28.2.2007 | 11:11
ATHYGLISVERÐ SKOÐANAKÖNNUN
Það er ekki einkamál eins sveitarfélags hvernig anddyri landsins, sem erlendir gestir koma fyrst í, lítur út. Raunar er það ekki einkamál Íslendinga hvernig við förum með þau náttúruverðmæti sem við varðveitum fyrir óborna Íslendinga og mannkyn allt. Samkvæmd skoðanakönnun Fréttablaðsins eru rúm 60 prósent landsmanna andvíg stækkun álversins í Straumsvík og drjúgur meirihluti þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn andvíg henni.
Auðvitað á að vera þjóðaratkvæði um fyrirhugaða álvæðingu á Reykjanesskaga sem snertir á annan tug sveitarfélaga og mun fjötra skagann í net verksmiðja, virkjana og háspennulína allt frá Garðskaga austur í hreppa.
Skoðanakönnunin leiðir ýmislegt athyglisvert í ljós. Ekki er marktækur munur á viðhorfum kjósenda Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins. Þó er Framsóknarflokkurinn orðinn tákngervingur stóriðjustefnunnar en Frjálslyndi flokkurinn að reyna að sýnast grænn. Fjórðungur þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna styður stækkun.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vega þyngst í stuðningi við stækkun álversins, 70 prósent þeirra eru með en 30 á móti. Þarna kemur berlega í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem styður stækkunina eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins og því er það hlutverk Framsóknarflokksins ömurlegt að vera tákn stóriðjustefnunnar þegar það er í raun og veru stóri flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, sem ber þar höfuðábyrgð.
En tölurnar sýna líka að 30 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru á móti stækkuninni. Þetta fólk er læst inni í flokknum af því að það sér ekki trúverðugan valkost hægra megin við miðju sem getur veitt því tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á stóriðjumálunum. Þessu þarf að breyta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
27.2.2007 | 13:58
ÍSLAND OF LÍTIÐ?
Mörgum finnst Ísland enn land hinnar miklu víðáttu og að af nóg sé að taka fyrir mannvirki hvers konar. Um miðbik síðustu aldar fannst bændum líka vera nær óendanlega mikið af íslensku votlendi og þjóðþrifaverk væri að ræsta mýrarnar fram. Þegar Nóbelsskáldið spáði því 1970 að sú tíð myndi koma að mokað yrði ofan í skurðina var hlegið að því sem tómu rugli.
Spásýn Laxness hefur samt ræst. Sú stund kom að menn sáu að votlendið íslenska hafði ekki verið eins stórt og það sýndist. Á Suðurlandi eru aðeins örfá prósent eftir af votlendinu og menn sjá nú að allt of langt var gengið.
Svipað kann að verða uppi á teningnum varðandi íslenska víðernið og hálendið. Það þarf ekki annað en líta á heimskort til að sjá að Ísland er lítið land, - ekki stórt. Ferðamenn á Íslandi eru með mjög mismunandi kröfur.
Sumir vilja heilsárvegi um landið þvert og endilangt. Sumir vilja fara í gönguferðir í kyrrð öræfanna. Dæmi um sambýli sem þurfti að setja reglur um er í Bláfjöllum þar sem verður á veturna að skipta útivistarfólki og úthluta leyfðum svæðum til umferðar eftir því hvort það er á skíðum eða vélsleðum. Búið er að friða Öræfajökul fyrir jeppaferðum.
Eftir því sem umferð ferðamanna með mjög ólíkar kröfur eykst eiga menn eftir að komast að því að óbyggðir Íslands eru ekki óendanlega stórar heldur mun koma í ljós að landið er of lítið fyrir allt það sem fólki dettur í hug að framkvæmda og gera.
Í eftirminnilegri ferð um Banff þjóðgarðinn í Kanada í leiðsögn forstöðumanns þjóðgarðsins lýsti hann vel mismunandi nýtingu og kröfum um hana. Þjóðgarðurinn skiptist í mismunandi svæði eftir eðli umferðar og mannvirkja. Efsta stig friðunar var á svæðum sem hann taldi síst of stór.
Þar sagði hann að væru til staðir þar sem aðeins 5 til 10 manns kæmu á ári. Samt væri gildi þeirra talið gríðarlegt en það væri ekki fólgið í gróða sem umferð ferðamanna skapaði heldur eingöngu í vitneskju manna um það að þeir væru til. Þetta getur verið til umhugsunar fyrir okkur hér á Íslandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
25.2.2007 | 21:54
ÓTTI VIÐ HREYFINGU Á KJÓSENDUM
Allir þættir með forystumönnum stjórnmálaflokkanna á ljósvakamiðlum 1999 enduðu á því að umsjónarmenn sögðu: "Ætlunin var að fjalla um umhverfismál en tímans vegna verður það ekki hægt." 2003 var þetta lítið skárra en nú virðist von um að hægt verði að knýja fram löngu tímabærar umræður og kosningar um þetta.
Það er komin hreyfing inn í alla flokka út af umhverfismálunum enda hefur undanfarnar vikur vofað yfir að nýtt framboð grænna liti dagsins ljós.
Kristinn H. Gunnarsson, - einn af þeim sem samþykkti Kárahnjúkavirkjun ef ég man rétt, - les út úr orðum Steingríms J. Sigfússonar í Morgunblaðsviðtali undanslátt frá stefnu Vinstri Grænna í stóriðjumálum. Sleggjan kastar úr dálitlu glerhúsi, sýnist mér, - en kannski er Kristinn tilbúinn til að viðurkenna að Kárahnjúkavirkjun hafi verið mistök og að rétt sé að biðja um stóriðjuhlé, hver veit?
Guðjón Arnar Kristjánsson dró á dögunum í þingræðu í land frá þeim ummælum sínum á landsþingi Frjálslynda flokksins að stefna flokksins væri "hófleg stóriðja" með álverum. Frambjóðendur flokksins hafa tekið upp græna úðabrúsa til að úða á sig.
Raunar er samt svo að sjá hjá bæði frjálslyhndum og Samfylkingunni að haldið sé opnu fyrir álver á Húsavík.
Ótti við hreyfingu á kjósendum skín út úr viðleitni sumra Sjálfstæðismanna eins og Guðlaugs Þ. Þórðarsonar og Illuga Gunnarssonar til að byrja að setja græna slikju á bláa litinn sinn.
Svonefnd "lítil" ný framboð, jafnvel ófædd, geta haft áhrif. Dæmi: Þjóðvarnarflokkurinn fékk tvo þingmenn 1953 og 10,5 prósent í bæjarstjórnarkosningum 1954. Vinstri flokkarnir urðu hræddir og samþykktu í mars 1956 að senda herinn úr landi, - stjórnin féll í framhaldinu.
Þjóðvarnarflokkurinn missti bitið við þetta, það var búið að stela stefnunni frá honum og hann rann inn í Alþýðubandalagið áratug seinna.
Vinstri stjórnin heyktist samt á því að reka herinn og bar fyrir sig versnandi horfur í alþjóðamálum, innrásir í Ungverjaland og Egyptaland.
Klofhingsframboðið Samtök frjálslyndra og vinstri manna felldu viðreisnarstjórnina 1971 á landhelgismálinu. Landhelgin var færð út en Sjálfstæðismenn tóku síðan landhelgismálið upp á sína arma og færðu landhelgina enn meira út í þorskastríði númer tvö.
Lærdómur: 1. Lítil ný framboð geta haft áhrif. 2. Gömlu flokkarnir bregðast þá við með því að taka mál þeirra upp á sína arma, - if you can´t beat them, join them. 3. En gömlu flokkarnir sitja um tækifæri til að svíkjast undan merkjum ef mögulegt er.
Nú er spuringin: Hreyfist einhver í Framsóknarflokknum? Einu sinni hafði sá flokkur á sér grænan lit með Eystein Jónsson formann framarlega í sveit íslenskra umhverfisverndarmanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
23.2.2007 | 00:42
FLUGVÉLARSMÍÐ OG FYRSTA FLUG
Ég kom eitt sinn í Airbus flugvélaverksmiðjurnar í Toulouse í Frakklandi og fyrir 40 árum setti ég saman fyrstu flugvélina mína að hluta til. Hef því kynnst lítillega flugvélasmíð. Í Toulouse komu hlutar flugvélarinnar frá ýmsum löndum í mörgum heimsálfum.
Flugvélin var ekki tilbúin til flugs fyrr en allir hlutarnir höfðu komið inn á verksmiðjugólfið og verið settir rétt saman. Og vélin gat ekki flogið fyrr en búið var að manna hana með áhöf þar sem valinn maður var í hverju rúmi og hver maður þar sem hann gerði mest gagn.
Undanfarna daga hef ég fylgst með því starfi sem liggur að baki því að setja saman framboð sem getið hafið sig til flugs i kosningunum í vor með marga farþega innanborðs. Að þvi kemur fólk úr ýmsum áttum rétt eins og flugvélarhlutarnir í Toulouse.
Enn sést ekki fyrir endann á því hvort flugvélin verður flughæf í tæka tíð né að vitað sé út í hörgul um alla áhöfnina sem þarf til að fljúga henni. Nú ríkja pólitískir sviptivindar sem geta haft afgerandi áhrif á möguleikana til flugtaks.
Þetta eru því spennandi dagar fyrir gamlan flugvélasmið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.2.2007 | 23:59
JÓHANN G. - TIL HAMINGJU!
Svona flýgur tíminn. Jóhann G. sextugur. Manni finnst svo stutt síðan Óðmenn voru í æskuham og Jóhann G. svo ungur. Raunar finnst mér hann jafn ungur enn og lagið hans góða, Do´nt try to fool me jafn frískt og það var á sínum tíma.
Þetta lag er eitt af þeim fáu íslensku lögum sem Bo myndi kalla "svo mikið erlendis", alþjóðlegur klassi yfir því. Jóhann G. er mikill baráttumaður fyrir íslenska náttúru og á skilda mikla þökk fyrir eldmóð sinn á því sviði.
Hann hefur opnað frábæra vefsíðu og er í fullu fjöri. Til hamningju, Jóhann! ´
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 00:19
JÓN BALDVIN - ALDREI BETRI
Það var unun að hlusta á Jón Baldvin Hannibalsson tæta stóriðjustefnuna í sig á grundvelli hagfræði eingöngu á fundi í Hafnarfirði um stækkun álversins þar. Það eru ár og dagur síðan maður hefur heyrt jafn frábæra ræðu og ræðuflutning. Uppbygging öll, rökfesta og málafylgja sýndi að Jón Baldvin er ferskari, frjórri og frískari en hann hefur verið í áraraðir.
Þeir sem voru að tala um það á dögunum að sá gamli væri útbrunnin, gamall og jafnvel elliær þegar þeir heyrðu af því að hann hefði talað í Silfri Egils, hefðu átt að vera viðstaddir í Bæjarbíó. Það er ekki ónýtur liðsauki sem andófinu gegn stóriðjustefnunni hefur bæst með þessum frábæra stjórnmálamanni, sem endurnýjar sig sem ungur væri.
Jón átti 68 ára afmæli í gær en það hefði getað verið 28 ára ræðusnillingur sem fór á kostum í ræðupúltinu í Bæjarbíó. Það minnir á að Winston Churchill var tæplega 66 ára þegar hann flutti sínar frægustu ræður.
Jón naut sín greinilega og lék við hvern sinn fingur. Um hann gilti greinilega auglýsingin sem segir: Þú hættir ekki að leika þér af því þú verður gamall. Þú verður gamall af því þú hættir að leika þér.
Það væri full ástæða til að dreifa einu eintaki af ræðu Jóns á hvert heimili í landinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
21.2.2007 | 12:00
AÐ FÁ Í HNÉN ÚT AF ORKUMÁLUNUM
Við Íslendingar fáum í hnén þegar frægir útlendingar hrífast af frásögnum okkar af því hvernig við nýtum hreina og endurnýjanlega orkugjafa. Churchill, Reagan, Gorbashof, Bill Gates, Bill og Hillary Clinton! En ég held að víð ættum að gæta þess að fara ekki fram úr okkur þegar við sækjumst sem mest eftir skjalli hins ofboðslega fræga fólks.
Í fyrsta lagi segjum við þessu fólki til dæmis að orka Nesjavalla-Hengils-Hellisheiðar-svæðisins sé endurnýjanleg þegar hið rétta er að hún mun aðeins endast í 40 ár.
Í öðru lagi lítum við framhjá virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun sem verður ónýt í fyllingu tímans gagnstætt til dæmis virkjununum við Sog sem eru eilífðarvélar. Að ekki sé minnst á óþarfa eyðileggingu svæðis sem er einstætt á heimsvísu. Við erum heldur ekkert að segja þeim frá áformum um virkjun flúðasiglinagfljóta Skagafjarðar þar sem Villinganesvirkjun verður ónýt á nokkrum áratugum.
Í þriðja lagi gætum við eignast keppinauta. Norski kóngurinn gæti kynnt fyrir útlendingum metnaðarfulla áætlun Norðmanna um að virkja hið hreina og endurnýjanlega óvirkjaða vatnsafl landsins, sem að magni til er meira og hreinna en það vatnsafl sem er óvirkjað á Íslandi.
En hann mun láta það vera vegna þess að Norðmenn hafa ákveðið að virkja ekki þetta vatnsafl þrátt fyrir að orkuskortur berji þar að dyrum. Þeir ætla að varðveita sínar náttúruperlur en útsendarar Norsk Hydro fara hins vegar til Íslands svo að hægt verði að fá Íslendinga til að fórna miklu merkilegri náttúruperlum fyrir norska stóriðju.
Ríkisstjóri Wyoming-ríkis í Bandaríkjunum á líka möguleika á að fá í hnén þegar hann kynnir heimsfræga fólkinu áætlanir um að virkja hina gífurlega ónýttu hreinu og endurnýjanlegu jarðvarma- og vatnsorku Yellowstoneþjóðgarðsins.
En hann mun ekki gera þetta vegna þess að hann veit að á Íslandi eru menn tilbúnir til að fórna jafnvel meiri náttúruverðmætum svo að Bandaríkjamenn geti lagt niður álver sín í heimalandinu, smíðað ný á Íslandi og haldið sínum amerísku náttúrugersemum óspjölluðum.
Bæði norski kóngurinn og bandaríski ríkisstjórinn vita líka að þótt þessi orka sem um ræðir kunni að sýnast mikil er hún langt innan við eitt prósent af orkuþörf heimsins. Að ráðast fyrst á þessar náttúrugersemar væri hliðstætt því að ef það væri þurrð á góðmálmum í veröldinni myndu menn bræða fyrst frægustu myndastyttur og hvofþök heims.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.2.2007 | 00:20
MANNRÉTTINDI ÆSKU OG ELLI
Þessa dagana tek ég þátt í æfingum á söngleik um ástir og elli og vona að hann veki umhugsun um mannréttindi í okkar ríka þjóðfélagi miðað við mannréttindi hjá fátækum og "frumstæðum" þjóðum. Það datt út úr mér í Kryddsíld á gamlársdag að við hefðum tilhneigingu til að gera þrennt að afgangsstærðum: Æskuna, ellina og náttúruna og þetta hefur leitað meira á hugann við það að taka þátt í þessum söngleik.
Við vesturlandabúar fordæmum réttilega mannréttindaleysi kvenna í múslimaríkjum og fátækum ríkjum Asíu og Afríku. En hver eru mannréttindi æsku og elli í þessum ríkjum? Þetta bar á góma í samtali mínu við Ósk Vilhjálmsdóttur nýlega og þá benti hún mér á að hjá þessum þjóðum eru það talin grundvallamannrréttindi barna að dvelja undir forsjá foreldra og síðan réttur foreldranna þegar þeir eldast að hin uppkomnu börn þeirra sjái um þau.
Aðstoð kynslóðanna við hvora aðra eru gagnkvæm. Foreldrar annast börnin og síðan snýst þetta við. Í þessum löndum er það talin hin mesta hneisa ef þessi réttindi barna og gamalmenna eru ekki virt. Það væri ekki talin góð latína í þessum löndum að börnum og gamalmennum væri vísað að heiman og þeim hrúgað inn á stofnanir.
Ósk sagði mér frá rúmlega níræðum manni sem væri vel ern en að hann og ágætlega rólfærir jafnaldrar hans á elliheimilinu væru fyrir löngu búnir að klára öll umræðuefni frá fyrri tíð. Þeim leiddist lífið í þessu "verndaða" umhverfi þar sem ys og þys þjóðlífsins, ærsl og kæti ungviðisins, færi að mestu framhjá þeim.
Það minnir mig á lífið í sveitinni þegar ég var strákur. Allir á bænum tóku þátt í störfum og samveru hins daglega lífs. Úti á túni rökuðu og rifjuðu hey saman ungir og aldnir og blönduðu geði. Þetta samlíf tryggði það að alltaf væri eitthvað nýtt að gerast sem gerði hvern dag ólíkan öðrum hjá öllum aldurshópum. Þegar amma eða afi voru orðin léleg til útiverka sáu þau um hluta af uppeldi barnabarnanna á heimilinu.
Auðvitað lifir fólk lengur en áður og að því kemur að það getur ekki verið inni á venjulegu heimili vegna sjúkdóma og hrumleika. En sú spurning vaknar samt hvort okkar ríka og tæknivædda tölvuþjóðfélag eigi virkilega enga aðra lausn en þá sem myndi vera talin skömm hjá fátækustu þjóðum heims.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.2.2007 | 15:05
DRAUMURINN UM ÞJÓÐARSÁTT
Hlustaði á forseta vorn kalla á þjóðarsátt um orkumálin í Silfri Egils. Tek undir hvert orð. En slík sátt getur ekki byggst á þeirri draumsýn forsætisráðherra að hér á landi verði reist fjögur risaálver á næstu 13 árum sem þurfa muni alla vatns- og jarðvarmaorku landsins.
Slík sátt getur ekki byggst á því að fyrst verði nær allt virkjað með gamla laginu og síðan komi í ljós að hægt hefði verið að virkja jarðvarmann með nýrri djúpborunartækni með' margfalt minni umhverfisáhrifum.
Slík sátt getur ekki byggst á því að íslensk náttúruverðmæti verði áfram órannsökuð og gildi þeirra á heimsvísu ekki metin, heldur verði áfram verði anað í virkjanafíkninni án lágmarks þekkingar á þeim verðmætum sem um er að ræða.
Það á ekki að skjóta fyrst og spyrja svo. Það er ekki hægt að spila úr spilum sem menn vita ekki hver eru. Eftir 6- 15 ár fást væntanlega niðurstöður djúpborunartilraunanna. Grundvöllur þjóðarsáttarinnar verður að vera þekking á viðfangsefninu. Draumar mínir snúast um slíka þjóðarsátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
17.2.2007 | 13:08
"NÁTTÚRUVERND HINNA SVÖRTU SANDA".
Í Blaðinu í dag segir Friðrik Sophusson að umhverfisverndarsamtök berjist fyrir "náttúruvernd hinna svörtu sanda" á sama tíma sem fyrirtæki hans er að sökkva stærsta gróðurlendi sem eytt hefur verið í einni framkvæmd í Íslandssögunni, alls 40 ferkílómetrum. Orwell hefði elskað þetta orðalag.
Í júní nk. mun þjóðin sjá 30 ferkílómetra af svörtum sandi á þurru í lónstæði Hálslóns sem Landsvirkjun hefur búið til þar sem áður var að mestu gróið land. Nær væri því að tala um "virkjanastefnu hinna eyddu gróðurlenda og tilbúnu sanda."
Fyrir tæpum tuttugu árum sökkti sama fyrirtæki næstum því eins stóru grónu svæði undir Blöndulón. Stór hluti lónstæða fyrirhugaðra virkjana í Neðri-Þjórsá verður ræktað eða gróið land. Barátta gegn virkjunum í Þjórsárverum hefur snúist um einstæða gróðurvin.
Einn þingmanna sagði á sínum tíma að verið væri að rífast um "nokkur nástrá". Virkjanamenn tala um að smávegis af "eyðimerkurgróðri verði sökkt". Staðreyndin er hins vegar sú að Hálsinn, sem Hálslón dregur nafn af, var 15 km löng bogadregin Fljótshlíð íslenska hálendisins með 2ja til 3ja metra þykkri gróðurþekju.
Þegar lægst er í Hálslóni snemmsumars munu kynslóðir framtíðarinnar berjast við sandfokið af þessum 30 ferkílómetrum sem Landsvirkjun breytti úr grónu landi í svartan sand.
"Umræðan um umhverfisvernd á villigötum" segir Friðrik í viðtalinu. Það eru orð að sönnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)