Einu sinni var það blóðtaka.

Fyrir þúsaldarfjórðungi þótti lækning fólgin í því að taka sjúklingum blóð þegar þeir voru mikið veikir.

Eitthvað rámar mig í að með þessu væri talið að fólk væri "hreinsað" og sýktum vessa.

Engum dettur nú í hug að nota þessa lækningaraðferð, hvað þá að segja við sjúklinga að þeir geti hætt að nota lyf, sem þeir hafa þurft að taka. 

Á sjöunda áratugnum var hasspípan vinsæl og átti að vera hugbætandi og gersamlega meinlaust efni. 

Annað kom í ljós. En nú er stólpípan tekin við. 


mbl.is Kvartað yfir detox til landlæknis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er orðið "siðlegt" týnt?

Fræg urðu orð Vilmundar heitins Gylfasonar: "Löglegt en siðlaust!" þegar því var haldið fram að ákveðið athæfi, sem Vilmundur gagnrýndi harðlega, hefði verið fyllilega löglegt.

Orð Vilmundar höfðu áhrif á sínum tíma, - vörpuðu ljósi á það hvernig skaðleg spilling í getur þrifist í skjóli ófullkominna laga. 

Þegar Ólafur Ólafsson segist engin lög hafa brotið þarf í ljósi þeirra gagna, sem nú hafa verið birt, að svara þeirri spurningu hvort það sem um ræðir hafi verið eitt af þrennu; - bæði löglegt og siðlegt, löglegt en siðlaust eða bæði lögbrot og siðlaust. 


mbl.is „Braut engin lög“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullöld Laugarnesskólans. Minnisstæð hjón.

Því miður voru engin menntaverðlaun veitt um miðja síðustu öld. Á þeirri tíð voru kennarar mun betur launaðir miðað við aðra en nú er og það skilaði sér í frábæru starfi afburðafólks, sem valdist til kennslustarfa.

Dæmi um það var Laugarnesskólinn fyrstu áratugina eftir að hann var orðinn fullstór. Nöfn frumkvöðla og framúrskarandi kennara á borð við Skeggja Ásbjarnarson, Ingólf Guðbrandsson, Ingólf Jónsson frá Prestbakka, Þórarin Hallgrímsson og Dagmar Bjarnason koma upp í hugann. 

Gegnt skólanum, við Hofteig, risu íbúðarhús sem kennararnir reistu. Meðal þeirra sem þar bjuggu sér heimili voru Ingólfur Guðbrandsson og Inga Þorgeirsdóttir sem í hárri elli hafa nú kvatt þessa jarðvist að afloknu frábæru ævistarfi. 

Ég var svo heppinn að Ingólfarnir, Guðbrandsson og Jónsson, voru frændur mínir og systkinasynir foreldra minna, hvor í sína ættina. 

Meðal þess sem þeir gerðu var að Ingólfur Guðbrandsson gaukaði ljúfu jólalagi að nafna sínum og bað hann um að líta á það. Ingólfur Jónsson gerði ljóðið "Bjart er yfir Betlehem" og það varð brátt að einhverju besta jólalagi sem þjóðin á. 

Ég kom oft í heimsókn til þeirra ngólfs og Ingu, sem áttu glæsilega fjölskyldu, dætur, sem síðan hafa auðgað íslenskt tónlistarlíf svo um munar. 

Ég kynntist elstu dætrunum, Þorgerði og Rut einna best, einkum Þorgerði bæði fyrr og síðar. 

Hún erfði alla bestu eiglnleika foreldra sinna, tónlistargáfu og áhuga föður síns og ljúfmennsku og göfgi móður sinnar auk dugnaðar og kappsemi beggja. 

Það er erfitt að hugsa sér glæsilegra og göfugra ævistarf en starf Þorgerðar í Menntaskólanum við Hamrahlíð og frumherjastarf föður hennar í tónlist og ferðamennsku var einstakt. 

Inga skipar sérstakan sess í huga mínum sem einhver mætasta og besta manneskja sem ég hef kynnst. 

Annar eins grunnskólabekkur og frægasti bekkurinn sem Skeggi Ásbjarnarson kenndi, verður líkast til ekki uppi aftur á Íslandi. Ótrúlega margir af bekkjarfélögunum varð þjóðfrægt fólk. 

Ég man ekki öll nöfnin en þessi koma upp í hugann: Jón Baldvin Hannibalsson, Bryndís Schram, Halldór Blöndal, Styrmir Gunnarsson, Brynja Benediktsdóttir, Magnús Jónsson...

Það voru forréttindi að fá að vera nemandi í þessum frábæra grunnskóla. 


mbl.is Verðlaunuð fyrir gott starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegiðu, Egill! Þetta er Valur!"

Óforbetranlegur Framari eins og ég getur átt það til að halda með öðru liði en Fram, eins og það væri hans eigið félag. 

Þannig er það með mig og marga aðra þegar KR er annars vegar. Hvernig stendur á þessuf? 

Þetta er orðin mjög gömul hefð, allt frá miðri síðustu öld þegar KR var öflugasta íþróttafélag landsins, einkum í vinsælustu íþróttunum, knattspyrnu og frjálsum íþróttum. 

Það er nefnilega kalt á toppnum og það fengu KR-ingar að reyna þegar Framarar, Valsarar og Víkingar héldu ákaft með Akurnesingum þegar þeir léku við KR. 

Það gátu allir aðrir en KR-ingar sameinast um að vera á móti KR og halda til dæmis ákaft með Akurnesingum. 

Ekki spillti fyrir að leikaðferð Akurnesinga, stuttar, hraðar sendingar, svonefnd meginlandsknattspyrna, gladdi augað meira en stórkarlalegur leikur KR sem byggðist á löngum spyrnum eins og oft voru notaðar í ensku knattspyrnunni. 

Háar spyrnur og langar voru kallaðar "KR-spörk". Á móti hafa KR-ingar löngum kallað leikaðferð Fram "dúkkuspil" og "miðjumoð." 

Gullaldarlið KR í kringum 1960 með Þórólf Beck, Ellert B. Schram, Garðar Árnason, Örn Steinsen og fleiri var að vísu svo glæsilegt og frábært að það var erfitt fyrir áhangendur annarra félaga að halda fast við að vera á móti KR. 

Á sjötta áratugnum átti Fram að vísu líka gott lið og á síðari hluta þess áratugar voru Fram, Valur og ÍBA með bestu liðin. 

Ég hef einu sinni hrópað "áfram KR" en það var þegar Jón með nefið (Jón Sigurðsson) og félagar hans í B-liði KR sló A-liðið út úr bikarkeppni á sjötta áratugnum.

Í laginu um Jóa útherja er Egill rakari látinn hrópa: "KR-ingar, þið eigið leikinn!" og honum er svarað: "Þegiðu, Egill, þetta er landsliðið!" 

Í gær hefði verið hægt að hrópa "KR-ingar, þið eigið leikinn!" og svarið hefði verið: "Þegiðu, Egill (Bjarni), þetta er Valur! 

Og í anda gamallar hefðar segi ég bara, þótt Framari sé: "Til hamingju, Valsmenn". 

 


mbl.is Sigurganga Vals heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þó yfir núllinu.

Það er varla hægt að tala um aukningu þegar talan 0,6% er nefnd. Ef um er að ræða þjóðfélag þar sem talið er nauðsynlegt að fólki fjölgi, þurfa framleiðslan og tekjurnar að vera hærri tala en nemur fjölguninni. 

Þess vegna ætti alltaf að nefna hve mikið framleiðslan hafi aukist á hvern íbúa. 

Stundum mælist aukning þótt engin sé í raun þegar að er gáð. Ég hef áður nefnt dæmið um þensluna sem varð frá júlí 2002 til vors 2003. 

Rannsókn ágæts manns í Seðlabankanum sýndi að meira en 80% þenslunnar varð til við það að jafnskjótt og undirritaðir voru samningar við Alcoa um álver í Reyðarfirði 19. júlí 2002 ólk rauk til og tók lán eða fór í topp í yfirdrætti á greiðslukortum vegna þess að það veðjaði á þenslu ári síðar þegar framkvæmdir væru byrjaðar við Kárahnjúka. 

Framkvæmdirnar byrjuðu ekki fyrr en sumarið 2003 þannig að í raun var engin innistæða fyrir þessari þenslu fremur en að innistæða væri fyri megninu af ofurþenslunni í gróðærisbólunni sem stóð fram til 2008. 


mbl.is Aukning landsframleiðslu 0,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sauðárflugvöllur eins og malbikaður. Nýtt veðurlag.

Í gær lenti ég á Sauðárflugvelli, sem er í 660 metra hæð á Brúaröræfum norðan Brúarjökuls. Brautir vallarins, fjórar að tölu, alls 3700 metrar, eru eins og þær séu malbikaðar og ég reikna ekki með því að þurfa að valta þær í sumar.

Þar af leiðandi er enginn munur á yfirborðinu innan og utan brautanna. 

Ég tók mynd þarna í gær í 14 stiga hita en hef ekki tæknilegar aðstæður til að setja hana inn á bloggsíðuna þar sem ég er nú. Með því að nota leitar-reitinn til efst til vinstri á bloggsíðunni og slá þar inn nafninu Sauðárflugvöllur er hægt að sjá eldri myndir af vellinum. 

Ég reikna með að völlurinn hafi verið auður í nokkrar vikur og að hann hafi því ekki verið ófær vegna snjóa nema innan við hálft árið, því að síðast var hann opinn í nóvember. 

Hálendið hefur verið dökkt yfir að líta í mánuð, en undantekning er hálendið umhverfis Eyjafjörð. 

Fyrir mánuði var allt suðurhálendið autt, en Þórisvatn og Kvíslavatn eins og hvítir flekkir í landslaginu, því að ísa leysir mun seinna á vötnum en á landi. 

Þetta þýðir nýjan veruleika í veðurfari því að með þessu breytta veðurlagi auk svartra öskusvæða úr gosinu í Eyjafjallajökli verður mun stærri hluti landsins dökkur í mun lengri tíma en áður var. 

Það hefur í för með sér upphitun ef sólar nýtur en við það dregst kalt loft með þoku inn að ströndunum eins og verið hefur undanfarna daga. 


mbl.is Greiðfært um allt land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langþráður stöðugleiki.

Með hverju árinu fjarlægist í minningunni sú mynd af úrvaldsdeildarliði Fram að sveiflast eins og jójó frá lægstu lægðum upp í hæstu hæðir og bjargast á ævintýralegasta hátt í heimi frá falli niður úr deildinni.

Liiðið sýnir nú mikinn stöðugleika og karakter og er með því að gefa mér, gömlum Framara, góða afmælisgjöf. 

Um þessar mundir eru nefnilega 70 ár síðan ég var skráður félagi í Fram, en það  var þremur mánuðum fyrir fæðingu, svo miklir Framarar voru foreldrar mínir.

Þau voru aðeins átján ára en hann spilaði með 1. flokki á leið til Íslandsmeistaratitils góðviðrissumarið mikla 1939 og var valinn efnilegasti leikmaður liðsins. 

Sextíu árum síðar var sonarsonur hans, Ragnar Ómarsson, valinn efnilegasti leikmaðurinn í sínum flokki. 

Já, sagan endurtekur sig. Koma svo, Framarar, áfram með smjörið !
mbl.is Framarar aftur upp í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan skrifuð í svörðinn.

Ég var að koma úr flugi yfir Eyjafjallajökul með gufumökk standandi upp í 15-18 þúsund feta hæð líkt og var fyrr í gosinu. Tók af því myndir sem ég mun reyna að setja inn síðar.

Allt er kolsvart fyrir austan jökulinn en það er samt mikil upplifun út af fyrir sig að fara þar um og takast á við nýjan veruleika, sem bætist í hið ótrúlega fjölbreytta litróf íslenskrar náttúru öfga og átaka. 

Um stærstan hluta Íslands má lesa sögu eldgosa og hamfara þegar grafið er í svörðinn eða jarðlögin. Þannig á það eftir að verða á þeim svæðum, sem nú eru kolsvört eftir öskufallið úr Eyjafjallajökli.

Í Hraukunum svonefndu norðan Brúarjökuls hafa hröðustu framhlaup jökuls, sem þekkist í heiminum, vöðlað gróðrinum upp í stóra, langa hólaröð. 

Þegar vísindamenn hafa grafið þversnið í Hraukunum hefur það litið út eins og rúlluterta, þar sem gróðurlögin eru brún en öskulögin eins og krem. 

Þar má lesa hluta af eldgosasögu landsins og eru öskulögin úr Heklu 1104 og Öræfajökli 1262 sérlega áberandi. 

Þegar gróðurinn í Þórsmörk hefur myndað græna þekju ofan á dökkt öskulagið úr gosinu mun ekki aðeins litadýrð þessa dásamlega svæðis verða eins og fyrr, heldur mun jörðin geyma söguna um gosið 2010 og kynslóðir framtíðar geta séð minjar um það sem okkar kynslóð fékk að reyna.

Þetta er sérstaða hinnar einstæðu og heillandi náttúru Íslands, sem ég hef reynt að lýsa eins og oft og ég get, til dæmis í ljóðinu "Sveitin milli sanda", en ekkert byggðarlag á Íslandi varð fyrir annarri eins eyðingu og Litla-Hérað í Öræfajökulsgosinu 1262. 

Þennan texta gerði ég í samráði við höfund lagsins skömmu áður en hann lést. 

Eyjafjöll og Fljótshlíð eiga um þessar mundir ýmislegt sameiginlegt með Öræfasveitinni. 

 

SVEITIN MILLI SANDA.  (Lag: Magnús Blöndal Jóhannsson) 

 

Heiðblá er himinhvelfing víð. 

Fannhvít er frerans höll. 

Iðgræna bratta birkihlíð

ber við sandsins svarta völl. 

 

Hæst hæð og mannsins mikla smæð, -

marflöt og lóðrétt jörð. 

Andstæður alveg beint í æð, 

já, undra listasmíð af Drottni gjörð. 

 

Hvergi´er að finna´í heimi hér 

hliðstæðu, segja menn. 

Sveitin á milli sanda er

seiðandi og ógnvekjandi í senn. 

 

Eldrauð eru undir jökli glóð, - 

umturnar köldum ís. 

Dökkbrúnt um sandinn fossar flóð, 

sú feiknarbylgja sem hið efra rís. 

 

"...Sköpun og eyðing öllu hér 

umturna lægst og hæst. 

Eldfjallið þó af öllu ber, -

ó, hve þessi höll er stór og glæst. 

 

Hátt upp af jörðu höll sú rís. 

Hér skín mitt óskaland: 

Blátt hvel með birtu´af hvítum ís

slær bjarma´á græna hlíð og svartan sand. 

 

Þótt í bili sé kannski í hálfkæringi hægt að syngja:

 

Ofarlega mér er í sinni, - María, María, 

að það var ferlegt í Þórsmörkinni, - María, María. 

Askan blindaði, allt var ljótt, - 

yfir oss hvelfdist svifryksnótt...

 

...þá kemur sá tími að það verður aftur fagurt í Þórsmörkinni og birkið mun ilma á stjörnunótt. 


mbl.is Áfall að sjá ástand Þórsmerkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir eru drengir góðir.

Afhending handritanna 1971 á sér enga hliðstæðu í samskiptasögu þjóða.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að á átjándu öld réði enginn einvaldskonungur eins litlu í nokkru landi eins og Danakonungur á íslandi.

Kristján 7 skipaði svonefnda Landsnefnd um 1770 til þess að ná fram umbótum á Íslandi, en þá hafði Íslendingum fækkað á meðan Norðmönnum stórfjölgaði. 

Íslenski aðallinn, embættismenn og stórbændur, komu í veg fyrir nær allar umbæturnar sem nefndin vildi beita sér fyrir. Í Íslandssögunni, sem við vorum látnir læra var aldrei minnst á þetta. 

Ef einhver önnur þjóð en Danir hefðu ráðið á Íslandi væri íslenska ekki töluð hér á landi í dag. 

Alþjóðleg aðstoð á vegum Dana til Íslendinga eftir Móðuharðindin á sér ekki hliðstæðu. Bretar lyftu til dæmis ekki litla fingri til aðstoðar Írum í hungursneyðinni miklu í því landi á nítjándu öld. 

Þegar sonur minn var í námi í dönskum háskóla kom í ljós að enn var í gildi ívilnun til handa íslenskum nemendum, sem höfðu átt foreldra er voru þegnar Danakonungs einhvern tíma á ævinni. 

Þetta er enn í gildi og eru leifar af mestu forréttindum sem nokkur aðall í Evrópu hafði frá því að íslenskir ráðamenn og yfirstétt gat látið syni sína læra frítt í dönskum háskólum án þess að vera skyldir til að senda synina í herþjónustu eins og danski aðallinn varð þó að gera. 

Niðurstaða: Almennt eru og voru Danir drengir góðir, að minnsta kosti miðað við aðrar þjóðir í Evrópu. 


mbl.is Allt það besta komið frá Dönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú strandar ekki á "umhverfisöfgamönnum".

Því hefur verið mjög haldið á lofti að svonefndir "öfgamenn" í umhverfismálum komi í veg fyrir allar framkvæmdir í stóriðju- og virkjanamálum.

Það er hins vegar erfitt að kenna "umhverfisöfgamönnum" um það ef ljón eru vegi byggingar Búðarhálsvirkjunar.

Í frétt mbl.is um málið er sagt: "Virkjunin þykir ekki mjög umdeild".  Af því mætti ráða að hún sé umdeild en þó ekki mjög mikið umdeild. Með þessu orðalagi er gefið í skyn að deilur séu um virkjunina en það er ekki rétt.

Mér vitanlega hafa aldrei verið neinar deilur um þessa virkjun og bæði ég og allir aðrir, sem rætt hefur verið við, náttúruverndarmenn sem aðrir, hafa verið meðmæltir henni.

Nú síðast á útvarpi Sögu í morgun urðum við Eiður Svanberg Guðnason að árétta það að við hefðum ekki verið alfarið á móti álverum og stóriðju eins og svo margir vilja ætla.

Ég sagðist hafa verið hlynntur hvoru tveggja lengst af og Eiður kvaðst aðeins vera andvígur öfgum í þessu efni.

Svo er að sjá að engum komi til hugar að það geti talist öfgar, sem kom fram í tillögu sem var mjög nærri því að vera samþykkt á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar þess efnis að stefna flokksins skyldi verða að reisa eins mörg álver á Íslandi og kostur væri.

Það var með naumindum að nýliðar í flokknum, sem komu inn í hann úr röðum Íslandshreyfingarinnar og skoðansystkin sem fyrir voru í Samfylkingunni, fengu því framgengt að þessi ótrúlega tillaga væri felld. 

Munaði örfáum atkvæðum. 

Það getur vart talist annað en öfgar að allri orku Íslands verði varið í mesta orkubruðl veraldar fyrir spottprís með óbætanlegu tjóni á einstæðri náttúru landsins, sem er það verðmætasta sem þessari þjóð hefur verið falið að varðveita. 

En þessar öfgar hafa fengið að blómstra í skjóli síbyljunnar um það að þeir sem andæfa þeim séu öfgafólk. 


mbl.is Rio Tinto vill straumhækkunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband