7.3.2007 | 10:55
KOSIÐ UM LOKUN ÁLVERSINS?
Nær daglega er sagt í blaðagreinum að 31. mars kjósi Hafnfirðingar um lokun álversins í Straumsvík eftir sjö ár. Þá muni 450 starfsmenn þess, ca helmingur þeirra búsettur í Hafnarfirði, - verða atvinnulausir og verða vá fyrir dyrum. Grímulaus hótunin er nú orðin aðalmálið, - ekki stækkunin.
Engum virðist detta í hug að stækkun þessa gjöfulasta álvers fyrirtækisins með allt að fjögurra milljarða króna gróða á ári muni skila viðbótararði til þess og að þess vegna sé það besta fjárfestingin fyrir Alcan að stækka það og nýta enn betur orkuverð sem skrapar botninn. Gleymd er líka sú umsögn Alcan á sínum tíma að álverið sé í stöðugri þróun.
Engum virðist detta í hug sá möguleiki að þetta ofurlága orkuverð geti laðað til sín nýjan fjárfesti ef álverið verður lagt niður, - að Bill Gates eða hliðstæðir fjármálarisar vilji fá orkuna keypta fyrir starfsemi sem mengar ekki og býður upp á mun hugljúfari byggð og betur launuð og fjölbreyttari störf en álverið.
Hugljúf er framtíðarsýn stóriðjusinnanna inn í 21. öldina: Álrisarnir hóta lokun nema þeir fái sínu framgengt. Þá getur Alcoa hótað að loka álverunum í Reyðarfirði og við Húsavík nema þau fáist stækkuð um samanlagt eitthvað um 500 þúsund tonn sem þurfa mun viðbótarorku sem nemur einni og hálfri Kárahnjúkavirkjun með núverandi virkjunartækni.
Húsvíkingar og Reyðfirðingar, sem eru tíu sinnum færri en Hafnfirðingar, verða svínbeygðir.
En hver er svo þessi "vá fyrir dyrum" í Hafnarfirði? Jú, 450 manns missa þá vinnuna. Af þeim mun helmingur búsettur í Hafnarfirði en á sama tíma fjölgar störfum í Hafnarfirði sjálfkrafa um 240 á hverju ári án þess að nokkur taki eftir því. Vegna þess að starsmennirnir eiga heima víðsvegar um höfuðborgarsvæðið væri réttara væri að tala um 1200 ný störf sem skapast sjálfkrafa á höfuðborgarsvæðinu árlega án þess að það veki eftirtekt.
Berum þessa "vá" saman við það þegar 300 manns misstu vinnuna þegar herinn fór. Í áratugi var búið að útlista það hve mörg fyrirtæki og margt fólk á Suðurnesjum hefði atvinnu af því að þjónusta varnarliðið á alla lund. Svo fór herinn allt í einu og það var vá fyrir dyrum.
Andri Snær Magnason lýsti því svo skemmtilega í viðtali við blað Framtíðarlandsins hvernig hann sá bæjarstjóra Reykjanesbæjar fyrir sér þar sem hann var að raða þessum 300 atvinnuleysingjum eins og tindátum inn í líkan af álveri í Helguvík.
En nokkrum vikum eftir að herinn fór voru tindátarnir týndir, - þessir 300 starfsmenn voru horfnir inn í atvinnulífið og næst verður "vá fyrir dyrum" að reyna að hafa upp á þeim til þess að geta raðað þeim inn í verksmiðjuna líkt og Stalín gerði í fimm ára áætlununum Sovétríkjanna sáluðu.
En höfum ekki áhyggjur af því að leita að starfsmönnum fyrir álver í Helguvík þegar þar að kemur. Við getum flutt inn Pólverja og notað starfsmannabúðir byggingarverktakanna í Helguvík fyrir þá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (60)
6.3.2007 | 11:37
SVIFRYK OG MALBIKSNOT
Ætli það sé ekki meina en áratugur síðan ég hóf að fjalla ítrekað í sjónvarpsfréttum um svifyk og áhrif negldra hjólbarða á það og sýndi hrollvekjandi myndir af því, - einnig það að samkvæmt sænskri prófun dygðu aðeins negldir hjólbarðar og harðkornadekk á blautu, hálu svelli. Síðan hafa komið fram nýjar tegundir hjólbarða sem veita aukið grip. Fyrir lá að aðeins örfáa daga eða hluta úr degi á vetri hverjum séu raunveruleg not fyrir neglda hjólbarða á götum Reykjavíkur.
Loksins núna er vandamálið komið í almennilega umræðu. Það er augljóslega lítil sem engin þörf á negldum hjólbörðum á götum Reykjavíkur. Hins vegar eykst umferð um þjóðvegina út frá borginni. Sumarbústaðaeigendum fjölgar og margir vilja vera á góðum hjólbörðum ef þeir þurfa til dæmis að skreppa austur fyrir fjall.
Á Íslandi er vindasamara en í öðrum löndum Evrópu og það er ekkert tilhlökkunarefni að aka yfir Hellisheiði í hávaðaroki á hlið þegar vegurinn er glært svell. Hins vegar hefur Vegagerðin lagt aukna áherslu á að halda helstu þjóðvegum landsins auðum.
Lausn mála virðist felast í því að tryggja að fólk komist þessar leiðir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af mikilli hálku. Eigendur sumra bíla telja sig reyndar þurfa að vera viðbúna til að fara, jafnvel með engum fyrirvara, í hvaða ferðir sem er hvert á land sem er, svo sem í jöklaferðir.
Ég er í hópi slíkra manna og persónulega finnst mér ekkert að því að ég borgi séstakt gjald fyrir að slíta malbikinu á leið upp til jökla. Og þá er ég kominn að þeirri hugsun að sá sem notar hlutinn eigi að borga fyrir það.
Stórir og þungir bílar slíta götunum meira en litlir og léttir og þyrla upp mun meira ryki. Þar að auki taka stórir bílar miklu meira pláss á malbikinu. Um Miklubrautina eina fara 100 þúsund bílar á dag og með því að helmingur bílanna yrði 2 metrum styttri myndu verða auðir 100 kílómetrar af malbiki á þessari einu götu á hverjum degi sem annars væru þaktir bílum.
Enn og aftur vil ég því velta upp hugmyndinni um sérstakt lengdargjald á bílum, - að við borgum fyrir það rými sem við tökum í umferðinni. Þetta hefur að hluta til verið gert í Japan og haft áhrif þar.
Ég vísa til fyrri blogga um útfærsluna á slíku gjaldi og heimilaðri notkun innsiglaðra vegalengdarmæla í bílum til þess að fá afslátt af lengdargjaldinu ef lítið er ekið.
Meginreglan getur verið: Sá sem mengar á að borga fyrir það. Sá sem notar á að borga fyrir not sín. Undantekning getur verið opinber þjónusta sem samfélagið allt nýtur góðs af, svo sem notkun almenningsfarartækja. Þess vegna ókeypis í strætó.
En þurfa strætóarnir allir að vera svona stórir? Mér verður starsýnt á stóra strætisvagna sem bruna um borgina, oft með sárafáa farþega, allt niður í einn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
5.3.2007 | 11:00
LÝÐRÆÐIÐ OG TRAUST Á ALÞINGI
Hvað myndi gerast ef aðeins 29 prósent hluthafa á hluthafafundi fyrirtækis bæru traust til stjórnarinnar? Hún yrði að segja af sér. En þetta á við um Alþingi. Samkvæmt skoðanakönnun hefur fólk aldrei borið jafn lítið traust til þess og nú, - aðeins 29 prósent. 71 prósent landsmanna vantreystir þinginu og það þykir ekki lengur frétt.
Ef þetta væri fyrirtæki væri ekki aðeins búið að reka stjórnina heldur væri líka erfitt að fá starfsfólk til að vinna hjá því. Það er ekki að undra að fólki ói við því að gefa kost á sér til að fara inn á slíkan vinnustað.
Þetta er alvarlegt mál lýðræðisins vegna. Alþingi er samkoma fulltrúanna sem þjóðin hefur valið til að fara með mál sín, elsta löggjafarsamkoma heims. Þetta bendir til alvarlegrar brotalamar á lýðræðinu á Íslandi en er þó ekki sú eina.
Undanfarin átta ár hef ég kynnst því hvernig reynt var á alla lund beint og óbeint að hamla upplýsingagjöf um mikilsverðasta mál okkar samtíma. Íslensk stjórnvöld eru hin einu í okkar heimshluta sem ekki vilja skrifa undir Árósasamkomulagið sem kveður á um það að leitað sé jafnræðis milli mismunandi skoðana um stórmál eins og umhverfismálin.
Það þýðir að enn reyna ráðandi öfl að beita ofurvaldi aðstöðu, fjármagns og valda til að hamla upplýsingagjöf og koma í veg fyrir jafnræði ólíkra sjónarmiða.
Störf og virðing æðstu stofnunar landsins og upplýsingagjöf og jafnræði milli sjónarmiða eru meðal hornsteina lýðræðisins. Það er áhyggjuefni að þeir skuli ekki vera traustari.
Ef til framboðs umhverfissinnaðs umbótafólks kemur verður lýðræðið og efling þess þar ofarlega á blaði, - til dæmis ákvæði um aukið persónukjör sem og þjóðaratkvæði eða kröfur um stóraukinn meirihluta í málum sem varða alla þjóðina mest, -einkum þau mál sem snerta munu beint hagsmuni milljóna ófæddra Íslendinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
4.3.2007 | 23:57
HELENA Í KVÖLD, RAGGI Í GÆR.
Ég ólst upp Stórholtinu í Reykjavík og í þeirri götu og neðri hluta Meðalholtsins átti heima ótrúlegt safn fólks, þeirra á meðal Helena Eyjólfsdóttir, Bjarni Böðvarsson og sonur hans, Ragnar Bjarnason, Kristín Ólafsdóttir, KK- Kristján Kristjánsson og sonur hans Pétur Kristjánsson, Friðrik Þór Friðriksson, Ámundi Ámundason, Gunnar V. Andréssson ljósmyndari, Pétur Pétursson þulur og Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, dóttir hans, Gunnar Eyþórsson, blaðamaður, en sonur þeirra Gunnars og Ragheiðar Ástu er Eyþór Gunnarsson.
Allt þetta fólk sem tengdist tónlist og listum á aðeins nokkur hundruð metra svæði. Þetta var þorp um miðja síðustu öld, því allt í kring voru auð svæði. Í gær hélt Helena tónleika í Salnum, - Raggi Bjarna fór á kostum í Háskólabíói í gær. Hver kemur næst?
En upptalingunni er ekki lokið því gatan var full af fleira sérkennilegu eða frægu fólki, talið upp eftir Stórholtinu: Pétur Hannesson og dóttir hans, Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, Bernhard Arnar kaupmaður og sonur hans, Björn Arnar, Villi sleggja, Hafsteinn miðill, á 31 Ingólfur Hólakot, á 33 Raggi bakari og Jónína, formaður Hvatar, Jón Ragnarsson rallkappi, á 35-37 voru Snæra-Mangi og sonur hans Ólafur (Óli spotti), Jói svarti, Hilmar Karlsson kvikmyndagagnrýnandi, xxxx fulla, næst fyrir ofan voru Eyþór Gunnarsson læknir, - á 26 voru Helgi Kristjánsson glímumaður og Davíð Helgason körfuboltamaður, á 22 voru Stína og Hafliði, Dunna dóttir þeirra, gift Rúnari Guðbjartssyni, flugstjóra, sálfræðingi og flughræðslulækni, á 22 Sigga Hannesar verkalýðsrekandi. Baldur Scheving knattspyrnumaður á næstu grösum í Meðalholti , - en 30 metrum frá mótum Stórholts og Háteigsvegar voru Ólafur Georgsson og Alda Hansen og sonur þeirra Georg Ólafsson. Og ekki voru nema ca 150 metrar í Einholtið þar sem Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, ólst upp.
Þetta var stórkostlegt þorp til að alast upp í. Og gaman að vita af því hve margir þorpsbúa eru enn í fullu fjöri!
Bloggar | Breytt 5.3.2007 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2007 | 00:33
GRÆN ATKVÆÐI FRÁ MIÐJUNNI OG HÆGRI
Stundum þarf að leiðrétta þegar ónákvæmt er eftir haft. Haft var eftir mér í útvarpsviðtali að fyrirhugað framboð sem snerist um "umhverfi, nýsköpun og velferð" yrði hægra megin við miðju. Ég orðaði það ekki svona heldur að stefnt væri að því að það fengi einkum græn atkvæði frá miðjunni og hægri vegna þess að úti á vinstri kantinum væri grænt framboð sem vinstri sinnað fólk gæti kosið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
4.3.2007 | 00:09
Ó, AÐ FRAMSÓKN VERÐI GRÆN Á NÝ !
Einkennileg eru þau örlög mín að hafa aðeins einu sinni getað kosið Framsóknarflokkinn eða fylgt honum í þau 57 ár sem liðin eru síðan ég fékk brennandi áhuga á stjórnmálum. Allan tímann hefur samt mér líkað nokkuð vel hvar flokkurinn hefur staðsett sig í litrófi flokkanna, - nálægt miðjunni. Flokkurinn hefur reynt að sía frá helstu öfgar til vinstri og hægri og velja það skásta. Hitta gullinn meðalveg.
Þegar fasismi og kommúnismi riðu samtímis yfir heiminn á fjórða áratug síðustu aldar reyndi Framsóknarflokkurinn að finna farveg til jöfnuðar með Alþýðuflokknum og saman stóðu þessir flokkar að mörgum góðum umbótamálum fyrir alþýðuna.
En allar götur frá 1927 til 1959 barðist flokkurinn fyrir ranglátri og skaðlegri kjördæmaskipan, þannig að engin leið var fyrir mann að játast honum. Og uppfrá 1950 stóð hann fyrir haftakerfi og þjónkun við kaupfélagsveldi sem breyttist smám saman úr umbótahreyfingu í staðnað veldi einokunar í dreifðum byggðum landsins.
Mér hefur gefist kostur á að nota kosningaréttinn í 13 Alþingiskosningum og 12 borgarstjórnarkosningum eða 25 sinnum alls og kosið alls fimm flokka, eða fimm sinnum hvern að meðaltali. Suma þó oftar en aðra.
En aðeins einu sinni kaus ég Framsókn. Það var árið 1974 þegar ég óttaðist að eftir "Varið land" yrði keyrt of hart í það að efla hersetuna. Ég þóttist sjá fyrir samstjórn Sjálfstæðísflokks og Framsóknar og vildi að Framsókn héldi svoítið aftur af Sjálfstæðisflokknum.
Í kosningunum 1978 gat ég ekki kosið Framsókn aftur, en eftir að SÍS-veldið leið undir lok var ég farinn að vona að nú gæti ég loksins átt samleið með Framsókn. En, - æ, þá gerðist flokkurinn tákngervingur stóriðjustefnunnar. Flokkurinn hefur alltaf haft lag á að taka upp eitthvert eitt mál sem hefur gert mig fráhverfan honum.
Þetta finnst mér synd því margt af því sem flokkurinn stendur fyrir eru ágætis mál. Nú hefur til dæmis verið samþykkt á flokksþingi hans ýmislegt sem vert er að gefa gaum s. s. um málefni aldraðra, fæðingarorlof, þjóðlendumál, auðlindarákvæði í stjórnarskrá, breytingar á kosningalögum o. s. frv.
Nú er maður orðinn 66 ára og þeim tækifærum fer að fækka að ég geti kosið Framsókn aftur. Ég á mér samt þann draum að flokkurinn láti af stóriðjustefnunni. Það er ekki útséð um það, - rúmlega helmingur þeirra sem segjast myndu kjósa hann nú segjast vera á móti stækkun álverins í Straumsvík
Mér finnst svolítið leiðinlegt að hafa kosið þennan flokk sjaldnar en aðra flokka og hafa hálfséð eftir því í þetta eina skipti sem ég kaus hann. Og það er ekkert skemmtilegt ef maður neyðist til að fara út í framboð til þess að gefa því ágæta fólki, sem vill að virkjana- og álverafíkninni linni og er ekki úti á vinstri kanti stjórnmálanna, tækifæri til að láta það í ljós í kjörklefanum.
En ef sá draumur minn rætist að allir flokkar á Alþingi verði eðalgrænir er aldrei að vita nema ég muni eftir því að einu sinni þegar ég var ungur var Framsókn græn og þá var Eysteinn Jónsson einhver einlægasti umhverfisverndarsinni landsins. Kannski kemur nýr Eysteinn með nýjan Framsóknarflokk, - hver veit? Flokk sem ég get kosið með góðri samvisku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.3.2007 | 23:14
RAGGI BJARNA - ÓTRÚLEGUR!
Áheyrendur í troðfullu Háskólabíói áttu frábæra stund í kvöld með Ragga Bjarna, Eyvöru Pálsdóttur, Sinfóníuhljómsveitinni og Selkórnum. 72ja ára gamall virðist "karlinn með hendina" fara batnandi með hverju árinu og stóð sig aldeilis ótrúlega vel. Þeir hafa ekki gert þetta betur á þessum aldri hinir frægu kollegar hans í Ameríku.
Eyvör gat ekki fengið betri söngvara til að syngja með dúetta og brilleraði sjálf með sinni einstöku túlkun á lögunum sem hún söng. Tónleikarnir voru öllum til sóma og Landsbankinn á sérstakar þakkir skildar fyrir að standa að þeim og styðja þá.
Á síðustu stundu tókst að taka upp mynd og hljóð og bjarga með því menningarverðmætum til framtíðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.3.2007 | 20:50
SÉRGREIN FRAMSÓKNAR FYRIR KOSNINGAR
Hótun Framsóknar um að slíta stjórnarsamstarfinu kortéri fyrir kosningar vegna auðlindaákvæðis í stjórnarskrá er gamalþekkt trix þessa flokks þegar illa lítur út í komandi kosningum. Dæmi frá fyrri tíð: Í Stefaníustjórninni 1949 fékkst Framsókn ekki til þess að fella gengið sem var óhjákvæmilegt og gerði um það ágreining við Sjálfstæðisflokkinn sem olli stjórnarslitum.
Minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins reið síðan á vaðið í málinu og í helmingaskiptasamstarfi flokksins og Framsóknarflokksins 1950 var gengisfellingin gulltryggð en að vísu tekið upp margfalt gengi með svonefndu Bátagjaldeyriskerfi, sem þjóðin leið fyrir allt til 1959 þegar Viðreisnarstjórnin afnam það.
Framsókn hafði fyrir kosningarnar 1950 reynt að skapa sér sérstöðu rétt eins og nú og Rannveig Þorsteinsdóttir komst á þing fyrir Framsókn í Reykjavík, sem var einsdæmi vegna þess að þingmenn Reykjavíkur voru þá aðeins sex. Hún sagðist "segja frjáplógsstarfseminni stríð á hendur!"
Auðvitað varð ekkert af því en í staðinn komu flokkarnir tveir á einhverju spilltasta fyrirgreiðslukerfi á byggðu bóli með helmingaskiptastefnunni alræmdu sem byggðist á að misnota ranglátt haftakerfi, - líklegast það langlífasta í Vestur-Evrópu. Það er í raun ekki fyrr en á síðasta áratug aldarinnar sem síðustu leifum þessa skaðlega kerfis var rutt í burtu.
1956 var Framsókn farin að líða fyrir samstarfið við Sjálfsstæðisflokkinn og í mars það ár gerði hún hermálið að ágreiningsefni en rak þó herinn aldrei eftir að hún var komin áfram í stjórn.
Nú á enn að grípa til sama ráðs og það á að slá tvær flugur í einu höggi: Láta líta svo út sem mikill munur sé á stjórnarflokkunum og krækja sér í mál sem leiðir athyglina frá stóriðjustefnunni og umhverfismálunum.
Það er svolítið sérkennilegt að heilt kjörtímabil hefur liðið án þess að séð verði að Framsókn hafi gert mikið í þessu auðlindamáli en nú blossar það allt í einu upp. Össur
Skarphéðinsson segir að í stjórnarskrárnefndinni hafi fulltrúar Framsóknar aldrei minnst á þetta ákvæði eða í það minnsta ekki haft nokkurn áhuga á því.
En hvað um það, - það hefur verið blásið ryk af gömlu trixi sem gafst ágætlega hér áður fyrr. En nægir það nú?
Bloggar | Breytt 3.3.2007 kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
2.3.2007 | 19:31
RAGGI BJARNA - "KARLINN MEÐ HENDINA"
Það sem einu sinni var gott verður alltaf gott. Það hefur sannast vel á Ragnari Bjarnasyni síðustu árin. Fyrir aðeins fjórum árum bað dagblað eitt helstu poppsérfræðinga landsins um að nefna bestu poppsöngvara síðustu hálfrar aldar og komust ótrúlegustu söngvarar á blað á löngum lista, - þeirra á meðal ég og Jón Ólafsson á Bíldudal!
Ellý Vilhjálms var efst á blaði og Haukur Morthens var að sjálfsögðu meðal þeirra efstu á listanum. Hins vegar komst Ragnar Bjarnason ekki einu sinni á blað hjá þessum sérfræðingum!
Mér rann í skap við að sjá þetta dæmi um ótrúlegt skammtímaminni en þegar þetta gerðist var ég mjög upptekinn við myndina "Á meðan land byggist" og hafði ekki tíma til að gagnrýna þetta opinberlega með því að spyrja í blaðagrein hvort það hefði bara verið misskilingur hjá þjóðinni að á löngu árabili eftir 1955 voru þeir Ragnar og Haukur Morthens efstir í vinsældum á Íslandi og hafði Raggi oftar betur.
Mig langaði einnig að spyrja hvort menn gætu tilnefnt söngvara sem syngi jafnvel jafn ólík lög og Vorkvöld í Reykjavík, Kokkur á Kútter frá Sandi, Vor við flóann, Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig, Óli rokkari, Ship o hoj, Lipturtá...o. s. frv.
Aðeins tveimur árum síðar var þetta gerbreytt. Gott dæmi um það er að til mín kom tíu ára drengur og spurði mig: "Þekkir þú karlinn með hendina?"
Ragnar heldur stórtónleika í Háskólabíói´annað kvöld og ég hvet fólk til þess að fara og heyra og sjá þennan einstæða söngvara og gleðigjafa.
Ragnar er að sjálfsögðu einstaklega góður söngvari, kominn á áttræðisaldur, en hann er jafnvel enn betri dúettsöngvari og vart er hægt að hugsa sér betri dúett en Ragnar og Ellý á sínum tíma. Því miður voru alltof fá lög tekin upp með þeim. Það verður gaman að sjá hvernig þau syngja saman hann og Eyvör Pálsdóttir annað kvöld.
Ferill Ragnars er einstakur, alltaf á toppnum, fyrst með KK-sextett og hljómsveit Svavars Gests en síðan með eigin hljómsveit og í Sumargleðinni. Þess vegna er frábært til þess að vita að hann fái þá umgerð og mannskap sem hann á skilið annað kvöld til að láta ljós sitt skína sem aldrei fyrr.
Það sem einu sinni var gott verður alltaf gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2007 | 00:04
ÁFRAM TVÍSÝNT UM ÚRSLIT
Skoðanakönnun Capacent Gallup sýnir hvað kosningaúrslitin geta orðið tvísýn. Ef úrslitin yrðu þessi yrði meirihluti núverandi stjórnarandstöðuflokka svo naumur að ekki þyrfti nema einn eða tvo stóriðjuþingmenn til að fella græna stefnuna eða halda henni í gíslingu. Nægir að nefna Kristin H. Gunnarsson, Kristján Möller og Einar Má Sigurðarson í því sambandi.
Á hinn bóginn yrði lang einfaldast fyrir núverandi stjórnarflokka að kippa frjálslyndum upp í. Jón Magnússon myndi elska það að koma eins og frelsandi engill í faðm sinna gömlu flokksbræðra. Þetta yrði svipað og þegar Steingrímur Hermannsson kippti borgaraflokksþingmönnum upp í vinstri stjórn sína.
Það myndi þýða að málin yrðu möndluð þannig að stóriðjustefnunni yrði í raun haldið áfram. Það yrði ekki gæfulegt.
Athyglisvert er hvað "turnarnir" tveir sem svo voru kallaðir hér fyrrum, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin koma veikir út úr þessari könnun, samanlegt með innan við 60 % kjósenda á bak við sig. Á sínum tíma var rætt um ca 75-80 % samanlagt fylgi turnanna.
Báðir ætla að halda landsþing sín sömu helgina og fróðlegt verður að sjá hvernig þeim tekst að skerpa vopnabúnað sinn þá. En það er afar bagalegt fyrir þá að þurfa deila sömu helginni til þess arna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)