2.5.2011 | 20:28
"Byssuglaðir freta í flýti..."
Mér sýnist útséð um það hér eftir að öðru vísi verði brugðist við komu hvítabjarna til landsins en að skjóta þá hið snarasta og frábært er þegar drápið gerist á sama sólarhringnum og Osama bin Laden er stútað.
Í fyrri tilfellum hefur ástæðan fyrir þessari byssugleði verið sögð sú að dýrið ógnaði fólki eða fénaði.
Þetta dýr kom hins vegar á land eins langt frá fólki og fénaði og hugsanlegt var, á friðlandi Hornstranda þar sem næsta byggð er í 60-90 kílómetra fjarlægð eftir því hvort miðað er við loftlínu eða eðlilega leið dýrsins.
Meðan vitað var af dýrinu í þessu stóra friðlandi, gátu ferðamenn forðast að vera þar á ferð.
Spáð er sæmilegu veðri og þótt ekki hefði verið hægt að fylgja bangsa eftir allan sólarhringinn hefði verið hægt að tékka á hinni 6-7 kílómetra Skorarheiði, sem liggur á milli Hrafnsfjarðar og Furufjarðar og suðurströnd Hrafnsfjarðar, ef dýrið synti yfir þann fjörð.
Fuglafræðingar geta merkt fugla með litlum sendum sem nýtast sem staðsetningartæki og enda þótt bjardýrið hefði verið utan við svið gervitungla norðanmegin á Hornströndum hefði það væntanlega strax komið inn á skjáinn ef það hefi fært sig sunnar á svæðinu.
Áhuginn á því að fanga svona dýr og flytja það virðist ekki nægur, því að það kostar peninga og fyrirhöfn.
Nú er ekki 2007 og enginn sem vill kosta slíkt. Þar með eru örlög bjarndýra, sem ganga hér á land, ráðin og um þennan sólarhring drápanna má kveða:
Byssuglaðir freta í flýti
feikna heppnir.
Bin Laden og björninn hvíti
báðir drepnir !
![]() |
Ísbjörninn kominn til Reykjavíkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.5.2011 | 12:36
Sporin frá 1978
Á útmánuðum 1979 lenti ég flugvél í Hornvík, næstu vík við Hælavík, og við Sigmundur Arthursson gengum þaðan upp á Hornbjarg þar sem jörð var snævi þakin.
Þar gengum við fram á svo stór spor eftir dýr, að það hlaut að vera mun stærra dýr en refur og tókum mynd af sporunum, sem við notuðum í heimildarmyndina "Eyðibyggð."
Þetta voru köld ár, einkum árið 1979, og hafís rak að landinu. Það var því líklegt að bjarndýr kæmi á land.
Nú eru hins vegar hlý ár en samt ganga bjarndýr á land. Það gæti bent til þess að rót sé komið á stofninn vegna breyttra skilyrða í sjó og í lofti. Um það er þó ómögulegt að segja.
Í þetta sinn gildir ekki sú afsökun fyrir því að fella þetta dýr að það ógni fólki eða fénaði. Hornstrandir eru eyðistrandir þar sem hvorugt er fyrir hendi.
Það þarf því að taka sér góðan umhugsunartíma áður en það yrði tekið til bragðs að fella björninn og leita ráða til að koma honum út á ísbreiðuna, til dæmis með því að flytja hann deyfðan í þyrlu.
![]() |
Hressilegur hvítabjörn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.5.2011 | 10:09
Verður píslarvottur.
Che Geavara varð að píslarvætti eftir að hann var felldur á sjöunda áratugnum. Í hippabyltingunni og lengi á eftir bar uppreisnargjarnt fólk mynd hans framan á sér á sérstökum bolum.
Svipað mun gerast um Osama bin Laden. Þegar ég var í Mósambík fyrir allmörgum árum dansaðaði sérstök sveit dansara fyrir framan utanríkisráðherra Íslands á samkomu, sem haldin var honum til heiðurs.
Einn dansaranna var í treyju með stórri mynd af Osama bin Laden framan á !
Með Osama bin Laden er genginn illvirki en engu að síður verður erfitt að losna við hann, þótt líki hans hafi verið sökkt í sæ.
![]() |
Líki bin Laden sökkt í sæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2011 | 23:38
Réttmæt draumsýn.
Um þessar mundir er rætt um að engin laun skuli vera lægri en 200 þúsund krónur á mánuði. Sömuleiðis kemur fram að þessi laun haldi fólki í raun neðan við fátæktarmörk. Og vitað er að margir hafa enn minna fé til framfærslu en þetta.
Á hinn bóginn er vitað að margir hafa laun sem eru fimmfalt hærri eða meira en það og það fylgir með, að vegna þess að við séum hluti af alþjóðasamfélagi getum við ekki haldið þessu fólki í landinu til að sinna sínu mikilvæga hlutverki, sem ekki sé hægt að vera án, sé ekki raunhæft að reyna að lækka þessi háu laun.
Ögmundur Jónasson gegndi á tímabili embætti heilbrigðisráðherra og hefur vafalaust kynnst því launaumhverfi, sem er í heilbrigðiskerfinu, - einnig því, að verði laun lækna lækkuð of mikið, muni þeir flytja úr landi þar sem laun eru hærri.
Hér er því úr vöndu að ráða ef það á að jafna launin. Vandinn við það kom í ljós í vinnudeilu starfsmanna í loðnubræðslum í vetur en þá töldu þeir það vera rök fyrir stórhækkun kaups þeirra, að þeir væru svo fáir, að hækkun heildarlaunabyrði sjávarútvegsins myndi verða sáralítil.
Til samanburðar myndi tiltölulega lítil launahækkun þúsunda sem vinna á mun lægri launum í og í kringum sjávarútveginn verða samanlagt að mikilli hækkun heildarlaunabyrði atvinnuvegarins.
Þegar þetta er skoðað sýnist mörgum, eins og sjá má á bloggi og athugasemdum við ummæli Ögmundar, að það sé fullkomlega óraunhæft og jafnvel skaðlegt að nefna það að munur á hæstu og lægstu launum ætti ekki að vera meiri en þrefaldur.
Auk þess myndi hugsjón Ögmundar í framkvæmd valda þvílíkri verðbólgu og setja hér allt á hvolf, að verr væri af stað farið en heima setið.
"Ég á mér draum" sagði Martin Luther King í frægri ræðu fyrir nær hálfri öld. Þegar hann mælti þau orð og orðaði frekar í hverju draumurinn væri fólginn, fannst mörgum það fráleitur draumur hjá honum og órar einir.
Samt voru þetta ekki aðeins orð í tíma töluð, heldur höfðu þau áhrif og skiluðu meiri árangri með tímanum en margir höfðu talið möguleika á að væri hægt, þótt vitanlega sé enn langt í land með að draumsýn Kings rætist á heimsvísu.
Ögmundur Jónasson hefur orðað draumsýn sem er réttmæt vegna þess að hún byggist á réttlætiskennd í anda kjörorðanna frelsi-jafnrétti-bræðralag þar sem hið endanlega takmark er að í krafti samkenndar (bræðralags) muni nást fram mesta samanlagða frelsi mannanna barna, sem mögulegt er, en án jafnréttis er þetta samanlagða frelsi óhugsandi.
![]() |
Hæstu laun verði þreföld lægstu laun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.5.2011 | 17:14
Mikið áfall fyrir Gaddafi.
Þegar gerð var loftárás á húsakynni Gaddafis 1986 og dauðinn réðist þannig inn á gafl hjá honum greinilega brugðið, enda slíkt eitthvert versta áfall sem arabahöfðingin getur orðið fyrir.
Gaddafi tók í kjölfarið upp endurskoðaða stefnu gagnvart Vesturlöndum, þó einkum eftir að Sþ setti viðskiptabann á Líbíu 1993, og var karlinn bara kominn býsna langt á þeirri leið þegar uppreisn var gerð gegn honum í vetur.
Nú hefur Gaddafi orðið fyrir enn meira áfalli og spurning er, hvernig hann bregst við því.
Mannfallið í árásinni á son hans og fjölskyldu er jafn sorglegt og dráp á öðrum Líbíumönnum á báða bóga.
![]() |
Staðfestir andlát Saif al-Arab |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.5.2011 | 14:25
Bryndís hrapaði þrefalt hærra fall.
Þeir, sem hafa komið að Dettifossi hafa hugmynd um hvað 44 metra hátt fall er. Hallgrímskirkjuturn er rúmlega 70 metra hár og bíllinn, sem hrapaði í Miklagljúfur í Bandaríkjunum hrapaði 60 metra.
Að sleppa lifandi úr slíku kraftaverki líkast.
Hér á Íslandi hefur þó bíll hrapað þrefalt hærra fall og þau tvö, sem í bílnum voru, lifðu fallið af.
Það var þegar bíll sem Bryndís Brandsdóttir jarðfræðingur ók, fór í dimmviðri fram af hinu þverhnípta Grímsfjalli, skammt frá skálanum, og hrapaði um 200 metra fall niður í Grímsvötn.
Fara þurfti í langan björgunarleiðangur um Jökulheima upp í Grímsvötn til að bjarga Bryndísi og samferðamanni hennar.
Tilviljunin, sem réði því að þau lifðu þetta af, fólst ekki aðeins í því að sleppa, heldur hafði læknirinn, sem tók við þeim á spítalanum, sjálfur lifað það af að falla fram af Grímsfjalli á svipuðum stað fyrir mörgum árum.
Að öllu leyti er því hið íslenska atvik mun magnaðra en hið bandaríska og líkast tll einstakt á heimsvísu.
![]() |
Hrapaði í Miklagljúfur og lifði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)