31.5.2011 | 18:19
Samt stysti tími sem þekkist.
Þótt búið sé að framlengja starfstíma stjórnlagaráðs um einn mánuð verður starfstími ráðsins hinn stysti sem vitað er um varðandi svipað viðfangsefni í öðrum löndum ef marka má niðurstöðu norsks sérfræðings um þetta efni.
Hann sagði í fyrirlestri hér að hvergi hefði verið svo fámennt stjórnlagaráð eða -þing og hvergi svo stuttur starfstími.
Í einni af athugasemdum við frétt um þetta á mbl.is er fárast yfir hvað þetta sé dýrt.
Hvað má þá segja um Þjóðfundinn 1851 þar sem fulltrúar voru næstum tvöfalt fleiri og þjóðin átti varla til hnífs eða skeiðar í vegalausu landi þar sem fólk bjó í torfkofum.
Ef líta á á Þjóðfundinn sem fráleitt bruðl ættu menn að hætta að líta á hann í þeim ljóma sem um hann leikur.
![]() |
Starfstími stjórnlagaráðs framlengdur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2011 | 18:07
Vel gert en kannski nóg komið.
Matseðill Katrínar Middleton er skynsamlegur og til dæmis er magurt kjöt ágætis megrunarfæði.
Hafrar eða haframjöl eru að vísu með nokkurri fitu, en á morgnana er gott að neyta fæðis, sem gefur "gott start."
Oft villir það um fyrir fólki að það borðar fitandi og jafnvel óhollar sósur með kjötréttum.
Svipað er að segja um mjólkurvörur, sem eru með kolvetnaríkum sósum eins og til dæmis hin ágæta hrísmjólk frá Búðardal sem hefur sósuna í sér hólfi, en þegar lesið er um innihaldið utan á umbúðunum er þess ekki getið hvort sósan er talin með.
Sé hún talin með kemur betri útkoma út og mér finnst þessi mjólkurafurð mjög góð.
Nú þarf hún Katrín blessunin að passa sig á að láta ekki megrunarfæðið teyma sig of langt. Guð skapaði konuna ekki eins og renglu, það held ég að sé nokkuð víst.
![]() |
Svona fór Katrín að því að grennast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.5.2011 | 22:36
82 milljarðar !
Bakkus er harður húsbóndi. Það eru gömul og ný sannindi sem spegluðust í úttekt, sem birt var í Kastljósi kvöldsins. Ég segi Bakkus, því að hann stendur á bak við nær alla neyslu fíkniefna, sem byrjar yfirleitt á neyslu áfengis.
Það er gott að loksins sé fórnarkostnaðurinn vegna fíkniefnanna reiknaður út í beinhörðum peningum og látið koma fram að Bakkus og hirð hans með 82ja milljarða kostnað fyrir þjóðfélagið á ári, sé mun dýrari en öll framlög til menntamála og vegamála samtals.
Heilbrigðisráðherra stóð sig að mínu mati jafn vel í Kastljósi í kvöld og landlæknir stóð sig illa um daginn. Guðbjartur er að stimpla sig inn sem einn af kandidötunum til arftaka Jóhönnu Sigurðardóttur þegar þar að kemur.
![]() |
Stórefla þarf eftirlit með lyfjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2011 | 19:25
Frábær staðsetning.
Þegar um er að ræða alþjóðlegar ráðstefnur þar sem koma saman gestir austan og vestan Atlantshafsins er Ísland augljóslega ákjósanlegur kostur rétt eins og það var þegar leiðtogafundurinn frægi var haldinn í Höfða 1986.
Ekki mun af veita að efla stöðu landsins að þessu leyti ef litið er til þess hve miklu hlutverki ferðaþjónusta þarf að gegna varðandi rekstur Hörpu ef húsið á ekki að verða stór fjárhagslegur baggi á þjóðinni.
Harpa þarf að keppa við Osló og Kaupmannahöfn þar sem ný og stórbrotin tónlistarhús hafa risið á undanförnum árum og mikils um vert að allt verði gert sem unnt er til að efla rekstur hússsins.
![]() |
Ísland með bestu ráðstefnulöndum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2011 | 17:11
Ýmsar spurningar varðandi Hess.
Flugferð Rudolfs Hess til Bretlands 10. maí 1941 hefur lengi verið einn af dularfyllstu atburðum stríðsins og raunar dæmalaust í heimssögunni að staðgengill valdamesta manns heims fari slíka ferð.
Ýmislegt hefur verið skrýtið við þessa ferð, til dæmis það hvernig það mátti verða að Hess gæti tekið heila tveggja hreyfla herflugvél traustataki og flogið henni svo langa leið yfir eigin landi og síðan allt norður til Skotlands.
Einnig það að það liðu tveir sólarhringar þar til stjórnvöld í Þýskalandi sögðu eitthvað um málið. Þá var loks í yfirlýsingu gefið í skyn að Hess hefði misst vitið nánast eins og um ofskynjanir væri að ræða.
Það hefði verið afar mikils virði fyrir Þjóðverja að fá Breta til liðs við sig á þessum tíma og ekkert óraunhæft að halda að þeir væru til í það.
Nokkru fyrr þetta vor hafði Charles Lindbergh haldið ræðu í Bandaríkjunum og gagnrýnt Breta fyrir að etja þjóðum Evrópu í vonlaust stríð gegn Þjóðverjum. Ástæðan lá þá ljós fyrir: Þjóðverjar höfðu vaðið yfir Balkanskagann og Bretar farið þar herfilegustu hrakfarir.
Hér heima á Íslandi voru Bretar að leggja veg ofan byggða milli Elliðaárdals og Hafnarfjarðar sem hlaut heitið "Flóttamannavegur" í munni Íslendinga, því að auðséð væri að Tjallarnir ætluðu að nota hann á flótta undan Þjóðverjum þegar þeir kæmu.
Áhrifamiklir aðilar höfðu árum saman verið hallir undir Þjóðverja meðal Engisaxnesku þjóðanna. Joseph Kennedy sendiherra Bandaríkjamanna í London hafði talið ráðlegast fyrir Breta að þiggja boð Hitlers í júlíbyrjun 1940 þar sem hann sagðist "höfða til skynseminnar" og bauð Bretum frið með loforði um að í staðinn myndu Þjóðverjar vernda breska heimsveldið og eyða hverjum óvini þess.
Játvarður konungur hafði verið hallur undir Þjóðverja og þegar Þjóðverjar gersigruðu Frakka í júní 1940 voru uppi raddir meðal ráðamanna í Bretlandi að skoða það að semja frið.
Sjálfur hafði Winston Churchill viðhaft hin verstu orð um Stalín og ógnarstjórn hans.
En hann var samt aldrei í vafa hver stefnan ætti að vera og valið væri einfalt: Nasisminn og stefna Hitlers væri með slíkum eindæmum villimannleg að aldrei skyldi við það unað.
Hess flaug til Bretlands sjö vikum áður en innrásin í Sovétríkin hófst og ljóst virðist að hefðu Bretar þá gengið til liðs við Þjóðverja eða samið við þá frið hefði það ráðið úrslitum um leifturstríðið sem í vændum var.
Þegar Bretar lýstu umsvifalaust yfir stuðningi við Rússa eftir innrásina var Churchill spurður hvort það skyti ekki skökku við að gerast vinur Stalíns sem hann hafði formælt svo mjög áður.
Churchill var fljótur til svars: "Nasisminn er þvílík villimennska að þótt ég þyrfti að gera bandalag við Djöfulinn sjálfa gegn honum, þá myndi ég áreiðanlega finna einhver vinsamleg orð til að segja um hann í neðri málstofunni."
![]() |
Hitler vissi um flugferðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2011 | 17:47
Vonlaust verkefni.
Hernaður Bandaríkjamanna í Vietnam var vonlaus vegna þess að skæruliðar Vietkong leyndust á meðal íbúa og því var ómögulegt að finna út hvaða þorp og hús voru aðeins með venjulega borgara og hver voru gegnsýrð af uppreisnarmönnum.
Á endanum var það slátrun almennra borgara sem sneri almenningsálitinu í Bandaríkjunum gegn stríðsrekstrinum.
Það er erfitt að sjá hvernig NATO ætlar að komast hjá því að drepa konur og börn í árásum sínum í Afganistan úr því að það hefur mistekist í bráðum áratug.
Ef hótun Karzai um að fleiri megi svona árásir ekki verða á að vera tekin alvarlega þýðir hún einfaldlega að NATO verður að breyta um aðferðir og jafnvel að hætta hernaðaraðgerðum af þessu tagi.
![]() |
Karzai aðvarar NATO |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.5.2011 | 17:36
Venjuleg tvöfeldni.
Þrátt fyrir fagurgala sem hafður er uppi af ráðamönnum ríkja þegar þeir kynna utanríkisstefnu þeirra kemur ævinlega í ljós að í raun miðast stefnan aðeins við eitt; þrönga efnahagslega og pólitíska hagsmuni viðkomandi ríkis.
Orð og gerðir hjá öllum stórveldunum fyrr og síðar bera þessu glöggan vott og er tvöfeldni Breta varðandi Saudi-Arabíu og Bahrein bara venjuleg og í þeirra augum eðlileg.
Olíuhagsmunirnir varðandi Persaflóaríkin yfirgnæfa alla aðra hagsmuni og þess vegna munu bæði Bretar og Bandaríkjamenn gera hvað sem er til að hjálpa spilltum ráðamönnum þessara ríkja við að halda völdum sínum á sama tíma og þeir hvetja fólk í þessum löndum til að sækjast eftir lýðræði og hafa uppi mótmæli á borð við þau sem hafa verið í Túnis, Líbíu, Egyptalandi, Jemen og Sýrlandi.
Vel má ímynda sér að á laun hafi uppreisnarmenn verið studdir á bak við tjöldin á sama hátt og hermenn valdsherranna í Bahrein og Saudi-Arabíu voru studdir til að berja niður mótþróa með harðri hendi.
![]() |
Voru þjálfaðir af Bretum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.5.2011 | 13:46
Þarf að læra af Þórsmörk í fyrra.
Það var eðlilegt í fyrra að menn fjölluðu af ákafa um öskufallið úr Eyjafjallajökli. En því miður var því ekki fylgt eins vel eftir og hefði þurft, að askan sígur ótrúlega fljótt niður í grassvörðinn og fýkur líka mikið.
Í byrjun virtist Þórsmörkin hafa farið afar illa út úr gosinu en annað kom furðu fljótt í ljós. Ekki voru liðnar nema tvær vikur frá goslokum þegar mörkin blómstraði öll. Var dásamlegt að koma þangað og njóta fegurðarinnar og í raun frábært fyrir ferðamenn að ná því besta í einni ferð; að sjá leifarnar af öskunni og það hvernig gosefni fylltu lónið við rætur Gígjökuls, og undrast gróðurmagnið í þessum fagra sal fjalla og jökla.
Nú þarf að læra af þessu til þess að öskufallið úr Grímsvötnum skemmi ekki fyrir ferðaþjónustunni, heldur lyfti undir hana eins og hægt hefði verið að gera í Þórsmörk í fyrra.
![]() |
Sinna eftirmálum eldgossins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2011 | 01:39
Eftirsókn af nýjum toga. Lada Sport-upplifun.
The Economist tekur réttan pól í hæðina þegar það telur eldgosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum geta skapað auknar tekjur af ferðamennsku á Íslandi.
Ástæðan er sú, sem kom fram í viðtali sem ég tók við bandarískan ferðamálaprófessor fyrir meira en áratug þegar þeim markhóp, sem hraðast fjölgaði var lýst sem ferðafólki sem vildi upplifun undir kjörorðinu "get your hands dirty and your feet wet!"
Hvers kyns kynni af lífsbaráttu (survival) og ævintýrum þar sem yfirstíga þyrfti erfiðleika verður keppikefli æ fleiri ferðamanna. Lítið dæmi: Fyrir nokkrum árum prófuðu tvær bílaleigur með nokkurra ára millibili að kaupa nokkra Lada Sport jeppa sem voru langódýrstu jepparnir.
Rétt er að taka það fram að hvergi í heiminum voru þessi jeppar nefndir þessu nafni nema á Íslandi. Í raun og veru heita þeir Lada Niva en snjallir sölumenn þeirra hér fengu leyfi framleiðendanna til að kalla þá Lada Sport.
Í fyrstu virtist þetta vera mislukkað og fyrri bílaleigan gafst upp þegar viðskiptavinirnir komu úr ferðum með húna, upphalara og fleira slíkt í höndunum, sem hafði losnað.
Seinni bílaleigan var heppnari að því leyti til að þá voru verksmiðjurnar að taka sig á eftir slæman tíma í sögu framleiðslu bílsins fyrstu árin eftir að kommúnisminn féll.
Þá komust ósvífnir fjáraflamenn yfir verksmiðjurnar og gæðin, sem aldrei voru neitt til að hrópa húrra fyrir, hrundu.
Um þessar mundir er þessi bílaleiga að endurnýja flotann af Lödu sport.
Ástæðan er tvíþætt.
Í fyrsta lagi koma til landsins ferðamenn sem ferðuðust um landið sem ungt fólk fyrir 20 til 30 árum og vildu upplifa að nýju svipað ferðalag og þá.
Í öðru lagi eru þetta ferðamenn sem sækjast eftir ævintýri sem er fólgið í því að fara á jafn grófgerðum og ódýrum bíl um jeppaslóðir og vilja síður vera á dýrari og vandaðri jeppa.
Smá viðbót um Lada Niva. Þegar þeir komu fram 1977 fólst í þeim bylting í hönnun svona bíla. Þeir voru á gormum allan hringinn og með sjálfstæða fjöðrun að framan, ekki á grind heldur með heilsteypta skel og með sídrif, alltaf í fjórhjóladrifinu.
Auk þess voru þeir af mjög heppilegri stærð, svipaðri og Suzuki Vitara og Daihatsu Feroza 12 árum síðar.
Lada Niva var fyrsti fjórhjóladrifni "crossover" jeppinn en rétt á undan honum hafði Subaru komið fram með fjórhjóladrifinn "crossover" jeppling.
Ég tel Lada Niva ekki til jepplinga heldur til ekta jeppa. Veghæð er 22 sm og bílinn er með háu og lágu drifi. Þar að auki er hærra undir kvið en á flestum jeppum og í því sker Nivan sig algerlega frá jepplingunum.
Lada Niva mun eignast fastan sess á "naumhyggju-bílasafninu" sem mig dreymir um að setja á fót, því að þau ár sem hann hefur verið og er fáanlegur á Íslandi, er þetta ódýrasti jeppinn.
Frábær hönnun að miklu leyti á sínum tíma, langt á undan sinni samtíð, enda virðist hann ekki geta "dáið" og vikið fyrir nýtískulegri jeppum frá sama framleiðanda heldur alltaf markaður fyrir hann bæði heima og erlendis.
Dæmi um nýtingu á rými er það að varadekkið er undir vélarhlífinni og því er farangursrýmið miklu meira en Suzuki Vitara,sem er af svipaðri stærð. .
Báðir þessir bílar eru léttir, Súkkan þó léttari þótt hún sé á grind.
Auðveldara er að setja stór dekk undir Súkkuna og eyðslan er minni því að Ladan eyðir heldur meiru en stærð, þyngd og vélarstærð segja til um.
Vélin og kramið allt er að vísu grófgert en þó var vélin frá upphafi með yfirliggjandi kambás, sem ekki var algengt 1977.
Nú er til dæmis farið að flytja hann inn til Bretlands og fullyrt að nú hafi verið útrýmt ýmsum afar billegum og lélegum smáhlutum í honum eins og pakkningum, hosum og leiðslum, sem gerðu eigendurna gráhærða á árunum frá 1992 og fram yfir aldamót.
![]() |
Náttúrufegurð fremur en Wall Street á túndrunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2011 | 01:19
Betra en ef þeir verða mörgum leikjum of langir.
Það gerist aftur og aftur í íþróttum að ferill íþróttamanna endar ekki á þann hátt sem þeir hefðu kosið.
Margir hafa getað sagt það sama og markvörður Manchester United sagði eftir tapleikinn í kvöld.
Jim Jeffries hætti á toppnum fyrir rúmri öld vegna þess að yfirburðir hans voru svo miklir að engir boðlegir mótherjar fundust.
Fimm árum síðar var honum att fram til þess að stöðva þá ósvinnu að blökkumaður væri heimsmeistari.
Jeffries þurfti að létta sig um marga tugi kílóa og bæði það og fimm ára hreyfingarleysi ollu því að hann tapaði fyrir Jack Johnson.
Fyrir bragðið er Jeffries líklegast vanmetinn í stað þess að ósigraður hefði verið hægt að efast um hvor þeirra var betri á hátindi ferils síns, hann eða Johnson.
Allt fram til 1959 var notað orðtakið "they never come back" um heimsmeistarana í þungavigt sem reyndu að endurheimta titilinn eftir að hafa misst hann.
Þetta var orðin býsna löng röð: Jim Corbett, Jim Jeffries, Jack Dempsey, Joe Louis, Ezzard Charles.
Rocky Marciano hafði vit á að hætta efir 49 sigra í röð sem atvinnumaður og ekkert tap, og hefur enginn leikið það eftir honum.
Fyrir bragðið velta menn vöngum yfir því hvort hann hefði hugsanlega getað haldið titlinum í fimm ár í viðbót.
1960 varð Floyd Patterson fyrstur manna til að endurheimta titilinn í þungavigt en missti hann aftur 1962. Sonny Liston mistókst síðan að endurheimta titilinn eftir að hafa tapað við Cassius Clay/Muhammad Ali og Ali mistókst að endurheimta titilinn 1971 eftir að hafa misst hann við að fá ekki að keppa í þrjá og hálft ár.
Ali endurheimti síðan titilinn 1974 og eftir tap 1978 lék hann sama leik.
En hann gat ekki hætt og mistókst að ná beltinu 1980 og eftir tap 1981 kom í ljós að hann hefði átt að hætta mörgum árum fyrr.
Íþróttaferlar sem verða mörgum bardögum eða leikjum og langir fá á sig slæman blæ.
En það er bara oft svo erfitt fyrir íþróttamennina sjálfa að velja rétta augnablikið til að hætta.
Og oft enn erfiðara fyrir þá að hætta, liggjandi í striganum eða lútandi í gras.
![]() |
Ferillinn var einum leik of langur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)