15.5.2007 | 09:36
FRAMSÓKN GETUR EKKI HÆTT
Forystumenn Framsóknar voru með digurbarkalegar yfirlýsingar fyrir kosningar um að flokkurinn væri hættur í ríkisstjórn ef hann fengi ekki góða útkomu. Auðvitað var ekkert að marka þetta. Á tólf ára slímsetu hafa stjórnarflokkarnir byggt upp valdakerfi sem ekki er hægt að slíta sig frá.
Tilboð VG og Samfylkingar um að Framsókn yrði utan stjórnar og verði vinstri stjórn falli er fráleitt miðað við þá sterku samningsstöðu sem Framsókn hefur og byggist á því að eina ferðina enn er flokkurinn í óskastöðu á miðjunni þrátt fyrir tap.
Þetta er sama staðan og flokkurinn hafði 1978 og spilaði svo frábærlega úr þá sem tilhlaupi yfir í kosningasigur árið eftir.
Það eina sem þetta tilboð gerir er að ergja Framsóknarmenn. Nú er sennilega of seint að bjóða Framsókn að vera með í stjórn eins og átti að gera strax í byrjun.
En það sýnir muninn á 1978 og 2007 að 1978 sagði stjórn af sér sem hafði fjögurra sæta meirihluta á þingi og 55 prósent þjóðarinnar á bak við sig. Þá lásu menn skilaboð frá þjóðinni en ekki nú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
14.5.2007 | 00:17
ÓLÝÐRÆÐISLEG KOSNINGALÖG
Ólýðræðisleg kosningalög rændu þjóðinni því að hún gæti fellt stóriðjustjórnina. Íslandshreyfingin fékk fylgi sem hefði nægt til að koma tveimur mönnum á þing og þar með væri Geir Haarde nú að undirbúa afsögn. Nú hamast sumir á því að Íslandshreyfingin hafi orðið bjargvættur stjórnarinnar með því að taka fylgi frá stjórnarandstöðunni og hjálpa stjórninni til að lafa. Þetta er bæði rangt og ómaklegt.
Sérstaklega er Morgunblaðið iðið við þetta enda tekur blaðið reglulega rispur með Staksteinum sínum dögum saman til að agnúast út í Íslandshreyfinguna. Það er heiður að því fyrir okkar nýja flokk þegar Styrmir og co telja sig knúna til þess að snúast gegn honum, - það gerir hann aðeins gagnvart því sem geti ógnað Sjálfstæðisflokknum.
Síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar gerði Íslandshreyfingin sérstaklega í því að höfða til kjósenda Sjálfstæðisflokknsins með því að leggja áherslur á þau stefnuatriði sem við höfum tekið úr því besta hægra megin frá. Við köllum það Skapandi skattastefnu.
Í skoðankönnun sem birtist í kosningavikunni var sundurgreint fylgi Íslandshreyfingarinnar og kom þá í ljós það sem frambjóðendur hennar hafa orðið vel varir við, að stærsti hluti fylgisins kom frá Sjálfstæðisflokknum en næst stærsti hlutinn frá VG.
Þetta eru einu gögnin sem við er að styðjast og samkvæmt þeim kom Íslandshreyfingin í veg fyrir enn stærri sigur Sjálfstæðisflokksins en annars hefði orðið. Þar að auki veitti Íslandshreyfingin stjórnarandstöðunni alla þá liðveislu sem hún gat og stuðlaði þannig að fylgisaukningu hennar og fylgisminnkun stjórnarinnar.
Upp úr stendur því að með þeim ákvæðum sem sett voru á vegum stóru flokkanna inn í kosningalögin um 5% prósent lágmarksfylgi á landsvísu var þjóðin rænd því að meirihluti hennar réði, - komið var í veg fyrir að lýðræðið fengi framgang.
Tæplega sex þúsund kjósendur Íslandshreyfingarinnar sátu eftir með sárt ennið og laskaða ríkisstjórn sem hefur minnihluta kjósenda að baki sér. Það var dapurlegt og ekki Íslandshreyfingunni að kenna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
12.5.2007 | 00:53
KANNANIR OG KJÖRSEÐLAR
Það er alþekkt trix að túlka skoðanankannanir þannig að atkvæði geti fallið dauð niður. Þetta var gert í borgarstjórnarkosningum 2002. Þá tönnluðust fjölmiðlar á því að Ólafur F. Magnússon væri langt frá því að komast inn, fylgið aðeins 2,7 prósent fyrir kjördag í könnunum. Ólafur fékk tvöfalt meira fylgi í kosningunum og komst inn.
Aftur gerðist það sama 2003. Þá mældu skoðanakannanir mest 3,7 prósent fylgi, fjölmiðlar tönnluðust á því að langt væri frá því að þetta fylgi dygði og andstæðingarnir ræddu um dauð atkvæði. Niðurstaðan var hins vegar sú að upp úr kjörkössunum kom tvöfalt meira fylgi.
Nú er enn og aftur þetta sama reynt með því að segja við fólk að atkvæði greidd Íslandshreyfingunni geti fallið niður dauð og að með því sé stóriðjuflokkunum hjálpað. En þrenn rök mæla gegn því að þetta sé svona.
1. Í könnunum síðustu daga hefur fylgi sumra flokka hlaupið upp og niður um allt að sjö prósentustig á tveimur dögum. Engin leið er að spá nú fremur en 2002 og 2003.
2. Í könnun fyrir þremur dögum sást í fyrsta sinn hvaðan þáverandi fylgi Íslandshreyfingarinnar kæmi og reyndist stærsti hópurinn koma frá Sjálfstæðisflokknum. Næst stærsti hópurinn kom að vísu frá VG en þar er vafalaust um að ræða miðju- og hægri kjósendur sem áður höfðu kosið VG af því að það var eini græni valkosturinn, - en það er einmitt það fólk sem í síðustu tvennum kosningum hefur oft heykst á því í kjörklefanum að kjósa VG og farið aftur á gamla básinn hægra megin.
Þetta fólk gæti átt það til að staðnæmast hjá Íslandshreyfingunni á leið sinni frá VG.
3. Allar kannanir síðustu sex vikur hafa sýnt það sama: Ef Íslandshreyfingin nær 5% fylgi fellur ríkisstjórnin undantekningarlaust og jafnvel fellur líka möguleikinn á hreinni stóriðjustjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins. Og ekki bara það, - þetta er áreiðanlega eina leiðin til að falla slíka stjórn því það er afar ólíklegt að vinstri flokkarnir tveir fái meirihluta.
2- 3ja prósentustiga viðbót Íslandshreyfinginarinnar skapar þrjá nýja þingmenn sem er tvisvar til þrisvar sinnum fleiri þingmenn en sama prósentustigaaukning hjá öðrum flokkum.
Þetta hafa sérfræðingar séð, svo sem Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
10.5.2007 | 13:40
BARNAUPPFRÆÐSLA GUÐLAUGS ÞÓRS.
Lengi getur vont versnað. Fyrir nokkrum dögum bloggaði ég um þá ótrúlegu sögufölsun sem birtist á áróðursspjaldi Sjálfstæðisflokksins þar sem því er blákalt haldið fram að flokkurinn hafi haft forystu um og barist fyrir náttúruvernd hér á landi. Ekki þarf annað en að kynna sér baráttu náttúruverndarfólks undanfarin ár til að sjá að þetta er algert öfugmæli, - ævinlega þegar deilur hafa staðið um virkjanir hefur flokkurinn staðið með virkjunum en á móti náttúruvernd.
Dæmi: Fljótsdalsvirkjun, Eyjabakkar, Kárahnjúkavirkjun, Langisjór, Norðlingaölduveita, Ölkelduháls, Kerlingarfjöll, Skjálfandafljót o. s. frv.
Ég var að vona að það væru PR-spunadoktorar flokksins sem hefðu gert þetta spjald en í gærkvöldi kom í ljós að þetta kemur úr innsta hring. Bláeygur drengur spurði Guðlaug Þór Þórðarson í Kastljósi um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til náttúrunnar og Guðlaugur endurtók hina ótrúlegu sögufölsun án þess að depla auga.
Það er sök sér að gauka ósannindum að fullorðnu fólki sem sér í gegnum þau. Verra er að gera það gagnvart saklausum börnum. Ég vona að barnabörn mín eigi ekki eftir að njóta uppfræðslu af þessu tagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
8.5.2007 | 21:17
STÓRA FLUGVALLAMÁLIÐ.
Í dag hefur verið fjallað þvívegis í sjónvarpi um lendingarstaði mína á Kárahnjúkasvæðinu, fyrst tvívegis á Stöð tvö og síðan í Kastjósþætti um umhverfismál og látið að því liggja að um umhverfishneyksli sé að ræða. Lítum á þetta stóra flugvallamál í heild.
Lendingarstaðirnir sem um ræðir eru allir svipaðir lendingarstöðum Flugmálastjórnar á hálendinu, þannig, að þeir eru náttúrugerðir, þ.e. sléttir melar. Til þess að flugvélar spori ekki í þá og eigi auðveldara um flugtak, eru þeir valtaðir á hverju sumri. Eftir frostlyftingu vetrarins eru þeir síðan eins útlítandi og þeir væru ósnortnir og þá þarf að valta þá að nýju.
2002 fékk ég leyfi hjá Umhverfisráðuneytinu til að lenda flugvélum á hjalla í Kringilsárrana. Þessi lendingarstaður er þessa dagana að sökkva í Hálslón, drullupoll Landsvirkjunar.
Ég lenti við Jöklu á botni Hjalladals. Þessi lendingarstaður er sokkinn í drullupoll Landsvirkjunar.
Ég hef lent við Kárahnjúkaveg á lendingarbraut undir Snæfelli, sem merktur er inn á kort Landmælinga þótt Flugmálsstjórn haldi honum ekki við nú.
Ég útbjó lendingarstað á Sauðármel norðan Brúarjökuls með þremur brautum, 1400, 1000 og 700 metra löngum og valtaði þær 2004. Þangað flaug ég með fjölmiðlamenn í júlí og með fjölda fólks til og frá staðnum í þrjú sumur, þar á meðal þrjá ráðherra, Geir Haarde, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Jónínu Bjartmarz, og tvo alþingismenn.
Ég fór með fulltrúa frá Umhverfisstofu á völlinn og gerði sveitarstjórninni ítarlega grein fyrir honum, auk manna frá Landsvirkjun og Impregilo.
Engum hefur flogið í hug umhverfisspjöll fyrr en nú, fjórum dögum fyrir kosningar.
Helsta gildi þessa vallar er að hann er stærsti og besti lendingarstaðurinn á hálendinu, sá eini á stóru svæði, og Fokker F50 vél Flugfélags Íslands gerði aðflug að honum 2005 vegna þess að hann gæti nýst fyrir svo stórar flugvélar í neyðartilfellum.
Hann gæti þjónað vel sem sjúkraflugvöllur og verið stórt öryggisatriði í fjöldaslysum eins og við Hólsselskíl fyrir nokkrum árum.
Máltækið segir: "Það er lítið sem hundstungan finnur ekki" og það á við í þessu tilfelli þótt það hafi tekið hundstunguna þrjú ár að finna það sem hún leitaði að.
Sjá: islandshreyfingin.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
7.5.2007 | 01:25
FOSS GEIRS HAARDE AÐ SÖKKVA
Þrepafoss sem Geir Haarde var svo vinsamlegur að gefa nafn fyrir drekkingu, þegar ég var á ferð með honum í Kringilsárrana í fyrrasumar, er að byrja að sökkva í hækkandi lónið þessa dagana. Þetta sá ég á ferð yfir Hálslón 27. apríl. Fossinn er ósnortinn á bak við mig á myndinni á forsíðu bloggsins.
Sauðárfoss er líka að byrja að sökkva og skammt er í að vatn fljóti yfir fottasta hjallann í dalnum, Hraukahjalla með flugbraut og grýttum jeppa (sjá vefsíðu Hugmyndaflugs).
Þetta var fyrsta ferðin af mörgum dapurlegum sem framundan eru í sumar og næsta sumar til að sigla Örkinni um tvö önnur lón sem verða mynduð og fylgjast líka með uppþurrkun tveggja stórkostlegra fossaraða.
Á mynd með auglýsingum Íslandshreyfingarinnar sést einn þessara fossa, Kirkjufoss, fyrir og eftir uppþurrkun. Á vinstri bakkanum má sjá fólk sem sýnir vel hlutföllin.
Allt er þarna í fullum gangi, búið að gangsetja einn hverfilinn með rafmagni frá byggðalínu þ. e. rafmagn notað til að búa til rafmagn ! Bakkabræður hefðu fílað sig vel þarna ef þeir væru á lífi.
Undir Þrælahálsi urðu sárveikir þrælar Impregilo víst að sleikja gangaveggi á dögunum til að brynna þorsta sínum. Hann var forspár sá sem gaf þessum hálsi nafn í árdaga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
6.5.2007 | 00:11
ÓTRÚLEG SÖGUFÖLSUN
Myndspjald Sjálfstæðisflokksins um umhverfismál sem ég sá á förnum vegi í morgun verður áreiðanlega viðfangsefni sagnfræðinga framtíðarinnar. Á spjaldinu eignar flokkurinn sér Vatnajökulsþjóðgarð, segist ávallt hafa verið í fararbroddi náttúruverndar og sýnt þar staðfestu en ekki tækifærismennsku. Hvílík öfugmæli!
Þegar ég gerði alls sex sjónvarpsþætti um möguleikana á Vatnajökulsþjóðgarði fyrir níu árum var þess krafist að ég yrði rekinn úr starfi fyrir þessa þáttagerð og fram fór opinber rannsókn á verkum mínum í kjölfarið þar sem ég var þó sýknaður af þessum ákærum.
Ég og Ólafur F. Magnússon vorum kallaðir hryðjuverkamenn og Ólafur hrakinn úr ræðustóli á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Orðið staðfesta er Sjálfstæðismönnum hugleikið. Þessi staðfesta kom okkur Íslendingum í hóp staðfastra þjóða við innrásina í Írak, - flokkurinn var staðfastur við að framkvæma mestu mögulegu umhverfisspjöll hér á landi með Kárahnjúkavirkjun, - hann er staðfastur í því að halda til streitu Norðlingaölduveitu sem þurrkar upp einstaka fossaröð Þjórsár og skaðar ímynd Þjórsárvera, - staðfastur í því að láta Langasjó ekki lenda inni í þjóðgarði heldur vera áfram á dauðalista Landsvirkjunar, - staðfastur í stækkun álversins í Straumsvík og tilheyrandi virkjunum, m.a. í Neðri-Þjórsá, - Sjálfstæðismenn í Skagafirði eru staðfastir í því að virkja jökulárnar þar o.s.frv. o.s.frv.
Flokkurinn er staðfastur í því að hér rísi á endanum sex risaálver fyrir 2020 með tilheyrandi virkjunum og náttúruspjöllum.
George Orwelll hefði ekki getað hrifist af öðru meir hefði hann verið á lífi nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir upp í opið geðið á kjósendum frá staðfestu sinni og forystu um verndun íslenskrar náttúru og sakar aðra um tækifærismennsku!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.5.2007 | 01:11
GUÐJÓN ARNAR MEÐ STEFNU ÍSLANDSHREYFINGARINNAR
Í sjónvarpsþætti um sjávarútvegsmál sem sendur var út frá Ísafirði um daginn lýsti Ólafur Hannibalsson mjög vel hugmyndum Íslandshreyfingarinnar um að þoka sjávarútveginum út úr fjötrum kvótakerfisins, annars vegar með því að huga að því að kvótinn yrði bundinn við tímatakmörk líkt og þegar orkukaupendur kaupa orku til nokkurra áratuga , - og hins vegar með því að athuga aðferð Nýsjálendinga um að ríkið hefði forkaupsrétt að kvóta sem síðan væri hægt að útdeila á ný.
Ekki örlaði á neinum slíkum hugmyndum hjá Grétari Mar Jónssyni, talsmanni frjálslyndra, í þessum sjónvarpsþætti heldur talaði hann um að höggva kvótakerfið í spað.
Í kvöld bar hins vegar svo við hjá Guðjóni Arnari Kristjánssyni í Kastljósþætti að lagðist á sveif með hugmyndum Íslandshreyfingarinnar í þessum efnum. Guðjón er vænsti maður sem nú er í gislingu Jóns Magnússonar í innflytjendamálunum. Það er heillandi að gæla við þann draum að Guðjón stígi skrefið til fulls og kæmi yfir til okkar við fyrsta tækifæri til að tala fyrir stefnu okkar.
Sjá www. islandshreyfingin.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.5.2007 | 20:31
UMHVERFISMÁLIN, - FEIMNISMÁL?
Fyrir tvennar síðustu kosningar féllu umhverfis- og virkjanmála algerlega í skuggann og voru varla rædd þótt í ráði væri að fara út í mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar. Allir, - já, allir umræðuþættir ljósvakamiðlanna 1999 enduðu á þann veg að stjórnendurnir sögðu: "Ætlunin var að ræða umhverfismál en tíminn leyfir það ekki. "
Í kvöld sáum við dæmi um það hvernig þessum mikilvæga málaflokki er vikið til hliðar í umræðum. Stöð tvö kynnti niðurstöður skoðanakönnunar í Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem kom í ljós að velferðarmálin annars vegar og umhverfis- og virkjanamálin hins vegar báru ægishjálm yfir aðrar málaflokka að dómi þeirra sem spurðir voru í skoðanakönnuninni.
En umræðurnar og stjórn þeirra spiluðust hins vegar á þann veg að engin leið var að koma þessum málaflokki að því að stjórnendurnir virtust ekki hafa neinn áhuga á honum þrátt fyrir niðurstöður skoðanakönnunarinnar um mikilvægi hans.
Þáttastjórendurnir leiddu umræðuna og umfjöllunina ævinlega á önnur svið og dvöldu lengi við þau. Viðtal við hjólreiðamann var ef til vill það eina sem flokka mátti undir umhverfismál.
Enn einu sinni kemur fram sú nauðsyn að eitt framboðanna haldi umræðunni gangandi eins og kostur er um stærsta mál þessara kosninga sem varðar mesta verðmæti Íslands og hagsmuni komandi kynslóða.
Slóð: www. islandshreyfingin.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.5.2007 | 21:13
1. MAÍ, HLÝR OG LJÚFUR
Það var svolítið skrýtin tilfinning að taka þátt í göngu og hátíðahöldum dagsins eftir að hafa, starfs síns vegna, ekki getað gert það í tæpa hálfa öld. Ég var nefnilega aðeins átján ára þegar ég ákvað að vegna starfs míns sem óhlutdrægur skemmtikraftur gæti ég ekki tekið þátt í aðgerðum af þessum toga. Síðar færðist þetta yfir á fréttamannsstarfið.
Það var gaman að eiga 49 ára gamlan svartan en hátíðlegan örbíl til að fara í miðborgina og undirstrika kröfu umhverfisaldar um sparneytni ásamt kröfum um bættan hag launþega. Aka á tímabili á leiðinni niður eftir samhliða Sniglunum.
Eftir rölt í á kosningaskrifstofu Íslandshreyfingarinnar í Kirkjuhvoli og í Kolaportið var vel við eigandi að fara að Smáralind með bílinn því 583 cc vélin í honum var upphaflega NSU Max vél í vélhjól, afar hátæknileg vél á sínum tíma með yfirliggjandi kambás og heimsmeistaratitla í vélhjólaakappakstri.
Hann átti því heima innan um vélhjólin enda eigandinn Snigill nr. 200 vegna eignarhalds á sínum tíma á flygildinu Skaftinu sem er með 503 cc Rotax vél. Steini Tótu notaði á sínum tíma heitið "Taufaxi" um slík eins manns 120 kílóa flygildi.
Í lokin lá leiðin í kosningaskrifstofu Íslandshreyfingarinnar í Hafnarfirði og síðan aftur niður í miðborg á þessum fyrsta "frjálsa" 1. maí í lífi mínu.
Krafan um breytta umhverfisstefnu, "betri leið til að blómstra, " snertir í raun mjög launþega þessa lands því að óbreytt æðandi stóriðjuhraðlest mun verða alltof dýru verði keypt fyrir alla Íslendinga ef ekki verður staldarð við og haldið inn á brautarstöð til að ná áttum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)