1.5.2007 | 00:20
SLÆMUR BISNESS.
Er það ekki grátlegt að flokkurinn, sem hefur haldið á lofti lögmálum frelsis og markaðlögmála skuli ganga fremst fram í því að nota ríkisstyrkt handafl til stórkarlalegra verksmiðjulausna með taprekstursævintýrið Kárahnjúkavirkjun sem flaggskip? Stefnir síðan að því að selja alla virkjanlega orku á spottprís til mengandi álvera svo að ekkert verði afgangs handa þekkingariðnaði eða vetnisvæðingu sem gætu vafalaust borgað hærra orkuverð án mengunar.
Enn óskynsamlegra er það að fórna mesta verðmætinu, íslenskri náttúru, fyrir þetta án þess að nokkuð sé gert til að kanna virði hennar heldur gengið út frá því að hún sé einskis virði. Það sem bar fyrir augu á hinu einstæða svæði sem á engan sinn líka í heiminum og nú er að sökkva undir Hálslón, - þetta var ekki metið á krónu.
Á sama tíma er útsýni úr íbúð í háhýsi við Sæbraut metið á allt að 15 milljónum króna meira virði en útsýni úr nákvæmlega eins íbúð í Túnunum. Og þó er Esjan, fjallið sem horft er á, ekkert merkilegra en tugþúsundir fjalla um allan heim.
Ég hef lengi reynt að benda á það hve nauðsynlegt það væri að setja kraft í djúpboranir sem gætu gjörbylt öllu orkuumhverfi á Íslandi og að það væri óskynsamlegt að vaða áfram í virkjanaæðinu, heldur bíða og sjá hvort hægt verði að ná sama árangri með margfalt minni umhverfisröskun.
Einnig að reyna að laða fjárfesta til þess að setja kraft í þessar djúpboranir og fylgja því svo eftir til annarra landa. Nú hefur það gerst að þýskt orkufyrirtæki hefur áhuga á því að fjárfesta í djúpborunum hér á landi og fylgja því eftir með því að flytja raforku um sæstreng til Evrópu.
Þegar litið er til þess að hugbúnaðarfyrirtæki vilja koma til landsins og kaupa raforku til mengunarlausrar starfsemi með mun betri og fleiri störfum á orkueiningu hlýtur það að teljast slæmur bisness að halda áfram álveraóðagotinu.
Bendi á www. islandshreyfing.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)