HVAÐ ER AÐ GERAST FYRIR NORÐAN ?

Ég hefði látið segja mér það tvisvar að fylgi Framsóknarflokksins í skoðanakönnun í stærsta vígi hans; Norðausturkjördæmi, yrði ekki nema tvöfalt fylgi Íslandshreyfingarinnar, Framsókn með 12,3, Íslandshreyfingin með 5,9. Mest uppörvandi í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar (800 manna úrtak) í kvöld er þó að stóriðjuflokkarnir þrír B, D og F-listi hrapa úr 52 % niður í 46 % samtals.

Það rímar við tvær síðustu skoðanakannanir fyrir landið allt þar sem fylgi þessara þriggja flokka minnkaði svo mikið við tilkomu Íslandshreyfingarinnar að það varð of lítið til að mynda hreina stóriðjustjórn.  

Þessar þrjár kannanir sýna að Íslandshreyfingin getur leikið lykilhlutverk í að koma i veg fyrir svona stjórn. Í könnun Fréttablaðsins missti Sjálfstæðisflokkurinn 3 prósentustig og Frjálslyndir 2, en Íslandshreyfingin fékk þá einmitt 5 prósent.

Að vísu er hreyfing fylgis milli flokka aðeins flóknari en eftir stendur að einmitt á þessum stað í litrófinu hægri-vinstri, þar sem Íslandshreyfingin er, liggur lykillinn að því að hér geti orðið umskipti í næstu kosningum.

Í fréttaskýringu á Stöð tvö í hádeginu voru skoðuð kynjahlutföll framboðanna og sagt að konur, sem áður hefðu kosið VG veldu nú Íslandshreyfinguna og það útskýrði mjög hátt hlutfall kvenna í fylgi I-listans. En ef litið er á súlurnar sést að það vantar hlutfallslega jafn margar konur í fylgi Sjálfstæðisflokksins og sem nemur kvennafylginu hjá Íslandshreyfingunni.   


HRAÐAFÍKNIR LESTARSTJÓRAR.

Fróðlegt er að sjá viðbrögð Alcan, Landsvirkjunar og iðnaðarráðherra við atkvæðagreiðslunni í Hafnarfirði. Ráðherrann sagði að atkvæðagreiðslan breytti ekki neinu, - við hávær mótmæli bæjarstjóra Hafnarfjarðar, - og viðbrögð Alcan og Landsvirkjunar eru svipuð.

Landsvirkjun ætlar að keyra virkjun í Þjórsá áfram af fullum krafti og Alcan vill halda í orkusamninginn fram á sumar að minnsta kosti, - og virðist raunar stefna að tvöföldun álversins í Straumsvík með tilheyrandi aukningu mengunar hvað sem atkvæðagreiðslunni líður.

Þetta sýnir vel við hvað er að etja þegar reynt er að hægja á álhraðlestinni. Lestarstjórarnir sinna hvorki stöðvunarmerkjum né taka í mál að hægja á lestinni. Við þessu er augljóslega aðeins eitt svar: Það verður að finna aðra lestarstjóra til þess að sinna stöðvunarmerkjum og hægja á hinni stjórnlausu lest. 


ÓLÍKU SAMAN AÐ JAFNA

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld er greint frá því að andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hafi sagt árið 2003 að hægt yrði að skapa fleiri störf fyrir austan án virkjunar en með, - en að tilraunir Vestfirðínga til þess að taka andstæðingana á orðinu hafi mistekist, - engin slík uppbygging hafi orðið þar á eina landshlutanum sem er og verður stóriðjulaus.

Hér er ólíku saman að jafna. Vestfirðir eru eini landshlutinn sem ekki hefur tryggar flugsamgöngur, - þangað er ófært til flugs miklu oftar en til Norður- og Austurlands vegna þröngra og misvindasamra aðflugsskilyrða og þó einkum þess að ekki er hægt að fljúga vestur í myrkri. Þetta er frágangssök fyrir ferðaþjónustu og aðra starfsem sem þarf á tryggum samgöngum að halda.

Það vegur þó líklega jafn þungt að samkeppnisaðstaða Vestfjarða er miklu erfiðari gagnvart öðrum löndum en samkeppnisstaða hins eldvirka svæðis íss og elds á miðhálendi Íslands sem á sér engan keppnaut í heiminum.

Þeir erlendir ferðamenn sem vilja sjá hrikalegt fjarðalandslag geta farið til vesturstrandar Noregs eða jafnvel til Grænlands þar sem slíkt landslag er enn fjölbreyttara og stærra í sniðum en á Íslandi.

Þegar við bætist að ríkisvaldið jós meira en hundrað milljörðum í framkvæmdir fyrir Austfirðinga á sama tíma og nær ekkert er gert fyrir Vestfirði er skýringin á hnignun byggðanna á Vestfjörðum augljós. Andstæðingar Kárahnúkavirkjunar höfðu engan stuðning til þess að framkvæma það sem fjármagn þurfti til ef jafnræðis átti að gæta.

Til þess að Vestfirðir geti keppt við eldvirka jöklasvæðið á Íslandi um ferðamenn verður að uppfylla þrenn höfuð skilyrði: 

1. Koma á samkeppnisfærum samgöngum við Vestfirði. Íslandshreyfingin - lifandi land hefur sett fram hugmynd um flugbraut á Barðaströnd, sem hægt er að nota jafnt nótt sem dag, - með góðu jarðgangasambandi við Ísafjörð. Þetta yrði að líkindum mesta lyftistöng sem unnt er að gefa Vestfirðingum kost á til að ná sjálfsögðu jafnræði við aðra landshluta.

2. Veita fjármagni til uppbyggingar á Vestfjörðum til jafnræðis við aðra landshluta. Það er ósanngjarnt að segja að umhverfisverndarfólk hefði átt að koma vestur stuðningslaust með tvær hendur tómar til þess að framkvæma það sem sanngjarn stuðningur ríkisvaldsins hefði getað gert.  

3. Að gera Vestfirði jafn einstæða á heimsvísu og samspil elds og íss í öðrum landshlutum er. Þetta er þrautin þyngri eins og áður hefur verið rakið. En engu að síður skulda landsmenn Vestfirðingum stuðning til þess að þeir standi jafnfætis öðrum landshlutum í samgöngum.

Hugsanlegt er að með skattaívilnunum til handa fyrirtækjum í jaðarbyggðum Íslands eins gert hefur verið í nágrannalöndunum s. s. í Svíþjóð sé hægt að laða vestur fyrirtæki á borð við hugbúnaðarfyrirtæki sem eru óháð staðsetningu. Íslandshreyfingin vill láta skoða þennan möguleika.     


HAUS HOGGINN AF - TVEIR SPRETTA UPP.

Baráttan við áldrekann er ævintýraleg. Ekki er fyrr búið að höggva af hausinn sem átti að spretta í Straumsvík en tveir aðrir spretta upp í ´fréttum daginn eftir, - í Helguvík og Þorlákshöfn þar sem gert er ráð fyrir alls 520 þúsund tonna framleiðslu í fyrsta áfanga!

Fréttin um áltæknigarðinn í Þorlákshöfn var athyglisverð. Hún fjallaði nær öll um tæknigarðinn sjálfan en síðan kom ein stutt setning svona eins og innan sviga um það að álverið ætti að framleiða 270 þúsund tonn. Auðvitað á eftir að koma síðar krafa um stækkun beggja þessara álvera upp í 500 þúsund tonn svo að þau verði arðbær og samkeppnishæf með alls milljón tonna framleiðslu sem þarf orku á við þrjár Kárahnjúkavirkjanir.

Þeir í Þorlákshöfn hafa þegar gefið upp að þeir stefni á virkjanasvæði á Torfajökulsvæðinu, Kerlingarfjöll, Langasjó, Markarfljót o. s.frv. Ekkert mál, þótt þarna eigi að rústa svæði milli Suðurjökla og Vatnajökuls sem tekur sjálfum Yellowstone-þjóðgarðinum fram. J

Já, Íslendingar skulu fórna náttúruverðmætum sínum svo að Bandaríkjamenn  og Norðmenn geti lagt niður álverksmiðjur í sínum löndum og varðveitt sínar náttúrugersemar sem þó hafa ekki komist upp á listann yfir sjö undur veraldar eins og náttúra Íslands hefur komist.

Ég lít reyndar ekki á þetta sem ævintýri, nei fyrirgefið þið, ég get ekki tekið þetta öðruvísi en  sem harmsögu.


SIGUR Í ORRUSTU - STRÍÐIÐ HELDUR ÁFRAM

Dýrmætur sigur vannst í Hafnarfirði í baráttu Davíðs við Golíat og verður hann uppörvun fyrir þá sem standa í baráttunni um íslenska náttúru. Sigurinn ætti að kenna mönnum að hætta að tala niður til umhverfisverndarfólks og kalla það lopapeysulið, skemmtikrafta og lúsera. En þótt sigur hafi unnist í mikilvægri orrustu er stríðinu ekki lokið.

Núna er allt á fullu í undirbúningi álvera í Helguvík og Þorlákshöfn og Jónína Bjartmarz talaði í fréttum Stöðvar 2 í gær um "sátt" um álver við Húsavík sem fengi orku frá Þeystareykjum. Jónína gat þess ekki að álverið ætti líka í byrjun að fá orku frá nýjum borholum í Bjarnarflagi, Kröflu og jafnvel Gjástykki og ekki gat hún þess heldur að áform væru uppi um virkjun Skjálfandafljóts.

Fulltrúar allra álfyrirtækjanna sem hingað hafa sótt hafa sagt að lágmarksstærð álvera til framtíðar sé 500 þúsund tonn. Þess vegna vildi Alcan stækka álverið í Straumsvík. Þetta þýðir þegar álverin þrjú, sem nú er verið að undirbúa, hafa stækkað, eiga eftir að taka til sín nær allt það sem eftir stendur af virkjanakostum á Íslandi á meira en þrjátíu virkjanasvæðum með ómældum spjöllum á íslenskri náttúru. 

Síðan má búast við að álverið í Reyðarfirði þurfi stækkunar við og þegar allt þetta verður að veruleika fara Kerlingarfjöll, Torfajökulsvæðið, Markarfljót, Langisjór, Hómsá, skagfirsku árnar og Jökulsá á Fjöllum fyrir lítið. Það verður lítið mál að aflétta friðun af síðastnefndu ánni rétt eins og Kringilsárrana fyrir Kárahnjúkavirkjun.

Lúðvík Geirsson gaf í viðtali við útvarpið í skyn að árið 2010 gæti stækkun álversins aftur orðið á dagskrá. Stríðið er því ekki búið þótt orrusta hafi unnist. Hún vannst með sameiginlegu átaki og ómetanlegur var skerfur landeigenda við Þjórsá á lokasprettinum.

Það leit ekki út fyrir það í ársbyrjun að byrlega blési fyrir andstöðu fyrir austan, - orð skáldsins "hnípin þjóð í vanda" leituðu á hugann á fyrsta undirbúningsfundinum. En eftir glæsilegan fund í Árnesi náðu menn vopnum sínum og allir þeir sem lögðu gríðarlega vinnu í þessa baráttu eiga þakkir skildar fyrir þennan tímamótaárangur sem gefur fordæmi fyrir baráttuna framundan.    


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband