HINN LEYNDI SANNLEIKUR KÁRAHNJÚKAVIRKJUNAR

"Afhendingu rafmagns Kárahnjúkavirkjunar seinkar meira en talsmenn Landsvirkjunar hafa sagt fram að þessu."  Þetta er pen lýsing í útvarpsfrétt á þeim blekkingarleik sem viðhafður hefur verið til að fela fyrir þjóðinni hvers eðlis þessi endemis virkjun er og helst að láta sem minnst af því leka út fyrir kosningar. Upplýsingarnar um töfina eru hins vegar ekki endanleg sannindi um málið því að löng þrautaganga er framundan fyrir þá sem reyna eins lengi og unnt er að neita að horfast í augu við hinn bitra sannleika sem á eftir koma í ljós.  

Öllu þessu var spáð í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" fyrir þremur árum og meira mun á eftir koma.

Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" í fyrra var vitnað í greinargerð lögfræðings Landvirkjunar um það hve áhættusöm framkvæmdin er. Eitt af því var að virkjunin er "eyland í raforkukerfinu" án þess að því væri lýst nánar.

Það felst meðal annars í því hve lítið þarf útaf að bregða til að álverið og þar með Landsvirkjun verði fyrir stórtjóni ef eitthvað bregður út rafmagnið bregst. 

Í febrúar í fyrra fékkst játning stjórnanda rannsókna jarðfræðirannsókna um það að því var alveg sleppt að kanna misgengiskaflann fyrirfram þar sem vandræðin hafa verið mest.  Talsmaður virkunarinnar lýsti því síðan svo dásamlega vel hvers vegna því var sleppt: "...við þurftum að fara þarna í gegn hvort eð er."

Já, íslenskir ráðamenn ákváðu fyrir sex árum að fara út í þessa fráleitu framkvæmd, sama hvað það kostaði. Þeir vissu að þegar öll kurl kæmu til grafar stæði þjóðin frammi fyrir orðnum hlut,  - og þeim var það ekki nóg að stefna að því að verða á bak og burt þegar þetta kæmi allt fram, heldur tryggðu þeir sér sjálfum þar á ofan sérkjör með eftirlaunafrumvarpinu illræmda.  


BLIKUR Á LOFTI Á SJÓMANNADEGI.

Ég var að koma frá Patreksfirði þar sem sjómannadagurinn er enn helsti hátíðisdagur ársins. Í gær mældist þar mesti hiti á landinu, 20 stig. Bæjarbúar stóðu að fjölbreytum hátíðahöldum af miklum myndarskap og það var frábær stemning í þessari miklu blíðu. Eitt atriðið varsigling alls skipaflota staðarins. Síðast sá ég slíka siglingu á Patró 2001 og það var munur hve miklu glæsilegri sú sigling var en siglingin nú. 

Á þessum fallega hátíðisdegi var þetta sláandi og sýnir að á sjálfan bjartasta og besta hátíðisdag staðarinn eru geigvænlegar blikur á lofti.

Fyrir sex árum var unun að koma til Patreksfjarðar á vorin þegar bátahöfnin var full af bátum sem flykktust þangað frá suðvesturhorni landsins. Nú er þetta svipur hjá sjón og aðeins örfáir bátar í höfn. Það er ekki ofsögum sagt af áhrifum kvótakerfisins.

Fyrir nokkrum árum var furðu mikill fiskur fluttur á bílum suður en Patreksfirðingum hefur tekist að minnka þessa flutninga. Samt heyrði ég þær raddir of mikið færi enn úr plássinu og talað var um að á bak við þetta og fleira í sjávarútveginum standi í raun útlendingar.

Með öðrum orðum: Útlendingar eru á bak við tjöldin að kaupa sér æ stærri hlut í íslenskum sjávarútvegi þrátt fyrir talið um að eignarhaldið í þessari atvinnugrein eigi að vera á höndum Íslendinga.

Enn dekkri blikur eru þó á lofti varðandi þorskstofninn og þær tillögur Hafró að minnka kvótann niður í 130 þúsund tonn með því að leyfa aðeins veiði á 20% veiðistofnsins vegna þess hve hörmulega lélegir árgangarnir eru.

Ekki er að heyra á sjávarútvegsráðherra að farið verði að þessum ráðum.

Nú er það svo að margir bera brigður á ráðgjöf Hafró og telja að aðferðirnar á bak við hana séu rangar.

En vegna þess hve langt menn hafa verið frá því að veiða það sem ráðlagt hefur verið er engin leið að hnekkja áliti stofnunarinnar. Þar benda menn á að alltaf hafi verið veitt meira en ráðlagt hafi verið og það munar um minna.

Verst held ég þó að brottkastið sé. Mér finnst með ólíkindum að því sé tekið sem vísindum hvað sjómenn sjálfir segi að sé kastað. Kvótakerfið krefst brottkasts, einkum þegar menn eru með kvóta á leigu, verða að borga 200 krónur fyrir kílóið og fá ekki nema 270 krónur fyrir það.

Þetta æpir á mann. Auðvitað er útilokað að stunda þessa veiði nema hver einasti fiskur sé af réttri stærð.

Það er ekki við sjómenn að sakast, - enginn getur þrifist í þessu kerfi nema gera þetta, - kerfið kallar á þetta.

Á útmánuðum 1986 átti ég viðtal við sjómann í Kaffivagninum í Reykjavík þar sem brottkast var í fyrsta sinn viðurkennt opinberlega og það útskýrt svo vel að öllum mátti vera ljóst að ómögulegt var fyrir sjómenn að vera án þess.

Daginn eftir var þessi sjómaður rekinn frá borði og látinn taka pokann sinn en því miður rataði það aldrei í fréttir.

Margrét Sverrisdóttir hefur það eftir sjávarútvegaráðherra Færeyinga að þegar hann hafi komið til Hull hafi hann þekkt á augabragði hvaða fiskikör voru frá Íslandi og hver frá Færeyjum.

Í íslensku körunum voru allir fiskar jafnstórir, en misstórir í þeim færeysku.

Ofan á þetta bætist að ekki er að sjá enn sé búið að ljúka þeim viðamiklum fjölstofnarannsóknum sem þyrfti að gera til að sjá samspil veiða mismunandi fisktegunda, - heldur ekki rannsóknum á áhrifum mismunandi veiðarfæra á botninn og lífríkið.

Og merkilegar vísbendingar í bók Guðmundar Páls Ólafssonar um heikvæð áhrif þess að hefta með  virkjunum burð á jökulaur út í hafið hafa legið í þagnargildi og lítið með þær gert. 

Allt ber að sama brunni: Það eru alls staðar tabú og "viðkvæm mál" sem ekki má taka á. Á meðan blæðir þorskstofninum hjá þjóð þar sem sjávarútvegsráðherra státa sig erlendis af besta fiskveiðikerfi heims.  

   

   


KJÚKLINGALEGGIR OG STJÓRNTÆKUR FLOKKUR

Þegar leið á stjórnarsamstarf 1991-95 minnkaði ánægja Davíðs Oddssonar með samstarfið við Jón Baldvin og krata, og er svonefnt kjúklingaleggjamál dæmi um það að honum þótti kratarnir ekki vera nógu áreiðanlegir í samstarfi. Nú er spurningin hvort samstarf SS-flokkanna verði betra. Þegar Össur Skarphéðinsson var búinn að vera sjö ár utan stjórnar og kosningarnar 2003 blöstu við tók hann ásamt flestum í þingflokki Samfylkingarinnar U-beygju í Kárahnjúkamálinu.

Talað var um að þetta væri gert til að sýna fram á að Samfylkingin yrði stjórntæk í næstu kosningum. Ingibjörg Sólrún hnykkti á þessu á frægum fundi borgarstjórnar í ársbyrjun 2003 þar sem hún hafði að engu fjölmennustu mótmæli fram til þess tíma.

Kosningasigur Framsóknar eyðilagði hins vegar tækifærið fyrir Samfylkinguna að komast í stjórn og við tóku fjögur mögur ár í viðbót. Það hefði munað miklu fyrir sögu Íslands ef flokkurinn hefði þá staðið fast við upprunalega stefnu sína í virkjanamálum.  

Nú er spurningin hvort Samfylkingin verður eins heil við samstarfsflokk sinn og Framsókn var. Fyrstu tveir dagarnir lofa ekki góðu því engin samstaða virðist hjá stjórnarflokkunum um Norðlingaölduveitu.

Og ekki er heldur samhljómur milli sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra í hvalamálinu. Um þessi mál og nokkur fleiri á það við sem sagt var stundum um Moggann að það væri fréttnæmara hvað stæði ekki í blaðinu en það sem stæði i blaðinu.

Í Reykjavíkurbréfi Moggans var ýjað að því að Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin kynnu að stökkva út undan sér á síðari hluta kjörtímabilsins.

Samfylkingarmenn reiddust margir þessum ummælum en í ljósi ágreiningsefna sem þegar blasa við og gamla kjúklingaleggjamálsins er það ekki út í hött að pæla í því hve stjórntæk Samfylkingin verður út allt kjörtímabilið.

Kannski nægir það sem aðhald fyrir Samfylkinguna að vita af því að Geir tekur bara næstsætustu stelpuna heim með sér af ballinu ef hún gerir sama gagn og sú sætasta.

Þetta gerði Davíð 1995 og Geir aftur núna 2007.

En verður þetta nóg aðhald og lærdómur fyrir Samfylkinguna til að vera stjórntæk allt til næstu kosninga?

Það er ekki víst. Í Silfri Egils sagði Össur á dögunum að Jón Baldvin hefði gert þau mistök eftir kosningarnar 1995 að sitja rólegur í stað þess að segja strax af sér og taka frumkvæði um stjórnarmyndun.

Í ljósi þeirra ummæla er kannski ekki hægt að treysta því að Samfylkingin sitji sallaróleg á hverju sem gengur. Í september 1979 sleit Alþýðuflokkurinn stjórnarsamstarfi fyrirvaralaust. Það var sennilega stærsta og óvæntasta sprengja  sem hent hefur verið inn í íslensk stjórnmál ef frá er talið þingrofið 1931. Meira að segja Benedikt Gröndal formaður flokksins vissi ekki hvað stóð til.

Hjá krötum er sem sé til fordæmi sem menn skyldu ekki afskrifa.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband