31.3.2007 | 13:52
ÁBYRGÐ HAFNFIRÐINGA
Ábyrgð Hafnfirðinga er mikil þegar þeir ganga að kjörborðinu í dag og kjósa um stækkun álversins. Þeir kjósa um það hvort langstærsta álver Evrópu heilsi erlendum gestum Íslendinga í anddyri landsins við borgarhlið höfuðborgarsvæðisins. Ég þekki enga aðra innkomuleið að höfuðborg í okkar heimshluta þar sem jafn afgerandi tákn um mengun og hráa iðnvæðingu blasir við og ber ægishjálm yfir allt umhverfi sitt.
80 prósent erlendra ferðamanna segjast vera komnir til landsins til að skoða einstæða og ósnortna náttúru þess og þetta risaálver mun vekja hjá þeim margar spurningar um hugsunarhátt þjóðarinnar sem hefur verið falið að varðveita þessa náttúru fyrir óbornar kynslóðir og mannkyn allt.
Stækkun álversins í Straumsvík er aðeins hluti af stóriðju- og virkjanahraðlest sem nú brunar stjórnlaust áfram og mun fyrr en varir leiða til þess að fyrsta mannvirkið, sem blasir við erlendum gestum okkar þegar þeir koma til landsins, verði álver í Helguvík og að síðan muni þeir aka allt austur undir Landmannalaugar um landslag með samfelldri röð verksmiðja, virkjana, uppistöðulóna og háspennulína.
Nú vona ég og bið að Hafnfirðingar hugsi til fólksins við Þjórsá, íbúa átta sveitarfélaga sem málið snertir og annarra landsmanna sem ítrekað hafa sýnt í skoðanakönnunum að meirihluti þjóðarinnar vill ekki stækkun álversins í Straumsvík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
29.3.2007 | 23:47
ENN EITT "EITTHVAÐ ANNAÐ"
Í grein minni í Morgunblaðinu í morgun sem Stöð tvö fylgdi eftir í kvöld kemur fram að kapphlaup er hafið milli tölvufyrirtækja um að setja upp starfsemi hér á landi sem dreifist um landið, skapar hundruð starfa hátæknifólks og þarf hundruð megavatta af orku. Hinn stóri munur á þessu og álverunum er hve miklu umhverfisvænni þessi starfsemi er, tilbúin að borga hærra orkuverð og að ekki er um eins stórkarlalegar einingar að ræða og 500 þúsund tonna álver eru.
Af þeim sökum er hægt að stíga mun varlegar til jarðar varðandi nýtingu orkunnar fyrir þessi fyrirtæki, fara sér hægar, - og hærra orkuverð þýðir að meiri möguleikar eru til að setja gufuleiðslur, línur og jafnvel fleiri mannvirki í jörð og gera jarðvarmavirkjanirnar þannig umhverfisvænni.
Þetta er eitt af mörgum dæmum um það sem hent hefur verið á lofti í háðungarskyni sem "eitthvað annað" en er raun og sann leið til þess að breyta um stefnu í hagstjórn og atvinnumálum hér á landi.
Með því að hverfa frá þenslustefnu sveiflna og okurvaxta í átt að hagkerfi í meira jafnvægi má laða fram starfsemi í fjármála- hátækni- og þekkingariðnaði sem dregur úr fráhvarfseinkennum þess að hægja á hraðlest virkjanfíkninnar.
Í Morgunblaðsgreininni bendi ég á skilningsleysi stjórnvalda á því að leggja nýja sæstrengi til útlanda til þess að gera tölvufyrirtækjunum mögulegt að hasla sér hér völl. Núverandi ástand er ólíðandi og getur orðið til þess að fyrirtækin treysti sér ekki til að koma hingað.
Sæstrengirnir eru nokkurs konar samgönguæðar og það að hafa þær ekki í lagi er hliðstætt því að bjóða millilandaflugfélögum upp á ótryggan og ónothæfan Keflavíkurflugvöll.
Hjá tölvufyrirtækjunum segja menn að ef þessu verði ekki kippt í liðinn með hraði sé hætt á því að fyrirtækin fari eitthvað annað í viðleitni sinni til að ná forskoti á keppinautana.
Forskotið felst meðal annars í því að tryggja sér aðgang að endurnýjanlegri og hreinni orku því að það skapar fyrirtækjunum viðskiptavild sem þau meta til mikils fjár.
Á hinn bóginn eru þessi fyrirtæki mjög á varðbergi gagnvart því að keppinautarnir eigi möguleika til að kasta rýrð á orkuöflunina. Það þýðir einfaldlega það að ekki er boðlegt að kreista 600 megavött út úr Hengils- Hellisheiðarsvæðinu sem verður síðan kalt eftir 40 ár.
Svona hugsunarháttur gengur ekki. "Endurnýjanleg orka" verður sannanlega að vera endurnýjanleg þótt það kosti að orkuverðið hækki. Ef tölvufyrirtækin geta treyst því að þetta sé pottþétt borga þau það verð sem slíkt kostar.
Þetta mál sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekkert að fara á taugum þótt Alcan hóti að leggja álverið niður. Aðrir geta komið í staðinn og þess vegna verið með húsakynnin neðanjarðar fyrir mengunarlausa starfsemi sína.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
29.3.2007 | 00:44
GRÆNIR OG GRÁIR ÞINGMENN
Nýjustu tölur úr söfnun undirskrifta undir Sáttmála Framtíðarlandsins sem birtar voru í gærkvöldi í Hafnarfjarðarleikhúsinu voru áhugaverðar. Enginn þingmaður frjálslyndra hefur skrifað undir og heldur ekki neinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fjórir þingmenn Samfylkingar hafa ekki skrifað undir.
Af framsóknarmönnum hefur aðeins Jónína Bjartmarz skrifað undir. Einn varaþingmaður Sjálfstæðismanna, Katrín Fjeldsted, hefur skrifað undir og staðið einmana vakt þar á bæ, einu sinni enn.
Allir vinstri grænu þingmennirnir hafa skrifað undir og komi Íslandshreyfingin mönnum á þing í vor í samræmi við skoðankönnun Fréttablaðsins er rétt að upplýsa að þeir , sem þar koma til greina, eru búnir að skrifa undir.
Skoðanakannanir sýna reyndar vel að þeir sem geta hugsað sér að kjósa Íslandshreyfingun eru nær allir andvígir stækkun álversins í Straumsvík.
Í panelumræðum í Hafnarfjarðarleikhúsinu kom vel fram hve samstíga talsmenn vinstri grænna og Íslandshreyfingarinnar voru í virkjana- og stóriðjumálunum, sem til umræðu voru, þótt ágreiningur geti verið á milli þessara framboða í ýmsum málum sem ekki tengjast umhverfismálum og voru ekki rædd á fundinum.
Þar sem talsmenn framboða koma fram um þessar mundir hefur fjölgað um eina græna rödd. Ingibjörg Sólrún hélt ágætlega fram sínu Fagra Íslandi og mælti með stóriðjuhléi, en það hlýtur að hafa skyggt á fyrir henni að sjá á stórum skjá gráu samfylkingarþingmennina fjóra sem ekki hafa skrifað undir sáttmála Framtíðarlandsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
26.3.2007 | 23:31
ÞAÐ ER HÆGT AÐ SELJA ROK OG RIGNINGU
Margir standa í þeirri trú að útlendingar komi til Íslands til að vera í sól og hita. Þetta er misskilningur. Á ferð um vesturströnd Írlands komst ég að því að fólk sunnar úr Evrópu kom þangað til að standa í saltrokinu og rigningunni sem stóð af Atlantshafinu af því að það hafði ekki upplifað slíkt í heimalandi sínu, - fengið meira en nóg af sól og hita.
Fyrir nokkrum árum ákvað ferðaskrifstofa í Reykjavík að fella niður ferð út að Reykjanesvita vegna roks og rigningar. Hluti ferðamannanna sagðist ekki vera kominn til að fara í verslanir í Reykjavík og heimtaði að fá að fara út á Reykjanes.
Á bjargbrún við vitann stóð þetta fólk og tók yfir sig sælöður og regn þangað til það var orðið gegnvott og þegar það kom til Reykjavíkur urðu samferðamenn grútspældir yfir því að hafa ekki fengið að upplifa það að fá öldur Atlantshafsins allt sunnan frá Suðurskautslandinu beint yfir sig.
Á ráðstefnu um miðhálendið fyrir nokkrum árum stóð upp gamall Austfirðingur og sagðist hissa á því hvað menn sæu merkilegt við þetta margumtalaða hálendi. Hann vissi það eftir áratuga reynslu að eina leiðin til að fá útlendinga til að koma til Austurlands væri að fara með þá í Hallormsstaðaskóg!
Finnst mönnum líklegt að útlendingar komi langar leiðir hingað til lands frá skógi vöxnum svæðum Evrópu til að sjá þennan litla íslenska skóg?
Til Lapplands koma fleiri ferðamenn á veturna en allt árið til Íslands. Á þeim slóðum sögðu ferðamálasérfræðingar mér að útlendingum væru seld fjögur fyrirbrigði: Myrkur, kuldi, þögn og ósnortin náttúra.
Íslendingar fara til sólarlanda til að upplifa það sem ekki er hægt að upplifa hér á landi. Suðurlandabúar koma til Íslands til að upplifa eithvað allt annað en þeir þekkja í sínu landi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
25.3.2007 | 14:06
HÆGT AÐ STÖÐVA STÓRIÐJUNA !
Skoðankönnun Fréttablaðsins sýnir að fylgi við Íslandshreyfinguna er forsenda þess að hægt sé að koma í veg fyrir myndun hreinnar stóriðjustjórnar stjórnarflokkanna og Frjálslynda flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn og frjálslyndi flokkurinn tapa frá síðustu könnun og því er ekki hægt að segja að Íslandshreyfingin taki bara fylgi frá vinstri eins og margir tönnlast nú á.
Þetta þýðir að þetta nýja framboð getur nagað nógu mikið fylgi umhverfisverndarfólks af stóriðjuflokkunum þremur á hægri vængnum til þess að hér verði umskipti í kosningunum í vor. Önnur græn framboð geta það ekki í nógu ríkum mæli.
Gömlu flokkarnir hafa fengið stórt forskot í vetur til að kynna framboðslista sína og stefnuskrár og því eru þessar niðurstöður skoðanakönnunarinnar uppörvandi fyrir baráttuna sem framundan er. Í henni verður að vísu hrikalegt ójafnræði í fjárstyrk framboðanna þar sem gömlu framboðin hafa úthlutað sér úr ríkissjóði 360 milljónum til kosningabaráttunnar á sama tíma og við fáum ekki krónu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
25.3.2007 | 00:42
KOMIN AF STAÐ ! FJÁRHAGSLEGT ÓJAFNRÆÐI FRAMBOÐA.
Það er búið að vera blogghlé hjá mér í þrjá daga af tveimur ástæðum: týndri tengisnúru við tölvuna mína sem erfitt var að fá, - og fæðingu Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands. Í gær var farin fyrsta kynningarferðin og tókst mjög vel. Það var viðeigandi að byrja á Akranesi sem er mesti stóriðjubær landsins, en síðan var farið í Borgarnes.
Fyrir tilviljun var framboðið kynnt á alþjóðlegum degi vatnsins. Það var mjög viðeigendi fyrir grænt stjórnmálaafl að dagurinn skyldi kenndur við dýrmætasta vökva heims, en nýting vatnsins verður eitt erfiðasta umhverfismál 21. aldarinnar.
Framundan er gríðarlega mikið annríki því að þetta framboð kemur fram langt á eftir hinum og verður að klára öll sín mál á ljóshraða. Þar að auki hafa flokkarnir sem fyrir eru á þingi skammtað sér 360 milljónir króna til þess að heyja kosningabaráttuna á sama tíma og ekki kemur króna til nýs framboðs.
Stjórnmálafræðingur sagði á dögunum að sjónvarpsauglýsingar hefðu mikil áhrif á óákveðna kjósendur sem gætu skipt sköpum í kosningunum. Í síðustu kosningum nýttu framsóknarmenn sér þetta en nú munu allir þingflokkarnir fimm nýta sér það óspart.
Lýðræðið felst sem sé í því að nýtt framboð sem er Davíð í fjárhagslegum skilningi verður að ráðast gegn fimm Golíötum! Í raun er því verið að fara fram á að ný öfl sem vilja bjóða fram til þings vinni kraftaverk.
En við sem að þessu framboði stöndum trúum á málstaðinn og erum staðráðin í því að ráðast ótrauð og baráttuglöð gegn þessum fimm peningadrekum nánast með berum höndunum til að vinna stefnumálum okkar framgang.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.3.2007 | 23:01
YFIRLÝSINGAR INGIBJARGAR
Fáir virtust taka eftir því að Ingibjörg Sólrún sagði á Stöð tvö í gærkvöldi að eftir kosningar yrði hægt að ganga til samninga við Alcan um að fresta stækkun álversins. Einnig að eftir væri að veita virkjanaleyfið og ganga frá málum vegna virkjanananna sem þarf í vegna stækkunarinnar.
Ekki veit ég hvort þetta hefur átt að vera málamiðlun til að friða andstæðar fylkingar krata í firðinum en þessi ummæli Ingibjargar um virkjanaleyfið sem gæti stöðvað virkjanaferlið eru í samræmi við það sem hún sagði við mig um virkjanir í Skagafirði í haust.
Hins vegar sagði hún á fundi hér syðra um daginn að þegar búið væri að gera deiliskipulag yrði ekki aftur snúið. Þetta tvennt rímar ekki alveg saman en Ingibjörg á ekki sjö dagana sæla að vera með í flokki sínum bæði harða stóriðjusinna og eðalgræna stóriðjuandstæðinga sem takast nú á í Hafnarfirði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
20.3.2007 | 00:24
FRAMTÍÐARLANDIÐ LIFIR!
Framtíðarlandið stendur sig vel þessa dagana og ég held að það hafi verið rétt ákvörðun að breyta því ekki í sérstakan stjórnmálaflokk fyrir rúmum mánuði. Ég sé ekki eftir því að hafa lagst á þá sveif að halda því heilu og óskiptu í sínu mikilvæga hlutverki á þverpólitísku vígstöðvunum, - sækja síðan fram sérstaklega án tengsla við það á pólitísku vígstöðvunum.
Það er dásamlegt að sjá fólk úr öllum flokkum sameinast í Framtíðarlandinu í hinni hörðu baráttu sem nú er háð á Íslandi um ómetanleg verðmæti náttúru landsins sem sótt er að af hinni skæðu virkjana- og stóriðjufíkn sem ræður enn ferðinni, því miður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
18.3.2007 | 21:05
BLEKKINGIN UM HÁLSLÓN
Víglundur Þorsteinsson sagði í Sílfri Egils í dag að með nýju Hálslóni væri verið að endurnýja eldra Hálslón sem var í Hjalladal fyrir ca 700 árum. Þetta er alrangt. Setlónið innan við Kárahnjúka fyrir 700 árum var aðeins fjórðungur af því sem nú er verið að gera, náði ekkert upp á Hálsinn og því út í hött að kalla það Hálslón.
Virkjunarsinnar hafa klifað á því að verið sé að endurheimta eldra Hálslón og að þetta sé hluti af sjálfbærri þróun. Aðspurður um leirinn sem fylli dalinn upp á 400 árum svaraði Víglundur að eftir 400 ár yrðí hægt að gera verðmæti úr þessum leir!
10 milljón tonn af leir munu falla til í lóninu á hverju ári. Eftir 400 ár verður því um 4000 milljónir tonna að ræða sem Víglundur ætlar framtíðarkynslóðum að nýta þarna uppi við jökul á sama tíma og nóg er af hliðstæðu efni niður við ströndina.
Ef þetta eru ekki órar, hvað er þá órar? Í spjallinu við Víglund spilaði hann gömlu plötuna um kreppuna og atvinnuleysið sem kæmi strax ef ekki yrði haldið áfram á fullri ferð á óstöðvandi virkjanahraðlestinni. Hefur greinilega ekki lesið Draumaland Andra Snæs. Það er efni í annað blogg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
17.3.2007 | 16:25
TAKK, HAFNARFJARÐARLEIKHÚS !
Manni leiddist ekki eitt augnablik í Hafnarfjarðarleikhúsinu í gærkvöldi þegar Draumaland Andra Snæs Magnasonar var frumsýnt þar. Þarna tókst að skapa mörg afbragðs atriði enda er getur þessi verðlaunabók verið gjöful uppspretta og líklega hægt að setja á svið margar útgáfur af henni á sviði.
Enn og aftur til hamingju, Andri Snær, og takk, takk, takk, Hafnarfjarðarleikhús!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)