16.3.2007 | 11:44
ÁHÆTTA Á KOSTNAÐ ÞJÓÐARINNAR
Í frétt í Blaðinu í dag sést að nú er að koma í ljós hluti af því sem ég benti á í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti", og fyrir hálfu ári í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár". Þar var eftirtalin tilvitnun í álit lögfræðings Landsvirkjunar:
"...virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu, tæknilegu, umhverfislegu og markaðslegu tilliti, - er í raun eyland í raforkukerfinu og rýrir það gildi vatnsréttinda. Ekki er hægt að útiloka að stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra örðugleika á byggingartíma og rekstrarkostnaður Hálslóns geti orðið umtalsverður ef beita þurfi ítrustu mótvægisaðgerðum vegna skilyrða um umhverfisþætti."
Á sínum tíma sagði Halldór Ásgrímsson að Impregilo hefði bjargað virkjuninni með lágu tilboði sínu því hin tilboðin hefðu verið svo há að útilokað hefði verið að taka þeim, - virkjunin hefði þá ekki skilað arði. Raunar er arðurinn sem virkjunin átti að skila svo lítill að ekkert einkafyrirtæki, stórt eða smátt, hefði lagt í þessa framkvæmd með svo lágri arðprósentu.
Einn af talsmönnum NCC sagði mér að tilboðið hjá þeim hefði verið jafn hátt og raun bar vitni vegna þess að auðséð var að mikil áhætta fylgdi verkefninu og það væri mjög flókið. Mikil hætta væri á að forsendur sem Landsvirkjun setti fram í útboðsgögnum stæðust ekki og ekki væri ráðlegt að standa í þrefi um kröfur á hendur Landsvirkjun vegna þess.
Ég benti NCC-manninum á að Impregilo hefði ekki látið þetta aftra sér. Hann sagði þá að öðru máli gilti um Impregilo, - þeir hefðu á sínum snærum einhverja bestu og hörðustu lögfræðinga Evrópu. Nú hefur komið í ljós að gangagerðin er langt á eftir áætlun og stefnir í háar sektagreiðslur Landvirkjunar til Impregilo.
Impregilo-menn geta verið rólegir, - þeir vita að verkið er ríkistryggt. Íslenskir ráðamenn geta líka verið rólegir, - þeir vita að dæmið verður ekki allt gert upp fyrr en eftir kosningar og að þá muni kjósendur borga milljarða umframkostnað og vera búnir að gleyma öllu eftir fjögur ár þegar bygging nýrra álvera og virkjana verður á fullri ferð.
Nú kemur það enn og aftur í ljós að 3-5 kílómetra misgengisbelti við Þrælaháls verður mönnum þungt í skauti fyrir austan. Í sjónvarpsfréttum í fyrra sýndi ég kvikmynd þar sem þetta misgengisbelti sést vel úr lofti og spurði yfirmann jarðfræðirannsókna hvort þeir hefðu ekki séð það líka og hvers vegna ekkert hefði verið borað í það til að rannsaka það.
Hann sagði svo vera en tíminn hefði verið naumur, aðgengi erfitt og óvíst um árangur. Þegar ég innti talsmann Landsvirkjunar eftir áliti hans á því að ekki voru boraðar rannsóknarholur í misgengissvæðið sagði hann þessi orð, sem lýsa þessari framkvæmd í hnotskurn: "...og það hefði engu breytt - við hefðum þurft að fara þarna í gegn hvort eð var."
Þessi orð hefði átt að letra í hornstein Kárahnjúkavirkjunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
15.3.2007 | 19:22
ÁFRAM HEILSUVERNDARSTÖÐ - FRÁBÆRT
Það eru góðar fréttir að Heilsuverndarstöðin verði ekki að hóteli heldur áfram notuð í lækningastarfsemi. Stöðin var sérhönnuð sem heilsuverndarstöð á sínum tíma, merk bygging og fögur. Of margar merkar byggingar eru ýmist rifnar, þeim breytt eða þær fluttar í annað umhverfi.
Manni verður hugsað til Fjalakattarins og fleiri húsa í þessu sambandi. Meðan Heilsuverndarstöðin var í byggingu var hún eitt ævintýralegasta leiksvæðið á bernskuárum mínum með koldimmum ófullgerðum rangölum sínum í kjallaranum sem voru kjörnir fyrir æsilega leiki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.3.2007 | 14:12
RÓLEGAR STÓRIÐJUFRAMKVÆMDIR
Í eldhúsdagsræðu sinni í gær sögðust Sjálfstæðismenn ætla "að hægja á" smíði álvera. Þetta er orðið gamalkunnugt trix sem felst í því að reyna að svæfa umhverfisverndarfólk. Sagan undanfarin átta ár sýnir þetta glöggt. Þegar álæðið hófst var fyrst sagt að aðeins yrði reist 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði, og að það myndi nægja í bili.
Ekki var liðið ár þegar álverið var orðið 420 þúsund tonn en þá sagt að ekkert yrði gert á suðvesturhorninu á meðan. Varla var liðið ár þegar hafist var handa við að stækka álverin á Grundartanga og í Straumsvík. Það gleymist í stækkunaræðinu núna að bæði þessi álver hafa þegar verið stækkuð stórlega.
Í fyrra bættist síðan við undirbúningur undir álver við Húsavík, í Helguvík og á Þorlákshöfn. Nú er samt sagt að hægt verði á þessum framkvæmdum en látið nægja að stækka í Straumsvík. Svæfingaraðferðin hefur dugað vel því ævinlega hefur umhverfisverndarfólk vaknað upp við vondan draum þegar álverunum hefur verið þrýst í gegn með því að segja að komið sé svo langt að of seint sé að snúa við.
Þessi aðferð er til dæmis í góðu gildi í Skagafirði og allt tal um að hægja á byggingu álvera er marklaust meðan eftir standa ummæli forsætisráðherra um þrjú ný álver fyrir 2020. Það þýðir tvöföldun á aðeins 13 árum sem er stuttur tími, - enginn hægagangur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.3.2007 | 11:18
UMHVERFISMÁLAFORYSTA SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS
Þessa dagana klifa talsmenn Sjálfstæðisflokksins á því að flokkurinn sé mesta umhverfisverndarafl Íslands. Vitnað er í Birgi Kjaran og það segir sína sögu að fara þarf aftur undir miðja síðustu öld til að rökstyðja þetta. Formaður flokksins vill sex risaálver á Íslandi á næstu 13 árum sem nota munu nær alla virkjanlega orku landsins með ómældum spjöllum á íslenskri náttúru, sem er mesta verðmætið sem okkur Íslendingum hefur verið falið að varðveita fyrir mannkyn allt. Þegar þessi flokkur telur sig vera mesta umhverfisverndarflokkinn spyr ég: Kanntu annan?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
14.3.2007 | 01:21
ALDARLJÓMI ÍR
Ég hef verið Framari lengur en ég hef lifað því foreldrar mínir skráðu mig í félagið nokkrum mánuðum fyrir fæðingu. En ég er líka ÍR-ingur og keppti fyrir það félag í frjálsíþróttum. Í umfjöllun eins blaðsins um aldar afmæli félagsins er að vísu minnst á afrek Vilhjálms Einarssonar og Völu Flosadóttur en gleymist alveg að minnast á stjörnurnar um miðja síðustu öld sem vörpuðu ljóma á landi á fyrstu árum lýðveldisins.
Þar má meðal annarra nefna Clausenbræður, Finnbjörn Þorvaldsson og Jón Þ. Ólafsson. Örn Clausen var þrjú ár í röð þriðji besti tugþrautarmaður heims og Haukur tvíburabróðir hans átti Norðurlandamet í 200 metra hlaupi í 13 ár.
Það er eitt mesta slys íslenskrar íþróttasögu að Hauki skyldi bægt frá keppni í 200 metra hlaupi á EM í Brussel 1950 sama sumarið og hann náði besta tímanum í Evrópu í þeirri grein.
Ekki var það minna slys að þeir skyldu þurfa að hætta keppni aðeins 22ja ára gamlir. Á þeim aldri eru tugþrautarmenn rétt að byrja að klífa upp afrekastigann. Það kom í ljós í Bandaríkjadvöl Hauks að hann hefði getað orðið geysigóður tugþrautarmaður.
Ekki er út í hött að ætla, að hefðu þeir bræður haldið áfram og fengið þjálfun í Bandaríkjunum hefði alveg verið í myndinni að sjá þá báða á verðlaunapallinum í Melbourne.
Jón Þ. Ólafsson stökk 2,11 metra með þriggja skrefa atrennu í litla ÍR-húsinu sem var eitt besta innanhúshástökkið í heimi þann veturinn. Lengi mætti telja afrek ÍR-inga í gegnum tíðina.
ÍR-taugarnar eru sterkar og ég vona að félagið dafni og afreksfólk þess blómstri á annarri öld sögu þess.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.3.2007 | 13:18
SLEGGJAN MEÐ "HÓFLEGA STÓRIÐJU."
Ekki var Guðjón A. Kristjánsson fyrr búinn að draga í land yfirlýsingu sína frá landsþingi flokks síns um hóflega stóriðju með álverum en Kristinn H. Gunnarsson segir í Morgublaðsgrein að hófleg stóriðja sé skynsamleg á sama tíma og við blasir hin "hóflega stóriðja" sem þrýsta á fram í langstærsta álveri Evrópu í Straumsvík.
Þótt nú sé talað um 240 þúsund tonna álver við Húsavík verður hægur vandinn fyrir Alcoa að fá því framgengt sem talsmenn allra álfyrirtækjanna hafa sagt að sé nauðsynlegt, sem sé að álver verði að verða a.m.k. 5-600 tonn í framtíðinni til að vera samkeppnisfær.
Af 3ja - 4ra milljarða gróða Alcans á hverju ári munar það fyrirtæki ekkert um að sletta smá broti af því, nokkur hundruð milljónum í áróður fyrir stækkun álversins. Alcoa mun líka þegar þar að kemur leika sér að Húsvíkingum sem eru tíu sinnum færri en Hafnfirðingar.
Síðan má sjá fyrir sér samsvarandi stækkun álversins á Reyðarfirði og þá mun "hóflega stóriðjan" á Norður- og Austurlandi þurfa alla virkjanlega vatns- og jarðvarmaorku norðausturlands, með núverandi tækni, - þ. m. t. árnar í Skagafirði, Sjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum.
Enn einu sinni skal minnt á það að forsætisráðherra útilokaði ekki aðspurður í Kryddsíld virkjun Jökulsár á Fjöllum. Því miður teygir stóriðjustefnan sig úr stjórnarflokkunum yfir í einstaka þingmenn Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar og veikir stórlega vonir um meirihluta "grænna" þingmanna í komandi kosningum nema hægt verði að fjölga grænu þingmönnunum á einhvern hátt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
11.3.2007 | 15:36
LEITIN AÐ NÝJUM MÁLUM
Liðin vika hefur verið lýsandi fyrir þá leit sem er í gangi að nýjum kosningamálum, öðrum en umhverfismálum. Auðlindaákvæðismálið er glöggt dæmi um það. Nú virðist eiga að keyra þetta mál upp örskömmu fyrir kosningar þótt augljóst sé að svo vandasamt, flókið og umdeilt mál þarfnast miklu meiri tíma og yfirvegunar.
Þessi málsmeðferð núna stingur í stúf við þá viðleitni til vandaðra vinnubragða og varúðar þegar fjallað hefur verið áður um stjórnarskármál. Í Silfri Egils í dag kom líka fram að í tengslum við auðlindaákvæðið er nú allt í einu farið að fjalla um sjávarútvegsmálin og fiskveiðistefnuna eftir að lítið sem ekkert hefur verið talað um þau lengi vel. Ekki mun sú umræða gera málið einfaldara.
Það virðist sannarlega ekkert veita af því að halda á lofti umræðum um umhverfismálin, þann málaflokk sem snýr að hagsmunum ófæddra Íslendinga og ætti að gera næstu kosningar öðruvísi en fyrri kosningar ef tekið er tillit til þeirra hagsmuna sem eru í húfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
9.3.2007 | 23:42
AÐBÚNAÐUR ALDRAÐRA ER UMHVERFISMÁL
Aðbúnaður aldraðra inni á stofnunum er í raun umhverfismál. Þessu fólki er búið annað umhverfi en getur talist eðlilegt miðað við það sem gerðist hjá formæðrum og forfeðrum okkar í sveitinni í gamla daga þar sem gamla fólkið fékk að vera áfram í náinni snertingu við afkomendur sína, sjá barnabörn og barnabarnabörn fæðast og fylgjast náið með leik og starfi síns fólks frá degi til dags.
Eins lengi og það gat tók það þátt í uppeldi barnanna og verkum utan og innan heimilis. Það var alltaf eitthvað nýtt að gerast og meðan heilsan leyfði var þetta áreiðanlega það besta sem hægt var að bjóða þessu aldna fólki.
Þetta kemur upp í hugann á frumsýningardegi söngleiks sem heitir "Ást" og fjallar um þetta efni. Það verður því lítið um blogg þennan dag hjá mér því það er mæting á æfingu og svokallað rennsli klukkan ellefu og því lýkur upp úr klukkan þrjú. Þá er hlé til klukkan sex þegar undirbúningur undir sýninguna sjálfa hefst.
Frábær hópur stendur að þessari sýningu sem mig grunar að geri gagn og veki til umhugsundar ekkert síður en að veita fólki dægrastyttingu. Þess vegna gat gömul leikhúsrotta sem hóf ferilinn tólf ára gömul við að flytja mikilvæg skilaboð á sviði ekki annað en farið aftur á byrjunarreitinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.3.2007 | 10:40
STRÆTÓ Á AKUREYRI OG ESB
Farþegar í strætó á Akureyri voru tvöfalt fleiri í febrúar en á sama tíma í fyrra. Þá kostaði að fara í strætó þar, en nú er frítt í strætó, - lítið dæmi um þá möguleika sem þjóðir heims hafa til að svara kalli þjóðarleiðtoga ESB um 20% minnkun útblásturs fyrir 2020. Farþegum fjölgaði um 600 á Akureyri í febrúar en það samsvarar nokkurn veginn 6000 farþegum á Reykjavíkursvæðinu.
Hugsanlega er þetta ekki alveg samanburðarhæft, því byggðin á höfuðborgarsvæðinu er tætingslegri og óskipulegri en á Akureyri. En þetta er sláandi og möguleikarnir til minnkunar útblásturs liggja líka í breytingu á samsetningu bílaflota landsmanna og ýmsum öðrum atriðum.
Stóri ameríski pallbíllinn, 3ja tonna ferlíki með allt að 330 hestafla vél og eyðslu upp í 30 á hundraðið verður þegar tímar líða talið tákn um lífsstíl Íslendinga árið sem Hjalladal var sökkt. Síðustu 60 ár hefur grundvöllur undir bílakaup verið skakkur, allt frá haftatímabilinu þegar jeppar voru skilgreindir sem lágtolluð landbúnaðartæki.
Síðustu árin hafa pallbílar verið skilgreindir sem frumstæðir verktakabílar enda þótt hægt sé að kaupa sér lúxus Cadillac-pallbíl með öllum hugsanlegum þægindum og fá hátt á aðra milljón af gjöldum gefin eftir af verði bílsins, - bara vegna þess að við Kárahnjúka hristist kínverskir verkamenn um í pallbílum.
Helsta umhugsunarefni fyrir Íslendinga er að bílafloti landsmanna mengar ekki mest heldur eru álverin í langefsta sæti og þar á eftir kemur skipaflotinn. Við munum væntanlega fara fram á undanþágur sem fyrr frá alþjóðlegum skuldbindingum út á það að við erum svo lánsöm að búa í landi þar sem það er ódýrast að nota endurnýjanlega orkugjafa.
Pallbílaæðið er gott dæmi um það að í raun höfum við enn fórnað neinu sem nemur á borð við það sem þjóðir Evrópu hugsa sér að gera á næstu 13 árum. En það er eins gott að það fari að renna upp fyrir okkur að 21. öldin verður öld umhverfismálanna og að við getum ekki látið sem ekkert sé.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.3.2007 | 18:16
HJÁLP FYRIR FRAMSÓKN?
Það var alþekkt fyrirbæri á viðreisnarárunum að allmargir Sjálfstæðismenn kusu Alþýðuflokkinn í þingkosningum til þess að friða hann og halda honum við viðreisnarefnið. Þegar Eggert Þorsteinsson kaus útundan sér gegn stjórnarfrumvarpi á síðasta hluta tímabilsins og kom að margra mati í bakið í samstarfsflokknum var reynt að fyrirgefa það og taka það ekki of óstinnt upp.
Upphlaup Framsóknar nú vegna auðlindaákvæðisins rétt fyrir kosningar minnir svolítið á þetta. Allt í einu gerðu Framsóknarmenn þetta að stórmáli eftir að hafa látið sér fátt um finnast. Ég hef ekki haft neina sérstaka tilhneigingu til að vorkenna Sjálfstæðisflokknum en þarna hefði mér fundist drengilegra af Framsókn að hafa lengri og eðlilegri aðdraganda að þessari uppákomu.
En kannski hugsar Geir sem svo að það sé hið ágætasta mál að Framsókn kræki sér í einhver atkvæði fyrir þetta rétt eins og Alþýðuflokkurinn á sínum tíma í viðreisninni. Og kannski er þetta marklaust samkomulag samanber álit Sigurðar Líndals og kemur sér vel fyrir stóriðjustjórnina að upp komi mál sem hægt er að blása nógu mikið upp svo að umhverfismálin falli í skuggann.
Og nú heyri ég í útvarpinu að Geir segir að þetta sé "táknrænt" lagaákvæði, breyti í engu grundvelli atvinnuveganna og geri þeim kleyft að auka eignaheimildir sínar.
Formennirnir fóru óvenjulega leið í þessu máli, - afgreiddu það fyrst einhliða en leyfðu síðan stjórnarandstöðunni að sjá krógann tveimur tímum síðar og sýndu þeim óvenjulega litla virðingu miðað við það að venjulega liggur mikið samráðsferli að baki stjórnarskrárbreytingum. Sýnist ekki mikil von til að stjórnarandstaðan verði samstíga í þessu fyrir bragðið.
Eftir orðræðu þeirra Einars Odds Kristjánssonar og Össurar Skarphéðinssonar í Kastljósi í kvöld er ljóst að menn muni eyða næstu dögum í að karpa um það hvort auðlindaákvæðið breyti einhverju eða engu og ætti engum að koma á óvart þótt niðurstaðan yrði sú að hver geti túlkað þetta eftir sínu nefi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)