"ÞAÐ MÆLTI MÍN MÓÐIR...HÖGGVA MANN OG ANNAN."

Enginn Íslendingur hefur lýst betur hinu sérstaka hugarfari sem býr að baki flestum árásum á fólk á förnum vegi í Reykjavík en Egill Skallagrímsson: "Það mælti mín móðir / að mér skyldi kaupa / fley og fagrar árar / fara á brott með víkingum / standa uppi í stafni / stýra dýrum knerri / halda svo til hafnar / og höggva mann og annan". Eins og ég greindi frá í í bloggi í gær segja sérfræðingar að íslensku árásirnar séu ólíkar árásum í erlendum borgum að því leyti að þær eru oftast tilefnislausar, að því er virðist til þess eins að "höggva mann og annan."

Árásarmennirnir koma eins og elding af himnum hvar sem er í flasið á hverjum sem er, fara hamförum á örskotsstund og hverfa jafnskjótt og þeir komu.

Jafnvel þótt menn kenni aukinni eiturlyfjaneyslu um segir máltækið: Öl er innri maður. Við það að komast í vímuástand leita oft fram duldar kenndir og afleiðingar aðstæðna í æsku, oft mjög óæskilegar.

Engin löggæsla, hversu víðtæk sem hún er, getur komið í veg fyrir árásirnar þegar það liggur fyrir sem ég sagði frá í gær: "Hver sem er, hvar sem er, hvenær sem er."

Íslendingar eru ekkert öðruvísi, betri né verri að upplagi en annarra þjóða fólk. 

Erlendis eru svona átök mest á milli glæpahópa eða þá sem hluti af ránum.

Sú tilefnislausa árásarfíkn, sem hrjáir svo marga Íslendinga, hlýtur að liggja í þjóðarkarakter sem á sér jafnvel rætur aftur til Sögualdar, en er þó vafalítið mest um að kenna uppeldinu eða kannski frekar í uppeldisleysinu, agaleysinu, taumleysinu, firringunni og óþolinu sem einkennir okkar tíma.

Þetta brýst fram í þeirri fíkn valda sem Egill lýsir svo vel og birtist í peningum, dýrum hlutum, hnefum, bareflum og vopnum, - öllu því sem færir ofstopamanninum ótakmarkað andlegt og líkamlegt vald yfir öðrum.

Þetta felst í þeim lífsstíl nútímans sem á sér engin takmörk í valdafíkn á öllum sviðum, - allt til þess valds sem menn taka sér til að hafa líf og limi annarra í hendi sér.  

Í dag væri þetta orðað svona:

 "Það mælti mín móðir

að mér skyldi kaupa

dóp og dýra jeppa

í djamm með flottum töffurum

standa fremst og stjórna

sterku gleðigengi

bruna svo til borgar

og berja mann og annan.

Hugsanlega þarf langan tíma til að breyta þessu með því að leita upprunans, í uppeldi og innrætingu í siðrænum efnum sem svo mjög virðist vera ábótavant í samtíma okkar.

 


HVER SEM ER, HVAR SEM ER, HVENÆR SEM ER.

Hver sem er á ferð um Reykjavík getur átt von á því hvar sem er og hvenær sem er að vera barinn til óbóta. Þetta gerist ekki aðeins í miðborginni ef þú ert fótgangandi, - þetta getur líka gerst ef þú ert á ferð í bíl á Vesturlandsvegi. Ég reyndi það nýlega sjálfur að ofbeldið í Reykjavík er komið á það stig að ráðist var bæði á bíl og ökumann á stofnbraut og að ökumaðurinn mátti þakka fyrir að árásarmaðurinn komst ekki inn í bílinn eftir svo hamslausa tilraun til að ganga í skrokk á bílstjóranum að hann braut bæði rúðu og barði bílinn og beyglaði.  

Enda þótt fólk segi við mig að ég eigi að hugsa mig tvisvar um áður en ég fari að heimsækja son minn á Shri Lanka vegna þess að þar sé hættusvæði held ég að fenginni reynslu að ég sé óhultari þar fyrir árás Tamíla heldur en akandi í bíl á fjölförnum vegi áleiðis til Reykjavíkur.

Ef ég færi til Shri Lanka og yrði fyrir árás þar myndi það verða talin bara býsna mikil frétt á Íslandi. En það sætir ekki tíðindum þótt ég sé eitt af átta fórnarlömbum skráðra líkamaárása eitt vorkvöld í Reykjavík, - þetta er nokkuð sem við erum orðin ónæm fyrir, - þangað til við verðum lamin sjálf.

Árásin á Vesturlandsvegi gerðist á björtu sunnudagskvöldi. Ég ók á litlum fornbíl af gerðinni NSU Prinz 1958 hægt og rólega vestur Vesturlandsveg eftir fornbílasýningu í Ræsishúsinu við Krókháls.

Skammt fyrir austan bensínstöð Skeljungs var bíl ekið framúr mér vinstra megin og út um glugga hékk maður sem skók að mér hnefann og hrópaði: "Ómar! Helvítið þitt!"

Bílnum var ekið um það bil hundrað metra fram fyrir mig, en þar var hann stöðvaður á ská, þannig að hann lokaði alveg akreininni í vestur. Út úr bílnum stökk maður, hljóp í átt að Prinzinum og stefndi að vinstra framhorni hans.

Ég varð að hægja mjög á bílnum svo að hann stöðvaðist næstum því en ég þorði ekki að stoppa alveg því að þegar maðurinn kom nær með hnefana á lofti sá ég að andlit hans var afmyndað af heift og hatursbræði og ekki leyndi sér að hann ætlaði að stöðva mig og brjótast inn í bílinn til að ganga frá mér.

Nú kom sér vel að stýrið á Prinzinum er það sneggsta og léttasta sem til er, aðeins einn snúningur borð í borð. Á réttu augnabliki snarbeygði ég til vinstri þannig að maðurinn kom að hægra framhorni bílsins en ekki því vinstra og varð því að brjótast farþegamegin inn í bílinn ef hann ætlaði að komast til mín.

Dyrnar voru læstar þeim megin en hann lét höggin dynja á bílnum og barði stóra beyglu ofan í húddið. Síðan hafði hann engar vöflur heldur lét hnefann vaða í gegnum rúðuna sem brotnaði svo að glerbrotin dreifðust yfir bæði framsætin. Áfram hrópaði hann: "Ómar! Helvítið þitt!!"

Honum tókst ekki með fálmandi hendi að ná réttu taki á hurðarhúninum að innanverðu og mér gafst tækifæri til að aka áfram og var svo heppinn að akreinin vinstra megin við mig var auð þá stundina og mér tókst komast framhjá bílnum sem átti að loka mig af.

Mér varð ljóst hve heppinn ég hafði verið að maðurinn komst ekki bílstjóramegin að bílnum því að þá hefði hann annað hvort rifið hurðina þar upp eða kýlt mig beint í gegnum rúðuna. Hægra megin dró hönd hans ekki yfir til mín.

Á leið vestur úr sá ég hvork bíl né mann og varð mjög feginn. Kannski sneru árásarmennirnir við og létu sig hverfa enda var þetta órúlega bíræfin árás á svona fjölförnum þriggja akreina vegi. Kannski hafði ætlunin verið að þetta yrði slík leifturárás og tæki svo skamma stund að ekki yrði tekið eftir því.

Ég veit það svo sem ekki, - vegfarendur í Reykjavík eru kannski orðnir svo ónæmir fyrir svona atburðum að hægt er að komast upp með flest.

Ég tilkynnti þennan atburð að vísu til lögreglu svona til að hægt væri að hafa þetta atvik á skrá en að öðru leyti taldi ég þetta ekki fréttnæmara en hverja hinna árásanna sem framdar voru þetta kvöld og þessa nótt. Bíll og menn voru á bak og burt.

Nú veit ég sjálfur hvernig svona árásir gerast. Það er ráðist á þig hvenær sem er og hvar sem er fyrirfaralaust, - þetta er skyndiárás sem lýkur jafn skjótt og hún hófst og árásarmennirnir hverfa jafn skjótt og þeir komu. 

Mér skilst að svona árásir séu oftast tilefnislausar og því skiptir ekki máli hvort þú ert Jón, Gunna Sigurður.

Ef þú hins vegar ert séra Jón eða séra Gunna veist þú heldur ekki hvort árásin er tilefnislaus. Hún getur verið tilefnislaus þótt árásarmaðurinn hrópi nafn þitt í sífellu á meðan á barsmíðinni og formælingunum stendur og að þau orð séu kannski þau síðustu sem þú heyrir hérna megin grafar.

Hún getur líka átt sér tilefni þannig að um það gildi: Ég er, - þess vegna verður mér misþyrmt. Því fleira sem þú hefur gert og því fleiri sem vita það, því fleiri hatursmenn og óvildarmenn áttu sem telja sig hafa gilda ástæðu til að refsa þér og hefna sín grimmilega á þér. Svo einfalt er það.

Það eru tíu dagar síðan þessi árás átti sér stað og ég hafði ekki hugsað mér að gera neitt með hana, - þetta er jú sá veruleiki sem við erum hætt að kippa okkur upp við. En við nánari athugun og vegna umræðna á bloggsíðum um ofbeldið í Reykjavík tel ég það hugleysi og sinnuleysi að láta sem ekkert sé.

Sem bloggari finnst mér rétt að leggja eitthvað til málanna, - ég skulda þeim sem voru óheppnari en ég og lágu meðvitundarlausir  og stórslasaðir eftir árásir einnar nætur og hafa ekki getað tekið þátt í umræðunni um ástandið heldur verða að sleikja sár sín afsíðis og lifa við grimman veruleika. 

Þegar ég var lítill drengur var ráðist tilefnislaust á tónskáldið Árna Björnsson á götu og honum misþyrmt svo að hann varð örkumla eftir það. Sérfræðingar segja að þessa tegund af ofbeldi sé aðeins að finna í Reykjavík, - í öðrum borgum sé helst um að ræða gagnkvæmar hefndarárásir glæpahópa.

Hvenær rennur sá dagur upp að það verði hættulausara að vera á ferð í Reykjavík en á átakasvæðum á Shri Lanka?

Hvenær rennur sá dagur upp að við getum öll sungið áhyggjulaus í friðsemd: "Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík?"

 

 

 


LEYFI TIL AÐ DREPA AFTURKALLAÐ.

James Bond hafði "licence to kill", leyfi til að drepa bófa og illmenni í sjálfsvörn. Á fimmtudag rennur út hliðstætt leyfi sem reykingafólk hefur haft á opinberum stöðum til þess að úða í allar áttir yfir blásaklaust fólk úr byssu reyksins af handahófi svo að kostað hefur mannslíf. Enginn hefur vitað fyrirfram hverjir féllu fyrir afleiðingum hinna óbeinu reykinga en Bond vissi þó hverja hann þyrfti að drepa af illri nauðsyn.

Og þeir sem félli fyrir byssu reyksins voru margfalt fleiri en allir bófarnir sem Bond drap.

Vona að mér fyrirgefist þessi gálgahumors hálfkæringur, en ég er einn af þeim sem hefur neyðst til þess að stunda atvinnu mín í reykfylltum sölum í tæpa hálfa öld.

Hef orðið nauðugur að innbyrða ókjör af reyk, enda oft með atriði sem kröfðust tífalt örari innöndunar en í kyrrstöðu.  

Ég voga mér því að taka sterkt til orða og kveða skýrt að, - málið hefur því miður snúist of oft um líf eða dauða. Bond drap þá sem höfðu til þess unnið, - óbeinar reykingar gera það ekki.

Ég sá á eftir fimm vinum mínum úr hljóðfæraleikarastétt sem vísindarannsóknir benda til að hafi langlíklegast látist af völdum óbeinna reykinga.

Þetta voru Haukur Morthens, Ingimar Eydal, Svavar Gests, Ellý Vilhjálms og Stefán Jóhannsson.

Einkum var það morgunljóst að yfirgnæfandi líkur voru til þess að hálskrabbamein Hauks stafaði af óbeinum reykingum. Bæði hann og Ingimar Eydal, þessi öðlingar, sögðu það við mig að þeir væru afar ósáttur við þau örlög sín að aðdáendur þeirra dræpu þá óbeint.

Ég hef því lengi verið við því búinn að falla fyrir krabbameini af völdum óbeinna reykinga eins og þetta vinafólk mitt og mun þá ekki tala um það óskýrar en þeir Haukur og Ingimar.

Þetta mál snýst um frelsi, ekki frelsi reykingamannsins til að reykja ofan í hvern sem er, heldur frelsi þess sem ekki reykir að fá að vera í friði fyrir reyknum og rækta heilsu sína. 

Þetta snýst um ferðafrelsi þeirra sem ekki reykja, því að meðan reykingar eru leyfðar á opinberum stöðum verða þeir sem ekki reykja að sneyða hjá slíkum stöðum eða neyðast til að fara þangað inn ef erindin eru brýn og láta reykja ofan í sig. 

Ferðafrelsi þeirra sem ekki reykja hefur sem sé verið takmarkað en nú er sem betur fer að verða breyting þar á.

Hins vegar hefur ferðafrelsi þeirra sem reykja verið ótakmarkað, þeir hafa getað farið á hvern þann stað sem þeim hefur þóknast og notið þess reyks sem hvort eð er stjórnar stórum hluta af lífi þeirra. Hér eftir verður þetta frelsi þeirra hið sama og áður nema að þeir verða að skjótast afsíðis til þess að njóta þess að reykja.

Ég ætla að enda þennan pistil í sama gálgahumors hálfkæringnum og hann byrjaði.

Hitler var 60 - 70 árum á undan öllum þegar hann bannaði reykingar snemma á ferli sínum og var þó ekki vitað þá um skaðsemi reykinga, - aðeins að þær væru dýrar.

Eins og allir vita var Hitler illmenni og ákvað strax við ritun Mein Kampf að útrýma Gyðingum.

Ég held að enginn sé alvondur og að Hitler hefði orðið enn ákveðnari í reykingabanni sínu ef hann hefði vitað um að það myndi bjarga lífum hreinna Aria þótt einhverjir Gyðingar slyppu við það líka við afleiðingar reyksins fyrir tilviljun.

En fyrir þá sem trúa því að Hitler hafi verið alvondur og morðóður er líka hægt að velta því fyrir sér hvort hann hefði hætt við reykingabannið ef hann hefði vitað að það ylli ótímabærum sjúkdómum og dauða. Kannski hefði farið milliveginn og bannað Aríum að reykja en leyft Gyðingum það.

Vil síðan enda þennan groddalega pistil með því að senda reykingamönnum samúðarkveðjur mínar. Eftirfarandi staðreyndir segja mér allt um aðstæður þeirra sem ég hef fullan skilning á:

Líkurnar á því að fólk missi neysluna úr böndunum, svo hún verði að óviðráðanlegri fíkn þegar byrjað er að neyta eftirfarandi efna, -  eru þessar:

Hass: 8%    Áfengi: 13%     Kókaín 18%    Heróin  23%   Nikotín  33% !!!

Gangi ykkur vel að losa ykkur við nikotínið svo að við getum um síðir farið í sátt og samlyndi um reyklausa sali og fengið um frjálsa hálsa strokið !

 

 

 


ÓHJÁKVÆMILEG ÞRÓUN?

Var að koma fljúgandi frá Ísafirði í frábæru veðri og fór lágt yfir Breiðafjarðareyjar. Yst í firðinum er stök smáeyja eða öllu heldur hólmi, Oddbjarnarsker, þaðan sem gerðir voru út 70 bátar fyrir rúmri öld og höfðust þá um 200 manns við í hólma þessum í hvaða vetrarveðri sem var. Svipaðir útgerðarstaðir voru þá allt í kringum landið svo sem Verdalir, Fjallaskagi, Staðareyrar, Bjarnarey o.s.frv. Maður undrast þau kjör sem menn létu yfir sig ganga til að hafa í sig og á fyrir aðeins öld.

Síðan gerðist nokkuð sem menn telja hafa verið óhjákvæmilega þróun, að þessir útgerðarstaðir sem byggðu á nálægð við fiskimiðin, lögðust af, bátarnir og fiskiskipin stækkuðu og útgerðín fluttist inn til þorpa og kaupstaða sem risu allt í kringum landið og voru ekki eins afskekktir og gömlu útgerðarstaðirnir og buðu upp á hafnarmannvirki.  

Hafnarmannvirkin urðu forsenda útgerðar. Það var til dæmis skortur á þeim sem varð öðru fremur til þess að Hornstrandir fóru í eyði um miðja 20. öld, en þar hvarf fólk reyndar frá umtalsverðum eignum án þess að fá nokkrar bætur fyrir.

Nú, þegar öld er liðin frá því að hætt var að róa frá Oddbjarnarskeri, er svipuð þróun í gangi, og fer ekki fram hjá neinum sem kemur í heimsókn til Ísafjarðar, Flateyrar og Bolungarvíkur, þótt erindið sé fermingarveisla í Bolungarvík. Á þessum slóðum er fólk felmtri slegið yfir því sem er að gerast.

Þótt flestir eigi um sárt að binda vegna rekstrarstöðvunar Kambs á Flateyri voru það jafnvel enn verri fréttir á sínum tíma þegar Marel flutti hátæknistörf frá Ísafirði, einmitt þau störf sem landsbyggðin þarf í raun mest á að halda til að halda uppi nógu fjölbreyttu samfélagi. 

Og nú yppta sumir öxlum og segja að í gangi sé hliðstæð þróun og fyrir öld, útgerðin hljóti óhjákvæmlega að flytjast utan af landsbyggðinni til miðlægari staða þar sem þéttbýli, fjármagn og aðstaða öll gera útgerðina hagkvæmari en á hinum afskekktari stöðum.

En þegar betur er litið á málið sést að hér er ekki um hliðstæður að ræða gagnvart því fólki sem verður fyrir barðinu á þessum breytingum. Þeir sem hættu að sækja sjó frá Verdölum, Fjallaskaga ogt hliðstæðum stöðum hurfu á braut frá mjög frumstæðum og ódýrum mannvirkjum.

En þeir sem nú verða að flýja deyjandi sjávarþorp verða að skilja eftir megnið af afrakstri ævistarfs síns sem fólgið er í dýrum húseignum. Margir komast ekki í burtu þótt þeir vildu vegna þess hve eignirnar eru orðnar verðlitlar og finnst þeir vera í átthagafjötrum.

Nú hefur kvótakerfið verið til í 23 ár og allan þennan tíma hefur lítið verið gert til að losa um þessi ólög. Enn og aftur virðist ætla að verða töf á því í stað þess að látið sé til skarar skríða og tekin upp markviss viðleitni við að vinda ofan af þessu vandræða kerfi, til dæmis með því að beita tvenns konar aðferðum.

Annars vegar nýsjálensku aðferðinni sem felst í því að ríkið eigi forkaupsrétt á kvóta og þjóðin  eignist þannig smám saman aftur það sem hún gaf frá sér á sínum tíma eða að minnsta kosti hluta af því.

Þennan kvóta geti þjóðin notað til að auka byggðakvóta og einnig til þess að leigja hann á svipaðan hátt og þegar vatnsorka er leigð til langs tíma.

Þegar litið er til baka sést að hefði verið gripið fyrr til aðgerða til að draga úr skaðlegum áhrifum kvótakerfisins væri staðan betri í dag. Það ætti að hvetja til þess að það verðí ekki áfram látið dragast úr hömlu að sýna það í verki að þjóðinni sé ekki sama hvernig meðferðin á sameign hennar leikur heil byggðarlög grátt.

  


DRAUMUR JÓNASAR OG STJÓRNARSÁTTMÁLINN.

Jónas Hallgrímsson, fjárvana og heilsulítill náttúrufræðingur fæddur í afskekktasta og fátækasta landi Evrópu átti þann draum stærstan að ljúka við rannsókn á náttúru lands síns. Hann lifði ekki að sjá þann draum rætast. 162 árum síðar gekk annar stærsti flokkur Íslands  til kosninga með stefnuskrána Fagra Ísland þar sem settur var fram draumur um metnaðarfulla og ítarlega rannsókn á náttúruverðmætum landsins.

Þessi gamli draumur fátæka náttúrufræðingsins hefði átt að geta ræst hjá þjóð hans, sem nú var orðin ein af þeim ríkustu í heimi, jafnvel þótt vitað væri að verkið gæti tekið 5-10 ár.

Þetta hefði átt að vera auðsótt mál því að Samfylkingin þurfti að ganga til stjórnarsamstarfs við flokk sem auglýsti í kosningabæklingi að hann hefði alla tíð verið og væri enn forystuafl í náttúruvernd á Íslandi.

Í stjórnarsáttmála þessara flokka sést vel hvílík öfugmæli voru höfð í frammi í kosningabæklingi Sjálfstæðisflokksins, sem alla tíð hefur í raun aðeins með semingi fallist á að rannsaka aðeins sáralítinn hluta íslenska náttúru út frá virkjanasjónarmiðum.

Er skemmst frá því að segja að aðeins hluta af kosningastefnu Samfylkingar má greina í kafla stjórnarsáttmálans um umhverfismál, þ. e. að ljúka við næsta áfanga rammaáætlunar um virkjun vatnsafls og jarðvarma árið 2009 sem hvort eð var stóð allltaf til að klára.

Ekki er orð að finna í sáttmálanum um þá ítarlegu rannsókn sem Samfylkingin lagði til á náttúru Íslands og verðmætum hennar út frá henni sjálfri og öðrum sjónarmiðum en þeim sem snerta virkjanahagsmuni.

Hefðu alhliða niðurstöður slíkrar rannsóknar og altækrar úttektar á íslenskri nátturu og verðmætum hennar legið fyrir þegar áformað var á sínum tima að virkja jökulsárnar á NA-landi hefðu menn getað séð fyrir sér stórkostlega möguleika á því að nýta svæðið til ferðamennsku og áttað sig á einstæðu gildi þess sem ekki var hægt að meta til fjár.

Hvað skyldi listaskáldið góða þurfa að liggja mörg ár eða áratugi í gröf sinni á Þingvöllum þar til draumur hans verður að þeim veruleika sem er sæmandi einni af ríkustu þjóð heims?


FJÖGUR ORÐ SEM VANTAÐI.

Var að koma úr leiðangri á Örkinni um Hálslón en þangað var hringt í mig frá útvarpsþættinum Speglinum í gær og spurt um stjórnarsáttmálann. Ég sagði að það vantaði í hann þessi fjögur orð: Hætt verði við Norðlingaölduveitu. Síðan frétti ég í dag að Ingibjörg Sólrún hefði sagt rétt á eftir Speglinum að hún skildi sáttmálann þannig að hætt yrði við Norðlingaölduveitu.

Gísli Már Gíslason ítrekaði þennan skilning og slegið var upp í fjölmiðlum í morgun að 40 ára deilu væri lokið og Norðlingaölduveita endanlega úr sögunni.

Í kvöld (fimmtudagskvöld) kemur síðan fram að Landsvirkjun sé ekki þessarar skoðunar og hún heldur sínu striki. Og Geir Haarde minnir á að ekkert sé minnst á Norðlingaölduveitu í stjórnarsáttmálanum.

Niðurstaða mín er því sú sama og í viðtalinu við Spegilinn: Það vantar fjögur orð í stjórnarsáttmálann. Það er mergurinn málsins.

Óg nú hef ég loksins tækifæri til að skoða hann betur. Mig grunar að það vanti margt fleira í hann og að ýmislegt af því merkilegasta við samkomulag núverandi stjórnarflokka sé fólgið í því sem ekki er fjallað um eða minnst á með orðalagi sem segir ekkert ákveðið.  


TVÖFÖLD ARFLEIFÐ FRAMSÓKNAR

Á Flateyri sjá menn nú merki um tvöfalda arfleifð Framsóknar. Í bæði skiptin var flokkurinn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, fyrst þegar sjávarauðlindin var afhent útvöldum án endurgjalds með kvótakerfinu í stjórnartíð þessara helmingaskiptaflokka 1983 - 87. Seinna örlagaárið var 2003 þegar Framsókn setti af stað þensluna miklu með tvöföldum þensluhvata: Stærstu framkvæmd Íslandssögunnar og kosningaloforðinu um húsnæðislánasprengingu.

Þetta tvennt er óbeint nefnt á Flateyri sem orsakir ástandsins þar, - annars vegar afleiðingar kvótakerfisins og hins vegar hátt gengi krónunnar, sem fylgdi í kjölfar þenslusprengju Framsóknar.

Nú á Framsókn möguleika á að gera svipað og þegar alkinn fer í meðferð, - viðurkenna mistökin og taka upp nýja stefnu. Mikið væri nú gott ef þessi flokkur gæti um síðir orðið að þeim umbótaflokki sem ætíð stóð til að hann yrði.   


ATHYGLISVERÐAR ÁHYGGJUR SIVJAR

Athyglisverðar voru þær áhyggjur Sivjar Friðleifsdóttur í sjónvarpsviðtali að hætta væri á að ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu orkuauðlindanna yrði að veruleika. Siv ætti að vita hvað hún er að tala um eftir 12 ára samstarf við Sjálfstæðisflokkinn sem meðal annars hefur birst í því í hvaða nöfn glyttir í í sambandi við það sem er að gerast á orkusviðinu, bæðí hjá Landsvirkjun og í sambandi við kaup á 15 prósenta hlut í Hitaveitu Suðurnesja.

Nú má búast við því að Páli Magnússyni verði skipt út sem stjórnarformanni Landvirkjunar og að í staðinn komi fulltrúi nýrrar ríkisstjórnar.

Það verður fróðlegt að sjá hver verða næstu skref í sambandi við frekari einkavæðinu í orkugeiranum en vonandi munu Framsóknarmenn notfæra sér vitneskju sína um það hvernig kaupin gerast á eyrinni í þeim efnum og standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar varðandi eignarhald á auðlindinni.

Siv, ég treysti á þig og þína að bæta að einhverju leyti fyrir það sem gerðist í fortíðinni þótt erfitt sé að jafna upp það sem gerðist í Kárahnjúkamálinu.   


HERNAÐURINN GEGN LANDINU - ÞJÓRSÁRVER

Fyrst nú hef ég haft tíma til að lesa til hlítar hina frábæru bók Guðmundar Páls Ólafssonar með ofangreindu nafni. Þetta ætti að vera skyldulesning allra þeirra sem hafa áhuga á umhverfis- og virkjanamálum því hún leiðir svo glögglega í ljós hve langt við Íslendingar erum á eftir nágrannaþjóðunum í þessum málum og hve firrt og brjálæðisleg virkjanfíknin hefur verið.

Það er íhugunarefni hve litla umfjöllun þessi snilldarbók hefur fengið en mér skilst að nálægð kosninganna hafi átt stóran þátt í því. Það vekur aftur spurningar um vanþroska lýðræðisins hér á landi, - að í stað þess að fjölmiðlar grípi fegins hendi slíkt grundvallarrit til þess að skerpa rökræðu um þessi mikilsverðu mál, - skuli menn víkja hinni nauðsynlegu bók til hliðar, að því er virðist á þeim forsendum að trufla ekki kosningabaráttuna.


SÆTASTA STELPAN Á BALLINU.

Í Kastljósi síðastliðið sunnudagskvöld spáði ég um það sem nú hefur gerst með eftirfarandi stöku: Þetta er mikið gleði"game" / og Geir er sá snjallasti í rallinu / Með sælubrosi hann svífur heim / með sætustu stelpunni á ballinu.

Það mátti svo sem búast við þessum endalokum. Strax í haust var farið að gæla við þessa hugmynd og þessi tónn var gefinn í blaðinu sem dreift var um daginn í 100 þúsund eintökum (samkvæmt talningu Guðna Ágústssonar). Jafnvel þótt Íslandshreyfingin hefði fengið þrjá menn kjörna þykir mér ólíklegt að Samfylkingin hefði lagt í að mynda stjórn með fjórum flokkum með nauman meirihluta.

Fyrir lá yfirlýsing mín fyirr hönd Íslandshreyfingarinnar um að stóriðjustopp út kjörtímabilið yrði algert skilyrði fyrir aðild hreyfingarinnar að stjórn og óvíst er að Frjálslyndi flokkurinn og Samfylkingin hefðu fallist á slíkt stopp.

En var þá eitthvað unnið með þessu framboði Íslandshreyfingarinnar? Jú, umhverfismálunum var haldið gangandi þótt bæði Samfylking og VG væru farin á róa á önnur mið í lok kosningabaráttunnar og yfirbjóða hvort annað í öðrum málum. Og stóriðjustjórnin mikla féll með brauki og bramli.

Ég var að koma til Reykjavíkur austan af Hálslóni þar sem Hjalladalur er að sökkva í boði komandi stjórnarflokka.

Nú er stóra spurningin hvort önnur stóriðjustjórn tekur við og hver verður stóriðju- og virkjanastefnu komandi ríkisstjórnar. Ég er ekkert of bjartsýnn því að Samfylkingin hélt allan tímann opnu fyrir álver á Bakka við Húsavík og fer jafnlétt með það að söðla um í stóriðjumálunum og í Kárahnjúkamálinu á sínum tíma.

Tíu dögum fyrir kosningar voru tólf helstu áhersluatriði Samfylkingarinnar auglýst í heilsíðuauglýsingu, þeirra á meðal Unga Ísland. Fagra Ísland var ekki nefnt á nafn, hvað þá önnur umhverfismál.

En vonandi verður þessi stjórn skárri en sú síðasta enda erfitt að toppa eða öllu heldur botna þá stjórn hvað snertir virkjanmálin.

Það mátti raunar heyra á Steingrími Sigfússyni og Guðna Ágústssyni að þeim þætti kannski ekki öll nótt úti fyrir þeirra flokka. Við skulum bara bíða og sjá.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband