Hvað þýddi "eigi víkja ?

Kjörorð Jóns Sigurðssonar voru: "Eigi víkja!"  Sá misskilningur er þó býsna útbreiddur að kjörorð hans hafi verið: "Aldrei að víkja!"

Ástæðan er líklega sú að orðin "...aldrei að víkja!"... koma fyrir í söngnum "Öxar við ána..." sem allir kunna og syngja nokkuð oft. 

Til eru þeir sem telja að í þessum orðum felist það beint, að ítrustu kröfur komi einungis til greina varðandi gjörðir manna, sem berjast fyrir ákveðnum málefnum. 

Ég lít hins vegar svo á að annað felist í ljóðinu þegar horft er á ljóðlínuna í heild: ..."Fram! Fram! Aldrei að víkja!"...

Í henni felst samkvæmt mínum skilningi hreyfing fram á við þar sem ávallt skuli haft í huga hvert sé stefnt, en ekki það að öllu sé hafnað, sem ekki færir mönnum strax uppfyllingu á ítrustu kröfum. 

Þegar litið er á ástandið sem Jón Sigurðsson lifði við, blasir það við að gersamlega útilokað var að ná í einu vetfangi þeirri ítrustu kröfu og markmiði að Ísland yrði algerlega sjálfstætt og fullvalda ríki. 

Raunar er hugsjón hans og staðfesta enn meira aðdáunarefni en ella vegna þess að alla ævi hans var það í raun algerlega útilokað að á Íslandi gæti verið sjálfstætt og fullvalda ríki. 

Síðustu æviár Jóns hófst mikill fólksflótti frá landinu og framtíðardraumurinn fjarlægðist frekar en hitt. 

En Jón missti aldrei sjónar á stóra takmarkinu og þessi staðfasta trú hans og sýn endurspeglaðist í kjörorðum "eigi víkja!" 

Mér sýnist að með því hafi hann átt við það að á langri og strangri leið framundan mættu menn ekki, hvað sem á dyndi, víkja út af leiðinni í áttina að takmarkinu, sem náðist ekki fyrr en 65 árum eftir hans dag.

Það þýddi hins vegar ekki að á hverjum tíma tækju menn þau skref, stór eða smá, sem mögulegt væri að taka á þessari vegferð, frekar en að hanga svo fast á ítrustu kröfum að aldrei þokaðist þess vegna. 

Þessi vegferð gekk misvel en hver áfangi skilaði þjóðinni í rétta átt, heimastjórnin 1904, íslenski fáninn 1915, frjáls og fullvalda þjóð í konungssambandi við Danmörku 1918. 

Aldrei var vikið frá stefnunni að takmarkinu þótt það næðist ekki til fulls í hverju þessara skrefa.


mbl.is Margir viljað eigna sér Jón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt skal vera rétt.

Hvernig getur það verið að hæsti foss landsins "uppgötvist" á þeirri miklu tækniöld sem við lifum á?

Svarið er einfalt: Minnkun jökla landsins afhjúpar landslag, sem áður sást ekki. 

Ég minnist þess að fyrir næstum fjörutíu árum gerði ég sjónvarpsþátt um Skeiðarárhlaupið 1972 og sýndi meðal annars það, hvernig Morsárjökull steyptist fram af háu klettabelti og hélt síðan áfram að renna niður í Morsárdal fyrir neðan klettabeltið. 

Þegar ég gekk fyrst inn í Morsárdal sumarið 1957 mátti heyra háa bresti þegar stór stykki jökulsins féll niður af hamrabrúninni. 

Síðan þá hefur jökullinn neðan við hamrabeltið þynnst og lækkað mikið og æ stærri hluti hamrabeltisins komið í ljós, svo að það blasir nú við í allri sinni dýrð. 

Nú þarf að finna nafn á þennan hæsta foss landsins, sem er eini fossinn í Morsá. 

En hvort á nafn fossins að vera í eintölu eða fleirtölu úr því að fossarnir eru margir og samhliða. 

Þetta getur verið á hvorn veginn sem er. Hraunfossar eru margir samhliða fossar en fossinn Glymur í Þjórsá er líka safn margra fossa, þótt samheitið sé eitt. 

Því kemur bæði til greina að kalla fyrirbærið Morsárfossar eða Morsárfoss. 

Morsárdalur og Kjósin, stórbrotinn og djúpur dalur sem gengur til vesturs frá botni Morsárdals, er einhver hrikalegasti fjallasalur landsins og aldeilis óviðjafnalegt að upplifa þessa dýrð þegar jökullinn féll í stórum stykkjum fram af hamrabeltinu jafnframt því sem hann rann í sveig fram hjá því og meðfram því. 

Í stað þessara aðstæðna stefnir nú í að jökullinn nái ekki fram á hamrabrúnina og þá hverfur það sjónar- og heyrnarspil, sem verið hefur þarna. 

En á móti hefur okkur verið færður hæsti foss landsins. 


mbl.is Flyst hæsti foss landsins búferlum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herðubreiðarlindir hafa sérstöðu.

Það er rétt að sýna varkárni við að opna hálendisvegi. Bara það að ákveðinn hálendisvegur sé viðkvæmur á tiltölulega litlum kafla réttlætir það að hann sé ekki opnaður.

Ég hef flogið þvers og kruss yfir hálendið í vor og eins og undanfarin vor sker einn hálendisvegur sig úr, en það er leiðin inn í Herðubreiðarlindir. 

Þessi leið hefur orðið snjólaus undanfarin vor og líka í vor langt á undan öðrum leiðum. Því miður virðist ekki hafa verið tekið tillit til þessa undanfarin ár, heldur beðið eftir því að hægt væri að opna alla leiðina upp í Öskju i einu lagi. 

Ein af ástæðunum fyrir þessu hefur mér heyrst vera sú, að það sé ódýrara og hagkvæmari að gera þetta í einu lagi í stað þess að fara tvær opnunarferðir, aðra til að opna inn í Herðubreiðarlindir og hina síðari til að opna alla leið upp í Öskju. 

Það er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna, sem sífellt er verið að hvetja til að lengja ferðamannatímann, að vinsælum leiðum sé ekki að óþörfu haldið lokuðum.

Miðað við heildarávinninginn af því að opna leið jafnskjótt og unnt er, skýtur skökku við að mun minni peningarlegir hagsmuni Vegagerðarinnar ráði hér för. 


mbl.is Hálendið enn lokað fyrir umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gúmmídúkkan" enn og aftur ?

Fyrir aldarfjórðungi var mikið um það rætt hver bylting það væri að fá til sögu ákveðinn hjálpartækjabanka, og ég segi um hann eins og "Kristján heiti ég Ólafsson": "Við förum ekki nánar út í það."

Ég get varla séð að einhver tækjabúnaður hótelkeðju muni valda neitt meiri byltingu en hjálpartækjabankinn góði á sínum tíma. 

Ekki frekar en að ráðamenn risaveldanna muni láta sér nægja einhver tækjabúnaður til mikilvægustu leiðtogafunda frekar en að hittast í návígi. 

Persónuleg kynni með ilmi, augnaráði, snertingu og staðbundinni útgeislun persónutöfra getur aldrei skilað sér með einhverjum tækjabúnaði á milli fjarstaddra manneskja. 

Á sínum tíma gerði ég gys að ofurtrú á tæknina í samskiptum fólks, þóttist hafa heyrt afdalabónda einn sitja með gúmmídúkku sína í fanginu úti á túni og kveða við raust: 


Ýmsir dúkkur ákaft lofa.

Eru þær hið mesta þing. 

Gúmmí-Dísu í dalakofa 

dreymir margan Íslending. 

 

Einnig söng ég lagið "Living Doll" sem jafnaldri minn, Cliff Richard gerði frægt á sínum tíma, með íslenskum texta, svohljóðandi: 

 

Ég fékk mér allra bláeygustu´og bestu gúmmídúkkuna. 

Blíð hún var og minnti mig á skæslegustu hjúkkuna. 

Ég tók hana í bíltúr, já, ég bauð henni´upp í Súkkuna. 

Ég dýrkaði og dáði íturvöxnu dúkkuna. 

 

Sjáðu á henni hárið,  alveg ekta, - 

og augun svo blíð og skær. 

Og hún var alltaf jafn upplögð, aldrei í fýlu

þessi yndislega mær. 

 

Hún varð mér svo kær að ég fór að kafa´eftir hennar löngunum

og kynna fór mér það, sem kannski passaði dúkkuhugsunum. 

(Talað innskot:)  Ég sé eftir að hafa gert það.

Því núna er hún farin að halda framhjá mér með vin sínum

og fór í ból með rafmagnsknúna draumaprinsinsum. 


mbl.is Kynlífið verði í gegnum netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það þarf tvo til."

Alltaf finnst mér það einföldun mála að kenna einhverjum öðrum um en sambýlismanneskju þegar hún fer að vera með öðrum.

Til er danskt orðtak um ástamál: "Það þarf tvo til." 

Það sýnist mér eiga við í máli Jennifer Aniston og Justin Theroux þar sem sambýliskona hans kennir Jennifer um að Justin sé farinn frá henni, rétt eins og Justin sé einhver óreyndur táningur. 

Að sama skapi finnst mér heil frétt um þessi umæli um Jennifer frekar lítil frétt. 


mbl.is „Jennifer Aniston stal manninum mínum.“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samt best að búa hér.

Skordýr hafa aldrei heillað mig beinlínis, það er að segja að vera í of nánu samneyti við þau, þótt ég geti hrifist af hinu stórfenglega vökvaknúna aflkerfi, sem knýr vængi jötunuxanna, sem hinn frábæri sjálfmenntaði vísindamaður, Hálfdan Björnsson, bóndi á Kvískerjum, lýsti fyrir mér.

Ef ég er spurður, af hverju ég eigi heima á Íslandi, er svar mitt: Ástæðurnar eru fimm:

1. Ég er fæddur og uppalinn hér.

2. Það er minna af skordýrum hér en í öðrum löndum.

3, 4 og 5: Ýsa, smjör og kartöflur. 

Ég skal játa að ég er varla hræddari við nokkurt fyrirbæri en köngulær og stafar það af ógleymanlegri reynslu minni sem sex ára strákur, þegar ég vaknaði í Kaldárseli um miðja nótt með eina slíka risastóra skríðandi yfir augun á mér, enda var gríðarlegur fjöldi af þeim í hrauninu nálægt selinu.  800px-orb_weaver_black_bckgrnd03_crop.jpgdscf0052_1091028.jpg

Þessa dagana glími ég við köngulær, sem komust í litla gamla Fox jeppann minn (minnsta jöklajeppa á Íslandi) í það rúma eitt og hálfa ár sem hann var bilaður í grasinu fyrir utan Ljósstaði í Flóa og virðast alveg ótrúlega þrjóskar og lífseigar. 

Hef ég þegar þessi pistill er skrifaður þurft að fjarlægja alls 23 köngulær sem hafa sett upp vefi sína inni og utan á bílnum, nú síðast þrjár á meðan ég var í ferðalaginu tll Patreksfjarðar. 

Það að ég tel köngulærnar sýnir hve þetta mál er mér mikilvægt. 

Ég hef haft hálfan sigur í þessu stríði, því að þær setja ekki lengur upp vefi innan í bílnum, heldur aðeins utan á honum.

Áfanginn náðist með því að loka örlitlu ryðgati við hægri afturglugga og virðist mega ráða af því, að miðstöð og aðalhreiður köngulóanna sé einhvers staðar utan á bílnum eða undir honum. 

Þótt skordýrum fjölgi nú hér á landi vegna hlýrra veðurfars hugga ég mig við það að þeim fjölgi líklega einnig í hlýrri löndum þar sem loftslag fer líka hlýnandi, þannig að ég lít svo á að atriði númer tvö varðandi búsetu mína hér á landi sé í fullu gildi. 


mbl.is Smádýrunum fjölgar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel að þessu kominn.

Fyrir ellefu árum átti ég þess kost að hafa Steinþór Birgisson með mér í að gera fjórar heimildarmyndir fyrir Sjónvarpið undir heitinu "Fólk og firnindi".

Steinþór sá um klippingu og dagskrárgerð þessara þátta og vann stundum dag og nótt með mér við að ná því marki sem við settum okkur um vinnslu þáttanna, en þar þurfti oft að eyða gríðarlegum tíma í ákveðin myndskeið. 

Steinþór var einhver færasti samstarfsmaður sem ég hef haft og þessar fjórar heimildarmyndir finnst mér vera eitthvað það skásta sem ég hef gert á löngum ferli, einkum sú síðasta, sem hafði undirtitilinn "Flökkusál" og fjallaði um Fjalla-Eyvind fyrr og nú og útlagana í íslensku samfélagi fyrr og síðar. 

Þegar ég var á ferð á Ströndum fyrir meira en áratug frétti ég af séra Jóni Ísleifssyni og sá þá strax, að þar gat verið á ferð magnað viðfangsefni fyrir kvikmyndagerð mína.

En yfir mig helltust viðfangsefni sem tengdust náttúru Íslands og urðu að hafa forgang, því miður, verð ég að segja, og á þá við það, að hefði allt verið með felldu hefði ég ekki átt að þurfa að gera þau mál að aðal viðfangsefni mínu. 

En nú hefur Steinþór bætt úr þessu svo um munar varðandi Jón Ísleifsson. 

Ég þurfti að leita til hans með viðvik fyrir nokkrum árum og þá var hann byrjaður á myndinni og ég vissi að verkið var í góðum höndum. 

Viðurkenningin til hans gleður mig og ég óska honum hjartanlega til hamingju. 

Þetta er punkturinn yfir i-ið í dásamlegri ferð okkar hjóna til fæðingarstaðar hennar og á vit Uppsala í Selárdal. Meðfylgjandi ætla ég að láta verða myndir úr ferðinni, þar sem hið fallega samkomuhús Skjaldborg er hægra megin á þeirri fyrri, en hátíðin, sem kennd er við húsið og það sjálft er dæmi um mikinn dugnað og myndarskap þeirra sem hlut eiga að máli. 

Sum verk taka lengri tíma en önnur eins og myndin "Jón og séra Jón" ber vott um. p6120092.jpg

Ég fór vestur á bíl með númerinu "Örkin" sem leika mun hlutverk í samnefndri mynd, sem ég byrjaði fyrst að taka í á eigin vegum fyrir tíu árum, en sagan, sem liggur að baki myndinni spannar á fjórða tug ára í lífi mínu og þjóðarinnar. Bíllinn, sem er 22ja ára gamall var sá ódýrasti og minnsti sem ég fann til að geta á löglegan hátt dregið bátinn á kerru og komist með hana upp á hálendið um snævi þakið land. 

Hann er því jöklajeppi, sá minnsti af Toyota-gerð, sem til er, og því kandiat í Örbílasafn Íslands.  p6120094.jpg

Ekkert verkefni á ferli mínum hefur verið eins tímafrekt og dýrt og þessi mynd. Ég hef enn ekki getað lokið við allar kvikmyndatökur vegna hennar og á eftir að sigla Örkinni töluvert í viðbót á sögusviði myndarinnar. 

Að baki liggja hátt í hundrað ferðir upp á hálendi norðausturlands og vinnudagarnir í þessum ferðum einum samsvara heils árs vinnu. 

Verkið mjakast örlítið áfram en önnur brýnni verkefni hafa þó forgang, myndir sem verða að klárast á undan. 

Ég er viðbúinn því að myndin "Örkin" klárist ekki á meðan ég lifi en hugga mig við það, að ef handritið að henni er klárað og hið einstæða myndefni varðveitt, muni hún komast á tjaldið einhvern tíma. 

Þannig er veruleikinn hjá mörgum íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. 

 


mbl.is Jón og Séra Jón vann Skjaldborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efla þarf þingnefndirnar.

Það er skref í rétta átt að fækka nefndum Alþingis og gera þær jafnfram öflugri hverja og eina.

Þetta er í takt við þær tillögur sem nú má sjá í áfangaskjali Stjórnlagaráðs. Þar er gert ráð fyrir auknum verkefnum og völdum þingnefndanna og því að það verði í framtíðinni allt að því ígildi ráðherradóms að vera nefndarformaður auk þess sem embætti forseta Alþingis eru ætluð aukin virðing, völd og áhrif. 

Hugmyndin er að þeir Alþingismenn sem verða ráðherrar, víki af þingi og að eingöngu þingmenn geti lagt fram frumvörp.  Það mun sjálfkrafa færa nefndarformönnum, nefndarmönnum og þingmönnum aukin verkefni og áhrif, jafnvel þótt ráðherrar muni reyna að komast í kringum þessi ákvæði. 

Undanfarna áratugi hefur framkvæmdavaldið seilst til æ meiri áhrifa á kostnað löggjafarvaldsins og haft rík ítök í skipan dómsvaldsins og riðlað með þessu þrískiptingu valdsins. 

Í nýju stjórnarskránni verður sérstaklega tiltekið að valdið komi frá þjóðinni og í mínum huga eru valdþættirnir orðnir fleiri en áður var og sérstök ástæða til að huga að heppilegri valddreifingu og valdtemprun. 

Það getur stefnt í það í endurbættri stjórnskipan að litið verði til þess að allt að sjö valdþættir hafi aukið vægi þjóðaratkvæðataumhald hver á öðrum og sér þess víða stað í nýrri stjórnarskrá. 

:  Þessir valdþættir geta að mínum dómi verið sjö: Þjóðin (aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna) framkvæmdavaldið, löggjafarvaldið, dómsvaldið, eftirlitsvaldið og forsetinn, fjölmiðlavaldið og fjármagnsvaldið. 

Að þeim öllum verður að huga þótt það geti verið misjafnlega auðvelt. 


mbl.is Nefndum Alþingis fækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

63 ár Ísraelsmönnum í hag.

Fyrir 63 árum var Palestínu skipt á milli Gyðinga annars vegar og hins vegar þjóðarbrota, sem fengu sameiginlega nafnið Palestínumenn, því að það voru vestræn áhrif sem ollu því að þeir sem búið höfðu í landinu fóru að líta á sig sem eina þjóð andspænis Gyðingum.

Margt væri nú öðruvísi ef sátt hefði náðst um þetta fyrsta Ísraelsríki, sem var miklu minna en það sem nú er orðið í kjölfar tveggja styrjalda sem Arabaþjóðir háðu til þess að koma Ísraelsríki fyrir kattarnef. 

Ísraelsmenn höfðu betur í báðum þessum styrjöldum og að mörgu leyti vinnur tíminn þeim í hag og lengri tími líður sem þeir komast upp með að brjóta alþjóðalög með því hersetu Vesturbakkans. 

Á hinn bóginn er engin þjóð heims eins hervædd og lifir í stöðugri spennu vegna ótta um tilveru sinnar og þeir og leitun að fólki, sem er haldið í viðlíka fangabúðum skorts og kúgunar og íbúum Gazasvæðisins er haldið af Ísraelsmönnum. 

Ástandið þarna er fleinn í holdi alþjóðasamfélagsins og uppspretta haturs og ótta, sem er eim af helstu ógnum við frið í heiminum.

Erfitt er að sjá hvernig sá draumur helstu hatursmanna Ísraelsríkis getur ræst að það verði upprætt.

Tímatöf á því að friður komist þarna á á milli tveggja ríkja, Israels og Palestínu, virðist því vinna á móti Hamas og heitustu andstæðingum Ísraels.

Því fyrr sem þeir átta sig á því og breyta stefnu sinni í samræmi við það, því betra, einkum vegna þess hvernig Ísraelsmenn komast því miður upp með það að ná undir sig eignum Palestínumanna með landnemabyggðum og öðrum aðferðum sem eru í raun ólöglegir landvinningar og eignarán.

 


mbl.is Andstæðingar fallast í faðma.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær hátíð á Patreksfirði.

Skjaldborgarhátíðin á Patreksfirði og það, þegar "Brellurnar" luku hjólaferð sinni hér í gær, hefur myndað frábæra stemningu hér í bænum.

Við hjónin komum hingað akandi frá Reykjavík í fyrrakvöld enda er orðið svo dýrt og óhentugt að fljúga og verið að taka flugvöllinn hér af skrá, að þetta var skásti kosturinn. 

Auk þess fórum við á litla pallbílnum sem ég hef notað undanfarin fimm ár til að draga bátinn "Örkina" við gerð samnefndar myndar um virkjanaframkvæmdirnar á norðausturhálendinu og fleiri kvikmyndargerðarverkefni á því svæði. 

Þetta er í fimmta sinn sem áhugasamir og drífandi menn halda glæsilega kvikmyndahátíð hér á Patreksfirði og það er hárrétt, sem Páll Steingrímsson sagði í gær, að það er svosem vel hægt að halda slíka hátíð einu sinni en hreint afrek að endurtaka það fimm ár í röð. 

Vegna anna í Reykjavík átti ég þess ekki kost að sjá mynd Steinþórs Birgissonar á föstudagskvöld, "Jón og séra Jón", en mér þótti vænt um að hún, ásamt fleiri viðfangsefnum, skyldi vera komin fyrir almennings sjónir, því að hún er dæmi um viðfangsefni sem ég hefði sjálfur viljað fást við en hef ekki getað sinnt sem skyldi hin síðari ár vegna virkjanafársins sem veður alls staðar yfir. 

Telja mætti langan lista af athyglisverðum myndum á hátíðinni sem er dæmi um það sem hægt er að gera úti á landsbyggðinni, henndi til framdráttar. 


mbl.is Rólegt um allt land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband