Hreyfingin gangi til liðs við ríkisstjórnina minnir um margt á það sem gerðist haustið 1989 þegar tveir þingmenn Borgaraflokksins gerðust ráðherrar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem stóð mjög tæpt í þinginu, mun tæpar en stjórnin nú.

Þegar Steingrímur myndaði stjórn sína haustið 1988 stóð hún enn tæpar en ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens hafði gert 1980, svo tæpt, að hún gat þess vegna lent í minnihluta í öllum nefndum þingsins.

Fyrir einstaka hundaheppni unnu stjórnarliðar öll hlutkestin.

Stjórnin reiddi sig á stuðning Stefáns Valgeirssonar sem komst á þing einn síns liðs eftir að Framsóknarmenn í Norðurlandskjördæmi eystra höfðu hafnað honum á kjördæmisþingi.

Stefán átti því harma að hefna en var jafnframt í sigurvímu yfir að hafa komist á þing þrátt fyrir höfnun Framsóknarflokksins.

Sagt er að Steingrímur hafi eytt helmingnum af vinnutíma sínum í það eitt að hafa Stefán góðan, en hann var settur yfir Framkvæmdasjóð og nýtti sér stöðu sína eins og hann gat.

Haustið 1989 gat stjórnin ekki treyst á sömu hundaheppnina og árið áður og ljóst var að staðan yrði einhver hin erfiðasta sem nokkur stjórn hefði haft, jafnvel þótt Steingrímur Hermannsson væri snillingur  í að stýra stjórn og halda stjórnarliðinu saman.

Hann fann þá lausn að fá stuðning frá Borgaraflokknum, sem raunar klofnaði fyrir bragðið.

Albert Guðmundsson var gerður að sendiherra í París og Júlíus Sólnes var gerður að fyrsta umhverfisráðherra Íslands og Óli Þ. Guðbjartsson varð dómsmálaráðherra.

Þetta tryggði stjórninni vinnufrið út kjörtímabilið og stuðningur Stefáns Valgeirssonar var ekki lengur úrslitaatriði eins og verið hafði.

Ef aðeins er litið á atkvæðatölurnar á þingi er staða Hreyfingarinnar ekki eins sterk og staða Borgaraflokksins var 1989 til þess að fá ráðuneyti í sinar hendur eins og Borgaraflokkurinn fékk, því að núverandi stjórn hefur þó eins atkvæðis meirihluta á þingi en 1989 var að hálfu leyti pattstaða á þinginu vegna deildaskiptingar þess, sem þá var.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni. Málin sem nú eru nefnd sem áhugaefni Hreyfingarinnar eru henni mikilvæg og skipta miklu vegna þess að fyrir næstu kosningar verður nokkurs virði fyrir hana að geta lagt fram, hvaða árangri hún hafi náð á kjörtímabilinu.


mbl.is Í viðræðum við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 sentimeta snjóþekja hefur bæst við.

Snjókoman í nótt hefur verið talsvertl meiri en spáð var.  P1014220

Þegar úrkomutölur í Reykjavík eru lagðar saman koma út um 15 millimetra úrkoma samtals síðan í gær, en þumalfingursregla er að hver millimetri af úrkomu í form vatns samsvari um einum sentimetra af snjó.

15 sentimetra meðalþykkt snjólag þýðir meira en tvöfalda snjódýpt að meðaltali ef því er bætt við snjóinn sem fyrir var, eða 30 sm plús.  

Meðalhæð undir botn óhlaðinna meðalbíla er um 14 sentimetrar þannig að þetta þýðir erfiða færð fyrir meirihluta bílaflotans.

Margir svokallaðra jepplinga er lítið hærri en þetta og rauna jafn lágir ef þeir eru hlaðnir þannig að vafalaust ofmeta margir getu þeirra bíla.

Ég man ekki eftir neinum desember síðustu rúmu 60 ár þar sem hvít jörð hefur verið í Reykjavík í 29 daga af 31.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í sínu bloggi að þegar síðast var meir snjór en nú, 1984, hafi verið tími "Subaru og Lada sport jálkanna." P1014219

Ég lifi reyndar í þessum tíma að því leyti að nú get ég gripið í 31 árs gamlan Subaru eða Lada sport, auk 26 árs gamals Suzuki Fox, sem er minnsti jöklajeppi landsins.

Mér finnst þetta bara ágætt meðan frostið er ekki meira en það hefur verið síðustu vikuna.

Úr því það er vetur hvort eð er, mega "jólin vera hvít fyrir mér" svo að tekið sé orðfæri úr vinsælum jólatexta.

 

P. S.  Nú sé ég af bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar að snjódýptin í Reykjavík sé 33 sm að meðaltali. Það er nokkuð nálægt því sem ég giskaði á áðan: 30 plús sm.


mbl.is Þungfært vegna fannfergis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bogart, Grant og Ford alltaf jafngamlir.

Það getur verið að Brad Pitt eldist hratt en það er eins og sumir leikarar og þekktar persónur standi bara í stað hvað aldur snertir.

Svo litið sé til fortíðar voru þeir Humphrey Bogart, Cary Grant og Burt Lancaster alltaf jafnmiklir töffarar allt fram um sextugt.

Á sínum tíma fannst mér hins vegar annað gilda um Clark Gable, sem var orðinn ansi lúinn og farinn að láta á sjá þegar hann var kominn yfir fimmtugt, þótt hann væri kallaður "konungur Holllywood".

Enda gekk hann fram af sér í síðustu kvikmynd sinni, "The misfits" þar sem hann lék á móti Marilyn Monroe og fannst hann greinilega þurfa að sanna sig gagnvart svo stórkostlegri kynbombu með þeim afleiðingum að látast um aldur fram.

Svo vikið sé að okkar tímum, sýnist mér Harrison Ford ekki vitund eldri en hann var fyrir tugum ára og skapi sömu hughrif á hvíta tjaldinu og ævinlega, þótt hann verði sjötugur á árinu, sem er að ganga í garð.

 


mbl.is Brad Pitt eldist hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannur grátur miðað við forsendur ?

Svo lokað land er Norður-Kórea að blessað fólkið veit ekki annað en að Kim Jong-Il hafi verið guðavera sem steig niður á jörðina og var ómissandi fyrir lífið í landinu og þjóðina.

Þegar öll vitneskja heillar milljónaþjóðar er á þeim nótum sem Norður-Kóreumenn fá að kynnast og er á svipuðu plani og hjá særingamönnum og harðstjórum langt aftur í forneskju þjóðflokka frumskóganna er ekki að undra að múgurinn, sem stendur meðfram götunum sem líkfylgdin fer um, hágráti tímunum saman.

Blessað fólkið veit ekki annað en að Kim Jong-Il hafi verið lagmikilvægasta persónan í lífi hvers og eins.

Séu einhverjir innan um sem hugsanlega efast valda múgsefjunin og kúgunin því að það er ekki hægt að komast hjá því að gráta með, þótt kannski liggi eitthvað annað að baki en hjá kjarna grátkórsins.


mbl.is Fagna dauða Kims Jong-Ils
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki rutt fyrir 700 manns.

Það þætti lélegt úti á landi ef 700 manna byggð úti á landi fengi engan snjómokstur. En þetta er tilfellið við norðanverða Háaleitisbraut milli Fellsmúla og Ármúla.

Íbúarnir þurfa að komast heim til sín um tvær þvergötur sem aldrei eru ruddar. Þær liggja þannig að þegar skafrenningur er, skefur oftast þvert yfir þær.

Ekki þyrfti að ryðja oft snjó þarna, heldur miklu sjaldnar en til dæmis er gert á Háaleitisbrautinni sjálfri. IMG_2308

Í blogginu á undan þessu kemur fram að enda þótt jeppinn minn hafi stalið einn og yfirgefinn á fáránlegum stað við Norðurslóð, rúinn að stórum dekkjum og stigbrettum og númerslaus, virtist viðkomandi snjóruðningsmaður ekki sá neitt athugavert við það heldur ruddi þannig að bílnum að ég varð að moka hann út.

Viðurkenna verður þó að starf ruðningsmannanna er erfitt, einkum þar sem bílar hafa verið skildir eftir á slæmum stöðum.

En algert ruðningsleysi í fjölmennum hverfum borgarinnar er bagalegt.

Það er enginn að fara fram á stanslausa umferð ruðningstækja um þessar götur, aðeins að þær séu ekki látnar gersamlega afskiptalausar.  Þó ekki væri nema einn ruðningur í viku í tíð eins og þessari.

 

P. S.  Nokkrum klukkustundum síðar.

Nú sé ég þegar ég fer héðan niður á Háaleitisbrautina að eitthvað hefur verð reynt að ryðja lhingað inn í íbúðahverfi, eins og sá sem það gerði hafi horft yfir öxlina á mér þegar ég sló inn þennan pistil.

Að vísu er þetta gert alltof seint vegna þess að undirstaðan er öll í frosnum skorningum af því ekki var rutt strax þegar gatan fylltist af snjó í fyrstu hríðunum.


mbl.is „Það er illa rutt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband