Lagabætur sem borga sig.

Mestu lýðræðisumbætur liðinnar aldar kostuðu fé og fyrirhöfn vegna þess að tvennar samliggjandi alþingiskosningar þurfti til að fá þær fram.

Hrópandi óréttlæti í kjördæmaskipan var leiðrétt lítillega 1942 og það kostaði tvennar alþingiskosningar það ár.

1956 var samt svo komið að Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur hugðust spila á vaxandi lýðræðishalla með því að stofna kosningabandalag sem þeir kölluðu "Umbótabandalagið" en nafnið sem andstæðingarnir gáfu varð þó yfirsterkara; "Hræðslubandalagið". Ætlunin var að ná þingmeirihluta út á rúmlega þriðjung atkvæða en það mistókst sem betur fór.

Þetta leiddi til stjórnarskrárbreytingar 1959 sem einnig kostaði tvennar alþingiskosningar með öllum þeim kostnaði og fyrirhöfn sem slíku fylgir.

Þessi stjórnarskrárbreyting varð þó forsenda fyrir efnahagsumbótum Viðreisnarstjórnarinnar og sýndi að ábati af lagabótum getur oft orðið miklu meiri en kostnaður við þær.

Það má hugsa sér að nokkrar einfaldar breytingar á stjórnarskrá geti gert mikið gagn, ekki síður en heilt stjórnlagaþing, svo sem að láta þjóðaratkvæðagreiðslur fá stóraukið vægi og koma í stað fyrir tvennar alþingiskosningar, að ráðherrar megi ekki jafnframt vera þingmenn, persónukjör sé leyft í kosningum, 5% þröskuldurinn afnuminn og völd þingnefnda stóraukin.

Hitt blasir við að margt í stjórnarskrá okkar er úrelt enda er hún að miklu leyti hin sama og danska stjórnarskráin 1849.

Besta tákn stjórnarskrár okkar er hinn steinrunni göndull sem stendur fram úr hendi styttunnar af Kristjáni níunda við Stjórnarráðshúsið.

Samhliða umbótum og siðbót í íslensku efnahagslífi og stjórnmálum þarf því að klára það verk sem ótal stjórnarskrárnefndum hefur mistekist í 65 ár. Þingmennirnir eru fallnir á tíma og þjóðin þarf að taka við þessu verki af þeim.

Það gæti borgað sig alveg eins og umbæturnar 1959.


mbl.is Stjórnlagaþing kostar 1,7 til 2,1 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skorti yfirsýn? Já.

Færa má að því rök að á sama tíma og þjóðin þarf á fjármagni að halda til að komast út úr kreppunni séu hundruð milljarða króna, sem liggja í óseldum eða of stórum bílum, tækjum, lóðum, íbúðum og skrifstofubyggingum, ekki tiltækar vegna þess að ekkert af þessu selst eða er hægt að skipta út fyrir smærra og ódýrara.

Vonandi liggja fyrir nægar upplýsingar til þess að síðar meir verði hægt að rannsaka, hvort ekki hefði verið fyrirsjáanlegt þegar fyrir tveimur árum, að það stefndi óhjákvæmilega í kreppu á þessu sviði, hvernig sem allt annað veltist.

Mér er kunnugt um fólk sem þekkti vel til í byggingarbransanum gerði sér tímanlega grein fyrir að með engu móti væri hægt að viðhalda þessum offjárfestingum, jafnvel þótt góðæri ríkti. Þetta fólk gerði sínar ráðstafanir í samræmi við þetta.

Því miður voru engir fjölmiðlar né aðrir sem köfuðu ofan í þetta, enginn hafði áhuga á slíku heldur aðeins glæsileika "gróðærisins."

Könnun á þessu og sú aðferð sem notuð væri við hana gæti hins vegar nýst síðar á þessum sviðum sem öðrum.


mbl.is Heilu hverfin standa auð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar "arftakarnir" klikka.

"Bumban", Boeing 747, er einhver best heppnaða flugvél allra tíma. Hún var byltingarkennd á sínum tíma en með snjöllum endurbótum nú nýlega heldur hún stöðu sinni í samkeppni stærstu þotnanna.

Velgegni Airbus hefur frá upphafi byggst á því sama og skapaði Chevrolet forskot yfir Ford, að bjóða aðeins betur en en keppinauturinn. Þversnið flestra Boeing-þotna af minni gerðunum er hið sama og fyrir meira en hálfri öld þegar farþegar voru heldur minni en nú og kröfurnar líka minni. Við finnum þetta á langferðum í Boeing 757.

Airbus hafði sína skrokka örlítið breiðari og maður finnur fyrir því í þessum vélum.

ATR 42 var hönnuð á svipaðan hátt í samkeppninni við Fokker F27, en hönnun hennar er hálfrar aldar gömul.

En það er eins og að með A380 hafi Airbus gengið einu skrefi of langt þótt þotan eigi að búa yfir hagkvæmni stærðarinnar.

Boeing B-52 átti að fá arftaka á sjöunda áratug síðustu aldar í Valkyrju-risasprengjuþotunni og aftur síðar í enn öðrum "arftaka" en allt kom fyrir ekki, - þessi "úrelta" sprengjuþota Boeing B52 er enn við líði meira en hálfri öld eftir að hún var innleidd.

Porsche 911 þótti úreltur bíll að öllu leyti á áttunda áratugnum og Porsche 928 og 924 áttu að taka við. Það fór á annan veg og enn er Porsche 911 í fararbroddi sportbíla heimsins þótt samkvæmt flestum lögmálum um þyngdardreifingu eigi að vera ómögulegt að aka þessum bíl með stóra og þunga vél langt fyrir aftan afturhjólin.

Cessna 152 þótti úrelt fyrir þrjátíu árum og Piper Tomahawk og Beech Skipper áttu að taka við, með vænglagi frá NASA og uppfylltar allar óskir flugkennara. Báðar voru samt hægfleygari en Cessna 152 og enn þraukar sú gamla, en "arftakarnir" klikkuðu.

Ný kennsluflugvél, Cessna 162 er þó handan við hornið. Skyldi hún nú klikka líka?

Cessna 172 átti líka að vera orðin úrelt fyrir 30 árum en er samt framleidd enn þann dag í dag sem vinsælasta flugvélargerð allra tíma.


mbl.is Óánægja með Airbus-þotu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt að varast.

Íslensk fjölmiðlun á mikið undir því að virk samkeppni sé við líði. Algert frelsi í þeim efnum gæti hins vegar leitt til slæms ástands ef fjölmiðlunin færðist að mestu á eina hendi.

Í jafn litlu þjóðfélagi og okkar er tilvist RUV því brýn nauðsyn og að sjálfsögðu einnig brýn nauðsyn að þar ráði engir aðrir hagsmunir en þeir að tryggja traust og óhlutdrægni eftir því sem kostur er og forðast hagsmunaárekstra.

Gott dæmi um nauðsyn RUV í þjóðlífinu er frábær frammistaða Egils Helgasonar hvað eftir annað í því umróti sem verið hefur og náði nýjum hæðum þegar hann gekkst fyrir komu Evu Jolin til landsins. Sjálfstæði og óhæði manns eins og Egils Helgasonar er mikils virði.

Sömuleiðis það að RUV sé veitt heilbrigð samkeppni metnaðarfulls fjölmiðils eða fjölmiðla sem njóta trausts.

Enginn íslenskur fréttamaður eða blaðamaður er algerlega óháður. Vensl og tengsl eru mikil í litlu samfélagi. Þá er brýnt fyrir traust á stéttinni að hver um sig forðist hagsmunaárekstra.

Ég sé ekkert á móti því að ÍNN selji útsendingartíma á gagnsæjan og opinskáan hátt. Sama er að segja um aðrar stöðvar svo framarlega sem að hlustendum eða áhorfendum geti verið það ljóst hvers eðlis útsendingin er.

Á það ætti helst ekki að skorta eins og nú virðist vera raunin í sumum tilfellum.


mbl.is ÍNN selur útsendingartíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugvöllurinn sem hefði getað breytt sögunni.

DSC00380DSCF0221IMGP0265Í bloggi mínu um árásina á Naumós í Noregi 1940 lofaði ég myndum af flugvallarstæðinu norður af Brúarjökli sem hefði getað breytt gangi heimstyrjaldarinnar.

Tilbúin var frábær innrásaráætlun Þjóðverja haustið 1940, en forsenda hennar var að ráða yfir nógu góðum flugvelli svo að þýski flugherinn gæti haldið landinu með yfirráðum í lofti rétt eins og hann hafði gert í Noregi.

Þýska herráðið hafði yfir korti að ráða sem sýndi helstu hugsanlega lendingarstaði á Íslandi en enginn þeirra var nógu góður.

Rétt fyrir stríð hafði þýskur prófessor, Emmy Todtmann, verið við rannsóknir á hinum einstæða Brúarjökli og sköpunarverkum hans, meðal annars frábæru flugvallarstæði við Sauðá.

Efst hér fyrir ofan er mynd af þessum stað, Brúarjökull er í baksýn með Sauðá nær og hvíti depillinn eru bílar.

Þetta sést betur ef menn stækka myndirnar í tölvunni hjá sér með því að smella tvívegis beint á myndirnar svo að þær fylli út í skjáinn. 

Í september 1940 lentu Agnar Koefoed Hansen og Bergur Gíslason á þessum stað þar sem Snæfell gnæfir í austri. 

Jökuldælingar fundu þar síðar í smölun hlaðnar vörður og reyndu að fjarlægja þær vegna þess að þá grunaði að þær væru til að merkja flugvöll fyrir Þjóðverja.

Enn sjást leifar af þremur þeirra. 

Merkingarnar voru þó ekki gerðar fyrir þýska herinn, því að annars hefði þetta frábæra flugvallarstæði verið merkt á kort ÞJóðverja.

Þeir hættu við innrás sem hefði fært þeim Ísland á silfurfati með möguleika til að verja það og breyta valdahlutföllum á Norður-Atlantshafi og gangi stríðsins.

Ég hef flutt um þetta fyrirlestur hjá Sagnfræðingafélagi Íslands, reynt að rannsaka allar hliðar þessa máls með því að fara í vettvangsferðir til Noregs, Bretlands, Þýskalands, Frakklands og Rússlands vegna kvikmyndar um þetta sem ég hef skrifað handrit að.

Þegar NA-SV-brautin verður lögð niður á Reykjavíkurflugvelli verður Sauðármelur næststærsti flugvöllur landsins, næst á eftir Keflavíkurflugvelli. Samanlögð lengd flugbrautanna er 3100 metrar. 

Hann er algerlega náttúrugerður, þarf aðeins að merkja og valta flugbrautirnar eins og myndirnar bera með sér.

DSC00305DSCF0272

Brautirnar eru nú 1400x30, 1000x20 og 700x20 metra langar, en lengsta brautin hefði verið 1600 metra löng með smávægilegum lagfæringum Þjóðverja.

Hér til hliðar er horft yfir flugvöllinn úr suðvestri og sjást Hálslón og Kárahnjúkar í baksýn.

Þótt myndin sé nokkuð óskýr sjást brautirnar vel svo og Sauðá, sem fellur norður í Hálslón.

Neðsta myndin sýnir völlinn úr norðaustri og sést til Brúarjökuls og Kverkfjalla í baksýn.

Enginn maður var þarna á ferli um 1940 nema smalamenn, sem komu þangað um mánaðamótin september -október.

Þjóðverjar hefðu getað verið þarna óséðir og ekki þurft nema viku í byrjun septmber 1940 til að valta brautir og koma fyrir flugvélum, hermönnum, vistum og búnaði.

Yfirráð þeirra yfir Íslandi og Norður-Atlantshafi hefðu þýtt að bandamenn hefðu orðið að kosta miklu til að ráðast inn í landið og hrekja þá á brott.

Í lok stríðsins brenndu Þjóðverjar heilu bæina á borð við Rovaniemi til ösku á undanhaldi sínu í Finnlandi og Norður-Noregi.

Svipað hefði hugsanlega gerst hér.

Og hvernig sem mál hefðu þróast hefðu aðgerðir bandamanna annars staðar, svo sem innrásin í Norður-Afríku og Ítalíu og inn í Normandy tafist.

Hvað Normandy snertir hefði það þýtt seinkun innrásarinnar svo að Rússar hefðu getað tekið mun stærri hluta af Þýskalandi, jafnvel komist allt vestur undir Rín með afleiðingum sem hefðu haft áhrif út 20. öldina og jafnvel fram á þennan dag.  


Líst vel á Sigríði Ingibjörgu.

Fyrir viku sátu frambjóðendur í prófkjörum Samfylkingarinnar fyrir svörum hjá Græna netinu. Margir komu þar vel fyrir en röggsemi og glæsileiki Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur vakti athygli mína sem og málflutningur hennar og skoðanir

Þetta vegur að hluta til upp vonbrigði mín með það að Þórunn Sveinbjarnardóttir skuli ekki enn njóta staðfestu sinnar þegar hún skráði nafn sitt á spjöld sögunnar og hún lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun.

Það er ekki gott að átta sig á því hvort bæði hún og Kolbrún Halldórsdóttir gjaldi fyrir það að hafa ekki mátt sín mikils gegn úrslitakostum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í stóriðju- og virkjanamálum.

Svo virðist sem það þyki ekki kostir að sýna hreinskilni og heiðarleika og þora að standa við skoðanir, sem ekki eru alltaf vel séðar hjá flokksforystunni. Ásta Möller hefur sýnt slíkt en virðist ekki vera þakkað fyrir það.

Þetta er undarlegt í kjölfar tímabils þar sem kallað hefur verið eftir heiðarlegri stjórnmálamönnum.

Að vísu er undantekningu að finna hvað snertir Ragnheiði Ríkarðsdóttur. Hún hefur stundum kveðið upp úr með skoðanir sem hafa verið lítt þóknanlegar forystumönnum flokks hennar. Og orðið fyrst stjórnarþingmanna til að gera það.

Hún var ekkert að skafa utan af því þegar hún sagði að veran á þingi væri eins og að afgreiða á bensínstöð.
Við þurfum á stjórnmálafólki að halda sem segir okkur sannleikann þótt beiskur kunni að vera.


mbl.is Ásta Ragnheiður í 8. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur til 2007.

Landsfundur Frjálslynda flokksins 2007 varð sögulegur. Það léku Ásgerður Jóna Flosadóttir og Jón Magnússon stór hlutverk og allar minnstu vonir um að þessi flokkur gæti orðið grænn fyrir atbeina Margrétar Sverrisdóttur og í anda Ólafs F. Magnússonar og óháðra í Reykjavík fuku út í veður og vind.

Fyrr í vetur báru ýmsir þá von í brjósti að betur yrði hægt að gera nú og maður heyrði um alls konar plott í gangi í þá veru að umbylta stefnu flokksins á ýmsum sviðum öðrum en í sjávarútvegsmálum.

Ekkert sýnist mér nú hins vegar benda til annars en að flokkurinn verði nánast eins kjördæmis flokkur og byggist á persónufylgi Guðjóns Arnars Kristjánssonar í Norðvesturkjördæmi. Hann má ekki missa mikið fylgi þar frá því síðast til að koma engum á þing. Fylgið við Kristin H. Gunnarsson, sem kom með honum inn, virðist nú hafa gufað upp að mestu, bæði hjá Frjálslyndum og Framsókn.

Sundrun þingflokksins og innganga helmings hans í aðra flokka virðist hafa verið skriftin á veggnum.


mbl.is Ásgerður Jóna varaformaður Frjálslynda flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðning við Þórunni og grænu frambjóðendurna.

Konur komu mjög við sögu á aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar. Siv Friðleifsdóttir tók að sér að bera ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum sem gaf virkjuninni hið fyrra græna ljós. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf seinna græna ljósið og hunsaði áskoranir mesta mótmælendafjölda sem komið hafði á fund borgarstjórnar um að hún stöðvaði málið í borgarstjórn.

En síðan voru nokkrar konur sem sýndu gríðarlegt hugrekki þegar þær greiddu atkvæði á þingi gegn virkjuninni þótt það væri í óþökk forystu flokka þerira. Fyrst skal telja Katrínu Fjeldsted sem reis gegn því flokksvaldi sem hafði hrakið Ólaf F. Magnússon úr ræðustóli á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Katrín var eini stjórnarþingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn virkjuninni.

Þær Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir risu gegn miklum þrýstingi á Samfylkingarþingmenn um að sýna samstöðu í málinu og samþykkja Kárahnjúkavirkjun til að sanna hvað flokkurinn væri "stjórntækur" og flokkur á landsvísu. Þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi höfðu hótað því að rýja hann fylgi í því kjördæmi ef hann héldi áfram andstöðu sinni við virkjunina.

Ein þessara kvenna stendur nú í baráttu fyrir grænum gildum innan síns flokks, Þórunn Sveinbjarnardóttir. Hún á skilið að henni sé launað fyrir fórnfúsa baráttu hennar með því að veita henni stuðning í prófkjörinu sem nú fer fram.

Ég skora á þá sem vilja veg umhverfismála sem mestan að gera það sem þeir geta til að styðja Fagra Íslands frambjóðendurna í prófkjöri Samfyllkingarinnar. Sömuleiðis að reyna að hafa áhrif innan allra flokka í þessum málum og hafa fordæmi Katrínar Fjeldsted, Ólafs F. Magnússonar og Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur að leiðarljósi þegar á móti blæs.

Fram að kjördegi er ljóst að Framsóknarflokkurinn setur úrslitakosti í stóriðjumálum í krafti þess að hann og Sjálfstæðisflokkurinn hafa meirihluta á þingi. VG og umhverfisráðherra þeirra fá ekki rönd við reist.

Í stjórninni á undan setti Sjálfstæðisflokkurinn sams konar úrslitakosti og umhverfisráðherra Samfylkingarinnar fékk ekki rönd við reist.

Þetta sýnir skýrar línur í kosningunum nú og verkefnin eru tvö: 1. Það verður að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi meirihluta. 2. Það verður að efla grænu fylkinguna í komandi stjórnarmeirihluta eins og mögulegt er.

Sú barátta er hafin í prófkjörum helgarinnar.


Norðvesturkjördæmis-heilkennið.

Kjósendur í prófkjörum, kjördæmisþingum og í alþingiskosningum í Norðvesturkjördæmi sáu til þess 2007 að þegar litið er yfir þingmenn Norðvesturkjördæmis mætti halda að engar konur búi í þessu kjördæmi. Íslandshreyfingin var eina framboðið með konu á oddinum en það breytti engu.

Nú hefur þetta fyrirbæri borist inn á Alþingi og er engu líkara en að þingmenn Norðvesturkjördæmis hafi staðið að valinu í stjórnarskrárnefndina.


mbl.is Þingkonur mótmæla karlanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskar konur örlagavaldar.

Ísland hefur fyrr en nú skipt sköpum fyrir fjölskyldur, hjónabönd og lífshlaup erlends fólks. Þegar ég heimsótti sendiherrahjónin Jón Baldvin og Bryndísi í Washington árið 2000 sögðu þau mér magnaða sögu af níræðri konu í næsta húsi við þau sem fór með manni sínum á vegum tímaritsins National Geographic til Íslands upp úr 1930.

Þau gistu á Hótel Borg og þá bar Gyllti salurinn þar af öðrum samkomustöðum landsins. Var þar úrval íslenskra glæsikvenna og gleðiskapur mikill. Kom í ljós að eiginmaðurinn var veikur fyrir bæði víni og konum og klúðraði svo verkefni sínu fyrir tímaritið að hann var rekinn úr starfinu með skömm.

Úr varð skilnaður þeirra hjóna en hin svikna kona var þá ráðin til að ljúka verkefni fyrrverandi eiginmanns síns og bjarga því sem bjargað yrði. Það gerði hún svo vel að ferðir á vegum National Geographic urðu að ævistarfi hennar og efnaðist hún vel.

Þess vegna átti hún heima í glæsilegu húsi í nágrenni við íslenska sendiherrabústaðinn í Washington þegar ég kom þar fyrir níu árum. Á sínum tíma hefði verið upplagt fyrir mig að gera sjónvarpsþátt um þessa stórmerkilegu konu, en stóratburðir í virkjanamálum á Íslandi komu í veg fyrir það.

Sendiherrahjónin sögðu mér að sú gamla bæri mjög sterkar tilfinningar til landsins, sem orðið hafði örlagavaldur í lífi hennar, rænt hana eiginmanninum og fært henni tímabundna óhamingju og vanlíðan en á hinn bóginn gert hana sjálfstæða og ríka og fært henni heiður og virðingu.

Dýpstu tilfinningarnar gömlu konunnar vegna Íslands væru ást og hatur. Annars vegar ást á Íslandi og hins vegar hatur til íslenskra kvenna. Það hefði verið gaman að fá þetta upp úr þeirri gömlu sem lokaorð þáttarins sem aldrei var gerður.


mbl.is Ísland eyðilagði hjónabandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband