Fylgi eykst við "Fair deal".

Í heimi ofgnóttar fjölmiðlunar getur verið erfitt að koma sjónarmiðum á framfæri. Það er mótsögn fólgin í því að auðveldari og greiðari fjölmiðlun leiði til þessa. 

Stundum þarf eitthvað stórt að koma til til þess að sjónarmið hljóti kynningu og málskot forseta Íslands var einmitt af þeim toga. 

Í framhaldi af því voru tekin við hann áberandi viðtöl í erlendum fjölmiðlum þar sem hann kom tvennu til skila, sem svo mikil fáfræði hefur verið um erlendis. 

1.

Íslendingar ætla að taka sinn þátt í því ásamt Bretum og Hollendingum að bæta innlánseigendum í             Icesave tjón þeirra og taka þannig ábyrgð á þeirri vanrækslu stjórnvalda og stofnana í þessum löndum       sem sýnd var í aðdraganda hrunsins. Allt frá afdrifaríku Kastljósviðtali í október 2008 sem sjónvarpað var víða um lönd án útskýringa var búið að stimpla Íslendinga sem skúrka sem ekki væri treystandi í viðskiptum, skúrka sem stæðu ekki við neitt. Í ofanálag höfðu breskir ráðamenn farið fram af offorsi gegn okkur í skjóli valds síns.  

2.

Íslendingar höfða til sanngirnissjónarmiða varðandi það að við samninga um byrðar á skattborgara þessara landa verði tekið tillit til stærðarmunar þessara þjóða þannig að drápsklyfjar verði ekki lagðar á skattborgara einnar þeirra en hinar sleppi að mestu.

 

Það hefur gengið afar erfiðlega að ná eyrum umheimsins um þessi atriði, enda Íslendingar örþjóð sem tróðst undir þegar flúið var út úr hinum brennandi skýjakljúfi hins alþjóðlega fjármálakerfis haustið 2008.

Það þurfti eitthvað stórt til að ná eyrum fólks erlendis og áberandi er enn hve mikið skortir á vitneskju erlendis um eðli málsins.

Nýjustu fréttir frá Noregi bendir til þess að þokist í rétta átt í þessu efni. Krafan um sanngirni miðað við eðli málsins er réttlætiskrafa.

Ég hef reynt að halda kjörorðinu "Fair deal" á lofti í skrifum mínum um þetta mál því að sú krafa er þess eðlis að hún vekur fólk til umhugsunar um það hvað sé sanngjarnt og réttmætt.  


mbl.is Norðmenn breyta um Icesave-stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yljar um hjartarætur.

Alexander Petersson á alveg sérstakan sess í hjarta mínu eftir EM. Manni getur ekki annað en þótt vænt um það að maður, sem fæðist og elst upp í öðru landi, virðist vera hvað mesti Íslendingurinn af öllum. 

Þetta var ekki í eina skiptið í þessum leik eða öðrum sem Alexander gerði hluti sem enginn annar gerði og þetta var alveg sérstaklega mikils virði í þessum síðasta hálfleik mótsins.

Hann var vel á eftir Pólverjanum þegar þeir tóku sprettinn en náði honum, komst framar honum og kastaði sér fram á alveg hárréttu augnabliki og í hárrétta stefnu til þess að snerta boltann á undan.

Eitt af eftirminnilegustu og óvenjulegustu atvikum í sögu íslenska handboltans ásamt afturábak-snúnings-bakhandarmörkum Róberts Gunnarssonar.  


mbl.is Átti íslenska liðið boltann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi íþróttanna.

Þau viðfangsefni sem nú er glímt við varðandi dómgæslu í handknattleik endurspegla einn helsta vanda íþróttanna, sem felst í því að innan gildandi ramma þeirra finnast nánast vísindalegar aðferðir til að ná árangri og þessar aðferðir breyta ásýnd og eðli viðkomandi íþrótta.

Mælanleg áhrif þessa sjást glögglega í þeirri byltingu, sem varð í frjálsum íþróttum á sjöunda áratug síðustu aldar. 

Fram að þeim tíma höfðu frjálsíþróttaafrek að mestu leyti verið sambærileg og sum metin stóðu jafnvel áratugum saman. 

Fyrstu merkin um breytingu á þessu sáust í sigri Bob Hayes í 100 metra hlaupi í Tokyo 1964 þar sem fram kom alveg ný týpa spretthlaupara, menn voru allt að 100 kíló vöðvatröll. Hayes kom úr bandaríska ruðningnum og var mjög dæmigerður fyrir íþróttamenn í þeirri grein. 

Á næstu árum á eftir varð bylting í flestum greinum, einkum kastgreinunum og ástæðan varð næsta augljós nokkrum árum síðar þegar notkun stera varð á almanna vitorði. 

Notkun þeirra og annarra lyfja skaðaði ekki aðeins íþróttirnar hvað snerti þá íþróttamenn, sem notuðu þessi lyf, heldur líka orðstír þeirra sem stórbættu árangur sinn án þess að séð væri að um svo mikla framför í stíl væri að ræða að það útskýrði 2-3ja metra bætingu og aldrei var sannað að hefðu notað sterana.

Dæmi um það er Guðmundur Hermannsson, sem hafði um árabil á þeim árum sem íþróttamenn eru í mesta líkamlega blóma kastað kúlunni 15-16 metra en fór síðan nálægt fertugu að kasta æ lengra og bætti sig svo metrum skipti. 

Með því að taka upp notkun trefjastanga í stað stálstanga var stangarstökkinu gerbreytt svo að nam bætingu upp á 1,5 metra ! 

Fyrsti handboltamaðurinn sem kom til Íslands og var af alveg nýrri gerð handboltamanna var Hans Schmidt, sem brilleraði í leik Gummersbach við Íslandsmeistara FH og fékk áhorfendur upp á móti sér vegna þess hroka sem hann sýndi andstæðingum sínum. 

Schmidt var hinn fyrst af hinum luralegu og sívölu vöðvatröllum frá Austur-Evrópu sem augsjáanlega voru byggðir upp með lyftingum og lyfjanotkun. 

Sænski kringlukastarinn Ricky Bruch upplýsti síðar um það hvernig sterarnir breyttu honum í renglulegum unglingi í níðþungt vöðvabúnt og fleiri dæmi má nefna frá þessum tíma í mörgum greinum, bæði hér á landi og erlendis. 

Bruch lýsti líka vel hvernig þessi lyfjanotkun hefndi sín þegar keppnisferlinum lauk. 

Við munum vel þá tíma hér á landi þegar liprir línumenn á borð við Sigurð Einarsson, Jóhann Inga Gunnarsson og Björgvin Björgvinsson glöddu áhorfendur með snilli sinni á línunni.

Ég minnist aðeins eins slíks á EM nú, en hann virtist samt hafa þurft að þyngja sig allvel til þess að eiga möguleika inni í milli tröllanna. 

Handboltinn hefur sem betur fer getað lagfært ýmislegt sem var orðið til trafala, svo sem "gönguhandboltinn" eða "svæfingarhandboltinn" sem mörg lið frá Austur-Evrópu fullkomnuðu sig í og birtist í löngum sóknum þar sem sífellt var verið að dæma aukaköst þangað til andstæðingarnir "sofnuðu" á verðinum og gáfu á sér höggstað. 

Ég treysti því að reglurnar í handboltanum verði nú sem fyrr lagaðar að því að auka það sem gleður mest augað, hraða, snerpu, lipurð og skotttækni. Það er lífsnauðsyn fyrir þessa íþrótt. 

 


mbl.is Sérstakir varnarmenn úr sögunni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf meira, miklu meira.

Kjarnorkuvopnaváin er kannski hættulegasta fyrirbrigði og ógn okkar tíma, ekki bara vegna þess að hún sé ógn við allt líf á jörðinni, heldur ekki síður vegna þess hve hún er lúmsk, hangir eins og Daemoklesarsverð yfir mannkyninu. 

Það var löngu tímabært að stíga það skref að fækka þessum gereyðingarvopnum og ber að fagna samkomulagi risaveldanna á kjarnorkuvopnasviðinu. 

Eftir sem áður verða til vopn til að eyða öllu mannlífi mörgum sinnum og ekki er hægt að búa við tilvist MAD (skammstöfun fyrir Mutual-Assured-Destruction) eða GAGA (Gagnkvæm-Afdráttarlaus-Gereyðing-Alls). 


mbl.is Fækka kjarnorkuvopnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örbílasafn Íslands?

Siggi stormur kallaði mig til Keflavíkur í morgun til að skrafa við mig á útvarpssstöðinni Kananum um hugmyndir mínar um "Örbílasafn Íslands." 

Sigurður hafði heyrt ávæning af þessu og vildi fá nánari útlistun. Ég rúllaði suðureftir á ódýrasta bíl landsins, Fiat 126 Maluch.

DSCF3045

Hér á síðunni eru myndir af honum og nokkrum öðrum bílum sem koma til greina á safnið.

 

 Það helsta sem kom fram í samtali okkar var þetta:

Eftir leit á netinu hef ég aðeins fundið tvö örbílasöfn eða "micro car museums". Annað er í Austurríki og sýnist ekki vera stórt.

Hitt er mjög stórt og glæsilegt og er í Georgíu í Bandaríkjunum.

IMGP0254

En það er ekki á aðal ferðamannaslóðum Bandaríkjanna og því virðist ekkert svona safn vera þar sem ferðamenn eru flestir í því landi, á austurströndinni og á vesturströndinni. 

Ekkert svona safn virðist vera í allri norðanverðri Evrópu.

P1010242

 

Ég hef því fengið þá hugmynd að hægt sé að setja svona safn á fót í Reykjavík og myndi það verða undir formerkjum nægjusemi og naumhyggju eða minimalisma eins og það heitir á útlendu máli.

 

Kjörorðin "small is beautiful" og "less is more" mætti líta þar á veggjum.

Smæðin ein yrði ekki skilyrði heldur líka hugtökin ódýr og einfaldur og sömuleiðis bílar sem voru minnstir eða ódýrastir á einhverju tímabili. 

Einnig yrðu á safninu bílar sem eru minnstir sinnar gerðar eða síns stærðarflokks.

Dæmi um það gæti verið minnsti jöklajeppi á Íslandi, minnsti jepplingur landsins, minnsti 4x4 bíllinn, minnsti sjálfskipti bíllinn, minnsti brúðarbíllinn, minnsti Toyota jöklajeppi landsins, minnsti blæjubíllinn o. s. frv.... 

DSCF0531

Þarna væru myndir af bílunum á hinum mismunandi stöðum og upplýsingar um þá og sögu þeirra.  

Í gróðærinu 2002-2008 henti fólk litlum og einföldum eða gömlum bílum í stórum stíl eða seldi þá fyrir allt niður í 15 þúsund krónur.

Á þennan hátt slæddust til mín bílar sem ég hef geymt flesta á Geymslusvæðinu í Kapelluhrauni en einnig í litlum bílskúr í Vesturbænum í Reykjavík, en vegna þess hvað bílarnir eru litlir hef ég getað geymt fjóra í skúr sem annars tekur aðeins einn bíl !

P1010046

 

P1010834

Ég hef einnig fylgst með því að nokkrum bílum, sem ekki eru í minni eigu, verði ekki fargað og geti fengið inni á hugsanlegu Örbílasafni.

 

Þar gæti einnig verið minnsti Mini í heimi, sem hefur verið til skrauts og ánægju sem sýningargripur fyrir viðskiptavini Paulsens í Skeifunni en hefur vegna fjárskorts ekki verið hægt að skrá á götuna. 

Auðvitað þarf fjármagn til að setja á fót svona safn en af eðli málsins er ljóst að það ætti ekki að þurfa stórt húsnæði.  

 

P. S. Í morgun var Mini-mini-bíllinn fluttur upp í bilasalan.is sem er við Nethyl í Árbæjarhverfi. 

23291

 

 

 

DSCF0753IMGP0270
mbl.is Súkkulaðigarður opnar í Peking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hærra hlutfall ætti að vera æskilegt.

Hugsunin á bak við tillögur um strandveiðar sem reifaðar voru fyrir kosningarnar 2007 fólu það í sér að skipa málum þannig að bæði veiðar og vinnsla hleyptu lífi i sjávarpláss sem höfðu verið illa leikin af kvótakerfinu. 

Meira að segja voru viðraðar þær hugmyndir að skylt yrði að vinna aflann í heimahöfn.

Nú er það hins vegar svo að aðstæður til þess eru misjafnar. Það stingu þó í augu að sjá að á sumum stöðum virðist nær enginn afli hafa verið settur í vinnslu í höfnum, þar sem góð skilyrði eru til vinnslu hans.

Þetta þarf líklega að skoða betur.  


mbl.is 17% af strandveiðiafla til vinnslu í heimahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengsti hlákukafli í janúar.

Á sama tíma og Evrópubúar lifa við meira vetrarveður en um árabil eru sett hlýindamet hér á landi. Núna í janúar var sett það hlýindamet hér að það kom lengri hlákukafli í janúar en mælst hefur nokkru sinni, - 21 frostlaus dagur frá 8. -28. janúar. 

Nú gengur sérstakur hlýindakafli yfir Vestur-Grænland með allt að 13 stiga hita.

Á veðurkortum í sjónvarpi sést hvernig lægðirnar, sem koma sunnan úr Atlantshafi, fara óvenju vestarlega upp með austurströnd Norður-Ameríku og dæla hlýju lofti norður um sunnan- og vestanvert Grænland og norður á Grænlandshaf.

Allar getgátur um það hvort þetta séu merki um hlýnun eða kólnun veðurfars á jörðinni í heild eru hins vegqar líkast til fánýtar út af svona afmörkuðu fyrirbrigði.

Kannski leiða einhverjir líkur að því að minni ís á norðurhvelinu valdi því að lægðirnar fara vestar og norðar en venjulega en hitt getur síðan bara verið tilfellið að staðsetning kaldra polla á norðurhvelinu sé önnur en venjulega, líkt og fyrir nokkrum árum þegar kuldapollur Norður-Ameríku var austar en venjulega og það olli tímabundnum kuldum hér á landi.  


mbl.is Hörkuvetur í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstakur maður í öllu tilliti.

Um fáa menn hefur mér þótt eins vænt eins og Steingrím Hermannsson um dagana. Með okkur tókst góð vinátta þegar ég flaug með hann vestur á firði þegar hann var að fara þar í sína fyrstu kosningabaráttu og entist hún æ síðan og dýpkaði. 

Steingrímur var sannur maður og mannvinur eins og ég kynntist honum og þótt hann væri mikill keppnismaður og verkmaður og hefði alist upp í skjóli valdamesta manns landsins var alveg magnað hvað hann var alþýðlegur og átti gott með að umgangast háa og lága af stakri snilld.

Það var með mestu pólitísku afrekum síðustu ára hvernig honum tókst að mynda ríkisstjórn sína 1988 og láta hana sitja út kjörtímabilið.

Á pappírnum var þetta næsta vonlaust. Stjórnin hafði ekki meirihluta í báðum deildum og varpa varð hlutkesti um sæti í þingnefndum.

En jafn einstakur og Steingrímur var heppni hans þá jafnvel enn einstakari því að hann vann öll níu hlutkestin.

Stjórnin breyttist síðar í fjögurra flokka stjórn en enn sem fyrr hafði Steingrímur einstaka hæfileika til verkstjórnar og til að laða menn til samstarfs, svo ólíkir sem þeir voru.

Til þessa þarf alveg sérstaka hæfileika og á því sviði var Steingrímu afburðamaður.

Ég sendi fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur og þakka fyrir þá ánægju sem það veitti mér að kynnast og ferðast um landið með feðgunum öllum, ættliðunum þremur, Hermanni, Steingrími og Guðmundi.  


mbl.is Steingrímur Hermannsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvergi meiri þörf á slíku.

Þótt viðfangsefni Breta séu næg þessa dagana telja þeir ekki eftir sér að kafa ofan í aðdragandann að þátttöku þeirra í stríðinu í Írak. 

Ég get ímyndað mér að hvergi sé þó meiri þörf á að hreinsa þetta mál en á Íslandi. Aðdragandinn að því að Ísland var sett á bekk með hinum "viljugu þjóðum" var með slíkum eindæmum að leitun er að bæði hér á landi og erlendis.

Einn maður með fulltingi fóstbróður síns tók þá ákvörðun að breyta utanríkisstefnu þjóðarinnar á afgerandi hátt, þótt vissulega hefðu tengsl okkar við hernað á Balkanskaga verið á gráu svæði á áratugnum á undan.

Og þetta var gert þvert ofan í þá niðurstöðu skoðanakannana að 70% þjóðarinnar væru þessu andvíg.

Fyrst ráðamenn í öðrum löndum verða að standa fyrir sínu máli varðandi innrásina er eðlilegt að íslenskir ráðamenn eigi að gera það líka.  


mbl.is Þingmenn rannsaki þátttöku í Íraksstríði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband