HITAMET, HLÝNUN LOFTHJÚPSINS

Hitametin sem voru slegin í dag eru vafalaust engin tilviljun. Mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi, 30,5 stig á Teigarhorni við Berufjörð, var sumarið 1939 á miðju hlýindatímabil 20. aldarinnar frá 1920 til 1945. Nú fara metin að falla á ný þegar ljóst er að hlýnun lofthjúpsins er ekki einhver tilbúningaru heimsendaspámanna heldur bláköld, - eða öllu helur rauðheit staðreynd.

Já, 21. öldin verður öld umhverfismálanna og þess vegna er þörf á meiri umræðu og upplýsingum um umhverfismálin með öllum tiltækum ráðum.

Sjá www.islandshreyfingin.is


JAFNRÉTTI Á ÖLLUM SVIÐUM.

Íslandshreyfingin er jafnréttisflokkur og það sést vel á framboðslistunum. Fólk á ekki að líða fyrir það hvernig Guð skapaði það. Þótt það sé ekki tiltekið sérstaklega í stefnuskránni okkar enn er það mín skoðun að jafnréttishugsun okkar feli það í sér að ekki eigi að mismuna fólki eftir kynhneigð.

Þess vegna er það mín skoðun að tveir samkynhneigðir einstaklingar sem elska hvor annan og vilja heita hvor öðrum eilífri tryggð eigi eins að fá gera það með blessun Guðs, skapara síns fyrir milligöngu prests. Hann er í hlutverki þess sem gerir gilt þetta heitorð og þessa sambúð fyrir Guði og mönnum. Um þetta gildir kærleiksboðorðið.

Þegar ég var strákur kom í ljós að einn strákurinn í götunni var frá upphafi öðruvísi en við hinir, - hann lék sér að dúkkum og hegðaði sér meira eins og stelpa en strákur. Síðan eru liðin meira en 60 ár og þær þjáningar eru meiri en orð fá lýst sem þessi vinur minn hefur mátt þola allt sitt líf vegna þess sem hann ekkert gert að heldur var honum greinilega áskapað án þess að hann gæti nokkru um það ráðið.

Þegar þessi mál ber á góma nægir mér að hugsa til þessa góða æskuvinar míns og allra hinna sem hafa orðið að ganga í gegnum svipað og hann.  

 


LÍNUR SKÝRAST.

Sex framboð skiluðu inn gögnum í öllum kjördæmum í dag og á hádegi á morgun verður endanlega úrskurðað um gildi þessara gagna.  Baráttusamtökin náðu aðeins að skila inn gögnum í einu kjördæmi. Þar með stefnir í kosningar þar sem einn nýr flokkur verður í lykilaðstöðu til að koma í veg fyrir möguleikann á hreinni stóriðjustjórn. Á hádegi á morgun verður endanlega úrskurðað um gildi gagnanna sem lögð voru inn í dag og þá hefst hinn raunverulegi endasprettur sem öllu mun ráða.  


GRÆNT FRELSI, JAFNRÉTTI OG NÝSKÖPUN.

Í fyrrnefndum fjórum orðum má túlka sérstöðu Íslandshreyfingarinnar. Hún er ekki úti á kanti í vinstra-hægra litrófinu í íslenskum stjórnmálum heldur byggð á grænum grunni en vill breyta áherslum með því að ná fram því umhverfi frelsis í þjóðfélaginu að famtak og frumkvæði einstaklinga, hópa og félaga fái notið sín best í sátt við umhverfið.

Það er ófrelsi og misrétti að moka inn í landið risaálverum sem ryðja öðru burtu og heimta alla virkjanlega orku landsins á spottprís með ómælanlegum spjöllum á mesta verðmæti landsins, einstæðri náttúru.

Það er heldur ekki jafnrétti að þúsundir þjóðfélagsþegna búi við ólíðandi kjör og að þjóðfélag, sem er mun ríkara nú en fyrir tólf árum, hafi ekki efni á að hafa hér svipuð skattleysismörk að raungildi og voru 1995.

Og það þarf ekki annað en að heyra skoðanir framkvæmdastjóra og fulltrúa þekkingar- hátækni- sprota- og útrásarfyrirtækja á ruðningsáhrifum, þenslu, okurvöxtum og sveiflum stóriðjustefnunnar til að átta sig á því hvernig þessi stefna hefur hamlað gegn nýsköpun.

Þess vegna er þörf á Íslandshreyfingunni, því eina leiðin til að breyta um kúrs í næstu kosningum og fá fram vilja 58 prósent þjóðarinnar um stóriðjuhlé í 5 ár, er að I-listinn nái mönnum á þing.


BREIDD MEÐAL FRAMBJÓÐENDA

Í gærkvöldi mátti sjá á skjánum sýnishorn af þeirri breidd sem er meðal frambjóðenda Íslandshreyfingarinnar, sem geta teflt fram talsmönnum sem þekkja mismunandi svið þjóðlífsins af eigin raun. Málefni aldraðra og öryrkja hafa verið fyrirferðarmikil og það geislaði af Sigurlínu Margréti í Sjónvarpinu í gærkvöldi á heimavelli á félagsmálasviðinu með aðstoð túlks.

Í öðru sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður er Ólafur Hannibalsson, frábær fulltrúi eldri borgara, sem þegar hefur látið að sér kveða á skjánum.

Í fjórða sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður er Elvira Mendes sem er ekki aðeins innflytjandi, heldur doktor í Evrópurétti. Í þriðja sæti er hámenntuð og glæsileg kona, Sigríður Þorgeirsdóttir, og í öðru sæti er Ósk Vilhjálmsdóttir, sem auk fórnfúss starfs við að ganga með þúsund manns um Káranhjúkasvæðið undanfarin sumur, á að baki langa reynslu af ferðaþjónustu.

Efst á lista í Suðurkjördæmi er hin fjölmenntaða Ásta Þorleifsdóttir, sem þekkir út í hörgul náttúru og mörg önnur svið.

Efsti maður í Suðvesturkjördæmi er Jakob Frímann Magnsússon, sem er með á nótunum í lista- og menntamálum, auk þess sem hann gekkst fyrir ferð Græna hersins um allt land á sínum tíma með þátttöku 1500 manns og var einn af forystumönnum baráttunnar í Eyjabakkamálinu.

Mikið jafnræði er með körlum og konum á öllum aldri á framboðslistum. Já, sjtórnmál eru endurnýjanleg auðlind!   

 


ÁLVERADÝRÐIN OG DÁSEMDIN

Mikil var nú álveradýrðin og dásemdin í ljósvakamiðlunum í kvöld. Von á 2000 nýjum borgurum í Fjarðabyggð sem margfeldisáhrif 450 starfa í álverinu, 500 fleiri en Nýsir reiknaði út að þarna myndi fjölga. Ekki minnst á það í fréttum að þrátt fyrir veru allt að 2000 starfsmanna á svæðinu þegar mest var fjölgaði íslenskum íbúum ekki á Austurlandi.

Þegar allir þessir starfsmenn við framkvæmdirnar verða farnir reikna álversmenn samt með að 2000 manns muni flytja inn á svæðið ef marka má fréttaflutninginn!

Annað er eftir þessu. Mikið gumað af 53ja milljarða ársframleiðslu álversins. Þetta er þó aðeins bókhaldsatriði því Alcoa á álverið og tekur þetta söluvirði til sín.

Gott er að hafa til hliðsjónar erindi Harðar Arnarsonar forstjóra Marels þar sem hann tætir niður þau rök að þessi framkvæmd sé arðsöm, - þvert á móti er arðsemin langt fyrir neðan það sem einkafyrirtæki telja viðunandi.

Hörður telur upp langan lista að fríðindum sem Alcoa nýtur á ótal sviðum opinberra gjalda og gleymir þó að taka það með að Impregilo hefur allan virkjunartímann fengið ókeypis rafmagn sem nemur framleiðslu Lagarfossvirkjunar.

Innlendur virðisauki af áltonni er 27 þúsund krónur en af hverjum ferðamanni 93 þúsund krónur eins og kemur fram annars staðar í bloggi mínu. Ef þessir 120 milljarðar hefðu verið settir í ferðaþjónustu eða betri flugvöll eystra og uppbyggingu í störfum sem byggjast á hugviti og aðdráttarafli einstæðrar náttúru sem nú hefur verið stórlöskuð væri framtíð Austurlands bjartari þegar til lengri tíma er litið.


AF HVERJU NÚNA?

Þessa dagana spyrja margir: Hvers vegna að leggja áherslu á 5 ára stöðvun stóriðjuframkvæmda núna fyrst framundan er hlé hvort eð er? Í Silfri Egils sagði Geir H. Haarde að ekkert nýtt álver risi næstu tvö ár og ástæðulaust að stöðva neitt. En tvö ár eru nánast augnablik þegar álverahraðlestin er annars vegar.

Auk þess liggja fyrir áætlanir um að fyrsti áfangi álvers á Keilisnesi rísi 2010 og það verður bara byrjunin því að fyrir liggur að álver verða ekki arðbær nema þau séu 500 þúsund tonn.

Vegna þessarar hagkvæmnisstærðar er athugað á vegum Alcan að ná markmiðinu um 460 þúsund tonna álver á Keilisnesi. Þessi tvö álver munu fullrisin þurfa orku frá svæðum utan Reykjanesskaga svo sem Torfajökulssvæðinu, Skaftárveitu eða Kerlingarfjöllum hvað sem líður síðustu mínútna frumvarpi Jónínu Bjartmarz á þingi sem auðvitað fékk ekki afgreiðslu.

Fyrir 2011 verða álver í Þorlákshöfn og á Bakka við Húsavík líklegast komin á flugstig með þeim fyrirsjáanlegum afleiðingum að alla virkjanlega orku landsins þurfi fyrir þau áður en yfir lýkur.  Það er alveg morgunljóst að í kosningunum árið 2011 verður of seint að snúa við. Þá verður of seint að iðrast.

Eins og Presley söng: "It´s now or never", - nú eða aldrei. Þeir sem halda öðru fram eru annað hvort andvaralausir eða reyna að svæfa og slæva andófið.


ÞYKJUSTULEIKUR Í UMHVERFISMÁLUM.

Þessa dagana eykst þykjustuleikur flokkanna sem hafa staðið fyrir og ætla að standa fyrir því stóriðju- og virkjanaæði sem ekki mun linna nema hægt verði að stöðva það í kosningunum og koma á 5 ára hléi á stóriðjuframkvæmdum í samræmi við vilja 58 prósent aðspurðra  í nýlegri könnun.

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins lætur sér þetta vel líka og hlakkar yfir því að sérstaða Íslandshreyfingarinnar og VG hafi verið eytt með því að aðrir flokkar hafi tekið umhverfisáherslur inn í stefnuskrár sínar.

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins er talað um að ekki megi ganga of nærri náttúrunni við virkjanir. Það þýðir í raun að það megi ganga nærri náttúrunni. Síðan er verður það væntanlega túlkunaratriði ráðamanna hvernig eigi að skilgreina hvenær er gengið "of" nærri.

Sem sagt galopið enda standa enn ummæli forsætisráðherra um þá framtíðarsýn hans að hér á landi verði komin sex risaálver um 2020.

Ekki eru framsóknarmenn síðri í þessum feluleik. Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Jónínu Bjartmarz sem á að sanna að flokkur hennar ætli sér að friða flest þau virkjanasvæði sem mun þurfa að virkja á ef þessi álver Geirs rísa. Vitnar hún í frumvarp sem hún hafi lagt fram rétt fyrir þinglok og náðist auðvitað ekki að afgreiða.

Þetta er af svipuðum toga og auðlindaákvæðið fræga og ónýta sem þeir Geir og Jón lögðu fram rétt fyrir þingslit að ekki sé minnst á "þjóðarsáttarfrumvarp" Jóns sem átti ekki að komast til raunverulegra framkvæmda fyrr en 2010 þegar álverin hefðu verið komin á þann skrið að ekki yrði aftur snúið.  

Á þeim stöðum þar sem álverin eiga að rísa vinna svo heimamenn úr þessum tveimur flokknum síðan á fullu við að koma þeim á koppinn og Framsókn auglýsir í rándýrum auglýsingum sínum hvað býr að baki: "Ekkert stopp".

Samfylkingin er þó skárri hvað snertir stefnuskrána Fagra Ísland en því miður er ekki víst að hægt sé að taka mark á henni meðan harðsnúnir hópar flokksmanna standa fyrir undirbúningi álversframkvæmda af fullum krafti. Ingibjörg Sólrún benti að vísu á það um daginn að ráðherra gæti synjað um virkjunarleyfi en spurningin er hvort það standist þegar á hólminn er komið eftir dýran og langan undirbúning virkjunar.

Fyrr í vetur hafði Ingibjörg að vísu sagt að ekki væri í raun hægt að stöðva virkjunarframkvæmdir eftir að gert hefði verið deiliskipulag.

Í Mogganum í dag lýsir Össur Skarphéðinsson mjög vel skaðlegum áhrifum stóriðjustefnunnar á síðasta kjörtímabili hafandi sjálfur ásamt lunganum af Samfylkingarþingmönnum samþykkt og staðið að þeim sömu stóriðjuframkvæmdum með því að samþykkja Kárahnjúkavirkjun, mestu umhverfsspjöll Íslandssögunnar!

Yfir þessu hlakka síðan þeir sem þykjast sjá fram á það að þessar blekkingar dugi til að villa kjósendum sýn. Það yrði sorglegt ef svo færi.   


OLÍUHREINSISTÖÐINA Á REYÐARFJÖRÐ !

Júlíus Sólnes upplýsir í útvarpinu í kvöld að fyrir tíu árum hafi eina leiðin til að fá olíuhreinsistöð til Íslands verið sú að hafa hana á Austfjörðum því að siglingaleiðin vestur fyrir Vestfirðí væri alltof löng. Upplýsingum Júlíusar ber alls ekki saman við upplýsingarnar sem nú er veifað. Júlíus segir útblástursmengun olíuhreinsistöðvarinnar slaga upp í álver en þeir sem nú vilja reisa olíuhreinsistöð vestra  segja hana vera miklu minni.

Júlíus, sem er fyrrverandi umhverfisráðherra, segir ekkert rými innan Kyotobókunarinnar fyrir hreinsistöðina vegna fyrirferðar álveranna sem menn dreymir um að reisa hér á landi. 

En þetta getur varla verið vandamál. Í upphafi átti að nægja að reisa 120 þúsund tonna álver í Reyðarfirði en síðan var það þrefaldað. Í samræmi við það hvernig hugmyndirnar um svona starfsemi blása út er alveg gráupplagt að reisa olíuhreinsitöðina eystra ef niðurstaðan verður sú að Vestfirðingar sitji eftir með sárt ennið.

Síðan má viðra nýja verksmiðjuhugmynd fyrir Vestfirðinga kortéri fyrir kosningar 2011.     


FLUGBRAUT Á BARÐASTRÖND.

Vestfirðir hafa haft sérstöðu í samanburði við aðra landshluti hvað snertir flugsamgöngur eins og dæmið með sinfóníuhljómsveitina nú nýlega sýnir. Byggðakjarninn Ísafjörður er hinn eini þriggja höfuðkjarna á landsbyggðini sem ekki er hægt að fljúga til í myrkri. Þegar dagur er stystur á veturna er aðeins bjart í nokkrar klukkustundir á hverjum sólarhring og þá getur staðið þannig á að einmitt þessa stuttu stund sé ófært þótt veður sé skárra hinar 19 klukkustundirnar.

Eini flugvöllurinn á Vestfjörðum, sem hægt er að fljúga að í myrkri og lenda á er Patreksfjarðarflugvöllur en hann er 180 kílómetra frá Ísafirði og ófært þangað landveg á veturna. Þessi sérstaða Vestfjarða er óviðunandi og kemur framar öllu öðru í veg fyrir að hægt sé að byggja þar upp byggð eftir kröfum 21. aldarinnar. Ferðaþjónusta líður fyrir þetta og öll önnur starfsemi.

Athygli vekur að oft er fært til flugs á flugvöllinn á Bíldudal í norðan hríð þótt ófært sé til allra flugvalla á norðanverðu landinu frá Ísafirði til Norðfjarðar. Það er vegna þess að syðst á Vestfjarðarkjálkanum eru aðstæður svipaðar og í Reykjavík, - skjólmegin við fjöllin er bjart. Aðstæður við Bildudalsflugvöll eru hins vegar of þröngar til flugs þangað í myrkri og lélegu skyggni.

Nú er í ráði að gera jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og sé jafnframt lagfærð hin meira en 40 ára gamla leið þaðan suður á Barðaströnd gerbreytast aðstæður. Þá verður álíka langt að aka frá Ísafirði suður til Barðastrandar og frá Akureyri til Húsavíkur og eins og vitað er víla Húsvíkingar ekki fyrir sér að nota Akureyrarflugvöll.

Þetta opnar þrjá möguleika til flugbrautargerðar á sunnanverðum Vestfjörðum sem gagnast gætu Ísafjarðarbæ.

1. Lenging norður-suður þverbrautar á Patreksfirði sem nýtast myndi í hvassri norðan- og sunnanátt og gera þann flugvöll að tryggum kosti á nótt sem degi allan ársins hring. Gallinn er sá að þaðan til Ísafjarðar er ca 50 kílómetrum lengra en frá Brjánslæk til Ísafjarðar. Kosturinn er að þessi framkvæmd er líklega ódýrust, því að á Patreksfjarðarflugvelli eru nauðsynlegar byggingar og aðstaða þegar fyrir hendi.

2. Flugbraut við Brjánslæk. Hún þyrfti ekki að vera nema 1200 metrar til að byrja með svo að hún nýttist fyrir Ísafjarðarflugið. Þaðan yrði álíka langt til Ísafjarðar og frá Akureyri til Húsavíkur eins og áður sagði. Völlurinn yrði opinn á nóttu sem degi og Vestfirðir þar með komnir á kortið með öðrum landsmönnum í þessu efni.

Menn spyrja um kostnað. Vestfirðingar eiga svona flugbraut inni samanborðið við aðrar landshluta og vel það. Flugbrautir á Vestfjörðum eru ca 3,6 km langar en flugbrautir á Norður- og Austurlandi samtals yfir tíu kílómetrar. Þetta er ódýrari framkvæmd en jarðgöng og rúmast vel inni í langtímaáætlun um samgöngubætur.

3. Flugbraut við Haga á Barðaströnd. Þarna er heldur rýmra en við Brjánslæk en hins vegar um 14 kílómetrum lengra til Ísafjarðar.

Það kemur fyrir að í hvassri vestlægri átt getur verið misvindasamt til lendingar á flugvöllunum á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta er mun skárra á Patreksfjarðarflugvelli og bæði við Haga og Brjánslæk væri hægt að leggja þverbrautir sem nýttust í þessari vindátt ef menn vildu það síðar meir.

Menn hafa hent gaman af því að ég skyldi nefna orðið "alþjóðaflugvöllur" þegar ég hef rætt þetta mál. Með því átti ég ekki við það að það þyrfti að gera alþjóðaflugvöll á Barðaströnd til þess að valda gerbyltingu í samgöngum við Vestfirði heldur einungis það að bæði við Haga og Brjánslæk er rými fyrir meira en 2ja kílómetra langar brautir ef menn vildu.

Kristinn H. Gunnarsson benti nýlega á að ríkisvaldið hefði varið á annað hundrað miklljörðum króna til byggingar Kárahnjúkavirkjunar (sem líkast til á ekki eftir að standast almennar arðsemiskröfur) og þegar þetta væri borið saman við framlög til byggðaþróunar á Vestfjörðum myndi taka aldir að jafna þennan mun.

Enn og aftur má því benda á það að Vestfirðingar eiga það inni að gætt sé jafnræðis byggðakjarnans á Ísafirði við byggðakjarnana norðanlands og austan.

Gleðilegt sumar !

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband